föstudagur, 29. júní 2012

Ódýrt bensín

Ég heyri fátt annað þessa dagana en auglýsingar frá ÓB (Ódýrt Bensín - Olís) þar sem auglýstur er "ótrúlegur 15 króna afsláttur í 10. hvert skipti" (+/- "ótrúlegur").

Svona er þetta sett upp á heimasíðu þeirra:

15 króna afsláttur af lítranum í 10 hvert skipti sem dælt er 25 lítrum eða meira með ÓB lyklinum til einstaklinga.*
10 krónu afsláttur af hverjum eldsneytislítra í fyrsta skipti.*
10 krónu afsláttur af hverjum eldsneytislítra á afmælisdegi ÓB-lykilhafa.*
3 krónu afsláttur af hverjum eldsneytislítra hjá ÓB og Olís.
7 krónu afsláttur af hverjum eldsneytislítra á tilboðsdögum hjá ÓB og Olís.
Sjá hér.

Af hverju skrifa bensínfyrirtækin alltaf afsláttinn í krónum, en ekki prósentum eins og venjan er? Af því þá liti þetta svona út:

6% afsláttur í 10 hvert skipti sem dælt er 25 lítrum eða meira með ÓB lyklinum til einstaklinga.*
4% afsláttur í fyrsta skipti.*
4% afsláttur á afmælisdegi ÓB-lykilhafa.*
1% afsláttur hjá ÓB og Olís.
3% afsláttur á tilboðsdögum hjá ÓB og Olís.

Þetta lítur ekki jafn vel út.

En afsláttur er afsláttur, býst ég við.

Ást í ræktinni III

Á leið minni úr ræktinni í gærkvöldi hjó ég eftir athygli tveggja stelpna sem mættu mér í afgreiðslu World Class. Þær brostu báðar til mín, auk afgreiðslustelpunnar sem þakkaði mér fyrir komuna.

Eitthvað var greinilega að útliti mínu. Þegar ég kom heim leit ég kófsveittur í spegil til að sjá hvort hárið á mér hafi verið óvenju undarlegt eða hvort ég skartaði áberandi ljótri bólu í andlitinu. Allt kom fyrir ekki.

Ég fann ekkert að útliti mínu, fyrir utan frekar áberandi opna buxnaklauf, svo ég held það sé nokkuð öruggt að áðurnefndar stelpur séu ástfangnar af mér. Hjúkk.

þriðjudagur, 26. júní 2012

Bíóferðir síðustu viku

Eftirfarandi myndir sá ég nýlega.

1. Bernie (Ísl.: Hafinn yfir grun)
Ég heyrði af þessari mynd tveimur mínútum áður en ég fór á hana í Bíó Paradís. Við vorum átta samtals í stærsta salnum, sem er strax ávísun á góða bíóferð.

Myndin er byggt á sönnum atburðum og fjallar um afar hjálpsaman, miðaldra mann sem gerist leikfang eldri, ríkrar tussu sem fer illa með hann. Myndin er bæði leikin og í viðtalsstíl, þar sem fólk sem þekkti raunverulega aðila kemur fram.

Jack Black er stórkostlegur í myndinni og sýnir að hann er drullugóður leikari, þó myndin sjálf sé ekki svo skemmtileg.

Ein og hálf stjarna af fjórum.

2. Prometheus (Ísl.: Gulli Byggir)
Ég heyrði af þessari mynd tveimur árum áður en ég fór á hana í Smárabíó (í 2D, af því 3D er það heimskulegasta sem ég hef heyrt um).

Myndin fjallar um vísindamenn sem finna skilaboð í hellum víðsvegar um heiminn. Skilaboðin gefa til kynna að líf sé að finna á ákveðnum stað í geimnum. Svo þau keyra af stað. Upphefst hellings ævintýri.

Myndin er vel gerð og lítur vel út en handritið ekki upp á marga fiska. Fín spennumynd og ágætis skemmtun.

Tvær og hálf stjarna af fjórum.

3. The girl with the dragon tattoo (Ísl.: Barnaby ræður gátuna)
Ég horfði loksins á endurgerðina af sænsku myndinni, sem ég hélt að væri erfitt að toppa.

Myndin fjallar um pönkarastelpu sem hjálpar blaðamanni að leysa morðgátu í sveitum Svíþjóðar.

