sunnudagur, 19. október 2003

Þessum veðurblíða sunnudegi var varið ofan í bókunum, lærandi stærðfræði með einni bleikustu stelpu sem stigið hefur inn fyrir dyr Háskóla Reykjavíkur. Öðrum orðum; ég lærði stærðfræði í dag með Bylgju í HR. Inn á milli deildunardæma, stuna, grát og gnístan tanna spjölluðum við saman og lærðum ýmislegt nýtt um þetta líf og viðhorf hvors annars til þess. Ég ákvað, í snarvitlausum galsa, að fá mér minn fjórða kaffibolla um ævina þennan dag, að þessu sinni súkkulaðiblandað cappucino sem reyndist verða fjórða versta kaffið sem ég hef smakkað. Undir lokin fengum við okkur flatböku frá Hróa Hetti, borgandi 1000 krónur fyrir 16 tommu pizzu og bíðandi í röð á undan Pétri H. Blöndal þingmanni sem veigrar sér greinilega ekki við því að bíða í röð með sótsvörtum og ógeðslegum almúganum. Eftir pizzuátið vorum við svo sátt að við tókum skák og viti menn, Bylgja sigraði mig eftir að hafa teflt fram hersveit sinni á sannfærandi hátt. Ég vona bara að enginn frétti af þessu tapi mínu.

Ég drekki sorgum mínum þetta kvöldið með Nick Cave og slæmu sæðunum (illa orðað) en í gær niðurhlóð ég enn einum diski með þeim kumpána, í þetta sinn Henrys Dream. Við fyrstu hlustun er diskurinn með þeim betri.

0 athugasemdir:

Skrifa ummæli

ATH. Þegar athugasemd hefur verið rituð þarf stundum að staðfesta hana, eftir að smellt hefur verið á "Post Comment". Hafið það í huga.