laugardagur, 30. mars 2013

Verkjatöflufyllerí

Það er ýmislegt sem kemur upp á þegar maður er uppdópaður af verkjatöflum alla daga, alltaf. Hér eru tvö dæmi:

1. Ég tók þá fáránlegu ákvörðun að raka af mér allt skegg nema yfirvaraskeggið um daginn, eftir tveggja vikna "söfnun". Þegar Björgvin bróðir pírði svo augun og spurðu hvort ég væri með yfirvaraskegg, hálftíma eftir að ég kíkti í heimsókn til hans, ákvað ég að raka það af.

2. Ég er mikið fyrir rútínu. Á laugardögum fæ ég mér alltaf Subway samloku. Í dag var engin undantekning. Ég fattaði þó þegar komið var að mér í röðinni að ég gæti hvorki borðað neitt né talað mjög skýrt þar sem munnurinn á mér var fullur af blóði og/eða viðbjóði (vegna hálskirtlatöku sem ég fór í fyrir rúmri viku). Það skemmtu sér þó allir vel í röðinni fyrir aftan mig.

miðvikudagur, 27. mars 2013

Hálskirtlataka

Ég losaði mig nýlega við hálskirtlana með smá hjálp frá uppskurðarteymi á handlæknastöðinni. Nú get ég ekkert borðað nema það sé nánast í fljótandi formi og að ég hafi tekið nokkrar verkjatöflur áður.

Fyrsta morguninn eftir aðgerðina vaknaði ég sárkvalinn og sársvangur, svo ég fann verkjatöflurnar. Á þeim stendur, orðrétt "GLEYPIST! TAKIST MEÐ MAT".

1. Gleypist? En ekki hvað? Stendur eitthvað í læknaskýrslunni minni um að ég noti töflur öðruvísi?
2. Ég get ekki borðað nema ég taki verkjatöflur áður. En ég má ekki taka verkjatöflur nema ég hafi borðað áður.
3. Ég verð því að beita öðrum aðferðum til að koma þessum verkjatöflum í líkamann.

Annars gekk aðgerðin vel og ég er allur að koma til. Til að auðvelda fólki, sem á eftir að fara í svona aðgerð, að finna eitthvað um þetta ferli þá er hér lýsing mín:

1. Fasta frá miðnætti þar til aðgerðin fer fram. Ekki einu sinni drekka vatn. Í mínu tilviki fór hún fram kl 8:45 á Handlæknastöðinni í Glæsibæ.
2. Tilkynna komu og fá sér sæti. Fara úr úlpu og skóm við afgreiðslu og taka öll verðmæti með sér.
3. Fara inn með hjúkrunarfræðingi í lítið herbergi. Svara nokkrum spurningum um heilsuna og lyfjatöku.
4. Afklæðast í einrúmi og fá slopp, sokka og buxur til að fara í ásamt hárneti. Í mínu tilviki fékk ég bara slopp, sem varð svo að mini pilsi, þar sem buxurnar pössuðu ekki.
5. Taka tvær sterkar verkjatöflur með eins litlu vatni og hægt er.
6. Ganga inn með hjúkrunarfræðingi í aðgerðarstofuna. Leggjast á bekkinn.
7. Ræða við svæfingalæknirinn um heilsu og annað sem getur skipt máli í aðgerð.
8. Nál stungið í hendina og verkjalyfjum dælt í æð.
9. Háls-, nef- og eyrnalæknirinn kemur inn og heilsar.
10. Ég er spurður hvort ekki sé allt í lagi. Herbergið hringsnýst vegna verkjalyfja.
11. Svæfingalæknirinn segist nú ætla að dæla svefnlyfinu í æð. Ég steinsofna áður en hann nær að klára setninguna.
12. Vakna á stofu tveimur tímum síðar. Mjög dasaður. Ekki ósvipað þessari senu. Ca 10 rúm saman í herbergi aðskilin af tjöldum einhverskonar. Ég finn fyrir sársauka í hálsi og að tungan sé mjög aum.
13. Hjúkrunarfræðingur kemur og spyrt hvort ekki sé allt í lagi. Býður mér svo vatn.
14. Tveir eða þrír hjúkrunarfræðingar kíkja á mig og spyrja hvort ekki sé allt í lagi. Einn býður mér ísklaka og lætur mig fá smá bækling um hálskirtatöku og við hverju megi búast næstu daga.
15. Ég spyr út í tunguna og hún segir að við aðgerina þarf að troða allskonar dóti í munninn, svo það sé skiljanlegt ef tungan sé aum.
16. Ca klukkutíma síðar fæ ég fötin mín og verðmæti og mér sagt að mér sé óhætt að hringja og láta sækja mig, sem ég geri.
17. Ég klæði mig og borða ís og hlusta á táning í næsta rúmi láta eins og 5 ára krakkafífl, nýkominn úr sömu aðgerð og ég.
18. Hálftíma síðar rölti ég fram með aðstoð hjúkrunarfræðings til vinar míns og út í bíl. Þaðan fer ég í verslun og svo heim, þar sem ég sofna.

