föstudagur, 31. ágúst 2007

Ég hef klippt á eitt af þeim VISAkortum sem ég nota. Þar með hefur kortunum fækkað um 20%. Neyslan minnkar um 0% við þetta en rassinn á mér minnkar um 13%, þar sem ég geymi kortin í rassvasanum.

fimmtudagur, 30. ágúst 2007

Í dag átti ég erfitt með að skilja af hverju ég sá ekkert fyrir hári, þegar ég var með hárið smurt aftur fyrir hnakka. Þegar nokkrir tímar voru liðnir fattaði ég að það var ekki hárið á hausnum á mér sem var fyrir heldur augabrúnirnar.

Þannig að ég setti þær bara í tagl og nú finnst mér ég sjá allt.
Ég hef sorgarfréttir að færa. Ég hef sagt Champion körfuboltaskónum mínum upp störfum frá og með deginum í dag. Þessi uppsögn kemur í kjölfar þess að botninn á skónum er að detta af.

Aðdragandinn er langur. Í byrjun árs komu í ljós brestir í skónum, eftir ca 6 mánaða störf hjá mér. Í maí sagði ég honum að taka sig taki eða vera rekinn. Hann lét í framhaldinu líma sig saman en allt kom fyrir ekki, þeir rifnuðu aftur og hafa verið þannig síðan.

Um síðustu helgi mættu þeir svo fullir til vinnu. Þá fékk ég nóg.

Æ.. Tralli grét. Ég grét. Allir grétu.
Starf Tralla Champion (nafnið á skónum) hefur nú þegar verið fyllt af nýútskrifuðum skóm sem heita Aðalsteinn And 1. Á myndinni sést Tralli afhenda Aðalsteini lyklana að skrifstofunni, frekar súr á svipinn (vinstra megin).

Við (ég og fæturnir) þökkum Tralla fyrir vel unnin störf og bjóðum Aðalstein velkominn í fyrirtækið.

Ef einhver vill ráða Tralla í vinnu, hafið samband við mig.

miðvikudagur, 29. ágúst 2007

Eftir þetta kvöld veit ég hver mín versta martröð er. Hún er að vera að býsnast við að taka linsurnar úr augunum og takast það eftir talsverðan tíma, bara til að uppgötva að ég var ekki með neinar linsur í augunum til að byrja með.

Þetta gerðist næstum í kvöld, nema ég var með linsur í augunum. Og ég grét talsvert meira en ég myndi gera ef martröðin rættist.

Ef linsur væru manneskjur þá væru þær mínir nýju erkióvinir.
Ég er búinn að plana kvöldið. Í fyrsta sinn í langan tíma felur það ekki í sér bíóferð. Það að fá ókeypis í bíó fyrir tvo í senn (af því ég vinn hjá 365), hefur reynst mér mesta bölvun sem ég hef kynnst, fyrir utan að vera með samvaxnar augabrúnir og engin bringuhár.

En allavega, ekkert bíó í kvöld. Ef ég þekki mig rétt mun ég bugast af bíóleysinu og hanga fyrir utan bíóhúsið með popp og kók, spyrjandi fólk hvaða mynd var í gangi og hvernig hún hafi verið. Vonandi tekur fólk betur í það en síðast.
Vel á minnst: þið sem eruð að nota tæknisíður sem skoða bloggin fyrir ykkur eins og google reader, þá getið þið bætt þessu bloggi við í hauginn með því að bæta þessu við:

http://finnurtg.blogspot.com/atom.xml

Tryllt stuð!

þriðjudagur, 28. ágúst 2007

Takið eftir einu næst þegar þið farið í bíó, ef þið farið einhverntíman í bíó:

Íslenskar bíómyndakynningar eru þær bestu í heiminum. Þær innihalda flestar amk 6-7 af eftirfarandi atriðum:

1 skrítinn náungi.
1 skrítinn náungi að segja eitthvað óhugnarlegt.
1 sena sem inniheldur eld.
2 setningar öskraðar.
1 stelpa sem er mjög reið.
1 hótun.
2 gervilegir hlátrar.
15 setningar frá amk 5 mismunandi karakterum.
1 maður á nærbuxunum, mögulega skrítinn náungi.
2 dramatíkur.
1 illa farið hús.

