miðvikudagur, 30. maí 2012

Óhrós

Nýlega fékk ég hrós sem var einlægt og ég gat ekki með nokkru móti mistúlkað sem gagnrýni. Það er óþolandi sjaldgæfur viðburður.

Hér er listi yfir þrjú óuppáhaldshrós sem ég hef fengið í gegnum tíðina:

3. Flottur bíll!
Sagt af Björgvini bróðir þegar ég sýndi honum Peugeot bifreið mína nýkeypta. Það var ekki fyrr en sex árum og milljón krónum í viðgerðir síðar að ég áttaði mig á að hann var að beita síðbúinni kaldhæðni.

2. Snillingur!
Samstarfskona mín sagði mig snilling eftir að ég vann fyrir hana mjög flókið Excel skjal. Nokkrum mínútum síðar kallaði hún annan samstarfsfélaga sinn snilling fyrir að rétta sér blað úr prentaranum. Sjaldan hefur orðið "snillingur" fallið jafn hratt í verði og þennan dag.

1. Flottur strákur.
Vinur: Af hverju ertu einhleypur, Finnur? Þú ert flottur strákur. Með stóran rass en samt flottur og skemmtilegur.
Ég: ...er ég með stóran rass?
Vinur: Flottur strákur.

Enn þann dag í dag er ég með sálarflækjur varðandi líkama minn eftir þetta samtal.

sunnudagur, 27. maí 2012

VISA leitin

Fyrir nokkrum dögum týndi ég VISA kortinu. Ég hugsaði mér gott til glóðarinnar, vitandi að allt myndi fara úrskeiðis við leitina. Á fyrsta staðnum sem ég athugaði átti þetta samtal sér stað:

Ég: Góðan dag, ég týndi korti um daginn. Er það hér?
Vaktstjóri: Nafn?
Ég: Finnur.
Vaktstjóri: Torfi?
Ég: Já.
Vaktstjóri: Gjörðu svo vel. *réttir mér kortið*
Ég: ...takk. *furðu lostinn*

Þetta er í fyrsta skipti sem eitthvað gengur fullkomlega upp hjá mér. Kortinu hafði ekki verið stolið, það var ekki á þrjúhundruðasta staðnum sem ég athugaði á eða að ég næ að tjá mig svo illa við starfsfólk að hringt er í lögregluna.

Til að fagna þessari óvæntu heppni minni ætla ég að bregða mér út í frispí með VISA kortið mitt.

föstudagur, 25. maí 2012

Leiðir til að lífga upp á daginn

Margir kvarta undan grámyglulegum hversdagsleikanum. Ekki ég. Ég brydda upp á fjölbreyttum viðburðum til að lífga upp á dagana. Hér eru nokkur dæmi sem þú getur gert, alveg eins og ég hef gert undanfarið:

1. Svitalyktaeyðir
Kláraðu svitalyktaeyðibrúsa eftir að hafa sprautað bara undir annan handakrikan áður en þú ferð í vinnuna. Mjög skemmtilegt verkefni að reyna að snúa annarri hlið líkamans aldrei að samstarfsfólki þínu, né heldur lyfta annarri hendinni.

2. Peugeot
Fáðu þér Peugeot. Hver dagur er ævintýri. Þú veist aldrei hvenær hann springur í tætlur.

3. Exótísk snökk
Um daginn keypti ég mér snakkpoka með salt- og edikbragði. Eftir eina flögu sveið mig svo í munninn, hálsinn og magann að ég henti restinni. Annan eins viðbjóð hef ég ekki smakkað. Eftir á að hyggja er edik ekki svo gott bragðefni. En ég er feginn að hafa lifað þetta ævintýri. Frábær saga í partíum, sérstaklega ef þú vilt byrja samtal við sætustu stelpuna í herberginu.

4. Sjónleysi
Mættu í körfubolta með félögunum án þess að taka með þér linsur. Að sjá ekkert í körfubolta er heilmikið ævintýri, sérstaklega þar sem allir körfuboltahæfileikar hverfa með sjóninni. Þá er gaman að reyna að fylgjast með meðspilurunum skjálfa úr reiði í þinn garð.

5. Kvikmyndir
Horfðu á kvikmyndir. Það er fínt.

þriðjudagur, 22. maí 2012

Stuna með Trentemöller

Einhversstaðar lærði ég að ef ég hef ekkert að segja þá á ég að setja góða tónlist á fóninn og hækka vel svo viðkomandi heyri hana örugglega.

