þriðjudagur, 29. janúar 2013

Ónæmiskerfið ónýtt

Í gærkvöldi veiktist ég í fjórða sinn á þremur mánuðum af kvefi eða einhverju í þeim dúr. Þetta kvef lýsir sér í raddleysi, hósta og helling af sjálfsvorkunn.

Í kvöld dundaði ég mér því við að fjarlægja úr mér ónæmiskerfið, sem virðist vera ónýtt hvort eð er, með teskeið og skærum. Sá sem er fyrstur til að hafa samband fær það gefins gegn því að viðkomandi skaffi meðalstóran poka undir það og/eða geti reddað mér blöðru til að búa í.

miðvikudagur, 23. janúar 2013

Heilastormun

Í nótt vakti ég til klukkan 3 til að finna leiðir til að hætta að fara alltaf of seint að sofa. Ég fann enga leið.

Í dag slefa ég úr þreytu. Ég gefst ekki upp og reyni aftur í nótt.

þriðjudagur, 22. janúar 2013

Kvikmyndahlass

Hér er nýjasta hlass af myndum sem ég hef séð í bíóhúsum:

Cloud Atlas (Ísl.: Óbærilegur léttleiki tilverunnar)
Fjallar um ca 250 mismunandi hluti og karaktera sem allir tengjast á einn eða annan hátt. Sömu leikararnir bregða sér í hlutverk allskonar persóna í gegnum myndina, sem er ein helsta skemmtunin við myndina. Hún er mjög vel gerð en söguþráðurinn full epískur fyrir minn smekk.
Tvær og hálf stjarna af fjórum.

The Impossible (Ísl.: Hið ólíklega)
Hjón með þrjá stráka lenda í miðri flóðbylgju á Indlandi jólin 2004 og upphefst leit að hvoru öðru. Myndin er auðvitað byggð á sönnum atburðum. Svo virðist sem Ewan McGregor geti ekki staðið sig illa eða leikið í slæmum myndum. Myndin er stórbrotin, áhugaverð og býsna ógeðsleg á köflum eða góð afþreying, eins og ég kýs að kalla hana.
Þrjár stjörnur af fjórum.

Django Unchained (Ísl.: Ókeðjaði blámaðurinn)
Quentin Tarantino tekur fyrir ævintýri Django, sem byrjar myndina sem þræll í Bandaríkjunum á gullöld þeirra. Tannlæknir kaupir hann og þiggur aðstoð frá honum við að finna skúrka. Upphefst samstarf og pínu platónísk ástarsamband (Ens.: Bromance).
Það er ekki oft sem jafn skemmtilegar og vel gerðar myndir koma í bíó. Myndin hefur allt: Réttlæti, snargeðveikt ofbeldi, ótakmarkaða fegurð og góðan leik.
Fjórar stjörnur af fjórum.

miðvikudagur, 16. janúar 2013

Memento og Griðastaður

Í dag átti ég Memento upplifun* í vinnunni þegar ég fór inn á salerni hæðarinnar að sækja pappírsþurrkur, þar sem ég var að borða hádegismatinn við silkimjúka birtu frá Excel á tölvuskjánum.

Þegar ég kom inn á salernið stoppaði ég og sagði "Hmm... ég þarf ekki á klósetið. Hvað er ég að gera hérna?"

Eftir nokkrar sekúndur ákvað ég að þvo mér vel um hendurnar og fara aftur að vinna.

Þegar ég kom svo til baka og mundi hvað ég ætlaði að gera, risti skipunina á handarbakið á mér með ryðguðum nagla sem ég fann og sótti þurrkur.

Annars er það að frétta að í gær sá ég myndina La Clé des Champs (Ísl.: Griðastaður) á frönsku kvikmyndahátíðinni í Háskólabíó. Myndin fjallar um dreng sem gengur í kringum tjörn og fylgist með (skor)dýraríkinu. Einhver furðulegasta afsökun fyrir bíómynd sem ég hef séð. Spoiler: Hann gefur stelpunni stækkunargler og hún fer úr bænum.

Sérfræðingar (ég í fleirtölu) telja myndina einn af lágpunktum kvikmyndasögunnar.

Hálf stjarna af fjórum. Hálfa stjarnan er fyrir Sylvester Stallone í feluhlutverki sem bóndi á hjóli í bakgrunni.

*Memento fjallar um mann sem hefur ekkert langtímaminni. Sjá dæmi hér.

fimmtudagur, 10. janúar 2013

Vanity fair viðtal

Nýlega rakst ég á þennan spurningalista sem grínistinn Louis CK var beðinn um að fylla út. Af hverju hann? Er hann merkilegri en ég?

Svar: Já. En ég ætla samt að svara listanum líka. Aðallega þó vegna þess að ég er veikur, enn eina ferðina og hef ekkert að skrifa um.

