þriðjudagur, 30. september 2003

Eftir rúmlega klukkutíma skipulagsfund hjá ritnefnd veftímaritsins 'Við rætur hugans' hefur verið gerð tæmandi áætlun fyrir næstu vikuna. Hún er eftirfarandi:

Þriðjudagur(í dag): Læra fram á kvöld. Fara heim í sturtu og að sofa.
Miðvikudagur: Læra fram á kvöld. Fara heim í sturtu og að sofa.
Fimmtudagur: Læra fram á kvöld. Skila heimadæmum í stærðfræði. Fara heim í sturtu og að sofa.
Föstudagur: Læra fram á kvöld. Skila skilaverkefni fyrir bókhald. Fara heim í sturtu og að sofa.
Helgin: Læra báða dagana fram á kvöld eða nótt fyrir stærðfræðipróf.
Mánudagur: Fá mér að borða. Læra fram á kvöld fyrir stærðfræðipróf. Fara heim í sturtu og að sofa.
Þriðjudagur: Taka próf. Læra fram á kvöld. Fara heim í sturtu og að sofa.

Næsta vikuáætlun kemur út næsta þriðjudag og verður spennandi að vita hvernig hún verður. En óttist eigi, ég gef mér tíma til að færa dagbókarfærslur.
Þóra heitir stúlka sem nýlega hóf dagbókarfærslur á netinu. Hún er frá austurlandi og ég held ég hafi talað við hana einu sinni 1994 þannig að hún fær hlekk.
Ég vona að eftirfarandi færsla sé sú síðasta sem tengist strætisvögnum bæjarins því ég er að verða leiður á að skrifa þetta langa orð.

Í gærkvöldi sló ég persónulegt met í að bíða eftir strætó en biðin tók 33 mínútur. Strætóinn á að láta sjá sig á 20 mínútna fresti á virkum dögum en það gerði hann ekki í gær. Þegar gula hlussan mætti svo loksins og ég orðinn dansandi illur (dansaði af reiði við biðskýlið, rétt eins og í Footloose) bauð ég strætóbílstjóranum góða kvöldið þrátt fyrir vonda skapið til þess eins að fá hreitt í mig "ok!" eftir að ég sýndi honum græna kortið mitt. Þetta er nú ekki mikið því stuttu seinna stoppaði strætóinn til að taka upp 2 stelpur sem voru ekki mikið meira en 9-10 ára. Þær voru hinsvegar í vandræðum því þær áttu ekki pening og vildu komast heim og báðu því um lán eða jafnvel bara um að fá að sitja í einn hring eða svo því úti var kalt og klukkan orðin margt. Þá tók við skrítin atburðarás því strætisvagnabílstjórinn tók að öskra á þær, spyrjandi hvað þær væru eiginlega að hugsa á milli þess sem þeim var sagt að hunskast út.
Nú spyr ég, hvers konar maður öskrar á 9-10 ára stelpur sem biðja um 120 króna lán (60 krónur fyrir börn) því það er orðið kalt og dimmt?

Grátlegt ástand í Reykjavík.
Loksins loksins hef ég bætt við myndum á myndasíðuna. Að þessu sinni eru þær frá 9. ágúst síðastliðnum en þá fór fram mitt síðasta fyllerí. Framan af var mjög gaman í strákapartíi Garðars og Bergvins þar sem tekið var í skákmenn og aðra menn. Gjörið svo vel. Munið bara að launa greiðann með því að skrifa í ummælin við hverja mynd, eða ég fer að gráta.

mánudagur, 29. september 2003

Það rann upp fyrir mér ljós í dag þegar viðmælandi minn á MSN spjall forritinu sagðist þurfa að hætta að tala við mig af því þráðurinn í kertinu hennar var sokkinn í vaxið og þarmeð slokknað á kertinu; annars vegar er ég orðinn alltof uppáþrengjandi á spjallforritinu fyrrnefnda og hins vegar er fólk að verða uppiskroppa með afsakanir til að sleppa við að spjalla við mig.
Magnað að vinna heimaverkefni í tölvu allan daginn. Þannig get ég skrifað hugmyndir mínar beint á bloggið í stað þess að þær hafi viðkomu í hnausþykku hugmyndabókina mína sem ég hef á mér alla daga. Gallinn er bara sá að með þessu fyrirkomulagi komast inn skelfilegar hugmyndir að bloggi...

...eins og þessi.
Eftir 20 ára tölvunotkun var ég að fatta til hvers takkinn "scroll lock" á lyklaborðinu er í kjölfar þess að ég hef unnið á excel síðustu 6 tímana rúmlega. Ég ætla þó engum að segja hvaða tilgangi hann þjónar því rétt í þessu gleymdi ég því. Þá er bara að byrja upp á nýtt og líta björtum augum á framtíðina. Hver veit, kannski veit ég til hvers hann er þegar ég verð fimmtugur.
Alla virka morgna finnst mér ég vera staddur í myndinni "The Truman show" en þá fer ég stundvíslega kl 7:45 að bíða eftir strætó númer 6 fyrir utan Tunguveg 18. Á tímabilinu 7:45 til 8:10 keyra sömu bílarnir alltaf framhjá á sama tíma í sömu röð. Á slaginu 7:53 fara íbúar tveggja húsa á móti biðskýlinu út í bíl og keyra af stað í vinnu eða skóla. Nákvæmlega tveimur mínútum síðar fer þriðji nágranninn af stað. Klukkan 7:55 gengur framhjá skýlinu stífmálaða tíu ára stelpan í gellufötunum á leið í skólann. Klukkan 8:03 mætir ólétti daninn með dóttir sína en hún fer daglega rúma 400 metra með strætó og greiðir alltaf í reiðufé fyrir skutlið. Klukkan 8:10 lætur svo strætó númer 6 loksins sjá sig, alltaf ca 5 mínútum of seinn og alltaf, alltaf mæti ég 25 mínútum of snemma í strætó vegna heimsku.

sunnudagur, 28. september 2003

Gærkvöld var sorglegt. Upp úr kl 11 ætlaði ég að rölta í verslun að leigja mér spólu og um leið að fá smá frískt loft eftir að hafa eytt deginum í hór- og lærdóm. Ég klæddi mig í föt, aldrei þessu vant, og hugðist skríða út þegar ég sá að það var athygliverður þáttur á BBC um geðsjúkt fólk sem heldur því fram að það sé endurfætt með minnigar afa sinna eða einhverra annarra. Ég lagðist upp í sófann og stóð ekki upp fyrr en myndirnar "the fly", "Arachnophobia" og "Debby does everything" (sýnd á sýn) var lokið. Þá var klukkan að verða 2:30 og löngu búið að loka þannig að ég fór snemma að sofa.
Fyrsta skrefið í átt að sjónvarpslausu Íslandi verður stigið bráðlega þegar þættirnir "Malcom in the middle" verða Íslenskaðir og lesið inn á þá fyrir skjá tvo. Ef fer fram sem horfir verður farið að lesa inn á bíómyndir innan nokkurra ára og þá hætti ég algjörlega að nota sjónvarpstækið mitt og fara í bíó. Það sorglega er að Radíus bræður, átrúnaðargoð mín, taka þátt í þessari vitleysu en Davíð Þór þýðir og Steinn Ármann les inn ásamt ófríðu föruneyti.

laugardagur, 27. september 2003

Þessi frétt hefur lífgað upp á daginn hjá mér. Meira svona. Augljóst að mennirnir hafa drullað á sig.

