fimmtudagur, 30. desember 2010

Yfirferð áramótaheita

Til að byrja með, afsakið fá og léleg skrif í jólafríinu. Ég hef verið önnum kafinn við að sofa. Það breytist allt þegar ég fer aftur suður, 2. janúar næstkomandi.

En þá að efni færslunnar: það er kominn tími á að fara yfir áramótaheiti síðasta árs [sjá hér].

1. Eldast meira
Ég eltist um eitt ár og stóð því við þetta.

2. Flytja minna
Ég flutti einu sinni á árinu, sem er jafn oft og árið áður. Stóð ekki við þetta.

3. Kynnast fleira fólki
Ég stefndi á að vera kominn með 322 vini á Facebook fyrir lok árs. Svo illa tókst mér til í þessu að jafnvel mínir nánustu vinir eyddu mér af Facebook-inu sínu. Nú á ég 302 vini, sem er eiginlega kraftaverk, þar sem það er aukning um 9 vini milli ára. Stóð ekki við þetta.

4. Minni innivera
Ég fór reglulega í göngutúra á árinu og einu sinni upp á fjall. Það er þó frekar dæmigert ár fyrir mig og lítil aukning. Ég stóð því ekkert sérstaklega við þetta.

5. Sofa meira
Ég hef sjaldan sofið jafn lítið og á árinu sem er að líða. Ég sofna sjaldnast fyrir klukkan 2 og vakna um 8:30 á virkum dögum. Ömurlegur árangur.

6. Spara meira
Ég endurskipulagði alla mína neyslu, hætti að versla í 10-11 að mestu og hóf innreið mína í Bónus. Sparaði gríðarlega á þessari breytingu. Stóð við þetta!

7. Minni vinna
Nei.

8. Þéra fólk
Þéraði ekki eina manneskju allt árið, fyrir utan einn prest, en það gæti tengst því að ég þóttist vera smámæltur.

9. Þyngjast meira
Ég tók mér pásu frá lyftingum á árinu og léttist eitthvað í framhaldinu. Verulega lélegur árangur.

Niðurstaða: Ég náði að standa við tvö áramótaheiti af níu. Það er ömurlegur árangur, vægast sagt. Í ár ætla ég því að reyna við 41 áramótaheiti. Með sama hlutfall og í ár ætti ég að ná að standa við níu þeirra.

mánudagur, 27. desember 2010

Miðnæturganga

Á miðnætti í kvöld fór ég í göngutúr um Fellabæinn, eins og ég geri oft á dag, þá daga sem ég eyði í Fellabæ yfir hátíðirnar, árlega.

Það sem var óvænt við þennan göngutúr var annars hversu ég líktist alvöru ballettdansara við að renna mér á hálkublettum gatnanna og hinsvegar 15-20 hreindýr sem gengu í veg fyrir mig, svo ég stóð stjarfur og hugleiddi hvort ég hefði óvart tekið LSD í stað amfetamínstera með kvöldmatnum.

Nú, þegar runnið er af mér, veit ég að ólyfjan komu þessu hvergi nálægt, því ég tók mynd. Hér er hún og málið telst sannað:

Gæti ekki verið skýrara.
Skemmtileg lífsreynsla, þó það sé alltaf óþægilegt að ganga hland- og tárvotur í köldu veðri.

fimmtudagur, 23. desember 2010

Röng spá

Fyrsti dagur jólafrísins fyrir austan er að baki. Í færslu gærdagsins talaði ég um mínus 17 gráður spá. Því fór fjarri.


miðvikudagur, 22. desember 2010

Jólasögur

Í dag gerðust tvö atvik sem ollu því að ég varð fyrir vonbrigðum. Sögustund!

Jólaóskapið
Ég var nýkominn úr Kringlunni í dag, þar sem mér tókst ekki að kaupa gjafir vegna mannmergðar og var í bílnum að bíða eftir að komast áfram, blótandi konunni sem leiddi lítinn 5 ára strák alltof hægt fyrir framan "bílinn" minn.

Ég var vanur því og fullkomlega sáttur við að komast ekki í jólaskap í ár, frekar en fyrri ár og vera fúli náunginn í jólaverslunarleiðangrunum, þegar þessi 5 ára strákur snéri sér við, brosti framan í mig og vinkaði, svo ég gat ekki annað en brosað tárvotur til baka og vinkað.

