miðvikudagur, 30. apríl 2008

Punktar!

* Í gær afþakkaði ég að taka þátt í að giska á úrslit leiks í UEFA keppni einhverri. Ég giskaði samt með samstarfsmanni mínum, í sprellstuði. Í morgun frétti ég svo að mín spá var rétt. Ég hefði unnið yfir 20.000 krónur ef ég hefði samþykkt að keppa. Snjallt.

* Í morgun fattaði ég að ég hafði ekki tannburstað mig áður en ég fór að sofa, þar sem ég kom beint úr sturtu. Þetta er þá í fyrsta skiptið á ævinni, svo ég viti til, að ég gleymi að tannbursta mig fyrir svefn. Ég bætti upp fyrir þetta með því að tannbursta mig með rakvélinni, til að tryggja enga skemmd.

* Fyrir hálftíma var mér sagt að á morgun sé frídagur, einhverra hluta vegna (þeas ég veit ekki af hverju einhver var að tala við mig). Þetta hafði ég ekki hugmynd um. Planið um að mæta illa sofinn í vinnuna á morgun er fyrir bí(l). Ég er ónýtur maður.

* Ég er ekki alveg með sjálfum mér þessa dagana. Það gæti tengst fráhvarfseinkennum heróinfíknar minnar. Ég hallast þó frekar að svefnleysi, stressi og flensunni sem ég ætla seint að ná fullkomlega úr mér.

Punktum lokið.

þriðjudagur, 29. apríl 2008

Ég hef alltaf forðast að hlusta mikið á Jeff Buckley, þar sem ég gæti misst mig í aðdáuninni. Nýlega heyrði ég óvart lag með honum og ég hef ekki getað sofið síðan. Snilldarlag, flutningur og texti!

Lover, you should've come over (ísl.: 18 rauðar rósir), gjörið svo vel:


Svo að fólk geti öskrað með hátindi lagsins með tárin í augunum:

Its never over, my kingdom for a kiss upon her shoulder
Its never over, all my riches for her smiles when I slept so soft against her
Its never over, all my blood for the memories and the sweetness of her laughter
Its never over, shes the tear the hangs inside my soul forever

(Ísl.: túlkunaratriði.)

Til að núlla þessa væmni kemur hér annað myndband, með Bert og Ernie (Ísl.: Örn og Örlygur) að prófa sig áfram í dauðajárni:




Þeir sem þrauka út myndbandið fá 2 rokkstig (sem greiðast í gegnum einkabanka).

mánudagur, 28. apríl 2008

Þegar ég er spurður dags daglega, í kæruleysislegu spjalli „Hvernig hefurðu það?“ fyllist ég alltaf vanlíðan þar sem mér finnst orð ein og sér ekki lýsa líðan minni nógu vel. Ég enda yfirleitt á því að reyna að túlka líðan mína með einhverskonar dansi, sem kemst aldrei almennilega til skila (vegna eymsla minna í fótum).

Mér finnst mun betra að tjá mig í rituðu og teiknuðu máli. Jafnvel bundnu máli, en ekki núna. Hér er svar fyrir alla sem hafa spurt mig að þessu undanfarið:



Líðanin er á skalanum 0-10, þar sem 0 er andstyggileg vanlíðan og 10 er óhugnarleg sæla.

Hvernig hafið þið það annars? Sendið Excelsvör á finnurtg@gmail.com.

laugardagur, 26. apríl 2008

Þetta er frétt ársins!

Ef ég þekki ferlið rétt þá má búast við því að sjá fréttir um þetta á erlendum vefsíðum fljótlega, jafnvel að nokkrar fréttastofur komi og fjalli um málið.

Jay Leno tekur þetta fyrir í einhvern brandarann sinn (áður en viðkomandi aðili er kallaður í viðtal) og 60 mínútur taka sér þátt undir þessa íslensku frétt.

Umræðuþættir munu ekki fjalla um annað og allir munu þekkja Ísland út frá þessum ótrúlegu fréttum. Að lokum tekur páfinn til máls og fordæmir þetta, eins og flest annað.