Kíkti annars í Smáralindina í fyrsta sinn í dag með Heiðdísi Sóllilju. Eftir stutta dvöl þar var haldið í háskólann þar sem við erum að vinna bókhaldsverkefni sem er auðveldara en góðu hófi gegnir. Ekkert er planað í kvöld og ennþá minna á morgun fyrir utan lærdóm.
Í gær fór ég í súkkulaðiverksmiðjuna (world class) að reyna að gera mig þyngri. Þegar ég var að gera mig að fífli í einhverju tækinu verður mér litið á litla stelpu sem var að lyfta þarna líka. Hún var agnarsmá (ekki mikið stærri en 150 sm) en virtist vera með ægilega lögulegan vöxt. ATH. ég var ekki að góna á smástelpu heldur meira að velta því fyrir mér hvað rusltónlistarkonan Britney Spears sé búin að gera við ungviðið. Þegar hún svo gekk framhjá mér sá ég að þetta var engin önnur en Svala Björgvinsdóttir mætt holdi klædd að lyfta með almúganum. Það sem kom mér hvað helst á óvart var hversu eðlileg hún er, svona rétt eins og ég og þú nema hún er auðvitað miklu fallegri, hæfileikaríkari og minni.
Ég hef lengi hugsað mér að skipta um útlit á þessari bölvuðu síðu. Í kvöld komst ég í tæri við frítíma og ákvað því að nota hann til að fikta í þessu. Hér er komin hugmynd að nýju útliti. Ég sé þó að það þarf að breyta litasamsetningunni á hlekkjunum aðeins en þetta myndi halda sér annars að mestu leiti ef ég kýs að halda þessu útliti. Nú er það bara spurningin; hvað finnst sótsvörtum almúgi um þetta? Kjósið hér að neðan. Hér getið þið séð útlitið sem ég er að hugsa um að vera með.
Munið svo krakkar: Ef þið kjósið farið þið til himnaríkis þegar þið deyjið, annars beint til helvítis.

Smellið hér til að taka þátt.

föstudagur, 26. september 2003

Mér er það minnistætt þegar ég var ungur, efnilegur piltur að horfa á barnaefni stöðvar tvö á laugardagsmorgnum þegar Afi tók sér frí til Tailands og Begga nokkur frænka tók við í nokkrar vikur. Hún fór með frábærar vísur í hverjum þætti og í hverri einustu var rímið „Það er út í hött að éta kött“. Á sínum tíma skemmti ég mér konunglega við þetta og hló mikið enda um afbragðsrím að ræða. Það var ekki fyrr en ég rifjaði þetta upp nýlega að ég áttaði mig á hver tilgangur heilaþvotts þessa er. Í mörgum löndum, þó aðallega í Asíulöndum, eru kettir borðaðir með bestu lyst. Begga frænka var því með þessu rími sínu, allan þennan tíma, að stuðla að kynþáttafordómum á meðal krakka á aldrinum 3-12 ára. Grátlegt hversu lágt sumar manneskjur leggjast til að koma sínu fram.
Ég er aftur farinn að drekka amk lítra af mjólk á dag. Nei, ég er ekki byrjaður með djúsí belju á föstu heldur hef ég keypt reiðinnar býsn af build up og hyggst ég þyngjast svo um munar næstu daga, vikur og jafnvel mánuði. Tilhlökkunin er svo mikil að það blæðir úr eyrunum á mér.

Annars er það að frétta að ég hef ráfað um háskólann síðustu daga, ef ekki að læra þá hugsandi ekkert, allavega ekkert boðlegt þessari dagbók eða nokkurri manneskju yngri en 18 ára.

fimmtudagur, 25. september 2003

Gulla var að fá nýtt útlit á síðuna sína. Allir að kíkja þangað. Með þangað meina ég hingað.




Í gærkvöldi gerði ég mér glaðan dag með því að leigja mér stórmyndina "Amélie" sem einnig þekkist undir nafninu "Le Fabuleux destin d'Amélie Poulain" með hinni stórfögru Audrey Tautou í aðalhlutverki. Hún fer á kostum sem feimin stelpa sem vill öllum vel en gerir lítið í sínum eigin málum. Að sjálfsögðu er myndin mjög vel leikin, vel gerð og mjög skemmtileg. Eitthvað er um tæknibrellur en vel er farið með þær og myndin snýst ekki um þær eins og svo margar myndir. Ég mæli með þessari mynd þrátt fyrir væmni í lokin (segi ekki meira en það). Þrjár og hálf stjarna af fjórum.

miðvikudagur, 24. september 2003

Til hamingju Björgvin með að verða í 11. sæti í samkeppni Baggalúts á frétt númer 2.000. Það er ekki hver sem er sem á frétt númer 2.010. Hér sjáið þið fréttir númer 2.000 til 2.010.
Það er ekki oft sem ég græt úr hlátri og enn sjaldnar sem ég græt úr hlátri yfir einhverju mjög subbulegu. Þetta fékk mig rétt í þessu til að fella tár vegna þess hversu mikið ég hló.
Þú veist að þú ert sorglegur þegar kaup á nýjum stærðfræðistílabókum og pennum gerir meira fyrir þig en að drekka og fara út á lífið um helgar.

Og í tengt efni; rúmlega fjórar vikur eru liðnar síðan skólinn byrjaði og strax er ég búinn að klára eina stærðfræðistílabók.

Að lokum; í dag er nákvæmlega mánuður síðan ég kom til Reykjavíkur og ég er enn á lífi. Það erfiðasta búið og nú bara að standa sig í skólanum.

Afsakið andleysið í færslum dagsins.
Tími minn hefur verið svo skipulagður í hvívetna síðustu daga að ég hef ekki gefið mér tíma til að ditta að líkama mínum, utan þess að fara í sturtubað einu sinni á dag. Neglurnar á höndunum á mér hafa náð metlengd en þær hafa ekki verið svona langar síðan ég var í þriðja bekk og byrjaði að naga þær en ég hef ekki einu sinni gefið mér tíma til þess upp á síðkastið. Eftirmiðdagurinn er laus hjá mér og jafnvel kvöldið ef allt fer eftir áætlun.
Ég lifði gærdaginn af þrátt fyrir að hafa verið að læra stærðfræði til kl 23:30. Það óhugnalega við þetta alltsaman var að ég skemmti mér vel við að gera dæmin.

þriðjudagur, 23. september 2003



Hinn stórfríði Raja Bell


Hinn merki leikmaður Raja Bell er kominn til Utah Jazz en hann hyggst skrifa undir 2ja ára samning við liðið næstu daga. Þetta er stórkostlegt skref fyrir Utah Jazz í átt að meistaratitli en aðspurður sagðist Raja Bell ekki vilja fara frá Dallas.
Síðustu dagar hafa verið merkilega leiðinlegir en þeir eiga það allir sameiginlegt að á þeim eyddi ég góðum hluta dagsins í heimavinnu og verkefni. Í háskóla er hver dagur betri en sá næsti. Hér er yfirlitið:

Laugardagur:
13:00-21:30 Vinna heimildaritgerð
22:00-02:00 Bíó + að redda mér heim
02:15-05:00 Reyna að sofna.

