mánudagur, 30. júní 2003

Það vantar svona föt á Ísland. Þá helst á Íslensku auðvitað. Ég myndi kaupa umtalsvert magn.
Var að koma af körfuboltaæfingu þar sem var metmæting eða rétt rúmlega 14 manns. Merkilega skemmtileg íþrótt og þegar réttur hópur spilar gerist lífið ekki betra. Aldrei þessu vant stóð ég mig ágætlega en hefði getað verið betri í vörninni. Að þyngjast um 20 kíló væri ágætis byrjun.
Það rifjaðist upp fyrir mér í gær þegar ég horfði enn einu sinni á Fight club að maðurinn sem leikur feita og lata manninn í myndbandinu við lagið 'Lazy', sem David Byrne syngur við undirleik einhverra tölvugúrúa, leikur afgreiðslumanninn á flugvellinum í Fight club þegar eitthvað titrar í tösku aðal söguhetjunnar (sem á sér ekki nafn framan af mynd). Að sjálfsögðu varð ég að fletta honum upp (feita og lata manninum) og komst að því að hann heitir Robert J. Stephenson og er að finna hér. Það er greinilegt að Fight club hefur fleitt honum áfram í átt að heimsfrægð, rétt eins og tilveran.is hefur gert við mig og mína síðu í morgun. Takk tilvera.
Hún K@rín.is @ladóttir fór að tala um hveru ömurleg landsbyggðin er á síðunni sinni og auðvitað missti ég stjórn á mínu mjög mikla skapi og sagði ýmislegt sem ég hefði kannski ekki átt að segja. Það sem skiptir öllu máli í þessu er að:
1) hún var að spauga með landsbyggðina.
2) ég náði rétt svo að bjarga andliti (finnst mér).
3) hún nefndi mig á nafn í blogginu sínu (með hlekk á mig) sem olli því að ég nánast sprakk í loft upp af hamingju.

Ævintýrin sem maður lendir ekki í á internetinu.

sunnudagur, 29. júní 2003

Þessi samantekt er ekki tiltæk. Smelltu hér til að skoða færsluna.

laugardagur, 28. júní 2003

Hörkudagur að baki þar sem ég sló skattstofugarðinn á ca 2-3 tímum, skrapp í körfubolta á nýsópuðum velli (kærar þakkir(!) til þeirra sem það gerðu) og rúntaði sallarólegur í 20 stiga hita. Dagurinn er þó hvergi nærri búinn því mér er boðið í grillveislu hjá Bergvini í sunnufellinu.
Helgin komin sem þýðir að ég verð að slá garðinn á skattstofunni fyrir yfirvinnupening. Merkilegt hvað gras vex hratt, ég sló þetta síðast fyrir 12 dögum síðan. Þetta er svosem ágætt, fín afsökun fyrir að vera úti.

Tók annars gærkvöldið í sjónvarpsgláp, aldrei þessu vant og horfði á American outlaws, sem er bæði barnaleg og vitlaus og fær ca 1 stjörnu af 4 frá mér. Hin myndin sem ég horfði á var Charlies Angels. Hún er öllu skárri enda á hún að vera barnaleg og vitlaus. Sum atriðin eru mjög flott og svo auðvitað jaðrar þetta við klám þegar kroppasýningin stendur sem hæst. Charlies Angels fá 3 stjörnur af 4.

föstudagur, 27. júní 2003

Ég gleymi að segja frá því að í dag er alþjóðlegi 'skrifaðuígestabókinaeðaégkýliþigíandlitið' dagurinn þannig að ég hvet sem flesta til að gera eins og dagurinn segir, hér.
Í gær rak ég upp stór augu þegar ég sá auglýsingu frá sjónvarpshúsinu eða einhverju álíka fyrirtæki. Þar var verið að auglýsa sjónvarpstæki ýmiskonar, þar á meðal 6 tommu sjónvarp sem er ekki svo skrítið þar sem þau geta verið þægileg nema að með þessu sjónvarpi var fjarstýring. Hver í ósköpunum horfir á 6 tommu sjónvarp úr meira en metra fjarlægð?
Ég sá rétt í þessu konu í station bifreið, bakka úr stæði yfir á umferðargötu um leið og hún talaði í gsm símann sinn. Ég horfðist í augu við dauðann en náði að víkja mér fimlega frá. Hættulegri verða ekki bílstjórarnir, nema konan hefði auðvitað verið á jeppa. Þá væri ég heldur ekki að skrifa þetta núna.

fimmtudagur, 26. júní 2003

Mig vantar 3 sjálfboðaliðastelpur til að eyða rómantísku kvöldi í þetta. Mig hefur alltaf langað til að prófa þetta. Ég skal bjóða upp á appelsín, spægipulsu og morgunmat fyrir þær sem bjóða sig fram.
Nú fer ég að sjá fyrir endann á þessum veikindum mínum og þarmeð farið að hreyfa mig eitthvað af viti. Það verður sérstakt að sjá mig þegar ég loksins hleypi mér út til að hreyfast, sennilega eitthvað svipað þessu, þessu eða því þegar beljum er sleppt út á vorin.
Í hádeginu í dag snaraði ég fram dýrindis máltíð og nú skal ég kenna ykkur vitleysingunum hvernig það skal gera. Ég ætti samt að vara ykkur við, þetta er það flóknasta sem ég hef eldað um ævina og óvíst hvort fólk geti framkvæmt þetta án þess að slasa sig. Í þetta sinn eldaði ég saltkjöt í baunasúpu með hvítlauksbraði, appelsínusafa (freyðandi) og súkkulaðieftirrétt.

