föstudagur, 30. september 2005

Ég er farinn í helgarfrí. Góða helgi. Kem aftur á sunnudaginn, ef þið eruð heppin.

Fyrir þau sem ekki sætta sig við þetta, farið hingað og skapið umræðu.
Þessa dagana held ég upp á ca 10 ára rakstursafmæli. Á þessum tíma hefur mér aldrei tekist að raka mig án þess að skera mig, oftar en ekki djúpt, blóðugt og áberandi. Þangað til í morgun!

Ég náði semsagt að raka hvert einasta skegghár úr andlitinu á mér, og þau voru orðin býsna skrautleg hvað lengd varðar, í fyrsta sinn án þess að rífa húðina til blóðs.

Þar sem ég hef masterað raksturstæknina sé ég mér ekkert til fyrirstöðu að ráðast á næsta verkefni; að koma á kommúnistaríki á Íslandi. Óskið mér góðs gengis.
Körfuknattleiksdeild Hattar fer að byrja sitt fyrsta tímabil í úrvalsdeildinni. Að því tilefni hefur verið stofnum síða til að halda utan um aðdáendamál í bænum. Hér er síðan. Endilega skráið ykkur í athugasemdum þar.

Ennfremur vil ég koma því áleiðis að ég er hættur að vera grænmetisæta en á því byrjaði ég fyrir ca 14 mánuðum síðan. Ég hætti því fyrir 12 mánuðum síðan þar sem þyngd mín lækkaði til mikilla muna á þessum tveimur mánuðum. Tímaleysi olli því að ég hef ekki tilkynnt þetta fyrr.

Ef einhver hefur framleiðslu á bragðlausum næringargrauti sem inniheldur öll efni sem líkaminn þarf, rétt eins og í kvikmyndinni Matrix, þá verð ég sáttur og mun aftur hætta að snæða aðrar skepnur.

fimmtudagur, 29. september 2005

Ég var að enda við að bæta við fjórförum vikunnar hér.

Kíkið líka á þetta skemmtilega stærðfræðidæmi.
Tvennt nettengt finnst mér fyndið þessa dagana:

* Glæsileg markaðssetning Smáís en þeir banna fólki að hlekkja á síðuna sína með þessari tilkynningu. Auðvitað hlekkja þá allir "uppreisnarseggir" landsins á síðu Smáís og tilgangi fyrirtækisins er náð, giska ég á.

* Klukk-æðið á bloggum er fyndið. Ekki klukk-æðið sjálft heldur viðbrögð klukkaðra. Gróflega áætlað um 70% fólks kvartar yfir því að hafa verið klukkað af því þá þurfi það að skrifa eitthvað um sjálft sig. Skrítið. Þetta eru bloggsíður. Þær fjalla um viðkomandi manneskjuna sem skrifar hana. Fólk væri varla með bloggsíður nema að það elski að skrifa um sjálft sig. Mjög fyndið þegar fólk þykist ekki nenna að standa í þessu.

En nóg um mig.

miðvikudagur, 28. september 2005

Loksins hef ég bætt við myndum frá Íslandsmeistaramótinu í bandý sem fór fram á sunnudaginn síðasta (25. september 2005). Hér eru myndirnar.

Munið að gefa einkunnir fyrir hverja mynd og skrifa ummæli (eða ég sker rákir í handleggina á mér).
Kommentametið er slegið, eins og ég bjóst við og vonaðist til. Alls eru nú komin 45 komment við færslu minni um launajafnrétti kynjanna hér að neðan. Þar benti ég á, að ég hélt, staðreyndir markaðarins ásamt nokkrum glensatriðum og niðurstaðan er;

* Aukin aðsókn á þessa síðu; hátt í 200 manns á dag.
* Kommentakerfið er að springa, sem er gott.
* Ég er álitinn svín af ca öllum konum, einhverra hluta vegna, sem skiptir mig reyndar engu máli lengur.
* Ég mun sennilega fá kvenlegan grjóthnullung inn um gluggann næstu kvöld.