Sunnudagur:
13:30-23:00 Vinna heimildaritgerð
23:30-01:00 Horfði á sjónvarp

Mánudagur:
10:00-21:00 Skóli + lyfta + heimadæmi í stærðfræði
21:00-23:30 Heimsókn til Gylfa
00:00-01:00 Reynt að sofna.

Þriðjudagur:
08:00-17:20 Skóli + lyfta + heimadæmi í stærðfræði
Áætlun:
17:30-00:30 Heimalærdómur í stærðfræði
00:45 Ég læt lífið úr leiðindum.
Barði í Bang Gang kom mér verulega á óvart fyrir rúmri viku síðan þegar ég sá nýjasta lag hans en hann er venjulega í raftónlist ýmiskonar. Nýjasta lagið er endurgerð á gamla slagaranum "Stop in the name of love" og myndbandið er frábært. Barði syngur lagið með undurfallegri kórdrengjaröddu með fallegu undirspili. Myndbandið sýnir svo hann vera ástfanginn í Íslenskri náttúru með Rósu á spotlight held ég örugglega. Rósa sýnir brjóst, rass og jafnvel meira en það gerir útslagið: besta myndband sem gert hefur verið við lag í flutningi Íslendings.
Á föstudaginn þegar ég, Björgvin og Markús rammvillti gengum um Kringluna í örvæntingafullri leit að fötum fyrir neðri hluta skrokks míns varð ég fyrir einhverju svo undursamlegu að ég get illa orðað lífsreynsluna með hljóðum sem stafrófið nær að grípa með viðunandi árangri. Aftan að mér gekk nefnilega stúlka og kleip í rassinn á mér og þrýsti miðlungsþétt rétt áður en hún tók utan um okkur bræðurnar og heilsaði. Þetta er í fyrsta skiptið sem ég verð fyrir kynferðislegri áreiti af þessari stærðargráðu (hef bara orðið fyrir tilgangslausu daðri hingað til) og líkaði mér hún vel. Vonast ég til að sem flestir kvenmenn sjái sér fært að klípa mig í rassinn hér eftir í staðinn fyrir að heilsa með handabandi eða orðum.

Af ótta við að stúlkan sjái eftir atburði þessum hef ég kosið að gefa henni leyninafnið RassklipuHarpa.

mánudagur, 22. september 2003

Framhaldssaga.

Eins og þið eflaust munið fórum við Björgvin bróðir í bíó á laugardaginn ásamt Gylfa og Eiríki á myndina 28 days later. Ástæðan fyrir bíóinu var tengd því að Björgvin var að fara út um nóttina, við vildum sjá myndina og síðast en ekki síst var haldið heljarinnar teiti á tunguveginum en þar bý ég ásamt ófríðu föruneyti fjögurra stráka. Guggur, Víðir og Gústi sáu um partíið en við Óli létum okkur hverfa.
Þegar heim var komið um klukkan 2 um nóttina var margt um manninn eða öllu heldur barnið. Ég náði að hækka meðalaldurinn um rúmlega 5 ár. Ekki nóg með að þarna hafi verið mikið mannfall (2-3 dauðir í stofunni og nokkrir fyrir utan) heldur var klósethurðin ónýt og allt á tjá og tundri. Þarna kom líka til mín ung stúlka, Sonja að nafni og sagðist kannast við mig af netinu, þeas heimasíðu minni. Við það mildaðist mitt svarta hjarta og ég sofnaði vært um klukkan 5 eftir mikinn hávaða í veislugestum.

Afsakið samhengisleysið í þessari færslu. Er samhengislaus í dag í tilefni af því að það er frítt í strætó.
Ef að Einstein og Mozart voru snillingar þá er mér óhætt að segja eftirfarandi:

Í dag á snillingurinn Nick Cave 46 ára afmæli. Til hamingju, herra Cave.

sunnudagur, 21. september 2003

Síðustu 2 daga hef ég verið að velta því fyrir mér hvað ritstuldur er í kjölfar þess að ég er að skrifa ritgerð um efnið. Nú fer mig að vanta heimildir og ætla því að bregða á það ráð að rita það sem mér finnst um ritstuld og setja svo þessa færslu sem heimild.


Hvað er ritstuldur?

Ritstuldur er greinilega framkvæmdur aðallega af húðlötum og orkulausum nemendum sem vilja gjarnan eyða tíma sínum í eitthvað annað en að skrifa ritgerðir. Þeir kjósa að reyna að komast upp með ritstuld gegn því að eyða tíma sínum í eitthvað annað í stað þess að láta t.d. félagslífið sitja á hakanum. Þessi skilgreining skildi ég ætla að eigi við um mestmegnið af ritstuldi á meðal nemenda í dag.

(afsakið dyggu aðdáendur, ég seldi sálu mína þarna fyrir heimaverkefni).
Þá er Björgvin bróðir floginn út til Danmerkur en hann hyggst vinna þar en búa í Svíþjóð amk næsta árið eða svo. Þetta er mikil blóðtaka fyrir fjölskylduna en þó aðallega fyrir austfirska ljóðaunnendur. Þetta er jafnframt þriðja systkinið sem við missum til útlanda því Styrmir og Kolla eru þar nú þegar. Gangi Björgvini allt í haginn úti í stóra heiminum.
Klukkan tíu í gærkvöldi fórum við Björgvin, Gylfi og Eiríkur í Regnbogann á dans og söngvamyndina "28 days later" eða "Palli var einn í heiminum" eins og hún er þýdd (af mér). Myndin var sýnd í sal 3 sem er 50 sæta salur með ca 20 tommu sjónvarpi (skekkjumörk plús/mínus 30 tommur). Hún fjallar um mann sem vaknar af dái 28 dögum eftir að vírus braust út. Ég þori ekki að segja meira af ótta við að gefa of mikið upp.
Myndin er bresk sem kom þægilega á óvart. Hún er nokkuð vel leikin en óraunveruleg sem kemur ekki á óvart þar sem þetta er spennuhrollvekja. Byrjunaratriðin eru mjög vel gerð og algjörlega laus við tæknibrellur. Myndatakan er ekki góð og oft vissi ég ekkert hvað var um að vera fyrr en of seint. Hún er mjög spennandi og nokkrum sinnum hrökk ég svo við að ég hélt ég hefði slasað einhvern. Hún fær tvær og hálfa stjörnu frá mér.

laugardagur, 20. september 2003

Helgin hefur verið tekin með völdum af verkefni sem ég þarf að vinna fyrir mánudaginn en það felst í að skrifa þriggja blaðsíðna ritgerð um ritstuld auk heimildarskrár og forsíðu. Ég er að hugsa um að stela einhverri ritgerð um ritstuld og hafa svo setninguna „Þessi ritgerð er einmitt ágætisdæmi um ritstuld...“ í samantektinni í lokin.

Sjáum til hvernig þetta endar.
Magnaður eftirmiðdagur í gær. Við Björgvin og Markús fórum í kringluna því ég þurfti að versla föt. Hef verið a leita alla mína ævi að buxum í stærð 34-34 og auðvitað ekki fundið á Egilsstöðum eða Akureyri. Í Reykjavík fann ég strax tvær, í Hagkaup og Dressmann og keypti þær hiklaust, eins og versta kelling.
Í mátunarklefanum fór ég á kostum. Í tvö skipti dró ég frá á nærbuxunum og í skónum, haldandi að ég væri í buxum. Ég náði þó að stoppa áður en einhver sá mig held ég.