Til að elda svona máltíð þarf eftirfarandi:

Saltkjöt í baunasúpu:
Baunir
grænmeti ýmiskonar (gulrætur og flr)
saltkjöt
smá beikon (forsteikt)
vatn
salt

Hvítlauksbrauð:
Hveiti
Ger
Vatn
Hvítlauksolía

Súkkulaðieftirréttur:
Súkkulaði
kex
Kókosmjöl

Leiðbeiningar:
Aðalréttur:
Takið 1944 réttinn 'saltkjöt og baunir' úr umbúðunum og stingið gat á filmuna. Setið hann í örbylgjuofn í 3 mínútur, mestum hita. Takið úr örbylgjuofni eftir 3 mínútur, fjarlægið plastfilmuna, náið ykkur í skeið og borðið. Takið hvítlauksbrauðið úr umbúðunum og setjið í ofninn í 180° hita í ca 10 mínútur. Munið að taka brauðið úr ofninum eftir ca 10 mínútur, annars gæti farið illa. Ágætt er að borða brauðið með súpunni og kjötinu. Opnið appelsínudósina.
Eftirréttur:
Takið utan af kókossúkkulaðinu 'Flórída' og borðið með afgangs appelsíninu.

Þetta hljómar kannski flókið en er mjög einfalt í raun og veru. Farið varlega.

miðvikudagur, 25. júní 2003

Slík er hrifning mín af The Hives að ég hef ákveðið að brjóta lög til að dreifa hróðri þeirra. Hér getið þið niðurhlaðið lagi með þeim sem ber nafnið "Hate to say I told you so" og er stórgott. Ef þið niðurhlaðið því og hlustið á af áfergju þá farið þið til himna, annars beint til helvítis börnin góð.
Ef ég kemst að því hvaða bjálfi kom með þá "snilldar"hugmynd að framleiða litla innkaupavagna fyrir ofvirku krakkavitleysingana þá mun ég kyrkja hann. Ég var nefnilega í Kaupfélaginu að versla og allir heimskustu krakkar alheimsins voru að hlaupa um með kerrur þar, ef ekki í hliðina á mér þá fyrir mig. Hvaða tilgangi þjóna þessar kerrur annars fyrir utan að láta eftir ofdekruðum krökkum? Mjög stórt skref aftur á bak fyrir KHB að kaupa inn þennan óþarfa.
Fyrst ég hef mikið verið að tala um sjónvarp eða bíómyndir undanfarið þá er tilvalið að halda því áfram. Þættirnir 'Life with Bonnie' eru á skjá einum um þessar mundir og fjalla þeir um konu sem á fjölskyldu og sér um morgunþátt í bandarísku sjónvarpi. Fjöldinn allur af sæmilega þekktu fólki skýtur upp kollinum og dautt fólk hlær að bröndurum. Ég býst við því að þetta eigi að flokka undir gamanþætti en ég er þó ekki viss. Ég hef amk aldrei svo mikið sem brosað í annað að þessum þáttum, hvað þá meira. Þetta er ágætisdæmi um 'skondna' konu sem fær nægilegt fjármagn til að gera sína eigin þætti. Í raun eru þessir þættir svo sorglegir að ég legg allt í sölurnar til að sleppa við að horfa á þá og þegar ég hugsa nánar um það þá held ég það þetta séu verstu þættir sem ég hef nokkurntíman séð. Ég hvet sem flesta til að kíkja á þá og vera sammála mér.
Smá getraun: Hvaða land í heimininum er með flest fólk fangelsað miðað við höfðatölu? Smá vísbending: þau kalla sig land hinna frjálsu.

þriðjudagur, 24. júní 2003

Ég gleymi að minnast á það að ég hef tekið út alla mína happdrættisheppni með einum smáskilaboðum í símann. Fyrir rúmri viku var ég staddur heima hjá mömmu, hafandi ekkert að gera og enginn heima. Tók ég þá upp á því að senda eitt stykki af smáskilaboðum í einhvern leik, sem kostaði mig kr. 99. Upp úr krafsinu fékk ég smáskilaboð þar sem mér var kunngjört að ég hafi unnið inn umgjarðir á GSM símann mínn að verðmæti kr. 2.490. Fyrir utan að umgjarðir á gsm síma eru með öllu tilgangslausar þá eru þær fáránlega dýrar eins og ég komst að í BT þegar ég gat aðeins fengið 1 umgjörð fyrir innistæðuna. Það er þó ekki laust við að ég sé örlítið vinsælli eftir að ég fékk mér þessa umgjörð.
Ég veit að ég hef nefnt þetta áður en ég verð að gera það aftur. Það er ekki hægt að mæla nógu mikið með sænsku pönk-popp hljómsveitinni The Hives en ég hef verið að hlusta á diskinn Veni Vidi Vicious síðasta hálfa árið ca með kaffipásum og hann verður bara betri með tímanum. Hér er góð síða á yahoo þar sem þið getið m.a. séð myndbönd frá þeim, sem eru stórsniðug fyrir frábæra framkomu piltanna. Þeir komu meira að segja til landsins í fyrra að spila en annaðhvort peningaleysi eða heimska olli því að ég fór ekki. Ég gef disknum Veni Vidi Vicious 4 stjörnur (af fjórum mögulegum) þrátt fyrir að hann sé aðeins 28 mínútur að lengd.

mánudagur, 23. júní 2003

Sumarsólstöður komnar og farnar sem þýðir að núna fer dagurinn að vera dimmari og dimmari. Sennilega sorglegasti dagur ársins því þá áttar maður sig alltaf á því að áætlarnir fyrir sumarið standast engan veginn. Skammdegisþunglyndi hér kem ég!
Enn og aftur horfði ég á myndbandsspólu í gær. Í þetta sinn myndina 'The Guru' sem er sérstök mynd svo ekki sé meira sagt. Hún fjallar um Indverja sem fer til Bandaríkjanna til að slá í gegn en flækist í klámið. Eins og svo oft áður þá leiðir eitt af öðru og ástin bankar á dyr. Söguþráðurinn er barnalegur og vitlaus, leikurinn (sérstaklega hjá Heather Graham) er slappur en það má samt hlægja að þessu og skemmta sér. Fín afþreying auk þess sem Marisa Tomei kemur nánast fram nakin í myndinni. Ein og hálf stjarna.