Ég er bara feginn að þetta kom fyrir Hauk Hólm en ekki mig.

föstudagur, 25. apríl 2008

Í dag mætti ég til vinnu eftir að hafa verið nær dauða en lífi síðustu daga. Við að skoða vinnupóstinn minn sá ég að ég hafði svarað einu bréfi á meðan ég lá heima veikur. Svona voru samskiptin, orðrétt:

Fyrirspurn: áttu nýlega mælingu?
Svar: haltu kjafti helvítis auminginn þinn

Mér finnst líklegt að þetta tengist ótrulegri hæfni minni í að stjórna fólki með huganum, en Böðvar samstarfsmaður minn sat í mínum stól á meðan ég lá veikur/hálf dauður heima.

fimmtudagur, 24. apríl 2008

Ég hef setið í allt kvöld og hugsað eitthvað sniðugt til að skrifa um á þessa síðu. Þetta er það eina sem kom:

4f+(ar)^2.

Þetta á semsagt að vera "fjórfarar" í formúlustíl. Ömurlegt? Smekklaust? Óþolandi?

Það getur verið, en ég les allavega ekki þessa ömurlegu bloggsíðu, eins og sumir.

miðvikudagur, 23. apríl 2008

Í dag hefur eftirfarandi gerst í mínu lífi:

* Ég reyndi að horfa á Lindsey Lohan mynd. Ég entist í 7 mínútur og 13 sekúndur. Persónulegt met.

* Vöðvabólgan mín er orðin svo mikil að ég er alvarlega að spá í að hefja heróínferil, til að slá á sársaukann.

* Ég er með einn massaðasta þumalputta í heimi eftir að hafa skipt um stöð á sjónvarpinu 1.645 sinnum.

* Það leiðinlegasta sem ég get ímyndað mér er að vera veikur. Í 2. sæti er að láta hópnauðga mér af trylltum ótemjum.
Vegna veikinda er hér endurtekin bloggfærsla:

Ég hef lítið skrifað á þessa síðu nýlega (mér finnst ljótt að segja "blogga"). Ástæðan er einföld, ég er með strákakvef:



Svo virðist sem ég þekki einhvern höfund að þessum gamanþáttum (man-stroke-woman), því þetta er nákvæm eftirlíking af mér þegar ég er veikur.

mánudagur, 21. apríl 2008

Í laginu hérna að neðan, sem ég hef hlustað óþarflega oft á undanfarna daga, vikur, ár og ævi, kemur fram setning sem söngvari lagsins hefur reynt að draga til baka eftir að hann fór í nám og varð læknir. Hann áttaði sig á því að setningin er lygi, alveg eins og þessi færsla.

Allavega, setningin er

"If this don't make your booty move your booty must be dead"

sem þýðist

"Ef þetta [lag] lætur rassinn á þér ekki hreyfast, þá hlýtur að vera rökrétt að draga þá afdráttarlausu ályktun að umræddur rass hljóti að vera úrskurðaður látinn".

Ég er annars sammála þessari setningu. En hvað veit ég. Ekki er ég læknir.

laugardagur, 19. apríl 2008


Pokernight
Originally uploaded by finnurtg
Í gær spilaði ég póker við Björgvin, Svenna, Gutta og Víði. Spilað var frá 8 um kvöldið til 2 um nóttina. Ég ætla ekki að segja hver vann. En ég varð í öðru sæti, Björgvin í þriðja, Gutti í fjórða og Svenni í fimmta.

föstudagur, 18. apríl 2008

Í gær fékk ég gefins gjafakort í bíó og leikhús (af öllum húsum) og fríkort á alla leiki í íslenska körfuboltanum (það sem eftir er af þessari leiktíð) frá vinnunni.

Það eina sem ég þurfti að gera var að vinna eins og geðveikt naut síðasta mánuðinn eða svo, tapa smá geðheilsu, fá stærðarinnar bauga undir augun og drepa og éta nokkra kettlinga. Þegar ég hugsa út í það þá þurfti ég ekkert að drepa og borða þessa kettlinga.

Og ég hef sjaldan verið jafn ánægður með lífið og þegar ég fékk þessa viðurkenningu. Merkilegt hversu slakandi áhrif smá þakklæti hefur á gnístandi tennur og hvítnaða hnúa.

fimmtudagur, 17. apríl 2008

Áhugavert: Ef orðinu assassin (Ísl.: leigumorðingi) er endurraðað lítillega kemur út setningin ass in ass (Ísl.: leigu ingi morð). Ég veit ekki hvað þetta merkir en það hljómar mikilvægt.
Í kvöld náði ég þeim stórmerkilega áfanga að brjóta egg með annarri hendi. Þið lásuð rétt.

Ég notaði aðeins aðra höndina við að missa það í gólfið. Svo tók ég skurnina og þurrkaði það upp, allt með annarri hendi. Geri aðrir betur.

miðvikudagur, 16. apríl 2008

Það munar bara einu essi (s) að Mega-vika Dominos pizzukeðjunnar sé Megas-vika Dominos. Ótrúleg heppni hjá þeim.