Hvernig dirfist litlu barni að koma mér í betra skap?! Geta þau ekki brosað frama í ókunnugt og geðstirt fólk og vinkað því heima hjá sér? Óþolandi.

Jólaveðrið
Á leiðinni í heimsókn til pabba í kvöld braut ég rennilásinn af úlpunni minni, þegar ég trylltist í millisekúndu við að reyna að renna niður. Hjá pabba sá ég veðurfréttir, þar sem kom fram að það verða mínus 17 gráðu hiti á Egilsstöðum, þegar ég lendi þar á morgun. Lítur út fyrir að ég þurfi að safna í alskegg yfir jólin og vel það.

mánudagur, 20. desember 2010

Stækkun fjölskyldu

Ég hef loksins látið verða af því að stækka við fjölskylduna. Nýjasti meðlimurinn kemur beint frá Kína og er gulur á litinn. Ég valdi nafnið Ragnar á hann get ekki beðið eftir skírnarveislunni. Gunnarsson fjölskyldan kynnir með stolti:



Ragnar Ryksuga!


Hann kostaði aðeins 10.000 krónur.

Ég vona með þessu að ná, þó ekki væri nema hluta af þeirri athygli og þeim hamingjuóskum sem systkini mín fá þegar þau eignast afkvæmi.

sunnudagur, 19. desember 2010

Facebook statusa annállinn 2010

Það sem fortíðarþrá er eitt einkenna þessa bloggs hyggst ég, eins og síðustu ára, rifja upp árið sem er að líða með ýmsum hætti.

Fyrsta upprifjunin eru Facebook statusar sem ég hef skrifað á árinu. Ég skrifaði um 80 statusa á árinu. Hér eru þeir helstu, frá þeim elsta til þess nýjasta:

[Til að forsíða bloggsins fari ekki í klessu set ég síðubrot hér. Smelltu á lesa meira fyrir statusana]

föstudagur, 17. desember 2010

Jólaundirbúningurinn

Nú er vika til jóla og jólaundirbúningurinn kominn á fullt skrið hjá venjulegu fólki.

Hér er listi yfir það sem ég á eftir að gera fyrir jól:
  • Kaupa jólagjafir
  • Pakka inn jólagjöfum
  • Skrifa jólakort
  • Hlusta á jólalög
  • Komast í jólaskap
  • Hlakka til jólanna
  • Setja vetrardekkin undir
  • Fá jólafrí hjá yfirmanni
Hér er svo listinn yfir það sem ég er búinn að gera fyrir jólin:
  • Kaupa jólabækur til að lesa yfir jólin (Red Mars og Green Mars)
  • Hugsa um hvað ég eigi eftir að gera mikið fyrir jólin
  • Hlusta á eitt jólalag, ítrekað, muldrandi „farðu í jólaskap helvítið þitt“ með tennur gnístandi
Hér er jólalagið. Það er rafrænt:


miðvikudagur, 15. desember 2010

Lágpunktur ljóðaferils míns

Það vita það ekki margir en ég er höfundur versta ljóðs sem samið hefur verið, að sögn.

Svona hljómar það:
Glaður maður gengur hér
Og brosir framan í alla
Og hann sér
að gömul kona segir að hann sé ekki með öllum mjalla
Þennan óskapnað samdi ég, minnir mig, í 3. bekk Finnbogastaðaskóla í Trékyllisvík og teiknaði með því mynd af alskeggjuðum manni sem brosti eyrnanna á milli og gamalli konu fyrir aftan hann með fýlusvip.

Veggspjaldið með ljóðinu og myndinni er löngu glatað en það er sem greypt í huga minn, að eilífu.

Skemmtilegar staðreyndir varðandi ljóðið:

  • Það rímar.
  • Það var mitt fyrsta ljóð og það síðasta í 17 ár, þar til ég samdi þrjú ljóð í viðbót [sjá hér].
  • Það hefur ekki verið samið lag við ljóðið. Ennþá.