sunnudagur, 22. júní 2003

Þá er komið að fyrstu teiknisamkeppninni á veftímaritinu 'við rætur hugans. Þið niðurhlaðið þessari mynd, teiknið á hana andlit og sendið mér á þetta netfang. Vegleg verðlaun í boði.
Í sólskininu í gær og blíðunni ákvað ég að horfa á myndbandsspólu sem innihélt myndina Swimfan. Ég tók þessa mynd í fljótfærni þar sem alltof mikið af fólki var komið inn á vídeóflugu Kidda og hitinn kominn langt uppfyrir velsæmismörk. Myndin fjallar um piltung sem hefur dálæti á því að synda ásamt því að njóta ásta með sinni unnustu þegar ný stelpa flytur í bæinn. Eitt leiðir af öðru sem leiðir af sér þriðja og svo framvegis. Ég er þónokkuð feginn því að hafa leigt myndbandið því sagan er góð en það sem ég tók sérstaklega vel eftir var að hún er mjög vel leikin. Uppsetningin er frumleg og skemmti ég mér konunglega við að horfa á myndina. Hún fær 3 stjörnur af 4, en einu gallar myndarinnar er klisjukenndur endir og nafnið á myndinni en það er ofboðslega lélegt. Jesse Bradford mun að öllum líkindum ná langt.
Ég hef nú notað 3,3 kílómetra af salernispappír í að snýta mér og kvefið rétt að byrja. Ég hlakka til að vakna á morgun og taka annan dag, nákvæmlega eins og þennan (laugardag).

laugardagur, 21. júní 2003

Í þessum nýja kjallara höfum við Björgvin uppgötvað gríðarmikið skordýralíf. Sjálfur myrði ég að meðaltali 1,12 járnsmiði á dag og 0,43 kóngulær á meðan Björgvin fleygir út ca einum járnsmiði (sennilega alltaf sá sami) og myrðir 0,57 kóngulær. Í kvöld funduð við svo nýja gerð af flugu á klósetinu en hún var fínleg með brodd sem hún otaði ákaft að okkur. Hef ég nánast algjörlega losað mig við kóngulóahræðsluna sem hefur hrjáð mig síðustu ca 9 mánuði, eða frá því að kónguló gekk upp í mig á meðan ég dottaði, sælla minninga.

Ef einu járnsmiðamorði fylgir 7 ára ógæfa, eins og mér var kennt í æsku, þá verða næstu 290 árin í mínu lífi óhappaár en eftir það er ekkert nema hamingja og gleði.
Ég hef núna legið fyrir framan sjónvarpið, fárveikur, frá klukkan 10 í morgun að horfa á skjá einn. Eftir tvo tíma af teknó myndböndum áttaði ég mig á því að mér hefur aldrei leiðst jafn mikið um alla mína aumu ævi. Þá ákvað ég að skrifa um það í þessa dagbók og rétt í þessu var ég að uppgötva að núna leiðist mér jafnvel meira en áðan þegar ég var að horfa á sjónvarpið. Helgin verður greinilega fjörug.

föstudagur, 20. júní 2003

Í dag er föstudagur, helgin framundan sem þýðir aðeins eitt; það eru 15,15% líkur á því að ég sé veikur. Ég taldi það saman í dag og komst að því að ég hef orðið veikur 5 sinnum síðustu 33 vikurnar. Alltaf hef ég orðið veikur á föstudeginum og í framhaldi af því eytt helginni í að liggja rænulaus en náð svo nægum bata til að látið sjá mig í vinnu á mánudeginum. Það er vissara að taka það fram að ég er veikur þennan föstudaginn og mun eyða helginni í að láta mér batna. Einnig reiknaði ég út að ef þetta heldur svona áfram verð ég veikur fjórum sinnum í viðbót áður en árið er búið og yfirgnæfandi líkur eru á því að það gerist á föstudegi.
Ég sá Ísland í dag í gær í Fellabæ í góðum fíling. Skyndilega tók ég eftir því að Dóra Takefúsa er komin í stað Guðrúnar Gunnarsdóttur í hlutverk hressu konunnar sem hlær mikið. Einn galli er á þessu hlutverki hennar og er það að hún veit ekki hvenær á að hlægja og hvenær ekki. Einnig spyr hún bæði heimskulegra spurninga og tilgangslausra á milli þess sem hún hlær á vitlausum stöðum þannig að amk ég verð hálf vandræðalegur. Hún er þó mjög falleg og kann að lesa af skjá eða blaði þannig að hún væri fín í að kynna gestinn og að sitja og brosa á meðan Snorri spyr spurninganna. Það er býsna augljóst af hverju hún fékk þetta starf.

fimmtudagur, 19. júní 2003

Í dag, 19. júní, stækkaði veldi Gunnarsson fjölskyldunnar um einn en Styrmir Freyr, bróðir minn, og kona hans, Lourdes, eignuðust í dag 49 sentimetra, dökkhærðan strák. Ég óska þeim, fyrir hönd allra í ritnefnd veftímaritsins 'við rætur hugans', til hamingju með piltinn og minni þau á að standa sig því framtíðin er björt. Þið sem viljið koma á framfæri hamingjuóskum skrifið í ummælin hérna fyrir neðan, þau lesa þetta vonandi.
Styrmir sendir líka vonandi myndir sem hægt er að setja á síðuna.
Síðustu daga hefur aðsóknin á þessa síðu aukist um 100%. Mér finnst líklegt að það tengist verðlaust myndunum (þessari og þessari) á einhvern hátt en ég bjó þær til, læddi inn 'www.finnur.tk' á þær og sendi inn á batman.is. Fólk hefur þarmeð hrannast hingað inn í von um klám en aðeins fundið sora og viðbjóð.