Eftir kringluferðina ákváðum við að kíkja á laugarveginn á bíl Markúsar þar sem ég settist í framsætið af því ég rata svo vel í Reykjavík. Til að gera langa sögu stutta þá tókum við eina vitlausa beygju hjá kringlunni og enduðum í miðbæ Kópavogs. Ég held ég hafi aldrei hlegið jafnmikið. Eftir rúmlega klukkutímaferð þar sem tekin var U-beygja á frekar stórum gatnamótum, farið var í stæði strætisvagns og hlegið meira en góðu hófi gegnir komumst við á laugarveginn og stuttu síðar heim helsinu fegnir.

föstudagur, 19. september 2003

Þegar ég mætti eldsnemma í skólann í morgun og gerði mig reiðubúinn að taka skóladótið upp enda dæmatími í stærðfræði að byrja, fann ég pennaveskið mitt ekki. Þegar ég leitaði betur fannst það undir öllum bókunum í töskunni. Það eitt og sér er ekkert sérstaklega merkilegt. Það sem er merkilegt við þetta er að það hlakkaði í mér við tilhugsunina um að ég hafði gleymt pennaveskinu heima því þá gæti ég skrifað eitthvað skondið um heimsku mína í þetta veftímarit. Þar sem pennaveskið fannst og ég gat skrifað eitthvað í tímanum er í raun engin ástæða fyrir því að skrifa grein um atburðinn og því varð ég dapur.

Eða hvað?

uppfært:
Þessi dagbókarfærslu var nýlega kosin tilgangslausasta færsla allra tíma í virtu bresku tímariti sem ég man ekki hvað heitir. Jafnframt var lestur þessarar greinar kosin mesta tímaeyðsla í sögu mannkyns.
Þegar ég beið eftir strætó í morgun gekk framhjá mér stelpa, eins og hún gerir alla morgna. Hún var sæmilega förðuð í framan, með stærðarinnar eyrnalokka og í svona "gellufötum". Þetta skar í augun því hún getur ekki hafa verið mikið eldri en 10 ára gömul. Svona eru Reykjavíkurbörnin og mér verður flökurt á því að hugsa um það.

Tískan er alltaf af hinu illa, enda fylgi ég henni ekki.

fimmtudagur, 18. september 2003

Ég vil ekki vera að monta mig en ég get ekki að því gert. Í dag ákvað ég, heimborgarflakkarinn, að taka strætó frá Hlemmi. Ævintýrið byrjaði á því að við Björgvin bróðir fórum í heimsókn til ömmu í Skipholt en þaðan gengum við niður á hlemm, rétt si svona. Þaðan tókum við svo sexuna að útidyrahurðinni á Tunguvegi 18, nánast. Svona er ég nú orðinn sniðugur í strætómálum og í raun mætti segja að ég væri hetja hins almenna landsbyggðarmanns.
Ég hef löngum velt því fyrir mér hvað sé að frétta af Eþíópíu, eða hvað hafi orðið af því landi síðan matarskorturinn stóð sem hæst árið 1986. Núna, rúmlega 17 árum síðar hefur mbl.is birt frétt frá því landi og enn er það tengt mat. Hér er hún.
Hörkulærdómskvöld í gærkvöldi með Óla Rúnari. Við tókum okkur pásur annað slagið og tefldum eins og vindurinn. Undir lokin leystist lærdómurinn upp í vitleysu og við hættum um klukkan 22:30 eftir að ég kom með þá vanhugsuðu tillögu að spila leikinn "Er ég að grenja?" um leið og við lásum. Hann gengur út á að kalla fram eins stór augu og mögulegt er um leið og munnurinn er hafður eins smár og andlitið býður upp á.

Ég vaknaði þó snemma í morgun, dreif mig í skólann og hélt áfram að læra fyrir markaðsfræðiprófið, sem byrjar eftir 50 mínútur.

miðvikudagur, 17. september 2003

10% próf á morgun í markaðsfræði og hvað geri ég? Auðvitað horfi ég á top 10 James Bond myndbönd allra tíma á VH1 og sofna. Nú tekur lærdómurinn við fram á nótt.
Rúmlega 11 tímar af stærðfræðivinnu að baki og hvað hef ég að sýna fyrir það? 5 blaðsíður af þéttskrifuðum heimadæmum og aðrar 7 af dæmum sem þarf ekki að skila. Svo er það annað svona holl í næstu viku, og vikuna þar á eftir og allar vikur fram að jólum. Háskólalíf er frrrrrrrrrrrábært!

þriðjudagur, 16. september 2003

Þessi frétt var að berast fréttastofu veftímaritsins 'Við rætur hugans':

Samkvæmt áreiðanlegum heimildum er Birgitta Haukdal hætt með súkkulaðistráknum og því einhleyp. Á Tunguvegi hefur ríkt kjötkveðjustemning í kjölfar fréttanna og ekki laust við að sumir gangi of langt í fagnaðalátunum (einn okkar hljóp nakinn út í rigninguna öskrandi "Birgitta! Birgitta, ég elska þig!" án áætlaðs árangurs). Ég hélt allavega ekki mínu venjulega "kúli" og missti mig í fögnuði, rétt eins og Kermit froskur eftir að hann kynnir nýjan dagskrárlið.
Var að finna þessa mynd. Þetta graf staðsetur nákvæmlega síðustu tvö skipti sem ég hef grátið. Getið þið fundið þá? Svar fyrir neðan.


Svar: Gulu punktarnir.
Í gær var tekið til hendinni á Tunguvegi 18 og allt hreinsað, hátt sem lágt. Ekki nóg með það heldur ákváðu nokkrir vel valdir einstaklingar að láta þvottavélavatnið flæða um allt gólf á klósettinu svo ca 3 sentímetra vatn lá á gólfinu. Það olli því að alls voru fjórar manneskjur á klósettinu í einu, að dæla vatninu út, í fyrsta sinn síðan ég flutti inn fyrir 22 dögum síðan.
Það kom berlega í ljós í gær að þið hafið verið að lesa dagbók séntilmennis undanfarið þegar ég gerði mér lítið fyrir og opnaði hurð fyrir ekki minni manneskju en Maríkó Margréti en hún er á öðru ári í HR á viðskiptabraut. Ég var svo stoltur af riddaramennsku minni að ég keypti handa mér snakkpoka.
Dæmigert: ég þarf að prenta út ca 100 síður af glósum og þá virkar prentarahelvítið ekki á prófílnum mínum. Það getur aldrei neitt gengið fullkomlega upp þegar ég á í hlut.

mánudagur, 15. september 2003

Mér hefur tekist að afsanna enn eitt vef-greindarvísitöluprófið en í gær tók ég þetta í makindum mínum, nývaknaður og fékk 122 út úr því sem er augljóslega kolrangt. Til að sanna að það sé rangt færi ég sönnunargögn:

Ég...
1. ... get ekki keyrt í Reykjavík.
2. ... get ekki tekið strætó, greinilega.
3. ... man nöfn og tölur að meðaltali í 2 sekúndur eftir að ég heyri/les þau/þær.
4. ... kemst að meðaltali inn í HR með inngangskorti mínu í tólftu tilraun.
5. ... trúi ekki að sögurnar um guð, mjallhvíti og dvergana sjö eða jólasveininn séu sannar eða hafi nokkuð sannleiksgildi.