Þessu er svo öllu hrært í einn graut og hnoðað saman í kynningarbrot, svo áhorfandinn viti örugglega ekkert um hvað myndin er. Nýjasta dæmið um svona kynningu er fyrir myndina Veðramót (sjá að neðan).

Mæli mjög með því að fólk mæti tímanlega til að sjá þessa kynningu. Eða sjái hana hér að neðan:



Ef þið farið ekki í bíó, ekki taka eftir þessu.
Stórrapparinn Snow er snúinn aftur með lagið Legal, en það fjallar um ógöngur hans við kynni á einhverri mellunni. Eins og alþjóð veit fjallaði fyrra lagið hans um ógöngur hans þegar kom í ljós að einn vina hans var uppljóstrari.

Snilldarrapp, ef þið lítið framhjá Emmyverðlaunaleik í upphafi myndbands:




Hér eru svo fleiri myndbönd með þessum meistara.

mánudagur, 27. ágúst 2007

Cliff er alltaf hress, enda alltaf blindfullur.

Áðan ætlaði ég að skrifa eitthvað stórbrotið í lófann á mér, svo ég hefði eitthvað til að blogga um eftir hádeginu. Um leið og ég ætlaði að gera þetta, var ég að spjalla við Óla Rúnar um hljómsveitina Cliff Clavin. Þegar ég svo mætti í vinnuna kom í ljós að ég hafði skrifað "Cliff Clavin" í lófann á mér í staðinn fyrir þetta mikilvæga.

Ég verð því að blogga um hljómsveitina Cliff Clavin. Fyndið nafn á hljómsveit. Sérstaklega þar sem póstburðarmaðurinn í Cheers (Ísl.: Staupasteinn) heitir Cliff Clavin líka. Meira hef ég ekki að segja um þessa hljómsveit þar sem ég hef ekkert heyrt frá henni.

sunnudagur, 26. ágúst 2007



Allur þessi sunnudagur var notaður í að umgangast Eika frænda, sem var staddur í bænum. Hann meðal annars rassskellti mig í Snóker, í fyrra skiptið 67-21 og seinna skiptið 37-30. Ég náði þó hefndum með því að skera á dekkin hjá honum.
Ég er hættur að segja bara frá því jákvæða sem gerist hjá mér, svo fólk fái raunsæjari mynd af mér:

* Í gær spilaði ég póker með vinum. Í fyrra mótinu, þegar alls 9 manns spiluðu, varð ég í 2. sæti. Ég var gríðarlega heppinn að ná 2. sæti. Eins og ég spilaði hefði ég átt að detta fyrstur út, eins og í seinna mótinu, þegar 6 spiluðu. Brjóstumkennanlegur árangur.

* Á körfuboltaæfingu í dag var ég með verri mönnum, var enn þreyttur eftir lyftingar í gær, þar sem ég tók frekar létt lóð af því ég er aumingi.

* Ég fór á Simpsons myndina í bíó um daginn og steinsvaf allan fyrri hlutann, eftir að hafa tekið óvart svefntöflur fyrir sýningu (en ekki amfetamín. Löng saga að segja frá.). Þarf að fara aftur á hana fljótlega.

* Ég setti óvart allan hvíta þvottinn minn með dökku í þvott í dag. Nú er allt mitt hvíta ýmist dökk dökk grátt eða dökk dökk dökk grátt.

