laugardagur, 30. maí 2009

Rétt í þessu var ég að finna fyrir jarðskjálfta í fyrsta sinn um ævina. Líklega eftirskjálfti en nóg til að ég hristist smá. Sérstök tilfinning.

Ég get ekki haft þetta langt, þarf að hlaupa nakinn og öskrandi út á götu. Ekki oft sem maður fær tækifæri á því.

föstudagur, 29. maí 2009

Í kvöld ætlaði ég að poppa til að hafa eitthvað á þessari síðu fyrir fólk að borða á meðan það les færslur. Innkaupaferðin fór úrskeiðis og því ekkert popp til.

Þess í stað verð ég að bjóða upp á annars konar popp; lagið Trash með Suede. Ekki aðeins er lagið grípandi heldur er textinn angurvær.



Tyggið þetta varlega. Eitthvað er af hnetum í poppinu. Og það er möguleiki að það sé útrunnið.

fimmtudagur, 28. maí 2009

Ég held áfram að stela hugmynd Estherar Aspar "Það sem ekki má segja" og kem með "Það sem ekki má segja númer 2 eða 3:"

Mér finnst sérstaklega gaman að afgreiða gamalt heyrnarskert fólk sem er gjarnt á að gera mistök því þá fæ ég síður samviskubit fyrir að öskra á það.

miðvikudagur, 27. maí 2009

Í dag lærði ég:

* Að ég get og mun sofa yfir mig, sama klukkan hvað ég ætla að mæta í vinnuna. Í dag ætlaði ég að mæta á hádegi og vaknaði klukkan 14:00, með herkjum.

* Að það er sama hversu mikið ég sef, ég get alltaf geispað. Sérstaklega þegar ég er á fundum.

* Að Mylo er skíturinn:

mánudagur, 25. maí 2009

Gærdagurinn var með ástleitnari dögum sem ég hef upplifað. Nokkrar sögur:

1. Ástleitni sendillinn.
Í gærmorgun kom sendill með pakka til mín í vinnuna. Ég tók á móti honum á planinu fyrir utan vinnuna og honum virtist brugðist. Samtal!

Ég: Er ekki allt í lagi?
Sendill: Jú. Þú ert bara svo rosalega líkur Tom Cruise.
Ég: BWAAAAAHAHAHAHAHA!
Sendill: Færðu ekki að heyra þetta oft?
Ég: Nei. Hvernig vissirðu að ég væri geðveikur??
Sendill: Kvittaðu bara hérna, sir.

2. Ástleitna kveðjustundin.
Eftir hádegið í gær hætti samstarfsmaður minn störfum hjá 365. Kveðjustundin var þrútin af tilfinningaflóði sem braust út í kveðjufaðmlagi.

Þetta var mitt fyrsta faðmlag með karlmanni síðan ég spilaði fótbolta síðast, fyrir um 14 árum. Ég hætti í fótboltanum vegna þess að ég skoraði of mikið og þurfti í kjölfarið að taka á móti of mörgum strákafaðmlögum.

Í körfubolta eru bara high five (*5*) gefin.


3. Ástleitnar vangaveltur.
Í gærkvöldi hugsaði ég með mér; hvað ef ég myndi klóna sjálfan mig og láta Scarlett Johansson ganga með barnið? Og hvoru okkar myndi afkvæmið líkjast meira?

Ég vippaði mér á heimasíðu sem sérhæfir sig í svona brengluðum hugsunum og viti menn:


Ég, sem krakkaviðbjóður myndi líkjast Scarlett Johannsson meira en sjálfum mér á fullorðinsárum. Einhversstaðar fór eitthvað stórkostlega úrskeiðis í uppvexti mínum.

Tilboðið stendur, Scarlett.
Það besta við að sofa lítið, eins og ég gerði síðustu nótt, er að þröskuldurinn fyrir blogghugmyndir hverfur.

Það versta hinsvegar er bæði að skammtímaminni minnkar umtalsvert og að þröskuldurinn fyrir blogghugmyndir hverfur.

sunnudagur, 24. maí 2009

Ég er líklega eini maðurinn á landinu sem á mjög innihaldsrík samtöl við sjónvarpstækið sitt.

Í fyrrakvöld lá ég sallarólegur í sófanum heima að horfa á Lakers spila gegn Denver á Stöð 2 Sport þegar Jordan Farmar á mjög smekklega stoðsendingu. Þá tók eftirfarandi samtal við:

Baldur Beck, lýsir á Stöð 2 Sport: "Þetta var stórgóð sending hjá Farmar. Það mætti halda að John Stockton væri mættur á völlinn".
Ég, aðdáandi John Stockton: "Kjaftæði!"
Baldur: "Fyrirgefðu Finnur"
Ég: "Allt í lagi. Ég veit að þú meintir þetta ekki."