Nú er það næst á dagskrá að finna fleiri svona próf og afsanna þau.
Mér finnst frábært hvernig ekkert gengur upp suma dagana. Í dag t.d. byrjaði ég á því að reka mig í kommóðu heima nægilega fast til að ég hefði vilja öskra meira en þegar Utah Jazz komust í úrslit í fyrsta sinn fyrir nokkrum árum, en ég gerði þó eins og allir alvöru karlmenn myndu gera; birgði öskrið og pirringinn inni og hélt ró minni. Næst var að taka strætó en hann mætti hvorki meira né minna en 25 mínútum eftir að ég mætti, sem er merkilegt af því hann á að koma á 20 mínútna fresti og einhvernveginn náði ég greinilega rétt að missa af síðasta, eins og alltaf. Þegar í skólann var komið skrifaði enginn penni hjá mér. Sjálfsalinn tók ekki við smámyntinni sem ég fékk í gegnum vél sem skiptir seðlum í mynt í gær (og það tók mig ca 20 mínútur á sínum tíma). Þá mætti ég í tölvuverið en þar virkaði mitt heimasvæði ekki þannig að ég þurfti á skrifstofuna þar sem ég beið í 30 mínútur eftir afgreiðslu (ótrúlegt nokk þá er ég ekki að ýkja, þetta voru rúmlega 30 mínútur!) til þess eins að láta eyða upphafsmynd minni (öllum shortcutum sem ég hafði gert og allt sem ég hafði vistað; mistök skólans). Núna var ég að uppgötva að til þess að geta lært heima í stærðfræðinni þarf ég að fá stærðfræðibókina en hún er lokuð í skáp sem Óli er með lykilinn að og hann er heima veikur.
Ég vona að ég verði fyrir bíl á heimleiðinni.

sunnudagur, 14. september 2003

Síðastliðinn sólarhring hef ég niðurhlaðið eftirfarandi diskum:

Muse - Origin of simmetry (meistaraverk)
Kent - Hagnesta Hill (átti hann en týndi)
Ýmsir - Pottþétt Jól 1 (jólaundirbúningurinn á fullu)
Nick Cave - Boatmans call (önnur tilraun)

og lögunum:

Skriðjöklarnir - Tengja
Kátir Piltar - Feitar konur
Michael Jackson - Earthsong
Joe Cocker - All I know

Skemmtileg tónlistarveisla í gangi hjá mér í kvöld, eftir að hafa eytt umtalsverðum hluta dagsins í lærdóm.
Ég var að koma úr ævintýralegu kvöldi í mjög skemmtilegum félagsskap. Harpa var nefnilega að koma til landsins eftir að hafa verið í Bandaríkjunum í alltof langan tíma og var ákveðið að hittast í keilhöllinni, þeas Harpa, Bylgja, Davíð, Birgitta og ég. Keilan byrjaði, eins og svo oft áður, mjög vel hjá mér og tók ég talsvert örugga forystu með nokkrum fellum og feykjum en undir lokin var ég kominn í glennur og kantbolta. Ég reyndi að hitta breiðholtsmegin en það gekk ekki eftir en sigur í fyrsta leiknum samt sem áður staðreynd. Þá var sú skelfilega ákvörðun tekin að spila annan leik en þar voru úrslitið hagstæð fyrir stelpurnar og sló Birgitta met í fellum og ég met í aumingjaskap.

Eftir keiluna fór ég á rúntinn með hópnum sem tvístraðist stuttu seinna á þann hátt að ég og Bylgja rúntuðum og hin fóru á kaffihús. Í bílinn bættist svo við Elsa Guðný en hún er stödd í Reykjavík með Bergvini og fleiri vinum. Við keyptum okkur Hlöllabát en fyrir einskæra tilviljun hafði ég ekkert borðað í allan dag, en varð samt illt af þessum báti og er það alls ekki tengt fríða föruneytinu því hann var etinn eftir að ég kom heim.

Núna, þegar heim er komið, er planið að horfa á spænsku myndina 'Habla con ella' en hún er að sögn mjög góð. Hlakka til að sjá hana.

Allavega, velkomin heim Harpa! Takk fyrir rúntinn og skemmtunina Bylgja og Elsa Guðný og takk fyrir samveruna Birgitta og Davíð. Skemmtilegt kvöld að baki og ég andlega endurhlaðinn.

laugardagur, 13. september 2003

Sjaldan hef ég verið jafn nálægt því að hætta með þessa dagbók og í dag. Mikil lægð í gangi. Ég þrjóskast þó áfram með þessa síðu þangað til ég gef upp alla von um heimsfrægð.
Fyrir rúmum tvemur vikum sá ég stórmyndina Lord of the ring: The two towers. Ég get ekkert nýtt sagt um þessa mynd. Hún kallaði fram hlátur, nokkur tár, gremju og hamingju allt í senn og fær því fjórar stjörnur af fjórum. Hlakka til að sjá síðustu myndina; return of the king sem kemur út um jólin.
Um daginn sá ég myndbandið við nýja lag Jewel, intuition en í því myndbandi dansar hún næstum eggjandi og klæðist glyðrulega um leið og hún syngur eitthvað dæmigert píkupopplag. Það vöknuðu auðvitað nokkrar spurningar hjá mér en þó aðallega þessi: Hvað er hún að hugsa? Hún var komin með góða píanóstelpuímynd eftir lagið Foolish games en fórnar því öllu til að líkjast Britney Spears eða einhverju álíka gervilegu og ömurlegu. Verulega vitlaus ákvörðun hjá henni og hálf vandræðalegt að horfa upp á hana gera sig svona að fífli.

föstudagur, 12. september 2003

Til að fela ritstíflu mína kemur hér ný spurning á síðuna. Svarið samviskulega eða grýla étur ykkur.

Smellið hér til að taka þátt.
Í gær var merkilegur dagur fyrir þær sakir að þá rigndi ekkert í Reykjavík. Er það í fyrsta sinn sem það helst þurrt heilan dag frá því ég kom hingað fyrir næstum því þremur vikum. Að sjálfsögðu er byrjað að rigna núna þannig að ég get útilokað að um alvarlegan þurrk sé að ræða.

Ef ég vil auðvelda vinnu þá verð ég veðurfréttamaður fyrir höfuðborgarsvæðið. Ef ég nennti svo ekki í vinnuna gæti ég bara hringt inn veikur og sagt að það verði rigning í dag. Ca 95% líkur á því að það verði rétt.
Rétt í þessu, á meðan ég var með fullan munninn af þykkmjólk (með perum og eplum) sagði Víðir eitthvað mjög fyndið svo ég hló nægilega mikið til að anda að mér hluta af þykkmjólkinni. Það er ekki þægilegt að vera með peru og eplabita í lungunum.

fimmtudagur, 11. september 2003

Nýlega var mér boðið að brjóta blað í sögu Háskóla Reykjavíkur með því stofna og sjá um fyrsta skákklúbb skólans eftir að ég sendi fyrirspurn til stjórn Visku varðandi skákklúbba bæjarins. Í fyrstu hló ég nett og sagði við sjálfan mig "því ekki það" en fór svo að spá meira í þetta. Þessu fylgja auðvitað miklar kvaðir eins og skákæfingar sem eru mjög tímafrekar, fyrirsætustörf (fyrir markaðssetningu klúbbsins) og endalaus fjárútlát (fyrir sjónvarpsauglýsingarnar). Einnig myndi fylgja þessu talsverð ábyrgð og þarmeð væri ímynd mín mjög brothætt; eitt feilspor á skákborðinu eða dags daglega myndi verða dýrkeypt og karakter minn myndi laskast. Þessu myndi einnig fylgja talsverðar vinsældir á meðal kvenfólks og má ég ekki við því. Ég myndi ekki geta farið út að skemmta mér án þess að kvenfólk væri að reyna við mig eða skora á mig í skák. Fátt er meira vandræðalegt.