Þar hafið þið það. Ég skil vel ef þið hættið að lesa bloggið þar sem mín fullkomna ímynd er brotin.

föstudagur, 24. ágúst 2007

Ef bíóhús er líkami kóngs, bíómyndin er föt viðkomandi líkama, leikstjóri myndarinnar er klæðskeri og áhorfendur þegnar kóngsins, þá er kvikmyndahúsið kviknakið þegar myndirnar Death Proof og Planet Terror (öðru nafni Grindhouse) eru sýndar, eftir hina frægu klæðskera Quentin Tarantino og Robert Rodriguez.

Verst að þegnar kvikmyndahúsanna keppast við að lofa glórulausan kónginn, sem er með allt niðrum sig. Ég er einn nógu heimskur til að sjá að þessar myndir eru sorp. Mjög rosalega vondar myndir. 0 stjörnur af 4, samtals og að meðaltali.

Gott popp og kók í kónginum samt.

fimmtudagur, 23. ágúst 2007

Í dag lærði ég að líkaminn notar amk 15 vöðva í ilunum til að halda jafnvægi. Þessir vöðvar geta líka framkallað talsverðan sársauka, sérstaklega ef einhver myndi t.d. mæta á körfuboltaæfingu í gærkvöldi og fá mjög miklar harðsperrur í iljarnar í dag.

Sem betur fer kannast ég ekkert* við þetta, þar sem ég er í svo góðu* líkamlegu formi. Ég stóð mig annars vel* á körfuboltaæfingunni og skemmti mér konunglega.

En nóg um það. Ég hef nóg annað að gera* en að skrifa bloggfærslur.

* Lygi.

miðvikudagur, 22. ágúst 2007

Þema/þemi(?) dagsins eru líkamshár, sem útskýrir þessa færslu:

Í morgun komst ég að því að ca. helmingur bringuhára minna eru orðin grá. Ég var ekki lengi að redda málinu og plokkaði gráa hárið, brenndi það undir leiðsögn fagmanna og henti svo öskunni í ruslið. Að lokum bað ég slökkviliðið ekki um að nefna þetta vandræðalega mál við neinn. Vandamál leyst!
Í dag mun ég:

* Missa 86 metra af hárum í gegnum rakstur á andliti og endurnýjunar á höfuð- og líkamshárum.
* Aka um 86 kílómetra, en ég keyri talsvert mikið þessa dagana.
* Vinna í 86 mínútur alls, af 480 mínútna vinnudegi. Fín nýting.
* Lesa 86 blaðsíður af dagblöðum, en Fréttablaðið og Blaðið í dag eru ca svo stór í dag, samtals.
* Vera 86 sekúndur að skrifa þessa færslu.
* Fá 86 gesti á síðuna, vonandi.
* Fá 0 athugasemdir undir þessa færslu.

Líflegur dagur framundan.

þriðjudagur, 21. ágúst 2007

Það er komið að hinu semi-árlega tískuhorni síðunnar!

Ég mæli ekki með einhverju af eftirfarandi:

* Að vera í of víðum buxum.
* Að vera í aðeins of lítilli peysu.
* Að vera í boxer nærbuxum sem smámsaman togast upp á bringu, einhverra hluta vegna.
* Að vera í hlírabol sem lyftist upp með deginum og endar eins og toppur.

Til að sanna mál mitt, en ekki vegna smekkleysu, var ég í öllu ofantöldu í gær. Ofan á þetta má svo bæta að ég gekk eins og kúreki, af ástæðum sem taldar eru í færslunni fyrir neðan. Aleiðingarnar voru þær að nú veit allt rassablætisáhugafólk í hvernig nærbuxum ég geng, sem er slæmt.

Í næsta tískuhorni mun ég fjalla um smekklega geimbúninga til að klæðast í sumarfríum til tunglsins.
Sárið, sem ég talaði um að ég hafi fengið í körfubolta, fyrir nokkrum dögum hefur verið dregið í efa af geðsjúkum einstaklingi (mér). Til að sanna það birtist hér með mynd af því, rétt áður en púðri var troðið í það.