miðvikudagur, 18. júní 2003

Til að fagna því að ég las Harry Potter bókina um leyniklefann ákvað ég að vera góður við sjálfan mig og leigði mér myndina. Ég horfði svo á hana í gærkvöldi og mér til mæðu varð hún ca klukkutíma lengri en ég bjóst við, sem orsakaði að svefn minn styttist um ca 21,4 prósent. En að myndinni. Hún er frekar drungaleg miðað við barnamynd, farið er nánast algjörlega eftir bókinni og leikararnir standa sig að mestu vel fyrir utan kannski Harry sjálfan sem virðist ekki vita hvernig hann á að vera stundum. Myndin fær 3 stjörnur af 4 hjá mér. Ég er nú þegar byrjaður á fjórðu bókinni.

Bannað innan 15.
Þá á þungu nóturnar, fundist hefur nektarmynd af Monica Belucci. Ég þakka vörubílstjóranum Benna sem sendi inn þennan hlekk. Takk Benni, þú ert uppáhaldsvörubílstjórinn minn (hann bað mig um að skrifa þetta).
Skemmtileg staða komin upp í samskiptum okkar við bandaríkjamenn. Það lítur út fyrir að bandaríkjamenn ætli að taka megnið af hernum héðan burt þannig að talsvert af fólki í Keflavík verði atvinnulaust. Þetta ætla þeir að gera þrátt fyrir að herra Oddsson og Ásgrímsson hafi trúað Bush um að Írak ætli sér heimsyfirráð eða eitthvað þaðan af verra. Davíð Oddsson skrifaði meira að segja bréf til Bush nýlega og fólk virðist vera hissa á því hversu harðorður hann var við Hitler nútímans. Ég er alls ekki hissa. Myndi pimp ekki vera brjálaður ef maður sem ríður hórunni hans í rassgatið ætlar að fara án þess að borga? (Davíð væri þá pimpið, Ísland hóran og stjórn bush viðskiptavinurinn)

þriðjudagur, 17. júní 2003

Ég hef tekið 2 skyndiákvarðanir síðasta sólarhringinn. Sú fyrri var að fara í teiti til Garðars og Bergvins í Sunnufellið, drekka og vera glaður en kl ca 22:30 var ég á leiðinni að leigja mér myndbandsspólu þegar Björgvin og Jón Bóndi náðu að lokka mig í hendur bakkus, bölvaðir drullusmellirnir. Í teitinu voru ca 300 manns, tefldar voru skákir, drykkir drukknir og brandarar sagðir án viðunandi árangurs. Síðan lá leið á ball með Stuðmönnum í Valaskjálf (en ekki á kaffi nielsen) þar sem drukkið var meira og ég lék á alls oddi að mér fannst. Allavega, ég sé eftir þessari ákvörðun, þeas að fara í partíið, því þetta kostaði mig of mikinn pening.
Seinni ákvörðunin var að fara á 17. júní hátíðarhöldin í Fellabæ þar sem stórkostleg skemmtiatriði voru á boðstólnum, eins og þegar Elli og einhver fóru að spila Twister fyrir framan alla í ca 10 mínútur. Enginn bandarískur línudans var þó sýndur eins og fyrir ca 4 eða 5 árum síðan. Ótrúlegt nokk þá sé ég ekki eftir þessari skyndiákvörðun.
Ég vil þakka eftirfarandi fyrir gærkvöldið: Garðari og Begga fyrir partíið, Einari Hróbjarti fyrir skákina, Ívari og vini hans fyrir að viðurkenna lestur á þessari síðu, stráknum sem skutlaði okkur á ballið, Elmari fyrir að spara mér pening og Eimskipum fyrir að styrkja þetta blogg.

mánudagur, 16. júní 2003

Ég var að svissa á finnur.tk og finnurtg.tk. Nú þegar þið skrifið finnur.tk farið þið á dagbókina mína (hingað semsagt) í stað þess að fara í grunnmyndina en ef þið skrifið inn finnurtg.tk farið þið í grunnmyndina í stað þess að fara hingað í dagbókina. Ef þetta er of flókið þá hef ég útbúið myndasögu sem ég hyggst setja á netið þegar ég kem heim þar sem koma fram þorpsbúar og lítið skrímsli sem....

...ég veit ekki alveg hvert þetta djók er að fara þannig að ég hætti því bara núna.
Tölvulausi dagurinn gekk vel fyrir sig. Ég hélt mér á lífi með því að rölta um Fellabæinn í glaðasólskini auk þess sem ég reyndi að spila körfubolta án árangurs en fór þess í stað í fótbolta með nokkrum vöskum piltungum. Fótboltinn entist til ca 23:30 þannig að ég var sloppinn fyrir horn. Lesendur veftímaritsins 'við rætur hugans' tóku hinsvegar ekki vel í þetta því aðeins 20 manns kíktu á síðuna í dag.