Þessi pæling er afleiðing/árangur þess að vaka til klukkan 3:30 í nótt við að reyna að finna lausn á öllum vandamálum heimsins.

þriðjudagur, 15. apríl 2008

Spurning dagsins: Hver er munurinn á mér og ca 5.000 ára múmíu?

Svar: Múmían er með meiri raka í handarbökunum sínum (og með meiri persónutöfra og útgeislun).

Hendurnar munu sennilega molna af mér í dag sökum þurrks. Engin krem duga, nema ég beri þau á mig, auðvitað.

mánudagur, 14. apríl 2008

Hjá 365 er starfræktur vinnustaðanuddari sem hægt er að panta tíma hjá í gegnum þar til gerða netsíðu.

Hjá 365 er líka starfræktur náungi sem virðist ekki geta fengið tíma hjá þessum umrædda nuddara.

Í fyrsta skipti sem hann átti að fara í nudd var nuddarinn staddur á öðrum stað en venjulega og því varð ekkert úr tímanum.

Í annað skiptið var nuddarinn veikur.

Í þriðja skiptið, í morgun, var forritunarvilla á pöntunarsíðunni sem kom í veg fyrir að hægt væri að panta tíma.

Þessi ákveðni náungi er auðvitað ég. Sami náungi ákvað að skrifa færsluna á þennan hátt þar sem hann er haldinn mjög alvarlegu 3. persónu blæti.

sunnudagur, 13. apríl 2008




Í gærkvöldi var pókerpartí hjá Víði í Kópavoginum. Ég mætti með myndavélina á lofti og tók tvær myndir.

Allvega, þetta gerðist:

* Ég vann mótið. Ég mun borga leiguna í þessum mánuði.

* Eftir pókerinn tvístraðist partíið. Meira um það hér.

* Eftir tvístrunina sameinaðist partíið aftur og ég ók piltunum niður í bæ, þar sem ég drakk ekkert etanól.

* Ekkert fyndið gerðist.

föstudagur, 11. apríl 2008

Einhversstaðar las ég að til að fá fólk til að gera ákveðnar aðgerðir væri nóg að láta falin skilaboð þess efnis í hljóð, mynd eða lesinn texta og viðkomandi myndi í kjölfarið gera hlutinn. Fólk þyrfti þó að vera grunlaust um þetta.

Fyrir utan að mig langar ekki í neitt, nokkurntíman (fyrir utan einstaka Risahraun), þá er ég ekki nógu siðlaus til að beita þessari tækni.

Allavega, mér fannst bara rétt að þið vissuð þetta. D!!

fimmtudagur, 10. apríl 2008

Í morgun vaknaði ég og fékk strax stórkostlegar fréttir; ég er með trylltan hálsríg. Þetta eru góðar fréttir af því:

* Ég er orðinn mjög leiður á að þurfa að horfa til hliðar eins og fífl.
* Ég fæ þetta svala stjarfa útlit, eins og eitthvað sé fast í bakinu á mér... eða neðar.
* Risahraun og kók er talið lækna hálsríg í sumum löndum Afríku. Ég er mjög mikið fyrir óhefðbundnar lækningaaðferðir, amk þegar þær innihalda Risahraun.
* Sársaukinn sem fylgir hálsrígnum er viðbjóður, á góðan hátt.
* Ég er löglega afsakaður fyrir því að vera ber að ofan í dag. Peysan og bolurinn íþyngir hálsrígnum mínum.

miðvikudagur, 9. apríl 2008

Heilsukúrinn minn byrjar mjög vel. Í morgun fékk ég mér morgunmat; brauð með osti og eggjum ásamt kókómjólk í mötuneyti 365.

Það var reyndar bara til sykurskert kókómjólk. Eins og alþjóð veit er það viðbjóður, svo ég fékk mér kók í staðinn. Eggin voru líka búin og til að bæta upp fyrir þau fékk ég mér súkkulaði. Það voru svo bara mjög litlir brauðendar eftir, sem mér fannst ekki þess virði að kaupa þannig að ég sleppti því.

Það er erfitt að lýsa því hversu góð tilfinning það er að borða bara hollt.

þriðjudagur, 8. apríl 2008

Ég hef verið svo upptekinn síðustu daga við að hugsa um lífið og hvort tími sé kominn á klippingu að ég hef ekki haft neinn tíma til að hugsa um mikilvægustu hluti lífsins; þetta blogg.