þriðjudagur, 14. desember 2010

Arthúr allur


Um síðastliðna helgi tókum við Jónas þá ákvörðun að hætta með teiknimyndasöguna Arthúr. Henni höfðum við haldið gangandi frá ágúst byrjun 2005 eða í rúm 5 ár, með stuttum hléum til að byrja með, sem urðu lengri með tímanum.

Ástæðan fyrir því að við hættum er einfaldlega þreyta og tímaleysi. Kominn tími á að breyta til og prófa eitthvað nýtt.

Það er ekki laust við að ég sé frekar sorgmæddur eftir þessa ákvörðun, eins og ég hafi verið að kveðja góðan vin. Í kjölfarið hef ég rifjað upp þann tíma sem Arthúr hefur fylgt mér og hvað hefur gerst og breyst á þeim tíma. Svo hætti ég því, næstum tárvotur.

En nóg af væmni. Meira af tölfræði.

  • Strípan hófst 1. ágúst 2005 og lauk í gær, 13. desember 2010. Það gera 1.960 daga, 280 vikur, 64,4 mánuði eða 5,4 ár. Á þeim tíma gáfum við út um 663 strípur.
  • Það gera 0,34 strípur á dag, 2,37 á viku, 10,3 á mánuði og 123,6 á ári.
  • Á þessum tíma hafa mælst 1,4 milljón stakar IP tölur/stakir gestir á síðunni og um 22 þúsund í hverjum mánuði.
  • Mesta aðsóknin var á mánudögum og vinsælasti tíminn milli 17:00 og 18:00.

Síðan verður opin áfram, ef einhver vill lesa gamlar strípur. Blóm og kransar eru afþakkaðir.

sunnudagur, 12. desember 2010

Hvað hrundi af bílnum í vikunni?

Það er komið að hinum vikulega þætti síðunnar: "Hvað hrundi af bílnum mínum í vikunni?"

Að þessu sinni er það lítill hlutur úr plasti sem lítur svona út:


Hafið í huga, áður en giskað er, að eftirfarandi hluti koma ekki til greina, þar sem þeir hafa nú þegar hrunið af bílnum:

1. Skráargat bílstjórahurðar.
2. Handfang á skotti bílsins.
3. Aftursætishurð bílstjóramegin (hér um bil).
4. Púströr.
5. Hjólkoppar.
6. Stillingarhnappur fyrir bak farþegasætis.
7. Virðing mín fyrir Peugeot.
8. Rúðuþurrka aftan á bílnum.

Svarið birtist hér að neðan.

föstudagur, 10. desember 2010

Fjórfarar

Ég hef bætt við nýjum fjórförum á Fjórfarasíðuna, hér nánar tiltekið.

Fleira var það ekki. Lifið heil.

miðvikudagur, 8. desember 2010

Hjólreiðatúr

Í gærkvöldi fannst mér ég vera feitur og stirður, svo ég ákvað að fara í ræktina að hjóla.

Eins og alltaf þegar ég tek stórbrotnar ákvarðanir, var ég að sofna þegar ég tók þessa ákvörðun. Og þar sem ég var að sofna þá gúffaði ég í mig súkkulaðirúsínum, banana og hafragraut klukkutíma áður en ég lagði í hann, fyrir skyndiorku.

Í ræktinni hjólaði ég svo öskrandi í 55 mínútum og sá að ég brenndi um 650 kalóríum. „Bravó“ hugsaði ég sigri hrósandi, „þér hefur tekist það aftur, snillingurinn þinn. Ég elska þig“.

Þegar ég vaknaði í morgun var ég minna stirður en áður en hinsvegar mun feitari og talsvert ógeðslegri. Svo ég fór í Excel og spurði hana af hverju:


Ég hafði, að sögn Excel, borðað vel yfir þúsund kalóríur af orku fyrir ferðina en aðeins brennt um 650, sem gera rúmlega 400 kalóríur í umframorku. Vel gert.

þriðjudagur, 7. desember 2010

Tímaferðalag

Í morgun skoðaði ég úrslit leiks Utah Jazz gegn Memphis Grizzlies í NBA deildinni í körfubolta. Jazz vann og það gladdi mig, þar sem ég held með því liði. En annað gladdi mig mun meira:

Þetta er svokallað Game Flow línurit úr leiknum, sem sýnir þróun stigaskors í leiknum.