Hver er þín hugmynd að fullkominni hamingju?
Að lesa frétt um að tölvan sem geymir upplýsingarnar um stúdentalán mín hafi dottið niður stiga og hálsbrotnað.

Hvað er þinn mesti ótti?
Að missa einhvern nákominn og að bíllinn minn bili.

Hvaða lifandi manneskju dáirðu mest?
Enga sérstaka. Ef ég yrði að velja myndi ég segja Barbapabbi og Barbamamma. Að vera foreldrar svona margra krakka án þess að missa vitið er örugglega erfitt.

Hvaða eiginleika þinn fyrirlíturðu mest?
Ég naga neglur. En þó bara mínar neglur. Ennþá.

Hvað finnst þér ofmetnastasta dyggðin?
Ákveðni. Af því ég er það ekki.

Hvað líkar þér verst við útlit þitt?
Gleraugun mín. Og sokkarnir sem ég er í passa illa við leðursamfestinginn sem ég er í.

Hvað eða hver er ást lífs þíns?
Microsoft Excel 2010.

Hvenær og hvar varstu hamingjusamastur?
Ég man ekki hvenær það var en ég lá örugglega í grasi.

Hvaða hæfileika værirðu mest til í að búa yfir?
Óraunhæfur: Að þurfa ekki að sofa. En geta það samt.
Raunhæfur: Að vera mjög góður í að drekka kaffi. Í dag kann ég það ekki.

Í hvernig skapi ertu?
Ég er yfirleitt í sama skapinu. Sem er nokkuð gott skap.

Ef þú gætir breytt einhverju einu við þig, hvað yrði það?
Meiri metnað í fatavali.

Ef þú gætir breytt einu við fjölskyldu þína, hvað yrði það?
Að hún byggi nær mér.

Hvað telurðu vera þitt mesta afrek?
Fyrir utan að hafa verið í öðru sæti í bringusundi í mínum riðli á fámennu sundmóti í Bjarnarfirði 1989? Sennilega að ég gaf út bók fyrir nokkrum árum.

Ef þú gætir valið hvað þú kæmir aftur sem, hvað yrði fyrir valinu?
Hundur. Þeir eru yfirleitt frekar hressir.

Hvað telurðu vera þína lægstu stund eymdar?
Þegar ég vaknaði nær dauða en lífi eftir áfengisdauða á miðjum Vilhjálmsvelli á Egilsstöðum eftir, að ég held, dansiball.

Hvaða eiginleika líkar þér best við í karlmönnum?
Hlédrægni.

Hvaða eiginleika líkar þér best við í konum?
Hlédrægni.

Hvað kanntu mest að meta í fari vina þinna?
Liðleiki (í samskiptum!).

Hverjir eru þínir uppáhalds rithöfundar?
Ég á mér enga.

Hver er þín uppáhalds hetja í skáldsögum?
Dexter Morgan.

Hverjar eru hetjur þínar í raunveruleikanum?
He-Man auðvitað.

Hvað mislíkar þér mest?
Tillitsleysi og tilætlunarsemi. Og hundaskítur.

Hvernig myndirðu vilja deyja?
Hver segir að mig langi að deyja? Ok fínt. Í svefni, takk.

Hvert er slagorð/mottó þitt?
„Nei, takk.“

þriðjudagur, 8. janúar 2013

Kvikmyndir ársins 2012

Hér er topp 8 listi minn yfir þær kvikmyndir sem ég sá á nýliðnu ári. Ath. einhverjar þeirra eru mögulega ekki frá árinu 2012. En ég sá þær amk á árinu. Og það er það eina sem skiptir máli.

1. Skyfall (Ísl: Saurbær)
James Bond klikkar ekki með Daniel Craig í hlutverkinu. Hvergi nærri jafn góð og Casino Royal og aðeins betri en Quantum of Solace.
3,5 stjörnur af fjórum.

2. Looper (Ísl: Lárus Lykkjari fer á kostum)
Vísindaskáldsaga með Joseph Gordon-Levitt í hlutverki Bruce Willis í hlutverki leigumorðingja í framtíðinni og lengra í framtíðinni (Lalli Lykkjari), sem keppist við að drepa sjálfan sig áður en hann drepur sjálfan sig.
3,5 stjörnur af fjórum.

3. Dredd (Ísl: Dómari Davíð)
Ein óvæntasta mynd ársins. Og það í 3D sem ég hata meira en fólk sem ekki gefur stefnuljós. Davíð dómari læsist inni í risablokk og þarf að taka á honum stóra sínum til að halda sér á lífi. Sérstaklega skemmtilegt túlkun á Davíð Dómara, sem bókstaflega skelfur úr hatri.
3,5 stjörnur af fjórum.

4. The Dark Knight Rises (Ísl: Maður klæddur sem leðurblaka rís)
Þriðja og síðasta myndin um manninn sem er klæddur eins og leðurblaka. Ein af verstu myndum leikstjórans, sem segir ekkert þar sem hann gerir bara góðar myndir.
3,5 stjörnur af fjórum.