Ég kaupi mér þó tíma fram á kvöld eða morgun með því að brydda/bridda upp á, öllu í senn:

* Fallegu ástarlagi
* Hugmyndabanka fyrir fólk sem vill krydda ástarlífið
* Upptalningalista

með eftirfarandi lagi með Adam Sandler:

mánudagur, 7. apríl 2008

Til að spara tíma, þar sem ég hef mjög mikið að gera í vinnunni í dag, mun ég sleppa öllum bilum, sérhljóðum og séríslenskum stöfum í sérstaklega persónulegri bloggfærslu dagsins:

Bbgss.

laugardagur, 5. apríl 2008


Weird
Ullað af finnurtg
Í dag gældi ég við þá róttæku hugmynd að versla mér nærbuxur. Í einni verslunni rakst ég á þessar nærbuxur (sjá mynd til hægri).

Það sem vakti athygli mína var ekki agnarsmá hendi og fingur á manninum utan á pakkningunum, heldur stærðin á nærbuxunum. Ég vissi ekki að nærbuxur væru hannaðar fyrir hross.

Ekki séns að ég versli mér XL nærbuxur þegar svona skrímsli eru til.

föstudagur, 4. apríl 2008

Nákvæmlega þegar ég held að allt sé á niðurleið gerist eitthvað svo stórkostlegt að ég get illa tjáð mig án þess að öskra.

Svo virðist sem Mústasskeppni (aka mottukeppni, yfirvaraskeggskeppni) hafi verið sett af stað þann 1. apríl síðastliðinn á 4. hæð vinnu minnar. Ég er einmitt á 4. hæð og mér vex skegg. Ég tek því þátt.

Keppnin stendur yfir í mánuð. Þann 1. maí næstkomandi mun hið mikla "showdown" eiga sér stað með viðeigandi klámmyndatónlist og æstum kvenskara.

Ef þið sjáið fölu, asnalegu og/eða þunnskeggjuðu útgáfuna af Tom Selleck eða Burt Reynolds í Reykjavík eða nágrenni næsta mánuðinn, þá skuluð þið endilega spjalla við hann. Helst um veðrið.

miðvikudagur, 2. apríl 2008

Hugsið ykkur árabát sem lekur. Í bátnum er maður með teskeið að reyna að losa vatnið úr bátnum áður en hann sekkur. Ekkert gengur. Jafnóðum og hann kemur einni teskeið af vatni fyrir borð skellur á hann stærðarinnar alda.

Skiptið manninum í bátnum fyrir krakkafíflið mig. Takið út bátinn og setjið andlega heilsu mína og í stað teskeiðarinnar kemur Microsoft Excel. Vatnið táknar svo verkefnin í vinnunni sem ég er að reyna að klára.

Skiptið svo aftur öllu út nema mér og setjið fyrir framan mig tölvuskjá þar sem ég grenja yfir því að hafa of mikið að gera í vinnunni.

Smellið svo á athugasemdir og skrifið eitthvað. Hvað sem er.
Í dag tala ég í hlekkjum. Ég hef þrennt að segja:

* Ég hef stigið stórt skref í ást minni á Risa Hrauni með því að stofna aðdáendasíðu Risa Hrauns á Facebook. Skoðið síðuna hér og skráið ykkur, ef þið eruð með Facebook reikning. Annars skoðið mbl.is (handvirkt. Nenni ekki að gera ykkur það auðvelt með hlekki).

* Ég hef bætt við myndum á Flickr reikninginn, öðru nafni GSM bloggið. Hér getið þið séð allar myndirnar með smá útskýringu á hverri mynd, eða afsökunarbeiðni.

* Ég hef hafið markaðsherferð á sjálfum með til allra kvenna. Hlustið á þetta lag stelpur. Hringið svo í mig. Ég er alls ekki örvæntingafullur. Meira áhugasamur, taugaspenntur, slefandi og skjálfandi.

þriðjudagur, 1. apríl 2008

Það er eitt að vera gómaður með mellu, annað að vera gómaður í orgíu og enn annað að vera ásakaður um að "fíla" nasista.

En að vera gómaður í orgíu með nasistamellum er eitthvað svo rosalegt að ég á erfitt með að lýsa því. Þetta einmitt kom fyrir þennan mann. Aldrei nokkurntíman mun neinn vera gómaður jafn svakalega!

Allavega, hér er myndbandið.