Hér er lagið Moan með Trentemöller en það inniheldur unga og geðveika/ástfangna konu sem finnst svo áríðandi að koma því á framfæri að hún hugsi um einhvern að hún ákveður að syngja um það, sem kemur sér vel fyrir hlustendur.



Ljúft andskotans lag.

fimmtudagur, 17. maí 2012

Tónlist er freisting mín

Fyrir nokkrum mánuðum lá ég andvaka og hugsaði um hvað væri mín freisting. Þetta gerði ég nokkrar nætur í röð eða þar til ég komst að niðurstöðu. Tónlist er freisting mín.

Þegar það var komið í ljós hugsaði ég lengi um hvernig ég gæti komið því best á framfæri. Ég hugsaði um að semja lag, mála listaverk og á einum tímapunkti að fá mér húðflúr. Það var svo á rölti um Kringluna sem ég rakst á hina fullkomnu leið til að sýna fólki hvað freisting mín er:


Peysan kostaði mig dágóða fjárhæð en hún var þess virði. Nú næ ég að tjá mig hvert sem ég fer án þess að segja orð.

Þannig er sagan á bakvið kaupin á þessari peysu. Hún var amk ekki fyrsta peysan sem ég sá og keypti á hlaupum í gegnum Kringluna án þess að máta né sjá hvað á henni stóð. Nei herra minn.

þriðjudagur, 15. maí 2012

Kvikmyndagagnrýni

Í byrjun apríl tók ég áskorun þess efnis að horfa á 45 bíómyndir á þeim 15 frídögum sem ég átti inni frá fyrra ári og þurfti að leysa út sem fyrst, ellagar þeir féllu niður.

Ég náði bara að taka út sex frídaga og horfa á fjórar myndir, þar af tvær síðustu tvo daga (mánuði eftir að áskoruninni lauk). Hér er gagnrýni mín á myndirnar:

The Hunger Games (Ísl.: Sér grefur gröf)
Ung stúlkukind er boðuð á einhverskonar sláturleika, þar sem 24 aðilar keppast um að drepa hvorn annan þar til einn stendur eftir. Myndin gerist í hliðstæðum veruleika eða eitthvað.
Vel leikin en oft á köflum vitlaus mynd. Ágætis skemmtun þó. Það hefði ekki verið hægt að bæta dramatík við myndina þó Bubbi Morthens hefði samið tónlistina fyrir hana.

Dómur: Tvær stjörnur af fjórum.

The Cold Light of Day (Ísl.: Sér grefur gröf)
Gullfallegur karlmaður týnir fjölskyldu sinni og eitthvað. Ég man ekki alveg söguþráðinn, svo leiðinleg var myndin. Og hún var líka verulega illa leikin. En hún var bara 93 mínútur, svo það jafnast næstum út.

Dómur: Hálf stjarna af fjórum.

Get the Gringo / How I Spent My Summer Vacation (Ísl.: Sér grefur gröf)
Mel Gibson leikur miðaldra glæpamann sem lendir í Mexíkósku fangelsi eftir ránstilraun. Fangelsið er lítill bær innan veggja fangelsins og inniheldur mafíu sem Mel Gibson líst ekki á. Hann tekur því til sinna ráða.
Nokkuð góð mynd. Röddin á Mel Gibson gerir myndina. Efast um að hún hefði verið jafn góð með skrollara í aðalhlutverki.

Dómur: Tvær og hálf stjarna af fjórum.

Chronicle (Ísl.: Sér grefur gröf)
Þrír ungir piltar læra að stjórna hlutum með hugarorkunni eftir að hafa rekist á sprunginn örbylgjuofn eða eitthvað sambærilegt. Fylgst er með þróun þeirra og hvernig þeir breytast með hæfileikum sínum. Vel leikin og skemmtileg mynd.

Dómur: Þrjár og hálf stjarna af fjórum.

Næsta áskorun mín er að kaupa mér 15 rúm næstu þrjá daga. Þá tekst mér kannski að kaupa eitt stykki en ég hef verið rúmlaus í ár þegar þetta er ritað.

fimmtudagur, 10. maí 2012

Ástæða dalandi tíðni færslna

Nýlega skoðaði ég tíðni færslna á þessari síðu og komst að því að síðan er smámsaman að deyja. "Af hverju?", spurði ég.