Hér eru nokkrar staðreyndir í viðbót sem ég ætla að henda fram til að auka aðsókn og komment:

* Glæpir munu aldrei hverfa.
* Stríð munu alltaf vera háð.
* Bílslys munu aldrei hætta að gerast.
* Það mun snjóa í vetur.
* Stundum geng ég ekki í nærbuxum.

Leiðinleg atriði en staðreyndir engu að síður.

þriðjudagur, 27. september 2005

Hér er ráðlegging fyrir ykkur sem finnst leiðinlegt að versla í brjáluðum mannstraumi. Tilbúin? Hún er í skrefum:

1. Flytjið í bæinn (bæinn = Reykjavík).
2. Skráið ykkur á viðskiptafræðibraut í HR (HR = Háskólinn í Reykjavík).
3. Klárið tvö ár.
4. Byrjið þriðja árið og lítið ekki í bækurnar þangað til kemur að fyrsta miðannaprófinu.
5. Geymið þá að læra fram á síðustu stundu og lærið alla nóttina fyrir próf.
6. Takið ykkur pásu um klukkan 03:30 og verslið í 10-11 sem er opin allan sólarhringinn. Ekki sála að versla.

Ég hef stundað rannsóknir á þessu og þetta virkar. Eins einfalt og A B C.
Það getur verið að ég hafi verið að borða óhollustu máltíð ævi minnar sem innihélt beikonborgara, franskar, kokteilsósu, kók og súkkulaði, í þessari röð.

Það getur verið að ég hafi lést um tvö og hálft kíló á íslandsmeistaramótinu í bandý sem var haldið í Fífunni á sunnudaginn.

Það getur verið að ég hafi verið að bæta Kára HR-ingi við í hlekkjasafnið hjá mér.

Það getur verið að ég sé að missa vitið af stressi fyrir próf á morgun, sem ég er ekki byrjaður að læra fyrir.

Það er hinsvegar alveg öruggt að það býr maður og kona(á jafnháum launum, til að gæta jafnræðis) í hnakkanum á mér sem hvísla að mér að ég eigi bara að fara heim að sofa, alltaf.

mánudagur, 26. september 2005

Það er mikið rætt um launamál kynjanna þessa dagana. Þar er sagt að konur eigi að fá sömu laun og karlmenn, sem hljómar fallega og vel. Ég þarf rök fyrir svona, ekki "af því bara" rök. Hér eru nokkur röksemdafærslur varðandi málið:

* Konur verða óléttar. Þær vinna varla 100% vinnu kasóléttar á meðan karlar geta unnið allan tímann í 100% vinnu.

* Konur verða að fá fæðingarleyfi. Það setur talsvert skarð í áætlanir fyrirtækis sem þarf stjórnanda/yfirmann sem er alltaf með fyrirtækinu.

* Framboð og eftirspurn gildir á vinnumarkaðnum. Það er meiri eftirspurn eftir körlum í störf, sem veldur hærri launum þeirra. Ósanngjarnt en satt.

* Karlar geta gengið í öll störf. Konur geta það ekki. Auðvitað eru til undantekningar á þessu en almennt er þetta svona.

* Konur borða minna en karlar. Karlar þurfa því að eyða meiri peningi í mat. Fyrir utan að strákar bjóða stelpum upp á drykki og bíó (og flr), venjulega.

* Það er tiltölulega stutt síðan konur fóru almennt á vinnumarkaðinn. Launamál eru enn að þróast.

og að lokum röksemdafærsla sem setur þetta allt í rétta mynd:

* Konur fá miklu lengri fullnægingar en karlar og geta fengið þær mun oftar.

Annars er mér alveg sama, þetta er meira fyrir náttúruna og markaðslögmálin að ákveða. Ekki stjórnmálamenn og rauðsokkur.
Dagurinn í gær var blogglaus vegna Íslandsmeistaramótsins í Bandý sem ég tók þátt í með góðum árangri.