5. The Girl with the Dragon Tattoo (Ísl.: Barnaby ræður gátuna)
Hollywood útgáfan. Svipað góð og upphaflega útgáfan. Talsvert dekkri. Fjallar um karlmenn sem hata konur og Lisbeth Salander.
3,5 stjörnur af fjórum.

6. 21 jump street (Ísl.: Bankastræti 21)
Ólíklegt lögguvinapar fer í gervi menntaskólanema til að leita að dópi eða einhverju. Mun fyndnari mynd en ég bjóst við.
Þrjár stjörnur af fjórum.

7. Chronicle (Ísl.: Sér grefur gröf).
Unglingar fá ofurhæfileikann til að færa hluti úr stað með hugarorkunni. Upphefst mikið ævintýri. Áhugaverð og vel leikin mynd
Þrjár stjörnur af fjórum.

8. Contagion (Ísl.: Smit)
Raunsæ mynd um það hvað myndi gerast ef banvænn vírus kemst í umferð. Vel leikin og afar áhugaverð mynd.
Þrjár stjörnur af fjórum.

Heiðurssæti: ∞. Killer Joe (Ísl.: Jói vondi kall)
Eitthvað það allra ömurlegasta sem ég hef látið innfyrir augu mín. Tilgerðarleg, ofleikin og afspyrnu heimskuleg.
Hálf stjarna af fjórum.

sunnudagur, 6. janúar 2013

Áramótaheiti 2013

Eitt af ca 25 áramótaheitum mínum þetta árið er að skrifa oftar á þessa síðu. Áramótaheiti mitt í fyrra var að strengja áramótaheiti þetta ár um að blogga oftar, svo ég náði að uppfylla það rétt í tæka tíð áður en árinu lauk.

Hér eru sex stærstu áramótaheitin þetta árið:

1. Að koma íbúðinni sem ég bý í í gestvænlegt horf.
Til dæmis að kaupa mér nýtt rúm, setja upp myndir, lýsa stofuna betur upp og jafnvel brjóta saman eins og ein föt saman og setja í skáp, helst fleiri.
Líkur: 95%.

2. Borða hollara.
Reyna að drekka ekki gos með hverri máltíð og borða Risahraun í hvern eftirrétt. Hljómar auðvelt. En er það ekki. Sérstaklega ekki í miðjum nammitremma.
Líkur: 1,3%.

3. Fara á amk eitt fyllerí á árinu.
Í fyrra drakk ég samtals einn bjór. Ég vil gjarnan auka áfengisneysluna um amk 10.000%.
Líkur: 35%.

4. Sofa minna á daginn og meira á nóttunni.
Ég nálgast óðfluga að sofa lengur á daginn við að leggja mig en við nætursvefn fyrir vinnu. Það verður að breytast áður en illa fer.
Líkur: 50%.

5. Skrifa meira.
Ég hef aldrei verið minna virkur í skrifum en á síðasta ári. Ég þarf að snúa þessari þróun við. Jafnvel gera eitthvað nýtt í þeim efnum.
Líkur: 75%.

6. Losa mig við Peugeot draslið mitt áður en hann gerir mig gjaldþrota.
Þetta hef ég sagt í næstum 7 ár.
Líkur: 0,37%

föstudagur, 4. janúar 2013

Jólafrí 2012

Ég er kominn aftur til Reykjavíkur (Kópavogs nánar tiltekið) eftir tveggja vikna jólafrísdvöl á Egilsstöðum (í Fellabæ nánar tiltekið), sem útskýrir aðeins að hluta til áður óþekkta leti mína við skrif á þessa síðu.

Í jólafríinu tók ég upp á allskonar nýungum, sem hingað til hefði ég aldrei látið mér detta í hug að gera, eins og:

  • Að horfa á Mamma Mia, dansandi og syngjandi með.
  • Að dansa um í fáránlegri samsetningu fata með hárspennu í hárinu, án nokkurrar tónlistar.
  • Flýja undan risaeðlum, krókódílum og Mikka Ref sem ætluðu að kítla mig.
  • Láta inniskónna mína tala, eins og þeir væru kettir.
  • Syngja hástöfum allskonar lög, án undirspils og í kringum allskonar fólk, án þess að skammast mín fyrir afskaplega takmarkaða sönghæfileika.

Hver er ástæðan? Hér eru nokkrir möguleikar:

  1. Ég hef hafið eiturlyfjaneyslu og það gengur nokkuð vel.
  2. Ég missti vitið á því að vera bílveikur á leiðinni austur.
  3. Ég var að uppfylla áramótaheiti frá árinu áður.
  4. Ég er orðinn það ríkur að mér er sama um álit annarra og geri það sem ég vil, þegar ég vil.
  5. Ég var að leika við Valeríu Dögg, rúmlega 2ja ára bróðurdóttir mína.

Rétt svar: 5. Og smá 1.