Þetta sár, sem myndaðist þegar blaðra hvellsprakk, hefur valdið því að ég hef gengið eins og kúreki síðustu daga, þannig að þetta er ekki alslæmt. Þetta er annars ógeðsleg il.

mánudagur, 20. ágúst 2007

Það er ótrúlegt hvað litlir hlutir geta breytt miklu. Þetta uppgötvaði ég í ca 200. skipti sem ég keppti í sumarleik Coke, sem ég hef nefnt áður hér.

Ef Ipod hefði verið nefnt "Reyndu aftur", ætti ég ca 200 Ipod spilara, gæti stofnað fyrirtæki, selt þá og orðið vellauðugur. En nei, snillingarnir hjá Apple þurftu að koma með þetta fáránlega nafn; Ipod. Hvað er það?!?
Í dag bar ég hátt í 3 tonn af innbúi milli staða með aðstoð Bergvins, sem ég skulda hér með mitt fyrsta afkvæmi fyrir hjálpina.

Ekki nóg með það heldur fór ég strax frá flutningum í að spila körfubolta í tvo tíma.

Ekki nóg með það heldur reif ég svo upp á mér ilina á æfingunni að ég þurfti að klippa húð í burtu, setja púður í sárið, kveikja í og setja svo Bangsimon plástur á bágtið.

Og ekki nóg með það heldur, því ég verslaði líka inn OG raðaði í því í ísskápinn.

Þið þarna úti; ég er ekki ofurhetja. Þið getið þetta líka. Bara fáið ykkur spandex-ofurhetjusamfesting eins og ég og þið getið allt!

laugardagur, 18. ágúst 2007

Ég stend í flutningum þessa helgina, þannig að ég get lítið skrifað. Þess í stað sýni ég áhugaverða klippu úr Back to the Future:




Ótrúlegt hvað þessi mynd eldist á dauðarokklegan hátt.


Ég lærði það á vandræðalegan og nakinn hátt að þessi óskapnaður á myndinni er stytta en ekki gjörningur.

Hana er að finna fyrir utan Laugar, en þangað hef ég tekið stefnu mína eftir ár hjá Veggsporti þar sem ég þóttist lyfta lóðum, en horfði aðallega bara á sjónvarpið. Í Laugum er hinsvegar Sovéskur agi, svo nú mun ég koma mér í form. Annars er mér að mæta!

fimmtudagur, 16. ágúst 2007

Það sem kemur mér mest á óvart varðandi flutningana sem þarf að vera búið að ljúka á mánudaginn, er að þeir er bara mjög auðveldir og skemmtilegir.

Uppáhaldshluti flutninganna er að liggja og horfa á sjónvarpið. Ég fer að verða búinn með þann hluta. Næsti hluti felst í að flytja drasl á milli húsa og þrífa. Það verður vonandi jafn skemmtilegt og fyrsti hlutinn. Ég byrja á því á morgun.

Allir eru velkomnir að hjálpa, þó ég efist um að nokkur gangi að því frábæra tilboði.

miðvikudagur, 15. ágúst 2007

Það gleður mig að tilkynna að nýtt útlit er komið á Arthúrssíðuna. Ekki nóg með það heldur hefur verið opnað fyrir athugasemdakerfið aftur. Og það er ekki allt. Athugasemdakerfið hefur verið íslenskað af virtum vísindamönnum í íslensku. En bíðið. Það er meira! Nú er hægt að panta boli og bolla aftur, með hvaða strípu sem er á mjög slæmu verði!

Fljótlega mun Arthúr svo verða búinn til í mannformi. Til þess þarf þó kvenmann til að ganga með afkvæmið og þá sennilega karlmann til að geta það. MannArthúr, eins og hann mun heita, verður í boði Kaupþings, ef samningaviðræður ganga eftir.

Allavega, kíkið hér og kommentið.
Í gær ætlaði ég að blogga um að ég gleymdi einhverju, einhversstaðar á mikilvægum stað svo úr varð eitthvað mjög fyndið. En þá gleymdi ég að blogga í gær.

Í dag ætlaði ég því að bæta úr því með því að skrifa niður þessa minningu, en var þá búinn að gleyma hverju ég hafði gleymt og hvar.

Ég man samt að þetta var eitthvað rosalega fyndið. Vonandi nægir það. Amk þangað til ég gleymi að ég hafi gleymt þessu og man þessa frábæru sögu.
Í fréttum er þetta helst:

* Í gær svaf ég í 15 klukkustundir samtals. Það gera 62,5% af deginum og ca 9% af vikunni.
* Ég man nánast ekkert frá gærdeginum, þar á meðal engin símtöl og engar bílferðir.
* Ég stend í flutningum þessa dagana. Verð að vera fluttur út 20. ágúst. Þá flyt ég tímabundið til pabba eða til 6. september, þegar ég flyt í íbúð í Hafnarfirði.
* Ég var að koma úr bíó af myndinni Planet Terror. Terror er rétta orðið. 0 stjörnur af 4. Meira um það síðar.

Að lokum er hér listi yfir hluti sem mig mun vanta þann 6. september í nýrri íbúð:
* Sjónvarp.
* Skrifborð.
* Eldhúsborð og stóla.
* Gullbakklóru, skreytta demöntum.
* Ca kr. 1.500.000 í reiðufé.
* Þurrkari.

Ef einhver ætlar að fleygja einhverju af þessu, láttu mig vita áður. Ég vil vita hvar.

þriðjudagur, 14. ágúst 2007



Ég hef opnað nýtt myndaalbúm. Fyrsta mappan í albúminu er frá heimsókn Styrmis bróðir með syni sína tvo, Kristján og Gabríel, hingað til lands í byrjun ágúst. Skoðið það hér.

Og vinsamlegast skrifið athugasemdir við myndirnar. Ekki láta mig grátbiðja ykkur.

mánudagur, 13. ágúst 2007

Þetta er búinn að vera sérkennilegasti dagur ársins fyrir mig. Ég tók frí til hádegis (á inni sumarfrí) og svaf frá miðnættis til hádegis. Þá mætti ég til vinnu, þar sem ég var steinsofandi. Þaðan fór ég beint heim klukkan ca 18:00, þar sem ég sofnaði til klukkan 21:00.

Þá tók við að pakka aðeins niður, þar sem ég flyt héðan í lok viku. Svo settist ég fyrir framan sjónvarpið og steinsofnaði.

Ég vaknaði rétt í þessu, klukkan 1:00 að nóttu og löngu kominn tími til að fara að sofa.

Samkvæmt símanum mínum hringdu í mig 6 manns í dag. Ég man ekki eftir þeim samtölum. Biðst velvirðingar á því.

Þreytudagurinn mikli að baki. Á morgun verð ég aftur ég sjálfur. Ég lofa.
Þessa vikuna mun ég standa í flutningum. Þeas ég flyt úr íbúðinni til pabba, hvar ég verð í 2-3 vikur eða til 6. september þegar ég flyt í íbúð í Hafnarfirði með kunningja mínum.

Síðast þegar ég kom til Hafnarfirði var tekið á móti mér svona:



Hafnarfjörður þýðist yfir á ensku sem Awesometown.

Í Hafnarfirði varð ég vitni á þessu á einni götunni:



Spennandi!

laugardagur, 11. ágúst 2007

Ég er búinn að vera ca 2 daga að reyna að skrifa eitthvað við þessa mynd, sem er nokkuð slæmt þar sem myndin er tekin fyrr í dag. Hér kemur eitthvað:

Þetta er Helgi. Hann er bróðir minn. Hann var að fá sér sín fyrstu sólgleraugu. Þau voru keypt af samkynhneigðum karlmanni. Helgi er nokkuð sáttur við kaupin. Þau kostuðu bara 12 krónur á fermetrann.

föstudagur, 10. ágúst 2007

Það virðist ekki vera hægt að blogga í dag. Blogger er eitthvað bilaður.

Ég vona að enginn sjái í gegnum þessa lygi.

fimmtudagur, 9. ágúst 2007

Hér eru tvær ábendingar fyrir þá sem ætla sér út á lífið á næstunni og hafa einhverja ónáttúrulega þörf til að dansa eða dilla sér karlmannlega við tónlist:


D.A.N.C.E. - Justice


We are your friends - Justice vs. Simian

Gaman að segja frá því að það var enginn annar en Albert Einstein sem samdi textann við bæði lögin.


Ha? Finnst þér eðlilegt að troða puttunum í nýþröngu holur? Sagði yfirvaraskeggsfíkillinn Helgi þegar ég tók mig til og lyfti einni nýþungri og hugðist notfæra mér hana.

Fjölskyldukeilukvöldið gekk vonum framar og allir skemmtu sér vel, nema Helgi (sjá mynd að ofan) sem sagði okkur öll vera perra og neitaði að nota keilukúlurnar, "af virðingu við kvenmenn". Hann hitti aldrei neina keilu með hugarorkunni og fékk 0 stig.

Að öllu gamni slepptu þá... var farið í keilu um daginn.

miðvikudagur, 8. ágúst 2007

Í gær náði ég þeim árangri að skrifa bloggfærslu númer 2.900 á þessa síðu.

Ef ég held áfram að blogga 2 færslur á dag mun ég ná færslu númer 3.000 þann 27. september næstkomandi. Merkið því við daginn. Sú færsla mun, því miður, fjalla um veðrið í Reykjavík, ef ég þekki mig rétt.

Í næstu færslu mun ég taka fyrir færslu númer 2.901 en hún er merkileg af því þá eru akkúrat 923 færslur síðan færsla númer 1978 var skrifuð, en það ár fæddist ég, sælla minninga.

þriðjudagur, 7. ágúst 2007

Um verslunarmannahelgina var ég svo upptekinn að ég bloggaði bara einu sinni á dag. Skammarlegt auðvitað en það var góð ástæða fyrir því. Ég hef legið baki brotnu við að gera myspacesíðu, sem ég hyggst nota sem "um mig" síðu, ef ég fæ hana til að virka almennilega.

Allavega, þið getið séð síðuna hér. Endilega sækið um vináttu mína með hnappinum "add to friends". Efni verður bætt við síðuna á næstunni.
Stysta símtal sem ég hef átt, fór fram í dag:

*Síminn hringir*
Ég: "Sæll"
Jónas: "Það er maður í afgreiðslunni, hringi síðar"
Ég: "Takk fyrir spja..."
*Símtali lokið*

Jónas kann að orða hlutina.

mánudagur, 6. ágúst 2007

Í dag tókst mér að verða fyrir hnjaski við að spila póker. Við eina gjöfina flísaðist úr borðinu og í lófann á mér, stærðarinnar trjádrumbur. Sársaukinn var gríðarlegur en ég náði að klára mótið. Meiðslin urðu þó til þess að ég lenti í næstsíðasta sæti, enda erfitt að spila með tárvot augu og bjálka í hendinni.

Verktakar fjarlægðu svo flísina sem næstum var komin í blóðrásina, sem hefði valdið mér gríðarlega kvalarfullum dauðdaga.

sunnudagur, 5. ágúst 2007

Gabríel:


Kristján:


Styrmir bróðir er mættur til landsins frá Svíþjóð með syni sína tvo; Kristján og Gabríel, sem nýlega voru úrskurðaðir fallegustu börn allra tíma af mér. Því til sönnunar eru hér tvær myndir að ofan af þeim. Frekari sannanir eru óþarfar. Málinu er vísað frá (e.: case closed).

laugardagur, 4. ágúst 2007

Mér finnst óþolandi að vera með harðsperrur í maganum. Mér finnst líka leiðinlegt að vera með óstoppandi hnerra. En að vera með harðsperrur í maganum og óstoppandi hnerra sama dag er það versta sem ég hef upplifað, fyrir utan að reyna að raka mig án raksápu.