Það þýðir ekki bara að líta á svörtu hliðar málsins. Skákklúbbur HR myndi til dæmis fara á ferilskrá mína þegar ég sæki um stöðu aðalritara heilsugæslunnar á Egilsstöðum eða sameinuðu þjóðanna. Hann gæti orðið lyftistöng fyrir þetta veftímarit þar sem "Veftímaritið 'Við rætur hugans'" væri styrktaraðili skákæfinga. Gerð yrði líklega bíómynd síðar meir um skákklúbbinn þar sem ég myndi fá höfundarréttarlaun og svo framvegis.

Það þýðir ekki að rasa um ráð fram þegar mál af þessari stærðargráðu ratar á borð mitt heldur hugsa sig vel um og taka rétta ákvörðun. Möguleikarnir eru endalausir, framtíðin björt og ljóst að allt er að breytast.

Eða hvað finnst ykkur?
Stærðfræðin hefur kennt mér að spá í framtíðina. Þannig er mál með vexti að í fyrstu viku skólans var taskan mín rúm tvö kílógrömm vegna textabóka, stílabóka, pennaveskis og öðru nytsamlegu. Síðan þá hef ég prentað út gríðarlegt magn af pappír og bætt við hinu og þessu. Í þessari viku (þriðju vikunni) er taskan orðin gróft áætlað níu kílógrömm. Með aðstoð stærðfræðinnar get ég dregið þá ályktun að taskan þyngist um sjö kílógrömm á tveggja vikna fresti. Þegar litið er til framtíðar með það til hliðsjónar fæ ég út að taskan verði rúmlega 47,5 kílógrömm í lok tímabils. Ég hóf fyrirbyggjandi aðgerðir um leið og þetta kom í ljós og keypti mér bakpoka sem heldur allt að 50 kílógrömmum án þess að bugast. Bakpokinn var talsvert dýr en þetta borgar sig þegar lengra er komið.

Takk stærðfræði.

miðvikudagur, 10. september 2003

Ef þið viljið sjá ágætis eftirlíkingu á göngulagi robocop þá komið í Háskóla Reykjavíkur, á 3ju hæð í eitthvað af lærdómsherbergjunum því þar sit ég. Svo er bara að bíða og sjá hvort ég þurfi ekki á klósettið eða eitthvað og voilá; robocop mættur. Ég er nefnilega með mestu harðsperrur sem sögur fara af eftir að ég byrjaði að lyfta af krafti með Óla Rúnari.

Ég hélt fyrst að ég væri fárveikur en svo kom í ljós að þetta eru bara merki um að ég sé að verða of gamall fyrir hreyfingu og þarf að byrja að safna í vömb. Það gæti orðið ennþá erfiðara.
Á Tunguvegi 18 eru núna tvær þvottavélar, önnur biluð á einhvern óskiljanlegan hátt og hin tekur ekki vatn inn á sig og þar af leiðandi er ekki hægt að þvo neitt í kommúnunni. Það er aðeins ein lausn á málinu: kaupa meira af fötum og það er akkúrat það sem ég gerði í gær í kapphlaupi við tímann. Nú er ég stoltur eigandi nýrra nærbuxna, sokka og tveggja bola. Það ætti að gefa mér tvo daga eða jafnvel þrjá ef ég fer varlega.

þriðjudagur, 9. september 2003

Það gerðist fleira í gær en það sem talið er upp hér að neðan. Þar sem við Óli sátum á þriðju hæð og lærðum stærðfræði var mér litið út um gluggann þar sem ég sá Marikó Margréti sitja við vegg skáhallt niður við okkur. Mér fannst svolítið skrítið að hún skyldi vera í reykingasvæðinu því samkvæmt útliti hennar reykir hún ekki, enda mjög frískleg, fögur og glansar af hamingju. Til að skoða hana betur ákvað ég að setja upp gleraugun sem ég hafði lagt frá mér til að hvíla á mér nefið en þá brá mér heldur betur í brún. Þetta var ekki Maríkó Margrét heldur fölur, ljóshærður og stutthærður strákur með alskegg, reykjandi og frekar digurmannlega vaxinn. Ég áttaði mig þarna á því hversu slæm sjónin mín er og hversu þakklátur ég er fyrir gleraugun. Óli gat hinsvegar ekki hætt að hlægja, skiljanlega.
Gærdagurinn var efnismikill eins og sjá má hér að neðan. Það gerist samt ýmislegt á bakvið fögru orðin og margt fer úrskeiðis. Eftirfarandi gerðist í gær:

1. Ég týndi uppáhaldspennanum mínum.
2. Ég gleymdi gleraugunum heima og sá ekkert í fyrirlestrunum fyrir hádegi.
3. Ég gleymdi vatnflöskunni sem ég tek alltaf með í skólann til að spara mér gospening. Ég keypti gos (sjá nr. 6)
4. Ég gleymdi þykkmjólkinni sem ég ætlaði mér að éta í hádeginu og spara mér pening. Ég keypti hádegismat.
5. Ég gleymdi snyrtidótinu fyrir ferðina í world class.
6. Kassinn tók ekki við peningnum mínum sem olli því að ég varð að fresta gosdrykkju um 2 tíma auk þess sem almenningsvatnskraninn var bilaður.
7. Ég gleymdi í gær að blogga um það sem ég gleymdi í gær.

Þá vitiði það. Svona er það "behind the scenes" á Finnur.tk.

mánudagur, 8. september 2003

Í dag, 8. september, á Kolla systir afmæli. Til hamingju með afmælið Kolla! Þið getið óskað henni til hamingju á síðunni hennar hér eða í athugasemdum fyrir neðan. Vonandi les hún þær.
Þá er þessum degi lokið, eða því sem næst. Svona var dagskráin í grófum dráttum:

7:30 Vaknað og drasl tekið til + morgunmatur étinn.
8:15 Mætt í skóla, fyrirlestur hefst.
12:00 Körfubolti hefst í WC´.
13:02 Lyftingar hefjast.
14:30 Lyftingum, teygjum og sturtu lýkur.
15:00 Útprentun á glærum í tölvustofu HR.
16:30 Heimalærdómur í stærðfræði í HR.
22:15 Komið heim eftir langan dag.
23:07 Bloggað.