*Auglýsingahlé*

Þetta er algjörlega sönn saga. Þeir sem horfðu á leikinn geta vottað það.

Til að sanna það fylgir hér lag:




Ekki spyrja hvernig lagið sannar söguna. Það bara gerir það!

föstudagur, 22. maí 2009

Það lítur út fyrir að áfanginn "Hvernig angra skal Finn - 303" (haf-303) sé kenndur í íbúðunum fyrir ofan og neðan.

Ég sofna við dúndrandi ástarmök á hæðinni fyrir neðan seint á nóttunni, vakna við snarvitlaus harmónikkusóló á morgnanna og anda að mér ferskum sígarettureyk á kvöldin þegar ég spóka mig á svölunum með límónaði í sólinni, ruggandi mér í ruggustólnum.

Ég samgleðst nemendunum. Þeir ná allir með hæstu einkunn. Vona að þeir noti lærdóminn í eitthvað skapandi.

miðvikudagur, 20. maí 2009

Ég veit ekki hvernig á að orða þetta. Ég ætla samt að reyna.

Mér finnst gaman að synda.

Jæja, fín tilraun.

þriðjudagur, 19. maí 2009

Nýlega frétti ég að næstu tvær vikurnar verði daglega sýndur leikur úr úrslitakeppni NBA boltans í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport. Leikirnir byrja nánast alltaf um hánótt.

Mér fannst rétt að taka þetta fram og þannig vara fólk við, ef það sér mig keyrandi bíl eða stjórna krana í fjölmenni.

mánudagur, 18. maí 2009

Í morgun las ég þetta viðtal við Derren Brown, ca átrúnaðargoð mitt. Svo fór ég að hugsa. Af hverju er ekki gert svona viðtal við mig? Er ég ekki nógu merkilegur?

Ég hringdi í mömmu og hún sagði mig vera nógu merkilegan. Þannig að hér kemur sama viðtalið, nema við mig:

Mér líður best þegar:
...ég er í miklu, hlýju roki, keyrandi hratt með rúðurnar skrúfaðar niður.

Mitt nánasta fólk myndi lýsa mér sem:
...dökkhærðum.

Eitt atriði í fortíð minni sem ég vil síður viðurkenna:
Ég hef tekið nokkur svona viðtöl við sjálfan mig af því enginn annar vill gera það.

3 hlutir sem ég myndi vilja á eyðieyju:
Risahraun, Excel og hamingju.

Eitt sem ég vil gera fyrir dauða minn, (ef ég dey):
Eiga hús.

Ef ég gerði auglýsingu fyrir einkamál þá myndi hún segja:
Óska eftir góðri og fyndinni stelpu sem er ekki grunnhyggin. Skilyrði að vera með flottan rass og blind fyrir grunnhyggni annarra, t.d. minni.

Minn helsti ókostur:
Ég fyrirlít flestar breytingar.

Ef ég mætti velja hvern sem er til að borða með:
Derren Brown. Eða Scarlett Johansson.

Það sem ég kann best að meta:
Tillitsemi.

Mesta eftirsjáin:
Óendanlega margar. Nú síðast; að hafa farið of seint að sofa í nótt.

Ef ég væri ekki tölfræðinörd þá væri ég:
Tölvunarfræðinörd. Eða listamaður einhverskonar.

Eiga eftirfarandi staðhæfingar við þig?
Ég er oft mjög tilfinningasamur:
Mjög sjaldan.

Vinum mínum finnst ég mjög félagslyndur:
Bara þeir vinir mínir sem þekkja mig ekkert.

Ég elska að rökræða um gáfuleg málefni og hugtök:
Sjaldan. Rökræður breytast of oft í rifrildi.

Ég er fullur af orku og lifi hröðu lífi:
Rangt.

Mér finnst gott að láta fólki líða vel:
Rétt. Grunsamlega gott.

Eitthvað sem þú vilt koma á framfæri að lokum?
Já, þessari mynd:


Ef fólki finnst þetta ósmekklegt þá er ég sammála. Ef ekki þá finnst mér þetta mjög fyndið.

sunnudagur, 17. maí 2009

Fólk er að tala um að ég hafi verið undir áhrifum áfengis í gærkvöldi. Ó virkilega?

Ég var þá ekki fyllri en svo að ég náði að sannfæra ungan mann um að hann væri rapparinn Kanye West OG gefa mér eiginhaldaáritun.