Nú, nokkrum dögum síðar, er sársaukinn enn talsverður en hefur þó minnkað eitthvað. Eftir viku verð ég svo vonandi farinn að spranga um bæinn, hálskirtlalaus eins og fína fólkið.

fimmtudagur, 21. mars 2013

Smáfréttir

Smáfréttir af mér:

1. Hálskirtlataka
Í fyrramálið fer ég í hálskirtlatöku og verð frá vinnu(stað) í 10 daga á eftir. Ég ætla að nýta frítímann í að vorkenna sjálfum mér, borða verkjatöflur og æla blóði.

2. Nýungar
Í dag smakkaði ég eitthvað sem ég hefði aldrei giskað á að væri óeitrað, hamsatólg, í fyrsta skipti. Ég notaði orðið "ofurviðbjóður" líka í fyrsta skipti strax á eftir og henti diski fullum af soðinni ýsu, í fyrsta skipti.

3. Vinna
Ég gerði mér ekki grein fyrir því að það væri fræðilega hægt að hafa jafn mikið að gera og ég síðustu vikurnar. Ef ég er ekki að vinna í vinnu þá er ég vinnandi heima. Og ef ég er ekki vinnandi heima þá er ég annað hvort sofandi eða vinna að því að fá meiri vinnu. Ég tek því hálskirtlatökunni (sjá atriði 1) fagnandi.

4. Spjall
Í þau ár sem ég hef mætt í ræktina í Laugum hefur ekki ein ókunnug manneskja talað við mig að fyrra bragði, mér til mikillar mæðu, þar til í síðustu viku þegar maður spurði mig hvernig "leikurinn hafi farið" fyrr um daginn. Ég hafði ekki hugmynd um neinn leik svo ég þóttist ekki heyra í honum þar sem ég var með heyrnartól í eyrunum (en þó enga tónlist í gangi vegna rafmagnsleysis spilara). Áður en ég gat þóst ekki hafa tekið eftir honum og svarað honum með því að yppa öxlum hafði maður nálægt okkur svarað honum, mér til mikillar gleði.

laugardagur, 9. mars 2013

Orðrómar

Nýlega hef ég heyrt fjóra orðróma um mig sem eru allir kolrangir:

Orðrómur 1: Að ég sé svo þroskaður.
Hefur sennilega orðið til af því ég er frekar þögull og drekk mig ekki elgölvaðan um helgar. Raunveruleg ástæða er einföld: ég hef ekkert að segja og vildi að ég hefði líkama í drykkjuna.

Orðrómur 2: Að ég kann að fara með peninga.
Sennilega af því ég sést aldrei eyða peningum í neitt heimskulegt eins og áfengi og/eða gleðikonur. Ástæðan er í raun sú að ég á ekki krónu.