Ekki nóg með að næstu 2 dagar munu vera mjög svipaðir í sniðum heldur verða allir mánudagar, þriðjudagar og miðvikudagar svona í megindráttum fram að 1. desember sirka. Magnað.
Ég og Óli fórum í World Class áðan að spila körfubolta og svo lyfta á eftir. Þar sáum við slatta af frægu fólki en ég ætla ekki að tala sérstaklega um fjöldann heldur um Kára Stefánsson sem var þarna, galvaskur. Það fyrsta sem hann segir við Óla þegar hann gengur upp að honum og vill komast framhjá er orðrétt: „Ekki vera fyrir mér því ég er í mjög vondu skapi í dag“. Við létum ekki á okkur standa og hlógum hátt og snjallt enda ekki á hverjum degi sem frægur kall talar við okkur. Þá fannst mér hann segja „Ég er ekkert að grínast hérna“ og það rann á okkur tvær grímur. Spurning hvort við hefðum verið barðir í hakk ef við hefðum hlegið aftur. Hann er samt örugglega fínn kall.
Gleðjist kæru internetbrimbrettakappar því yður er í dag frelsari fæddur. Hann gengur dags daglega undir nafninu Jónas Reynir og hann var að hefja dagbókarfærslu. Ekki nóg með að hann sé frelsari internetsins heldur er hann einstaklega skondinn, ljóshærður og gæddur miklum hæfileikum á sviði grafískrar hönnunar. Hann stundar nám við Menntaskólann á Egilsstöðum og er, eftir því sem ég best veit, einhleypur.

Hér er dagbókin hans.

sunnudagur, 7. september 2003

Komið sunnudagskvöld og mér hefur aðeins einu sinni leiðst jafn mikið um ævina og það var í gærkvöldi. Óli Rúnar sendi mér sms um klukkan 2 um nóttina þar sem hann gerði heiðarlega tilraun til að fá mig á djammið því söngfuglinn og getnaðargellan Hera var á Kofa Tómasar frænda á djamminu. Ég afþakkaði boðið og horfði þess í stað á Animatrix sem var hin ágætasta skemmtun. Sofnaði svo ekki fyrr en klukkan rúmlega 5 því ég missti stjórn á hóstanum sem hefur verið að hrella mig síðustu 2 vikur eða svo. Þegar leikurinn stóð sem hæst ældi ég úr hósta, í fyrsta sinn um ævina. Ekki slæmur árangur það.

laugardagur, 6. september 2003

Ég fór í bíó í gærkvöldi með Gylfa Þór og Kára Jósefs á myndina Freddy vs. Jason í Smáralindinni en þar eru þægilegustu bíósæti sem ég hef um ævina kynnst. Sætinu er hægt að halla aftur og fótaplássið er til fyrirmyndar. Á sætunum er líka geymslupláss fyrir drykki og annað gúmmelaði. Veggirnir eru vel skreyttir bláum röndum sem gefa salnum hlýlegt viðbragð. Bíóhúsið fær fjórar stjörnur af fjórum.

Myndin var hinsvegar ömurleg. Hún fær eina stjörnu fyrir viðleitni og brjóstaskorur.

Fyndið að sjá þennan leikara án búnings.
Var rétt í þessu að ljúka við að horfa á landsleik Íslands gegn Þýskalandi þar sem Þýskarar rétt náðu jafntefli, 0-0. Íslendingar voru mun betri mestmegnið af leiknum og hefðu mátt nýta færin betur. Þá er aðeins einn leikur eftir í riðlinum og eigum við enn færi á að vinna hann og komast áfram í Evrópukeppnina með sigri á þýskurum á útivelli einhverntíman á næstunni. Annars eigum við líka möguleika á að lenda í umspili en það er önnur saga sem ég man ekki alveg hvernig er.

föstudagur, 5. september 2003

Kvöldið átti að fara í að umgangast hvorki fleiri en færri 7 stelpur allt í allt. Fyrst byrjaði ég á að hjálpa Þóru Elísabet að setja upp dóterí á síðuna sína með Heiðdísi Sóllilju og gekk það vel. Næst átti ég að mæta í Kópavoginn í "hóp 4 í markaðsfræði" samankomu en í þeim hópi eru 5 stelpur eins og áður segir ásamt mér. Ég tilkynnti þó forföll í það vegna þess hversu slappur ég er af hósta.

Allavega, allir að kíkja á heimasíðu Þóru en hún er að fara í interrail á morgun og verður í mánuð ásamt KO Magnússyni og þriðju manneskju hvers nafn ég man ekki. Skrifið líka í gestabókina hennar, ég veit að hún iðar öll af kátínu ef það er gert.

Fyrst ég er í því að benda á aðrar síður: Kíkið á myndasíðu Bylgju en hún var að setja inn myndir frá Sálarballinu þann 23. ágúst síðastliðinn á Egilsstöðum. Þarna eru margar spaugilegar myndir og ummælin fyrir neðan hverja mynd eru oft sprenghlægileg. Þið hafið auðvitað frelsi til að skrá ykkar hugsanir þar, eins og hér.
Í markaðsfræði var skipt í 6 manna hópa nýlega, sem er ekki í frásögu færandi nema fyrir það að ég var settur í hóp með 5 stelpum, þar af heita fjórar af þeim Eva. Okkar hlutverk er að gera einhverskonar fyrirlestur, 15-20 mínútna langan um eitthvað fyrirtæki. Krefjandi og eflaust skemmtilegt verkefni framundan.
Í gær varð ég fyrir vitrun þegar við Óli Rúnar gerðum okkur glaðan dag og fengum okkur flatböku frá Hróa Hetti á 50% afslætti. Verði bökunnar var skipt í tvennt og þurftum við að greiða töfratölu hvor: 701 krónu. Það þarf sennilega að minna lesendur á að póstnúmer Fellabæjar er einmitt 701. Hrói Höttur hefur því talað til mín og sagt mér að fara heim í Fellabæinn að vinna fyrir skuld minni. Ég hlusta þó ekki á þann erkibjána heldur hef ákveðið að þessi máltíð sem þarna fór fram hafi verið sú síðasta fyrir áramót en niðurskurður í fjárhagsbókhaldi veftímartisins Finnur.tk veldur því að matarkostnaður verður að falla niður. Einnig hyggst ég ekki kaupa mér föt, gleraugu og aldrei nokkurntíman, undir neinum kringumstæðum drekka áfengi eða bjóða stelpu í bíó eða út að borða.

fimmtudagur, 4. september 2003

Það var um síðustu helgi sem ég frétti að Guggur drekkur ekki bjór. Þá erum við orðnir 3 (sá þriðji býr í Kúalalúmpúr), karlmennirnir, í heiminum sem erum hreinskilnir varðandi bjór. Það sem kemur mér enn meira á óvart er að tveir af þessum þremur eru á Tunguvegi 18. Það má því setja þetta upp í formúlu:

C = 100(A / B)
Þegar:
C = Prósenta þeirra á Tunguvegi 18 sem ekki drekkur bjór.
A = Fjöldi þeirra sem ekki drekka bjór en búa á Tunguvegi 18.
B = Heildarfjöldi búenda á Tunguvegi 18.

Ef við setjum svo upplýsingarnar sem við höfum inn í formúluna verður hún svona:

C =100(2/5) => C = 40%. Sem þýðir að 40% þeirra sem býr á Tunguvegi 18 drekkur ekki bjór.

Útfrá þessu má ganga að því vísu að bjórdrykkja sé að líða undir lok og fögnuð við, sem ekki drekkum þann viðbjóð, gríðarlega.

Ef einhver hefur nennt að lesa þessa færslu til enda skal sá hinn sami hljóta heiðursviðurkenningu mína.

miðvikudagur, 3. september 2003

...Framhald...