Getur verið að blogg séu að deyja? Að enginn hafi áhuga á að lesa illa ígrundaðar færslur almennings og að það endurspeglist í tíðni færslna? Nei, það getur ekki verið!

Ég kom því með aðra tilgátu: Einhverskonar fylgni er á milli svefnvenja minna og tíðni færslna á síðunni.

Svo ég sótti gögn og setti saman í línurit:



Niðurstaða: Nei. Engin fylgni þar á milli.

Næsta tilgáta: Ég á mér of lítið líf til að ég geti skrifað um hvað ég geri utan vinnu og svefns.

Niðurstaða: Bingó!

mánudagur, 7. maí 2012

Ókláráðar bloggfærslur

Nokkrir punktar sem ég hef skrifað hjá mér:

1. Fullt tungl
Þessar dagana/næturnar er fullt tungl á himni. Þá eru miklar líkur á að fólk sem trúir kjaftæði sé að vara fólk við því að þá séu miklar líkur á að hegðan fólks breytist. Passið ykkur á þeim vitleysingum.

2. Viðbjóður
Ég náði að koma með eina ósmekklegustu lýsingu á því hversu mikið var að gera hjá mér í vinnunni í síðustu viku þegar ég sagði vera meira að gera hjá mér en hjá Nasistayfirmönnum í Auschwitz á lokadögum fangabúðanna. Skömmu síðar skammaðist ég mín fyrir að vera svona ósmekklegur. En ekki nóg til að nefna það ekki hér á blogginu.

3. Umferðardólgur
Ég fann nýja týpu til að hata í umferðinni um daginn þegar ég varð fyrir aðakasti í hringtorgi. Ég tók ytri akgrein inn í og strax út úr hringtorgi um leið og bíll á innri akgrein reyndi að svissa yfir á ytri útrein, þegar tvær útreinar voru úr hringtorginu.

Allavega, viðkomandi fáráður stóð á flautunni á eftir mér og tók ógnandi fram úr þegar við vorum komnir á beinan kafla.

Það er eitt að kunna ekki umferðarreglurnar og annað að halda að maður kunni umferðarreglurnar þegar maður kann þær ekki en þegar maður er orðinn umferðardólgur ofan á allt saman þá er nóg komið. Ég ákvað því að kenna honum lexíu með því að líta á hann með vott að smá pirringi í fasi, sem hann hlýtur að hafa séð í baksýnisspeglinum, áður en hann spólaði út í buskann. Það ætti að sýna honum að abbast ekki upp á mig.

4. Heilsubúðin
Ég fór í heilsubúðina að leita að grænmetishakki, sem virðist ekki fást neinsstaðar lengur. Þegar ég spurði afgreiðslukonuna hvort þau ættu von á því á næstunni sagði hún að ég ætti frekar að versla það í Bónus eða ódýrari verslunum, þetta væri svo dýr búð.

Og það var mín vísbending um að ég ætti að klæða mig betur og kannski raka mig annað slagið, sem ég hef auðvitað ekki gert síðan.

fimmtudagur, 3. maí 2012

Handrit að (ör)stuttmynd

Tímasetning: Hádegi 3. maí 2012

Staðsetning: Úrilla Górillan

Lýsing: Þrír menn sitja við borð og ræða málin. Afgreiðslustelpa gengur upp að borðinu.

Afgreiðslustelpa (AS): Eruði tilbúnir að panta?
Vitleysingur (V): Já, ég ætla að fá pizzu með pepperóní og gúrku.
AS: ...ok, pepperóní og...gúrku...á pizzuna?
V: Já.
AS: ...viltu gúrkuna ofan á pizzuna í ofninum eða að við bætum henni við eftir að pizzan kemur úr ofninum?
V: Bara með í ofninum. Er það ekki venjan?

Afgreiðslustelpan horfir á vitleysinginn eins og hann sé fífl

AS: Nei, það er ekki ve...
V: Ég meina papriku! Shit.
AS: Fjúkk. Ég hef aldrei heyrt um gúrkupizzu.
V: Ég ruglast alltaf á gúrku og papriku.
AS: You're my favorite customer.

-Endir-

Þetta smáleikrit er sannsögulegt.

Smá viðbótarupplýsingar: Vitleysingurinn er ég. Að ruglast á papriku og gúrku er ekki það eina sem hrjáir mig. Ég ruglast líka reglulega á tölustöfunum 81 og 18 og smekklegum fötum og ógeðslegum lörfum.