Einmitt að ég hefði getað það undir áhrifum.

föstudagur, 15. maí 2009

Ég hef sérstaklega gaman af því að fylgjast með öðru fólki og hlæja að því, þar sem það gerir alltaf eitthvað heimskulegt. Af hverju? Sennilega af því það er svo heimskt.

Í gær var ég skemmtun margra í ræktinni þegar ég kom úr salnum löðrandi í svita og komst ekki úr alltof þrönga bolnum mínum. Eftir ca hálfa mínútu af allskonar tilfærslum við að fara úr honum festist ég endanlega. Mér tókst þó að lokum að rífa hann af mér.

Nokkrir áhorfendur vissu ekki hvort þeir ættu að hlæja eða gráta en ákváðu svo að hlæja þegar þeir sáu að ég var grátandi.

Þá vitiði hvað karma er.
Ég er mjög hræddur um að á meðal okkar á þessari síðu leynist vafasamir einstaklingar þessa dagana.

Þessi bloggsíða mín hefur fundist þrisvar í þessari viku við að googla "Nakin píka".

Þó það sé gaman að fá vörubílstjóra, sem hafa aldrei farið á netið áður, á síðuna, þá verð ég að setja mörkin einhversstaðar.

Ef þú ert hérna af því þú googlaðir "nakin píka": Snáfaðu! Ég vil þig ekki nálægt síðunni minni!

miðvikudagur, 13. maí 2009


Ég vil ekki monta mig en ég hef lokið við að lesa bók. Hún heitir Dimmar Rósir og er eftir Ólaf Gunnarsson. Hún er rúmlega 6 sentimetra þykk!

Ég kláraði hana á 4 mánuðum, sem gera 1,5 sentimetra á mánuði eða 5 millimetra á dag. Ekki slæmt miðað við að ég er bara viðskiptafræðingur með athyglisbrest á háu... einhverju.

Bókin var fín. 2,5 stjörnur af 4.

þriðjudagur, 12. maí 2009

Hér er spurning sem ég hef alltaf viljað spyrja:

Ef ekki, gott. Því ég býð bara upp á raftónlist í dag.

1. Siriusmo - Discosau.



2. Vitalic - Trahison.



3. Benny Benassi - Finger food.



Hér er tölfræði laganna:
* Heildarlengd: 14:12.
* Meðallengd: 4:44.
* Staðalfrávik: 2:13.
* Spönn: 4:26
* Orð sungin: 0.

mánudagur, 11. maí 2009

Það er óþarflega lítið að frétta þessa dagana nema ein frekar stór frétt.

Í nótt, nánar tiltekið í hálfleik á NBA leik sem sýndur var á NBA TV, ákvað ég að fara í smá leiðangur í Hagkaup í Garðabæ.

Þar spottaði ég frekar stóra nammihjörð á beit. Ég læddist að henni með vopn og náði að salla hana niður. Svo bar ég fenginn heim í hellinn, þar sem ég úrbeinaði hann og át þar til ég for í sykursjokk, fékk ranghugmyndir og ofskynjanir.

NBA leikurinn fór blóm gegn litadýrð, eftir framlengingu.
Hér er listi yfir allt það sem ég á eftir að gera eftir þessa helgi:

* Gera lista yfir það sem ég á eftir að gera eftir þessa helgi.

Veit ekki hvenær ég kemst í þetta.

föstudagur, 8. maí 2009

Þegar ég kom heim í kvöld, klukkan 22:45, eftir að allar verslanir í nágrenninu lokuðu datt mér í hug að fá mér að borða þar sem ég hafði ekki borðað síðan í hádeginu.

Af illri nauðsyn opnaði ég ísskápinn. Þar fann ég eftirfarandi útrunnið:

* Mjólk.
* Hrásalat.
* Egg.
* Remúlaði.
* Sinnep.
* Hamborgarasósu.
* Kokteilsósu.
* Kasúldinn lauk.
* Kex.
* Rjóma.

Ég fann einnig margt sem ég vissi ekki að gæti runnið út eins og:

* Hóstasaft.
* Tómatsósu.
* Áfengi.
* Smjör.

Efirfarandi var ekki útrunnið:
* Sulta.
* Mozarellaostur.
* Vatnsbrúsi.

Þá fór ég í þurrvöruskápinn og fann eftirfarandi:

* Tóman Cheerios pakka.
* Útrunninn Guld korn pakka.
* Útrunnið krydd (!!).
* 3 útrunna núðlupakka.
* 2 óútrunna núðlupakka.
* Útrunnið tortellini (fyrir meira en ári síðan).
* Útrunnið hamborgarabrauð.