Ég fór í Landsbankann í Austurveri í dag til að redda fjármálunum, kvarta yfir VISA og gera mig að fífli að því er virðist. Þegar röðin kom að mér bað ég afgreiðsludömuna vinsamlegast um að láta mig fá eyðublað frá VISA þar sem ég færi fram á að ákveðnar færslur á síðasta greiðslutímabili yrðu leiðréttar og hún spurði "Ha? Hvaða kort?". Ég varð svo agndofa við þetta svar hjá henni að ég stóð stjarfur í nokkrar sekúndur og endurtók beiðni mína, í það skiptið helmingi hærra en áður og, að ég hélt, mun skýrara. Svarið "Ætlaru að skila hvaða korti?" kom til baka frá afgreiðsludömunni sem horfði á mig eins og ég væri utan af landi. Ég endurtók fyrirspurn mína í þriðja sinn aðeins hærra, skýrar og löturhægt en allt kom fyrir ekki því konan starði nú á mig og bað stuttu seinna um kennitölu. Þá ákvað ég að hætta við þessa fyrirspurn og bað hana þess í stað vinsamlegast um að benda mér á einhvern sem gæti stofnað einkabanka, sem hún gerði. Ég gekk því fimlega en eldrauður í framan frá afgreiðsluborði í átt að annari þraut sem endaði nokkuð vel miðað við mig.

Nú bið ég um hreinskilið álit ykkar; tala ég virkilega svona rosalega óskýrt?
Í gærkvöldi fékk ég kalda vatnsgusu í andlitið þegar mér barst til eyrna upphæð VISA reikningsins fyrir síðastliðinn ca mánuð. Á honum eru rúmlega 15.000 krónur sem ég neita með öllu að kannast við en þær færslur voru framkvæmdar eftir að ég týndi kortinu á dansiballi með Landi og sonum ca 11. ágúst síðastliðnum. Þessar fréttir komu mér í mikinn mínus sem olli því að ég ældi blóði eins og venjulega og svaf lítið í nótt. Þar komu fram hugsanir eins og "nú fæ ég mér næturvinnu með skólanum, fjandinn hafi það" og "Hvernig ætli brjóstin á Birgittu Haukdal líti út?" á milli þess sem ég hóstaði óstjórnlega enda með kvef í ca áttunda sinn á árinu. Niðurstaðan var sú auðvitað að fá sér meiri yfirdrátt. Sé til með vinnuna... og brjóstin á Birgittu Haukdal.

Daginn eftir áttaði ég mig svo auðvitað á heildar myndinni: Hvaða máli skipta fjármálin þegar Drew Kirk er dáinn?

...framhald síðar...

þriðjudagur, 2. september 2003

Nágrannar eru að sigla í strand að því er virðist. Ég hef lítið fylgst með þeim síðustu þrjá mánuði eða svo en þó annað slagið náð áttum í söguþræðinum og áttað mig á ástandinu. Samkvæmt nýjustu þáttum er Susan Kennedy orðin 16 ára aftur (og leikur eins og hún sé 10 ára), Toadfish Rebecchi byrjaður með Dee og nú í dag lét Drew Kirk lífið í mjög slæmum útreiðatúr, vægast sagt. Allt þetta ýtir undir þá kenningu mína að annað hvort séu í handritsstóla mættir 12 ára krakkavitleysingar í starfskynningu eða handritshöfundar séu komnir út í eiturlyfjaneyslu og þekki því ekki lengur muninn á söguþræði á ódýrri drasl sápuóperu og hinum stórkostlegu Nágrönnum. Ég allavega er ósáttur. Ég held þó að sjálfsögðu áfram að fylgjast spenntur með framvindu mála í lífi íbúa Ramsey stræti.
Ég veit ekki hvernig á að snúa mér eða hvernig ég get orðað þetta. Ég er hræddur um að láta flóðgáttir tilfinninganna opnast að fullu og missa fótanna í gríðarstraumi fagurra lýsingarorða en ég læt það samt flakka: Jón Stefánsson, Íslendingur, er á leið í NBA en hann skrifaði undir samning hjá Dallas Mavericks í dag samkvæmt ESPN, Styrmi bróðir, SÝN, Óla Rúnari, mbl.is og væntanlega forseta Íslands síðar á morgun. Þetta er þá í fyrsta sinn sem að Íslendingur spilar í bestu körfuboltadeild heims frá 1990 ca þegar Pétur Guðmundsson, þá fyrsti Íslendingurinn til að komast í deildina, spilaði með Los Angeles, Portland og San Antonio.

Hér getið þið lesið fréttina.
Hatur mitt á strætisvögnum bæjarins hefur aukist um helming ca eftir að hann mætti fjórum mínútum of seint í stoppiskýlið í morgun sem olli því að ég mætti tólf mínútum of seint í stærðfræði, sem var allt í lagi því kennarinn var ekki tilbúinn sökum tæknilegra vandamála býst ég við.
(Kaldhæðni hefst) Frábært hvað það er gríðarlegt magn af hraðahindrunum í Reykjavík (kaldhæðni líkur). Í götunni sem liggur að Tunguveginum (þar sem ég bý) , á ca 400 - 500 metra kafla, eru 5 hraðahindranir. Til að setja þetta í rétt samhengi fyrir fólk sem er laust við fjarlægðarskyn þá er þetta eins og ef það væru 15 hraðahindranir á aðalveg Fellabæjar (hringinum öllum ca) eða 34 hraðahindranir í Egilsstaðaskógi, stærsta hringnum ef hann væri malbikaður.

Þetta veldur því allir dagar eru slæmir hárdagar hjá mér og eflaust fleirum.

mánudagur, 1. september 2003

Í dag hóf ég líkamsræktarátak í Súkkulaðiverksmiðjunni. Þriggja mánaða kort var á léttu tilboði, kr. 9.990 og er það lítið verð fyrir að fá að nota augnskanna í hvert skipti sem mætt er. Fyrsta tímann tókum við í dag, spiluðum körfubolta og spáðum í fallega fólkið. Tinna Alavis var þarna en af því ég er blindur þá sá ég hana ekki þrátt fyrir að hafa teygt með henni.
Það var svo rétt eftir sturtubaðið að ég uppgötvaði að ég hafði lést um fjögur kílógrömm frá því ég kom í borg óttans, þá fullklæddur eftir að hafa ekki hreyft mig alla vikuna, utan skokks sem ég tók á miðvikudagskvöld og í gærkvöldi, sunnudagskvöld. Svona getur mannslíkaminn verið stórkostlegt fyrirbæri.

Ekki láta koma ykkur á óvart ef ég kem á Subaru Impresu á álfelgum og spoiler kit, með gullkeðju um hálsinn og kolsvartur af sólbekkjum (eða appelsínugulur af kremi einhverskonar) í ermalausum bol um jólin eftir þriggja mánaða lyftingar.
Mig minnir að ég hafi nýlega lesið að það heitasta af öllu heitu í dag væri að vera með 3 bólur á nefinu, ef ekki meira. Það var fyrir einskæra tilviljun að leit í spegilinn stuttu eftir og uppgötvaði að þær voru þrjár á mínu nefi. Ég tolli því í tískunni í dag og stoltur af því, en það er víst dauðasynd, sem er líka í tísku þessa dagana.