Að þessu tilefni þá hef ég ákveðið að birta tvær 'Verðlaust' myndir sem ég gerði á föstudagskvöldið í makindum mínum. Samtökin 'smiðir gegn klámi' hafa sagt mér að vara fólk við þessum myndum því þær eru argasta klám og á þeim er eitthvað um kynvillu. Hér er fyrri myndin og hér er sú seinni. Þær eru á ensku því ég hyggst verða heimsfrægur fyrir þær. Verði ykkur að góðu.

laugardagur, 14. júní 2003

Eftir að hafa unnið í allan dag við að slá garðinn við skattstofuna, raka saman grasið og fara yfir nokkrar skattaskýrslur kom ég heim og uppgötvaði að reikningur minn á msspro.com hefur verið opnaður aftur. Þá tók við upphleðsla af myndum og viti menn; myndasíðan hefur öðlast líf á ný.
Gærdagurinn var sérstakur. Eftir vinnu kl 16:00 fór ég á rúntinn með frænda mínum Eika frænda (heitir í höfuðið á frænda sínum) í rúma 2 og hálfan tíma. Því næst fékk ég mér ca banana að borða og fiktaði í tölvunni í ca hálftíma áður en ég fór að slá garðinn á skattstofunni. Þar var ég til 22:30, þá var pöntuð pizza og hún étin eftir sturtu. Eftir það bjó ég til 2 verðlaust myndir og ætla að birta þær um leið og msspro.com rusl geymslusíðan mín opnar aftur en þeir hafa verið að skjóta sér undan ábyrgð með allskonar afsökunum. Munir krakkar, aldrei að hlaupa með skæri, berja bróðir ykkar í hausinn með hamri eða versla við msspro.com.
En allavega, fór svo að sofa seint eftir hálft blað af Lifandi Vísindum sem er hörkublað.

Sem minnir mig á það. Kona hringdi í mig fyrir nokkru og bauð mér þrjú blöð af lifandi vísindum fyrir 590 krónur. Auðvitað þáði ég það en hugsaði svo strax á eftir að það hljóti að vera maðkur í mysunni þar sem ég er gríðarlega óheppinn (eða heimskur) með öll smáatriði. Þegar blöðin svo komu bjóst ég við að fá Lifandi Vísunda eða eitthvað svipað en nei, mistökin voru þau að ég fékk reyndar þrjú blöð af lifandi vísindum en auðvitað voru 2 af þeim eins. Dæmigert.

Nú er ég búinn að gleyma af hverju þessi dagur var sérstakur.
Í dag er tölvulausi dagurinn minn.....

andskotinn.

Á morgun verður tölvulausi dagurinn minn.
(Er að vinna í dag á skattinum við tölvuvinnu.)

föstudagur, 13. júní 2003

Hamingjuóskir til Hörpu en hún er komin með sitt eigið lén og ber það nafnið harpa.tk. Nú geta allir kíkt á síðuna hennar og verið snöggir að því.
Móðir náttúra hefur náð að fullkomna verk sitt með því að stuðla að gerð þessarar manneskju. Ég veit ekkert um hana annað en að hún heitir Monica Bellucci og myndir af henni eru hér. Engar nektarmyndir eru að finna af henni þarna, saurugu öfuguggarnir ykkar, né annars staðar á netinu að því er virðist.

Látið mig vita ef þær finnast.

fimmtudagur, 12. júní 2003

Um daginn áttaði ég mig á því að teppið sem ég ligg iðulega undir við sjónvarpsgláp er jafnt á allar hliðar. Alltof mörgum tímum hef ég eytt í að snúa teppinu í marga hringi til að láta fara betur um mig, spyrjandi sjálfan mig hvernig ég nái alltaf að velja vitlausa hlið til að liggja undir. Það vill svo skemmtilega til að ég uppgötvaði þetta við að horfa á fyrri hálfleik Íslands gegn Litháen, rétt eftir að ég fleygði teppinu á gólfið röflandi eitthvað óskiljanlegt. Hver er það svo sem hannar teppi sem eru einn og hálfur metri á hvora hlið? Það gera 2,25 fermetra sem er óþarfa eyðsla þegar mun betra teppi er hægt að búa til úr aðeins tvemur fermetrum, eða 2x1 metra. Það er augljóst að einhver hefur verið í starfsfræðslu í teppagerðarverksmiðjunni þegar þetta teppi var hannað mér til mikillar gremju.
Ég viðurkenni að ég hlusta annað slagið á FM957 í sportbílnum mínum þegar rætt er um eitthvað óáhugavert á rás 2. Í gær heyrði ég lagið 'Boys and girls' með Good Charlotte France á FM957, sem aldrei er spilað á öðrum stöðvum að því er virðist. Í því lagi kemur fram óþægilegur sannleikur sem allir þekkja og vita en engin(n) þorir eða vill viðurkenna. Textinn er hér en viðlagið segir allt sem segja þarf:

Girls don't like boys, girls like cars and money
Boys will laugh at girls when they're not funny


Skrítin tilfinning sem færist yfir þegar súkkulaðihljómsveitir hitta naglann á höfuðið.

miðvikudagur, 11. júní 2003

Seinni hálfleikur var allt öðruvísi en sá fyrri. Ísland náði næstum því að spila vel og skoraði 3 mörk gegn engu, þótt ótrúlegt sé. Ég sé mig tilneyddan til að standa við orð mín um að gera eitthvað fáránlegt þeim til heiðurs og eftir ca tveggja mínútna hugsun hef ég ákveðið að ég ætla að sleppa því algjörlega að fara í tölvuna á laugardaginn kemur. Þið hugsið sennileg að þetta sé ómögulegt verkefni en ég ætla að samt að reyna.
Það er hálfleikur í leik Íslands gegn Litháen og þegar hefur heimsmet verið slegið. Íslendingum hefur ekki enn tekist að senda eina góða sendingu í öllum helvítis leiknum. Eitt eða tvö færi fengu þeir nú samt og skutu að sjálfsögðu langt framhjá. Þetta er versti fótbolti sem ég hef um mína aumu ævi séð. Á milli þess sem Íslendingar senda ömurlegar sendingar og Litháenar láta sig detta eins og aumingjar þá hef ég verið að öskra á sjónvarpið í hljóðeinangruðum kjallara, hlustandi á leiðinlegan aðstoðarlýsir sem notar orðið "vel" aðeins of mikið. Ef Ísland vinnur þennan leik þá skal ég gera eitthvað fáránlegt þeim til heiðurs.
Það gleður mig að tilkynna að .tk veldi mitt hefur stækkað um helming. Nú getið þið farið beint á þessa dagbók með því að skrifa í 'Address' hér fyrir ofan: www.finnurtg.tk. Hingað til hefur verið hægt að komast inn á síðuna í gegnum www.finnur.tk og er það auðvitað ennþá hægt.

