mánudagur, 31. október 2011

Sjónvarpsþættirnir mínir

Ég fylgist ekki nógu vel með sjónvarpsþáttum en fylgist þó með tveimur seríum: House MD og Dexter. Nýlega fór ég svo að horfa á gamanþættina Community (Ísl.: Hörkufjör á heimavist) og varð yfir mig hrifinn (á góðan hátt).

Ef það er ekki ástæða til að gera línurit, þá veit ég ekki hvað er.

Svona mælist fyrsta serían af Community fyrir hjá mér, til samanburðar við aðra þætti sem ég hef horft á hingað til (smellið á mynd fyrir stærra eintak í nýjum glugga):




Community er með hæsta "slefa úr hlátri á hvern þátt" hlutfallið hingað til. Vona að það haldist ekki, er orðinn þreyttur á að skipta um peysur/korsilettur.

föstudagur, 28. október 2011

Matarinnkaup mín

Fyrir rúmu ári áttaði ég mig á því að matarneysla mín, þó lítil væri, hefði blásið út í mánaðarlegu kostnaðaryfirliti mínu. Ég verslaði daglega í matinn í 10-11, einni dýrustu búð heims. Svo átti ég aldrei neitt að borða, nema ég væri nýkominn úr 10-11.

Ég ákvað því að brjóta odd af oflæti mínu og skipta út 10-11 fyrir Bónus, þeirri andstyggilegu búllu og sjá hvort ég gæti ekki sparað á því.

Hér er niðurstaðan:



Semsagt: Ég er smámsaman að skipta aftur yfir í 10-11 án þess að henda út Bónusferðunum. Ég á því alltaf nóg að borða heima en versla samt í 10-11, þar sem ég nenni sjaldan að elda það sem ég kaupi vikulega í Bónus. Og þessi mánaðarmót er ég kominn á sama stað og ég var fyrir sparnaðarátakið. Ég stefni svo á að kaupa mér frystikistu í vikunni.

Löng saga stutt: Ég er hálfviti.

miðvikudagur, 26. október 2011

Kvikmyndaáhorf helgarinnar

Um helgina gerði ég mér glöð kvöld og horfði á tvær nýlegar myndir. Hér er gagnrýni mín á þær:

I am number four (Ísl.: Ég er númer tólf)
Rosa sætur strákur umgengst rosa sætt fólk á rosa sætum stöðum að gera rosa sæta hluti á meðan hann er ofsóttur af rosa vondum og ljótum geimverum. Bland af unglingaþáttum á borð við The OC og algjöru kjaftæði.

Mæli ekki með þessari. Hálf stjarna af fjórum.

Up in the air (Ísl.: Milli heims og helju)
Miðaldra maður, sem fæst við að reka fólk fyrir fyrirtæki um gervöll Bandaríkin, kynnist tveimur konum. Þær hafa mismunandi áhrif á hann.

Þægileg mynd, þrátt fyrir nokkrar grátsenur. Svo voru líka nokkrar grátsenur í myndinni.

Þrjár stjörnur af fjórum.

mánudagur, 24. október 2011

Hörkufjör á hraðbraut

Um helgina sá ég bíl með númeraplötuna „BOOZER“. Mér fannst það merkilegt af því einu sinni var einn aðalmaðurinn í mínu uppáhaldsliði í NBA sem bar þetta eftirnafn. Þannig að ég ákvað að taka mynd af þessari númeraplötu.

Einu gallarnir voru birtuskilyrði, slæmt veður og að ég var í bílnum mínum, á ferð, eins og hinn bíllinn. En ég lét það ekki stoppa mig. Mér sortnaði reyndar fyrir augun þegar ég fattaði að ég var að koma að beygjunni heim og tími til að taka myndina að renna út.

Myndin kom ekkert sérstaklega út en þar sem ég lagði ótrúlega mikið á mig fyrir þessa mynd finn ég mig tilneyddan til að birta hana.

föstudagur, 21. október 2011

Axarskaftarskömm

Ég geri stundum axarsköft. Yfirleitt eru þau svo lítil að ég get viðurkennt þau. Stundum eru aðeins of stór til að ég þori að viðurkenna þau. Svo kemur fyrir að þau eru svo stór að ég verð að viðurkenna þau, svo ég sofi á nóttunni.

Í dag gerði ég svo stórt axarskaft að skömm mín er nægilega mikil til að ég játi það á mig. Hér er graf yfir líkurnar á því að ég viðurkenni skömm mína og hvar skömm mín er í dag:




Það sem ég gerði af mér var að hlusta á tvö lög með ofur selloutinu David Guetta, ítrekað, og njóta þess. Ég geng jafnvel svo langt að segja lögin frábær, mögulega í stíl við Daft Punk, andskotinn hafi það.

Lag 1: The Alphabet




Lag 2: Toy Story




Nú er skömmin vonandi ykkar.

fimmtudagur, 20. október 2011

Þetta og hitt

Í dag er tvennt sem liggur mér á hjarta:

1. Ég vil gjarnan koma á framfæri miklu þakklæti til Kringlunnar fyrir að senda mér heilt tímarit til að vara mig við einhverju sem kallast Kringlukast. Þá er gefinn allskonar afsláttur af allskonar vörum sem seljast venjulega ekki. Á þetta hrúgast heilu tonnin af fólki. Ég hunsa ekki viðvaranir og held mig því fjarri Kringlunni á næstunni.

Ég vil líka þakka öllum öðrum fyrirtækjum sem senda mér svona viðvaranir um útsölur. Takk! Þið bjargið geðheilsu minni án þess að vita af því.

2. Ég er orðinn alvarlega háður gröfum. Ekki nóg með að ég vinni við að búa þau til heldur hugsa ég sífellt meira í gröfum og tek mikilvægar, misgóðar ákvarðanir út frá þeim grafísku hugsunum. Sjá graf yfir þróun tíðni hugsana í gröfum frá 1995:


miðvikudagur, 19. október 2011

Píanóofsóknir

Þegar ég hafði lokið vinnu á mánudaginn og hugðist loka gluggum í fyrirtækinu (þar sem ég var einn eftir og síðastur út) á hæðinni tók ég eftir að við hvert spor sem ég tók heyrðist píanóleikur í fjarska.

Píanóleikurinn var algjörlega handahófskendur, stoppaði þegar ég stoppaði og var hraðari með hraðari (og logandi hræddum) hreyfingum mínum.

Eftir að hafa leitað að píanóleikaranum í dágóða stund og lokað öllum gluggum í leiðinni, tók ég upp snjallsímann minn úr vasanum og sá að ég hafði gleymt að læsa honum áður en ég stakk honum í vasann.

Á skjánum var píanóforritið sem ég niðurhól nýlega, sem hafðist opnast við snertingu í vasanum og hafði leikið sjálfkrafa við núninginn sem myndaðist við að labba og hlaupa um hæðina.

Enn ein ástæðan til að hata snjallsíma, þó þeir séu vatnsheldir, sem ég lærði í þetta skiptið.

föstudagur, 14. október 2011

Getraun dagsins

Forsaga:
Á miðvikudaginn síðasta passaði ég Valeríu Dögg, rúmlega árs gamla frænku mína. Eftir að hafa sótt hana á leikskólann fór ég með hana til mömmu sinnar í vinnuna, þar sem hún fékk að borða.

Þegar Valería var búin að fá sér að borða og ég gerði mig tilbúinn til að fara með hana heim til sín að halda áfram að passa hana á meðan foreldrar hennar ynnu, sagði Svetlana (mamma Valeríu) mér að bíða í smá stund á meðan hún sótti poka sem ég átti að taka með heim. Ég samþykkti og Svetlana fór inn á vinnustaðinn að sækja pokann. Um leið og Svetlana var farin á vinnustaðinn lagði ég af stað með Valeríu heim til sín.

Getraunin:
Af hverju fór ég án þess að bíða eftir að Svetlana kæmi með pokann?


þriðjudagur, 11. október 2011

16. styrkleikastigið og ég

Oftast þegar ég fer í ræktina hjóla ég eins og einhverfur í klukkutíma og teygi svo á, eins og heldri manna er siður.

Á hjólinu hjóla ég nánast eingöngu á styrkleika 15. Það hefur enginn spurt mig af hverju ég reyni ekki við hærra styrkleikastig... ennþá.

Til að koma í veg fyrir að að ég þurfi að standa í mannlegum samskiptum / svara þeirri spurningu í persónu birti ég svarið hér með skriflega.

Svona hjóla ég venjulega:


Eins og sést reyni ég við level 16 reglulega. Það gengur sjaldnast lengur en í mínútu í senn. Ástæðan er í næsta grafi:




Munurinn á styrkleikastigum 15 og 16 er alltof mikill og ómögulegt að hjóla á stigi 16 án þess að öskra til að fá meiri orku, sem er ástæðan fyrir því að ég er læt mér stig 15 nægja.

Ef enginn ætlaði að spyrja að þessu þá er það í fínu lagi. Það verður fínt að lesa þessa færslu þegar ég er níræður og að spá í af hverju ég hjólaði aldrei á meiri styrkleika í ræktinni þegar ég var yngri.

mánudagur, 10. október 2011

Útlitsspurningar Mörtu Maríu

Smartland Mörtu Maríu heldur því fram að ég sé ekki nógu merkilegur til að svara nokkrum spurningum varðandi útlit mitt. Helgi Seljan er nógu merkilegur.

Ég neita að láta koma svona fram við mig. Hér svara ég því þessum spurningum, óaðspurður:

Hvað gerir þú til að halda þér í formi?
Fer í ræktina, út að hlaupa eða labba og eyði miklum tíma í svefn (tíma sem annars færi í að borða nammi).

Er einhver matur sem þú borðar ekki eða fer illa í þig?
Skyr og skyrdrykkir. En sem betur fer bragðst skyrvörur ógeðslega.

Og jú, allt djúpsteikt. Mér líður alltaf eins og ég hafi orðið valdur að þjóðarmorði, líkamlega, eftir ferð á KFC.

Ertu hættur að borða eitthvað sem þú borðaðir áður?
Nei, ég held ég borði meira af öllu en áður. Nema kannski rækjur. Get ekki fengið mig til að stinga þeim upp í mig.

Hvað gerir þú til að líta betur út?
Ýmislegt. T.d. að sofa mikið, raka mig ca vikulega, fara í klippingu á 3ja mánaða fresti, setja gel í hárið.

Ég geri þó talsvert meira til að líta verr út. T.d. ganga með ógeðsleg gleraugu, raka mig ca vikulega, naga á mér neglurnar, láta stundum líða yfir 9 mánuði á milli klippinga og svo framvegis.

Lumar þú á einhverjum leynitrixum varðandi útlitið?
Að þvo sér ekki of oft um hárið. Ég lít t.d. út eins og aukaleikari í erótískri gamanmynd frá 1981 ef ég þvæ mér of mikið um hárið.

Hvaða snyrtivöru gætir þú ekki lifað án?
Svitalyktaeyði, geli, raksápu, varasalva, rakakremi, tannkremi og svo framvegis og svo framvegis.

Prentið þetta!

föstudagur, 7. október 2011

Endurskipulagning fjármála

Síðustu tvo daga hef ég verið veikur heima. Til að nýta tímann ákvað ég að fara yfir fjármálin og sjá hvað ég gæti gert til að bæta úr þeim.

Það fyrsta sem mér datt í hug var að minnka nammineyslu mína. Svo ég fór á einkabankann minn og skoðaði eyðsluna. Hér er grafið yfir neyslu mína síðasta mánuðinn, sem beið mín á síðunni (skjámynd):



Rauður: Kók
Blár: Risa hraun
Appelsínugulur: Húsaleiga

Ég ákvað að vera ekki svo barnalegur að draga lærdóm af því hvað grafið stendur fyrir heldur hverju það líkist. Og það líkist Pepsi merkinu.

Ég hef því ákveðið að skipta kóki út fyrir Pepsi. Þar með er endurskipulagningu fjármálanna lokið þetta árið.

þriðjudagur, 4. október 2011

Þórsæðið

Það er óhætt að setja að Þórsæði (Þórs-æði!) tröllríði öllu um þessar mundir. Hér eru nokkur dæmi:

Thor: Tales of Asgard
Teiknimynd frá Marvel kom út á árinu.

Legends of Valhalla: Thor
Íslensk tölvuteiknuð mynd.

Thor
Hollywoodmynd um ofurhetjuna/þrumuguðinn Þór.

Thors saga
Dramatísk saga Thors-ættarinnar.

Gylfi Þór
Vinur minn.

Þór Akureyri
Lið sem féll úr úrvalsdeildinni í fótbolta í vikunni.


Nóg komið!

mánudagur, 3. október 2011

Nýr meðlimur ættarinnar

Miðvikudaginn 28. september síðastliðinn stækkaði Gunnarsson veldið um rúm 9 prósent þegar Styrmir bróðir og Lourdes kona hans eignuðust sitt þriðja barn og sinn þriðja strák. Móður og barni heilsast vel. Gera má ráð fyrir að pilturinn verði kvennagull, þar sem hann er gullfallegur eins og hinir strákarnir þeirra.

Spannar þá Gunnarsson veldið tólf mannverur alls: tvö höfuð ættarinnar, fimm afkvæmi og fimm barnabörn, eins og sjá má á ættartrénu hér að neðan.




Smellið á mynd fyrir stærra eintak í nýjum glugga.

Nokkur atriði:

1. Ég og Helgi bróðir eru þeir einu sem eftir eiga að fjölga sér af systkinunum. Það er nóg pláss Helga megin í trénu fyrir afkvæmi en ekkert pláss þar sem ég er staddur. Ég verð því að bíta í það súra epli að fjölga mér ekki.

2. Aðeins 33% veldisins eru kvenkyns.

3. Aðeins 8,3 veldisins er ég.

4. Ættartréið var síðast uppfært fyrir rúmu ári síðan, þegar Björgvin og Svetlana eignuðust Valeríu Dögg.

Til hamingju með nýjasta meðliminn Styrmir og Lourdes!