Ég bjó mér því til núðlur í mozarella osti.

Þrennt má læra af þessu:
1. Tíminn líður mun hraðar en mig minnti.
2. Það er alltaf eitthvað til að borða.
3. Veisla er framundan hjá flækingunum á ruslahaugunum.

fimmtudagur, 7. maí 2009

Fólk segir reglulega við mig að ég sé að verða meira og meira vélrænn í samskiptum. Ég tek lítið mark á því, þar sem um er að ræða mannfólk.

Nú lítur út fyrir að ég þurfi að endurskoða hug minn, þar sem Google hefur tekið undir þetta hjá almúganum. Þessi skilaboð koma nú upp hjá mér þegar ég reyni að nota einhverja þjónustu Google.

Ég væri frekar dapur við þessa fordóma Google ef ég hefði tilfinningar.

[/bloggfærsla]

miðvikudagur, 6. maí 2009


Í dag sá ég auglýsinga að ofan í Fréttablaðinu og ég veit ekki hvernig á að bregðast við henni.

Nokkrar hugmyndir:

1. Karlmennið í mér vill gefa hoppfæv og skála svo í bjór, öskrandi úr karlmannlegum hlátri.
2. Bælda fíflið í mér vill þykjast ekki hafa séð hana en þó aldrei gleyma henni.
3. Femínistinn í mér veit að hann á að halda kjafti ellegar fá högg.
4. Viðskiptafræðingurinn í mér vill hugleiða hvernig megi græða á þessu.

Hugmyndir að réttum viðbrögðum eru vel þegnar.

þriðjudagur, 5. maí 2009

Í kvöld bætti ég enn eitt metið. Sjötta hamborgarabrauðspakkningin í röð var að úldna án þess að ég opnaði hana.

Það gera 12 ónotuð hamborgarabrauð í röð sem ég kaupi en gleymi að nota. Það er heimsmet.

mánudagur, 4. maí 2009

Nýlega benti vinur minn mér á að læsa skápnum í ræktinni svo engu verði stolið. Ég hef ekki læst skápnum mínum í þá 18 mánuði sem ég hef verið að æfa en tók tillöguna til íhugunar.

Þetta gerist þegar ég kem heim:

1. Ég læsi bílnum.
2. Ég opna blokkina sem ég bý í með lyklum.
3. Ég opna pósthólfið mitt með lyklum og læsi svo aftur.
4. Ég opna íbúðina með lykli.
5. Ég fer að pissa og læsi hurðinni.

Mér finnst andskotans nóg að ég rogist áfram með 4 gerðir af lyklum alla daga. Ég ætla því ekki að læsa skápnum mínum líka og þurfa að burðast með lykil í ræktinni eins og fífl. Þess í stað ætla ég að koma með tillögu:

Bannað skal með lögum að stela.

Ég vona að pólitíkusar lesi þetta og geri eitthvað í þessu. Ég á ekki að þurfa að þola alla þessa lykla.

sunnudagur, 3. maí 2009

Þrjú meðmæli í dag, þar sem ég hef lítið gert síðustu daga annað en standa mig illa á körfuboltaæfingu og í póker:

1. Netskrafl gegn tímanum. Metið mitt er mínus 12 stig.

2. Plakatið við myndina The Unborn (sjá hér). Það er eflaust mjög mikilvægt fyrir söguþráð myndarinnar að hafa stelpuna á nærbuxunum við spegilinn.

3. Lagið Ross Ross Ross eftir Sebastian og ekki síður myndbandið við það. Lagið eitt og sér er allt í lagi í besta lagi. Myndbandið gerir það að meistaraverki.

föstudagur, 1. maí 2009

Í dag mæli ég með:

* Myndinni I love you man. Fín afþreying með skemmtilegum leikurum.

* Myndinni X-Men Origins: Wolverine, ef þú hefur gaman af hræðilegu handriti, lélegum tæknibrellum og vondum bíómyndum.

* NBA úrslitakeppninni. Í gærkvöldi sá ég einn rosalegasta leik allra tíma; Bulls gegn Celtics sem fór í þrefalda framlengingu og endaði með sigri Bulls, sem er versta liðið í ár til að komast í úrslitakeppnina.

* Að borða Toblerone yfir NBA leik klukkan 3 að nóttu þangað til þú verður að hætta til að kasta ekki upp. Þú ert ekki lifandi fyrr en þú hefur prófað það.

* Laginu Heartless með Kanye West. Það er hér að neðan.