Orðrómur 3: Að ég er rökréttur í hugsun.
Mögulega af því ég kann á Excel og er einhleypur. Það er í raun engin fylgni milli þess að kunna á Excel og vera rökréttur í hugsun. Og ástæðan fyrir því að ég er einhleypur hefur ekkert með að það sé gagnlaust að stofna til sambands og er ekki áhættunnar virði, heldur vegna þess að ég hef ótrúlega gaman að heyra setninguna "Ætlar þú ekkert að fara að fá þér konu?" og reyna að komast upp með að svara henni með orðinu "nei" án orðalengingar.

Orðrómur 4: Að ég er samkynhneigður.
Sennilega af því ég er að nálgast fertugsaldurinn og er einhleypur. Og að ég geng í rasslausum leðurbuxum dags daglega. Hið rétta er að ég er ekki samkynhneigður. Ég get sannað það með hvaða smekklausa kvenmanni sem er.

Ef þú ert ekki enn sannfærður um að ég sé ekkert að ofantöldu þá er hér sönnun til að taka af allan vafa:

Þetta keypti ég mér um daginn:


Þetta er leikjastýri fyrir bílaleiki.

1: Þetta sýnir að ég er enn 13 ára gamall.
2: Ég kann ekkert með peninga að fara þar sem í þetta fóru síðustu aurar mínir.
3: Ég hef ekki enn opnað kassann eftir næstum viku. Rökrétt kaup, Finnur.
4: Myndi samkynhneigður maður kaupa sér svona karlmannlegt stýri, til að geta spólað af stað í tölvuleikjum og jafnvel í hringi? Ég held ekki.

mánudagur, 4. mars 2013

Viðtal við sjálfan mig

Enn eina ferðina hef ég staðið Fréttablaðið að því að hunsa mig í blaðaviðtölum. Þvílík hneysa, sérstaklega þar sem ég vinn fyrir blaðið.

Í þetta skiptið er það krakkahluti síðasta helgarblaðsins sem lætur sem ég sé ekki til, "krakkakynning" nánar tiltekið, þar sem tekið er viðtal við einhverja 9 ára stelpu frekar en mig. Ég læt ekki vaða yfir mig og svara því spurningalistanum hér, eins og svo oft áður.

Nafn og aldur:
Finnur, 34ra ára.

Í hvaða skóla ertu?
Ég er ekki í skóla.

Í hvaða stjörnumerki ertu?
Ljóninu.

Áttu happatölu?
Nei.

Helstu áhugamál/hvað gerirðu í frístundum þínum?
Körfubolti, svefn, bíóferðir, tölfræði, Excel, að svara spurningalistum sem ég finn í blöðum og smá meiri svefn.

Eftirlætissjónvarpsþáttur:
Dexter eða Breaking Bad.

Besti matur:
Fiskur og kjúklingur.

Eftirlætisdrykkur:
Vodki þynntur með rommi.

Hvaða námsgrein er í uppáhaldi?
Stærðfræði var í uppáhaldi.

Uppáhaldslitur:
Sægrænn.

Áttu gæludýr - ef svo er, hvernig dýr og hvað heitir það?
Nei.

Skemmtilegasti dagurinn og af hverju:
Föstudagur af því þá er óhóflegur svefn helgarinnar framundan.

Eftirlætistónlistarmaður/hljómsveit:
Ef ég verð að velja einn: Daft Punk.

Hvað gerðirðu síðasta sumar?
Drap flæking. Og vann.

Skemmtilegasta bók sem þú hefur lesið:
Teljast biómyndir til bóka? Ef svo er, Memento. Ef ekki...Fight club? Ég veit það ekki.

Hvað ætlarðu að verða þegar þú ert orðinn stór?
Ég ætla að verða geimfari.

sunnudagur, 3. mars 2013

Kvennahjal

Í dag passaði ég Valeríu Dögg, 2,5 ára gamla bróðurdóttir mína. Þar átti m.a. eftirfarandi samtal sér stað:

Valería: Finnur...
Ég: Já?
Valería: Þú ert stelpan mín.
Ég: Já, mamma mín.
Valería: Komdu að dansa, stelpan mín.
Ég: Já, mamma mín.

Og svo dönsuðum við mæðgurnar eins og brjálæðingar.