Óli Rúnar kom með fyrirspurn um nýja útlitið í ummælunum fyrir neðan. Ég hætti við að breyta um útlit þar sem nýja útlitið sem ég planaði að setja upp fer frekar illa með augun og til lengdar er þessi síða betri aflestrar. Ef þið eruð brjáluð yfir þessu þá skrifið um það í ummælin fyrir neðan. Hér getið þið séð áður áætlað breytt útlit. Á síðuna vantar mynd af einhverskonar skrímsli þar sem myndasíðureikningur minn liggur niðri eins og er.

þriðjudagur, 10. júní 2003

Um helgina hlustaði ég á þátt Baldurs Hans á xinu í gegnum netið. Þar spilaði hann lag sem heitir 'Diamonds and guns' með The Transplants og var það í fyrsta sinn sem ég heyri það lag. Ég tók þó andköf þegar ég heyrði textann en hér getið þið lesið hann. Ég hjó eftir þessum línum:

bombs going off in Sierra Leone
taken more shots than Karl Malone


Þessi Karl Malone sem um ræðir er besti kraftframherji sem um getur í sögu körfuboltans og hann spilar fyrir Utah Jazz sem er mitt uppáhaldslið. Það vill svo skemmtilega til að Utah Jazz er ekki bara uppáhaldslið Baldurs heldur er Karl Malone fyrirmynd hans. Hann hafði þó ekki hugmynd um þennan texta fyrr en ég benti honum á hann. Svona getur mannskepnan verið merkilegur andskoti, einhverra hluta vegna.
Sjaldan eða aldrei hef ég verið jafn pirraður og í dag. Fyrir utan að sofna ekki fyrr en kl ca 3 í nótt, sofa yfir mig og mæta of seint í vinnu, sem veldur því að ég verð að vinna aðeins lengur í dag en ella, þá hefur mig klæjað mikið í litlu tá, nefið og hægra eyra. Auk þess fékk ég smásár á putta og hefur verið að blæða úr honum annað slagið á verstu tímum, mar sem ég fékk í körfubolta fyrir 2 dögum við mjöðmina er mikið að angra mig og hárlokkur á hausnum á mér lætur ekki að stjórn. Myndasíðudjöfullinn virkar ekki og nærbuxurnar sem ég er í eru þannig hannaðar að þær færast smámsaman upp líkamann og eru þær staðsettar rétt fyrir neðan háls þegar þetta er skrifað. Þá tel ég ekki upp endalausu örlitlu smáatriðin eins og pínulitlu fluguna sem flögrar á skjánum og algjörlega ómögulegt er að ná og gatið á sokknum sem ég uppgötvaði of seint. Þessi dagur fer í sögubækurnar fyrir það eitt að öll pirrandi smáatriði alheimsins tóku sig saman og réðust á mig.
Fór, eins og þið sennilega vitið, til Borgarfjarðar í gær í heimsókn til pabba. Veðrið var eins og best verður á kosið og af því tilefni tók ég eitthvað af myndum á leiðinni. Alltaf gaman að kíkja til pabba í heimsókn.

Myndasíðan liggur enn niðri. Það lítur út fyrir að örlítill hluti (minna en 1%) af msspro hafi skemmst og verið er að laga það. Hvaða hluti ætli það hafi verið? Auðvitað hlutinn þar sem myndirnar mínar eru geymdar.

Í nótt lauk ég loksins við bókina 'Harry Potter og leyniklefinn' sem er önnur bókin í ritbálki þessum og þriðja bókin sem ég les um Harry Potter. Bókin er frekar langsótt og hálf klaufaleg á köflum en ef maður spáir ekki of mikið í hlutina, þar sem þetta er barnabók, þá gengur þetta ágætlega upp. Bókin fær 2 stjörnur af 4. Næst á dagskrá hjá mér er að lesa Lifandi Vísindi en ég hef staðist þá freistingu í næstum viku þar sem ég ætlaði að klára helv. Harry Potter bókina.

Eftir að hafa klárað bókina um kl 2:30 í nótt sofnaði ég loksins og dreymdi að ég væri einn í heiminum. Einhverra hluta vegna hrökk ég upp við það eins og þetta hafi verið martröð. Skrítið.

mánudagur, 9. júní 2003

Takið svo þátt í þessari könnun hérna.
Ég horfði á æsispennandi úrslitaleik í gærnótt þar sem San Antonio sigraði New Jersey Nets í skemmtilegum leik. Hef svosem ekkert meira um það að segja. Ég hvet fólk til að lesa þessa grein um besta leikmann allra tíma.

Í dag ætla ég að kíkja til pabba á Borgarfjörð Eystri.

Myndasíðan liggur niðri eins og er og myndirnar hérna í horninu birtast ekki. Vona að þetta lagist fljótlega.

sunnudagur, 8. júní 2003

Mikið spilakvöld í gær á Reyðarfirði en Gulla var ein heima og við heimtuðum að fá að spila hjá henni, þeas ég, Garðar, Bergvin, Elmar og Jökull. Fín skemmtun og myndir teknar.

laugardagur, 7. júní 2003

Samkvæmt könnuninni sem var hér síðustu viku þá fær þessi síða 4 í meðaleinkunn af 5 mögulegum. Það má yfirfæra það í 8 af 10, sem er ágætis einkunn. Samkvæmt því er þessi síða betri en ég var í t.d. dönsku og þýsku í menntaskóla. Ef þessi síða væri bíómynd væri hún númer 92 í röðinni yfir bestu myndir allra tíma miðað við þennan lista á imdb.com.
Ég þakka þeim sem kusu.

Takið þátt í nýju könnuninni um það hvort síðan sé betri núna en áður en ég setti myndirnar inn.
Var rétt í þessu að bæta við lítilli mynd hérna í gluggann til hægri. Athugið að í hvert skipti sem þið komið hingað hleðst ný mynd. Ég veit hvað þið hugsið; "Mikið er Finnur klár í að gera síðu" en ég leiðrétti ykkur strax áður en þið farið að dreifa vitleysu um mig. Þetta er verk hans Árna Más, en hann er kærasti systur minnar. Það var hann sem gerði kóðann fyrir mig og kann ég honum mínar bestu þakkir fyrir. Það er einmitt Árni Már sem er með þessa síðu en hann rekur hönnunarfyrirtækið AM-Dsigns(.com). Einnig fær Árni hlekk hér til hægri.

Sem minnir mig á það, ég hef fjarlægt hlekkinn á Garðar en hann virðist hættur með bloggið sitt og hefur hafið nýtt með Bergvini en þeir leigja saman og héldu á dögunum heljarteiti en myndir frá því er hægt að sjá hér. Ég bæti nýja blogginu við í hlekkina, vona að þeir standi sig.
Ég gleymdi að minna alla á að hlusta á Baldur Hans á radioX milli 11 og 15 í dag (laugardag), á morgun og á mánudaginn. Hann er einn af þeim fyndnari sem ég þekki. Það eina sem þið þurfið að gera til að hlusta á hann er að smella hér, eða ef þið viljið fara lengri leiðina farið inn á www.radiox.is og smellið efst á "XIÐ 977 á netinu"

föstudagur, 6. júní 2003

Samtökin 'Smiðir gegn klámi' hafa fengið mig til að setja upp viðvörun hérna vegna eftirfarandi texta. VARÚÐ, í eftirfarandi texta hefur verið settur hlekkur á myndir sem flokkast undir argasta klám og viðbjóð.

Ég vil gjarnan fá að vita hvað gerðist á síðasta fylleríi mínu sem fram fór fyrir næstum 2 vikum. Hér eru komnar myndir á netið, en að sjálfsögðu neita ég staðfastlega því að hafa tekið þátt í þessu. Svo hefur myndunum verið breytt í photoshop, andskotinn hafi það! Ég held ég hefði munað eftir því að hafa nuddað karlmann með svona rosalega brjóstvöðva.
Mikið óskaplega sakna ég 10-11 hérna á Egilsstöðum. Þegar verslunin hætti í lok síðasta árs hlakkaði í mér vegna þess að hin stórmerkilega verslun Bónus átti að koma í staðinn. Nú þegar rúmlega hálft ár er liðið af Bónusveldinu þá hef ég áttað mig á því hversu mikið ég sakna 10-11. Þar gat ég farið í rólegheitum á nánast hvaða tíma sem er, skoðað og spáð í vörunum án þess að vera fyrir neinum. Í Bónus er hinsvegar ekki hægt að skoða nokkra vöru án þess að lenda í slagsmálum við brjálaðar húsmæður frá fjörðunum eða vænusjúka öryrkja á Héraði, hvað þá rölt í rólegheitum. Fyrir utan ömurlegan opnunartíma þá er verslunin svo þröng að feitt eða fótstórt fólk á erfitt með að feta sig og vörurnar eru að mestu leiti drasl eða meingallaðar. Af hverju í ósköpunum ætti ég að vilja versla þarna? Fyrir að spara kannski 100 eða 200 kall? Samfara því (fuck that). Nú versla ég í Hraðbúðinni og er snöggur að því.

fimmtudagur, 5. júní 2003

Ég gerði það að leik mínum í gær að niðurhlaða tónlist ýmiskonar af netinu. Þar á meðal voru diskarnir 'Hvít blóðkorn' og 'Fíll' með Hvítu Strikunum. Ég ítreka meðmæli mín með þeirri hljómsveit.
Þessi grein var í boði Héraðsprent. Héraðsprent - Íslenska er okkar mál.

Þær fréttir voru að berast að Eiríkur Stefán sé að byrja í lögregluliði Egilsstaða í dag. Þá get ég loksins sleppt af mér beislinu með góðri samvisku og brotið lögin enn meira án þess að verða fyrir áreiti lögreglunnar því við vitum öll að Eiríkur er ljúfur sem lamb. Eiríkur, stattu þig strákur. Framtíðin er björt.

miðvikudagur, 4. júní 2003

Þá hef ég bætt við 20 myndum frá innflutningsteiti Bergvins og Garðars sem fram fór síðustu helgi inn á myndasíðuna. Vinsamlegast gangið vel um þar og skrifið eitthvað fallegt um Garðar og Bergvin, þeir hafa verið svolítið litlir í sér undanfarið.

En svona að öllu gamni slepptu, þá hef ég ekkert að segja.
Þessi frétt minnir mig á gyðingabrandarann: „Hvað kemur fyrir nakta gyðinga með standpínu þegar þeir ganga á vegg? Þeir nefbrotna“. Brandarinn er barnalegur, ósmekklegur og með vott af kynþáttafordómum en samt er hann fyndinn. Þess ber að geta að ég er ekki kynþáttahatari.
Ég biðst velvirðingar á að hafa ekki sett upp nýjar myndir á myndasíðuna. Kvöldið verður tekið undir það en myndir frá innflutningsteiti Bergvins og Garðars bíða eftir að vera settar inn.