Söguþræðinum er breytt örlítið hér og þar í þessari mynd, sem gerir hana ekki endilega verri. Myndin er svöl, leikurinn góður og sagan skemmtileg. Ef einhverjum tekst að toppa upphaflegu myndina þá er það leikstjórinn David Fincher.

Mæli mjög með þessari.

Þrjár og hálf stjarna af fjórum.

Næst ætla ég að fara á myndina Sér grefur gröf á miðvikudagskvöldið, sem ég man ekki hvað heitir á frummálinu. Öllum er velkomið að koma með.

fimmtudagur, 21. júní 2012

Sjálfhverfa

Fólk spyr mig reglulega hversu sjálfhverfur ég er. Ég tek mér þá yfirleitt smá pásu frá speglinum til að benda þeim á þessa niðurstöðu:


Niðurstaðan segir ekkert um sjálfhverfu, sem þýðir líklega að ég er ekki sjálfhverfur.

Ég hefði varla eytt mörgum klukkutímum í að svara spurningum um sjálfan mig til að fá þessa lýsingu á sjálfum mér, til að setja á þessa síðu sem er tileinkuð sjálfum mér, ef niðurstaðan væri bara vitleysa.

þriðjudagur, 19. júní 2012

Uppáhalds/óuppáhalds iðjur

Það er óhugnarlegt hversu fín lína er milli skemmtunar og eymdar. Hér eru topp 5 listar yfir hluti sem ég hef mest gaman af því að gera og mér finnst ömurlegt að þurfa að gera. Höggvið eftir hversu líkir þeir eru:

Listi yfir fimm uppáhalds iðjur mínar

5. Að vera í Excelskjalagerðarstuði.
Þegar vel gengur að smíða gagnleg og/eða skemmtileg Excel skjöl þá á ég til að syngja með mér lítinn lagstúf til að undirstrika hamingjuna. Stundum tek ég meira að segja nokkur létt dansspor á milli formúlna, samstarfsfólki mínu til mikillar kátínu.

4. Að fara í bíó.
Að hitta vini, horfa á góða mynd og jafnvel borða Risahraun (ekki myndlíking). Gerist ekki mikið betra.

3. Standa mig vel í körfubolta.
Að fá high five eftir gott gengi í körfubolta er betra en kynlíf. Þið megið ekki hafa það eftir mér.

2. Sofa.
Þá sérstaklega að sofa út, á meðan venjulegt fólk er að eyða tíma sínum í að gera eitthvað við líf sitt.

1. Leika við Valeríu Dögg, 2ja ára bróðurdóttir mína.
Með skemmtilegustu börnum allra tíma. Sömu sögu er að segja um hin systkinabörnin mín, sem búa alltof langt í burtu.


Listi yfir fimm óuppáhalds iðjur mínar

5. Að ryksuga.
Ömurlegheitin eru óstjórnleg. Að þurfa að ryksuga, bara til að ryksuga aftur eftir nokkra daga.

4. Að fara ekki í bíó.
Alltaf þegar ég er ekki í bíó er ég ekki að skemmta mér vel.

3. Að geta lítið í körfubolta.
Fátt kemur mér í verra skap en að standa mig illa á körfuboltaæfingu og fá engin high five.

2. Að fara að sofa.
Einhverra hluta vegna forðast ég þá stórkostlegu iðju að sofa eins og syndina.

1. Að tala við fólk.
Ekki af því það er svo óáhugavert. Ég er bara svo leiðinlegur.

fimmtudagur, 14. júní 2012

Afturhvarf

Það gleður mig að tilkynna að Peugeot-inn minn er kominn úr viðgerð. Það hryggir mig þó meira að ég þurfti að greiða fyrir viðgerðina.

Ég vil gjarnan biðja þá sem þetta lesa að skrifa um mig í blöðin þegar ég dey "Finnur hefði getað orðið mikilmenni. En hann keypti sér Peugeot árið 2006. Hann varð aldrei samur eftir það."

Upphæðin sem ég greiddi fyrir viðgerðina er gott dúndurspark í peningapung minn og er hann þó ýmsu vanur þegar kemur að þessum andskotans bíl. Af hverju sel ég hann ekki? Af því ég gæti ekki horft í augun á manneskjunni sem ég seldi hann og myndi ekki sofa vel á eftir ef það tækist.