Ég hef þó fundið leið til að stöðva hnerrann. Þegar ég er alveg að fara að hnerra þá gef ég mér frekar þungt hnefahögg í andlitið. Það stoppar hnerrann og kemur í veg fyrir verk í harðsperrurnar.

föstudagur, 3. ágúst 2007

Tómatsósu-Arthúr.


Síðast þegar ég borðaði með Jónasi Reyni (fyrir rúmu ári síðan) varð til þessi mynd við að borða franskar kartöflur í tómatsósu, fyrir algjöra tilviljun. Tilviljunin er svo mikil að ég réði illa við mig. Fréttastofur landsins og heimsins afþökkuðu þó þessa frétt, einhverra hluta vegna en komi andlit Maríu Meyjar á ristað brauð þá verður allt vitlaust!
Nokkrir punktar úr mínu lífi:

* Ég hef gleymt ca öllu síðasta sólarhringinn. M.a. sundskýlunni í sundlaug, að borga VISA reikninga, að taka íþróttafötin með í vinnuna, að borða og sofa.

* Styrmir bróðir er mættur í vikuheimsókn til landsins með syni sína tvo, Gabríel og Kristján. Ég ætla að ganga í barndóm aftur og leika við strákana hans sem allra mest. Ef ég virðist barnalegur á næstunni þá keyptu þér standara.

* Ég synti 600 metra á rétt rúmlega hálftíma í gær. Þar af 325 metra af skriðsundi, sem er sennilega heimsmet í fjölda skriðsundsmetra, ef marka má hversu erfitt þetta er. Þessi hálftími af sundi tók mig ca 2 tíma að framkvæma, þar sem ég tók mér pásur inn á milli og spjallaði við sundfélaga minn.

* Ég hlusta á Afgan með Bubba og ferðast aftur í tímann.

fimmtudagur, 2. ágúst 2007

Í gær, á leið í sturtu fyrir framan spegilinn, tók ég eftir að ég er hálfur svertingi. Ég er með fæðingarblekk á stærð við smávaxna melónu á bakinu, sem útskýrir af hverju ég hef svolítið gaman af rappi. Ég vona að áhugi minn á rappinu aukist ekki í framtíðinni, sérstaklega ekki á krabbameinsrappi.

miðvikudagur, 1. ágúst 2007


Á ársfjórðungsfundi veftímaritsins Við rætur hugans, var frumsýnt nýtt skjal sem sýnir bæði gengi hlutabréfa og fjölda athugasemda skrifaðar á mánuði á þessa síðu, með einni og sömu línunni og sama x-ás.

Myndin sýnir að nýjasta herferð síðunnar, að blogga stuttlega tvisvar á dag, hefur margfaldað virði fyrirtækisins og aukið virkni lesenda. Viðbrögð ritnefndarinnar voru þau að standa á fætur, öskra og skjóta úr rifflum sínum upp í loftið.

Þar sem þetta er að reynast svona vel hef ég ákveðið að framlengja þessari bloggaðferð um óákveðinn tíma. Fylgist því með í amk óákveðinn tíma.
Í dag á mitt eina afkvæmi afmæli. Það er 2ja ára. Afkvæmið heitir Arthúr og er teiknimyndasaga, en hún kom í heiminn 1. ágúst 2005.

Sem betur fer er ég ekki einstæður pabbi. Jónas Reynir reynir (haha) sitt besta að standa sig sem helgarpabbi, en hann teiknar Arthúr. Ég er samt ekki samkynhneigður, þó ég hafi eignast afkvæmi með öðrum karlmanni. Þetta var stafræn gervifrjóvgun á sínum tíma.

Allavega, kíkið hér fyrir Arthúr dagsins.