Sem minnir mig á það; ég hef ekki séð nágranna núna í rúmar 2 vikur sökum sjónvarpsleysis í nýja kjallaranum. Í gærkvöldi fékk ég svo loksins fráhvarfseinkenni en um það leiti sem ég var að fara að sofa áttaði ég mig á þessari staðreynd og fór umsvifalaust að skjálfa, svitna og að lokum ældi ég blóði. Ég verð að bæta úr þessu. Til að byrja með klæðist ég nágrannaúlpunni minni ásamt nágrannapeysunni í og utan vinnu. Reyni svo á eftir mitt besta að prútta stöð 2 kellinguna í að splæsa á mig ókeypis áskrift auk loftnets. Annars fer ég bara til mömmu og heilsa upp á vini mína í Ramseystreet þar.

þriðjudagur, 3. júní 2003

Var að bæta við smá könnun hérna til hægri. Vinsamlegast verið hreinskilin, ég þoli reyndar illa gagnrýni en ég lifi hana af. Skrifið svo í ummælin á könnuninni um það sem betur má fara. Þakka ykkur fyrir.
Eins og alla daga á Egilsstöðum er ýmislegt að frétta. Fyrst ber að nefna vatnsdrykkju mína en á þremur tímum í morgun drakk ég heilan lítra. Þetta telst vera met hér á skattstofunni og þótt víðar væri leitað.

Bandaríkjamenn og Bretar þurfa nú að svara til saka fyrir fjöldamorðin í Írak. Loksins er fólk farið að átta sig. Hvað segja Halldór Ásgrímsson, Davíð Oddsson og rassasleikjur þeirra núna?

Síðast en ekki síst; í dag klukkan 4:15 fer ég með bifreið mína í Sóldekk og læt taka alla nagla úr honum. Hingað til hef ég verið á nagladekkjunum, eins og ekkert sé, en eins og flestir vita þá er ég áhættusjúklingur og lifi aðeins fyrir daginn í dag. Með þessu uppátæki mínu hefði ég getað fengið amk 15.000 króna sekt. Lifi byltingin!

mánudagur, 2. júní 2003

Rétt í þessu var Árni Már, mágur minn, að opna síðu þar sem hann býður fram þjónustu sína í hönnun. Hann einmitt hannaði bók Björgvin bróðir að mestu og lítur hún mjög vel út. Ég mæli sterklega með því að fólk fylgist með Árna Má í framtíðinni og byrji hérna á heimasíðunni hans. Hamingjuóskir Árni.

Ef þið viljið fjárfesta í nýju ljóðabókinni hans Björgvins, Svart á hvítu, smellið hér og komið með upplýsingar. Ég sendi um hæl. Bókin er meistaraverk.
Gærkvöldið fór í skokk og videogláp ásamt því sem ég eldaði 3ja rétta máltíð fyrir sjálfan mig. Í forrétt voru saltstangir með pamerlmo ídýfu og með þeim drakk ég íslenskt bergvatn úr krana. Í aðalrétt eldaði ég ca 10 ss pylsur og setti snyrtilega upp á disk með Ítölsku sinnepi og sósu gerða úr tómötum. Með pylsunum drakk ég ca 3ja vikna gamalt bónus kóla sem ég leyfði að anda í rúman hálftíma fyrir neyslu. Í eftirrétt var svo súkkulaðidraumurinn eins og ég kýs að kalla hann en þar þýði ég gaddfreðinn bónus ís í ca 45 mínútur á eldhúsborðinu og set svo í plastskál með sterkri skeið. Ég velti því stundum fyrir mér eftir svona kvöldstund af hverju í ósköpunum ég sé einhleypur, jafnfær og ég er nú í eldhúsinu.
Í gær keypti ég mér rauðan risa ópalpakka til að stytta mér stundirnar í vinnunni í dag. Þegar ég svo opnaði pakkann og fékk mér fyrsta ópalstykkið brá mér heldur betur í brún. Í pakkanum virtist hafa slysast inn eitt stykki af grænum ópal mér til óttablandinnar skemmtunar. Ég brosti í annað og hélt áfram ópalátinu, aðeins til að komast að því að restin var af réttri gerð. Það hefðu ekki allir brugðist jafn vel við mistökum þessum hjá Nóa Síríusi eins og ég, en svo að þetta endurtaki sig ekki hef ég að sjálfsögðu ritað þeim bréf þar sem ég fer fram á að börn í starfsfræðslu komi ekki nálægt ópalframleiðslu í framtíðinni.

sunnudagur, 1. júní 2003

Ég var að rekast á stórkostlega fyndna teiknimyndaseríu, aka comicstrip. Ég ældi úr hlátri yfir þessu og þessu. Líka yfir þessu. Hér getið þið svo lesið fleiri.
Í gær varð ég fyrir skemmtilegri lífsreynslu. Ég fór í innflutningsteiti hjá Bergvini og Garðari með myndavélina og var algjörlega edrú fyrir utan áhrifin af maltflösku sem ég drakk rúmlega 3 tímum áður. Skrítið að sjá fólk í nærmynd svona ofurölvað án þess að vera það sjálfur. Ég tók slatta af myndum og verða þær birtar í dag eða á morgun.

Eftir partíið, um klukkan 01:00, hélt ég heim á leið og horfði á One hour photo sem ég hafði tekið um kvöldið. Robin Williams fer á kostum í þessari mynd. Fyrir utan að vera með óhugnarlegt útlit þá leikur hann listavel og á skilið einhver verðlaun fyrir. Myndin fjallar um mann sem vinnur við að framkalla myndir í verslun í stórmarkaði. Hann heillast af fjölskyldu sem oft verslar þar. Það lá við að ég felldi tár við að horfa á myndina, slík var samúðin með Robin Williams. Ég gef henni 3 stjörnur. Robin Williams hefur hækkað umtalsvert í áliti hjá mér eftir þessa mynd.