Til að dreifa huganum eru hér nokkrar myndir frá því ég bjó í Trékyllisvík frá árunum 1983-1988, þar sem ég lék mér áhyggjulaus alla daga í fótbolta við bræður mína á milli þess sem ég skrifaði tölur í stílabækur.

Í bílaleik með systkinum mínum og nokkrum hænsnum.

Ég, Björgvin og Styrmir, nokkuð hressir.

Eiki frændi, Björgvin, Styrmir og ég, mjög líklega nýkomnir úr fótbolta.

Ívar Örn, Styrmir og ég á LSD tímabilinu okkar.

Styrmir, ég, Björgvin og Kolla í dyragættinni í Finnbogastaðaskóla.

Styrmir, Ívar Örn, Sverrir Guðjóns og ég. Í sundi, minnir mig.

sunnudagur, 10. júní 2012

Bilun bifreiðar númer 700

Forlát bifreið mín, Peugeot 206 Présence, árgerð 2000 bilaði í gær í 700. skipti síðan ég keypti hana árið 2006.

Stórskemmtilegt hljóð fór að heyrast í öðru framhjólinu aðeins tveimur tímum eftir að ég sagði við við minn að ég gæti ekki kvartað undan bílnum þessa dagana, þar sem hann væri heill heilsu. Ég hyggst láta kíkja á hana á morgun. Ég hefði aldrei átt að kaupa þetta drasl.

Það þýðir ekki að velta sér upp úr mistökum fortíðar, heldur læra af þeim og finna betri bíl. Og það er akkúrat það sem ég hef gert. Ég fann hinn fullkomna bíl í nýlegu Fréttablaði. Ég hyggst senda inn tilboð næstu daga. Það er betra að yfirbjóða, þar sem eftirspurnin er líklega mikil eftir svona bílum.

föstudagur, 8. júní 2012

Stubbabúningar

Fyrr í morgun sá ég tvo Stubba (ens. Teletubbies) hlaupa um flissandi (Laa-Laa og Po).

Þegar ég var kominn nær þeim sá ég að þetta voru bara tvö krakkafífl í svokölluðum Weezo samfestingum, svo ég snarhemlaði og náði að beygja frá þeim áður en illa fór.

Að klæða börn sín í þennan fáránlega búning er eins og að klæða sig sem rjúpu á hálendinu rétt fyrir jól. Jaðrar við barnamisnotkun.

miðvikudagur, 6. júní 2012

Matarskortur heimsins næstum lagaður

Um síðustu helgi rakst ég á lausnina við öllum heimsins matarskorti þegar ég rambaði á einn stærsta snakkpoka sem ég hef á ævinni séð. Svo ég keypti hann og planaði að senda til Rauða Krossins eða einhvers álíka góðgerðarsamtaka.


Í kvöld bugaðist ég svo þegar mig langaði svo að líta út fyrir að vera dvergur að borða úr venjulegum snakkpoka. Ég opnaði pokann og borðaði ca 2% innihaldsins á rétt rúmum hálftíma, flissandi yfir því að vera svona smávaxinn og fíngerður.

Ég sé ekki eftir neinu, nema mögulega því að hafa bugast.

laugardagur, 2. júní 2012

Ég og Bernaisesósan

Nýlega varð ég ástfanginn af sósu. Við kynntumst á American Style fyrir nokkrum mánuðum og urðum strax vinir. Hún heitir Bernaisesósa og er óþolandi bragðgóð.

Í Bónus í dag rakst ég svo á Bernaisesósu í dollu. Við spjölluðum saman og ég endaði á því að setja hana í innkaupakörfuna.

Ég vildi samt ekki vera feita ógeðið sem þambar Bernaisesósu í kvöldmat, svo ég keypti franskar kartöflur líka, til að hafa afsökun fyrir Bernaisesósuþambinu. Það borðar enginn franskar eingöngu, svo ég keypti mér frosna pizzu með.

Við nánari athugun sá ég að pizzan var með alltof litlum osti og nánast engu áleggi. Svo ég keypti rifinn mozarella. Ein tegund af osti er ekki nóg, svo ég keypti aðra gerð af rifnum osti og soyaálegg sem ég hyggst steikja áður en ég set á pizzuna.

Svo í kvöld mun ég borða pizzu hlaðna áleggjum og osti með frönskum, bara til að geta átt fallega stund með Bernaisesósunni. Sambandið er strax orðið mér dýrkeypt.