Ef vel er að gáð má sjá að bæði lið ferðuðust aftur í tímann í leiknum og svo strax aftur fram í tímann! Þegar tvær og hálf mínúta er eftir af öðrum leikhluta skjótast liðin aftur um rúmar fjórar mínútur og aftur til baka. Til hvers veit ég ekki. Kannski til að koma í veg fyrir stórslys. Ómögulegt að segja til um.

Þetta er með því áhugaverðasta sem getur gerst. Tímaferðalög eru ekki bara möguleg, heldur í gangi! Og það í NBA deildinni! Þetta gjörbreytir öllu.

Það ótrúlegasta er að enginn virðist hafa tekið eftir þessu, hvað þá vakið athygli á þessu. Þetta þarf að stúdera og kryfja.

Ég má ekki vera að því að skrifa þessa færslu. Ég þarf að skrifa helstu vísindamönnum heimsins. Gott ef ég skrifa ekki grein í eitthvað vísindablað líka.

Stórkostlegt!

mánudagur, 6. desember 2010

Nýtt orðatiltæki

Í frosti og viðbjóði síðustu daga hefur mér tekist að búa til nýtt orðatiltæki.

Í stuttu útgáfu orðatiltækis míns er talað um að einhver sé eins og „Peugeot í hálku“ þegar viðkomandi stendur illa í lappirnar. Við fyrstu sýn virðist orðatiltækið vera nákvæmlega eins og „belja á svelli“ en munurinn er sá að „beljan“ getur átt við um hvern sem er, á meðan „Peugeot“ getur aðeins átt við um einhvern eða eitthvað sem þú hatar af öllu afli.

Lengri útgáfan af þessu orðatiltæki er „Að vera eins og Peugeot á sumardekkjum í hálku af því ég hef ekki efni á vetrardekkjum eftir að hafa gert við hann fyrir sjötíu þúsund krónur í síðasta mánuði, andskotinn hafi það“.

Ykkur er velkomið að nota það allt að tvisvar á dag, án stefgjalds.

Myndir

Ein af mörgum partímyndum.
Ég hef bætt við nokkrum myndum frá seinni helmingi ársins 2010 á Facebook. Hér er hægt að skoða þær, jafnvel þó viðkomandi sé ekki með Facebook reikning.

En farið varlega. Þarna er mikið af myndum frá sóðalegum partílifnaði mínum. Ekki fyrir alla.

föstudagur, 3. desember 2010

Kökudeigsdraumurinn

Þegar ég var lítill bannaði mamma mér alltaf að borða deigið hrátt, af því hún þurfti að gera kökur úr því. Þannig að ég sór þess eið að þegar ég yrði fullorðinn þá skyldi ég gera heila skál af deigi og borða það hrátt, aleinn! Mig minnir að ég hafi jafnvel öskrað það.

Í gær varð ég fullorðinn og það fyrsta sem ég gerði var að vilja hræra í deig. En það kostar of mikið og krefst smá vinnu, svo ég keypti tilbúið deig. Þetta deig, nánar tiltekið:

Bara rúmar 1.500 kalóríur.
Þegar ég var í þann mund að gleypa deigið í heilu lagi tók ég eftir smáu letri aftan á pakkningunni:

Hrottar.
Ég hefði aldrei keypt deigið ef ég hefði vitað að fasistar framleiddu það.

Allavega, ég neyddist til að baka kökur úr þessu andskotans deigi og var ekki nógu snöggur að taka mynd af þeim áður en ég borðaði þær allar. En ég borðaði þær allavega einn. Það var alltaf hluti af draumnum.

miðvikudagur, 1. desember 2010

Rommkúlur

Í kvöld ætlaði ég að gera ýmislegt, þar á meðal að fara í rækt, en borðaði þess í stað óvart heilan kassa af rommkúlum, af því tilefni að það eru aðeins 24 dagar til jóla.

Þá ætlaði ég að athuga hvort þær væru áfengar, þar sem ölæði er bannað í ræktinni, en gat ekki lesið á umbúðirnar fullur, svo ég lagði mig.

Allavega, boðskapur sögunnar er að ég hef ekki frá neinu að segja.

Hér er því slagarinn Electro Champion með Ali Nadem: