Ég vona að eftirfarandi færsla sé sú síðasta sem tengist strætisvögnum bæjarins því ég er að verða leiður á að skrifa þetta langa orð.
Í gærkvöldi sló ég persónulegt met í að bíða eftir strætó en biðin tók 33 mínútur. Strætóinn á að láta sjá sig á 20 mínútna fresti á virkum dögum en það gerði hann ekki í gær. Þegar gula hlussan mætti svo loksins og ég orðinn dansandi illur (dansaði af reiði við biðskýlið, rétt eins og í Footloose) bauð ég strætóbílstjóranum góða kvöldið þrátt fyrir vonda skapið til þess eins að fá hreitt í mig "ok!" eftir að ég sýndi honum græna kortið mitt. Þetta er nú ekki mikið því stuttu seinna stoppaði strætóinn til að taka upp 2 stelpur sem voru ekki mikið meira en 9-10 ára. Þær voru hinsvegar í vandræðum því þær áttu ekki pening og vildu komast heim og báðu því um lán eða jafnvel bara um að fá að sitja í einn hring eða svo því úti var kalt og klukkan orðin margt. Þá tók við skrítin atburðarás því strætisvagnabílstjórinn tók að öskra á þær, spyrjandi hvað þær væru eiginlega að hugsa á milli þess sem þeim var sagt að hunskast út.
Nú spyr ég, hvers konar maður öskrar á 9-10 ára stelpur sem biðja um 120 króna lán (60 krónur fyrir börn) því það er orðið kalt og dimmt?
Grátlegt ástand í Reykjavík.
0 athugasemdir:
Skrifa ummæli
ATH. Þegar athugasemd hefur verið rituð þarf stundum að staðfesta hana, eftir að smellt hefur verið á "Post Comment". Hafið það í huga.