Alls kepptu 8 lið á mótinu, þar á meðal UÍA, sem ég keppti með ásamt Soffíu, Björgvini, Óla Rú, Loga Helgu, Karólínu, Hjalta, Begga, Bödda og Sigga.

Svona urðu úrslitin:
1. sæti: Viktor (MR-ingar)
2. sæti: Babýlon (HR nemar m.a.)
3. sæti: BK (Bandýklúbbur Kópavogs)
4. sæti: UÍA (Austurland!)

Við komumst semsagt í undanúrslit sem verður að teljast frábær árangur þar sem við höfum aldrei spilað öll saman áður, nokkrir voru þunnir, helmingurinn hafði aldrei spilað með alvöru bandýkylfum áður og ég, Soffía og Björgvin borðuðum ekkert allan daginn.

Ég tók nokkrar myndir en stillti myndavélina eitthvað skringilega þannig að þær eru flestar misheppnaðar. Ég deili því aðeins með ykkur einu video í dag en það er af síðasta marki okkar gegn einhverju liðinu sem við unnum 8-0. Hér er það (9 mb erlent niðurhal).

laugardagur, 24. september 2005

Ég hef breytt rassgatinu mínu í ljósi einhverskonar höfunarréttarlaga á mynd sem ég virðist hafa brotið, þrátt fyrir skriflegt leyfi.

Einnig hef ég breytt síðunni minni, rassgat.org, af sömu ástæðum. Kíkið endilega og prófið að færa bendilinn yfir nýju myndina.
Miðaldra kelling á næsta borði sagði í dag við einhvern sem spurði hana að einhverju dæmi í stærðfræði: "Ég gerði þetta bara svona. Það er rökrétt." alveg óvitandi að kellingar geta ekki verið rökréttar í hugsun.

Það þýðir að hún hafi gert dæmið bara einhvernveginn. Greyið maðurinn sem spurði hana í góðri trú um áreiðanleg svör.

föstudagur, 23. september 2005

Það er eitthvað skrítið í loftinu. Á Laugarveginum í dag, þar sem ég gekk um og leitaði að buxum til að kaupa, gerðist eftirfarandi:

* Lalli Johns veifaði mér hinum megin við götuna, hljóp svo til mín, tók í höndina á mér og varð samferða í Dogma. Við spjölluðum vel og lengi eins og bestu vinir. Þetta var í fyrsta sinn sem ég sé hann í persónu. Kannski les hann bloggið mitt.

* Davíð Þór Jónsson, fyndnasti maður íslandssögunnar, horfði vel og lengi á mig þegar hann gekk framhjá sjoppu, í hverri ég sat og snæddi pylsu og drakk kók.

* Freyr Eyjólfsson, besti útvarpsmaður landsins, hjólaði framhjá mér eins og ekkert sé sjálfsagðara.

* Stefán Pálsson, fyrrum dómari í Gettu Betur, friðarsinni og ljóngáfaður vinstri grænn (eftir því sem ég best veit) gekk framhjá mér og sagði "Sæll" við mig. Ég hef aldrei hitt hann í persónu áður, svo ég viti.

Þrír af fjórum virtust kannast við mig. Ég hlýt að líkjast einhverjum svona mikið. Spurning hver það er. Ég hallast að Andreu Gylfadóttir.

Allavega, ég fann buxur og keypti.

fimmtudagur, 22. september 2005

Ályktun: Árin 2006-2010 verða þekkt í sögunni sem ár ljótu gleraugnaumgjarðanna. Við getum séð forsmekkinn núna á ca 70% kvenna og 10% karla sem nota gleraugu.

Af hverju geta bara ekki allir verið með jafngóðan smekk og ég á gleraugnaumgjörðum?
Stelpur, ég held ég tali fyrir hönd allra karlmanna þegar ég segi: að segja "London beibí" í stað "London" er ekki fyndið, þó að það hafi verið sagt í friends einhverntíman. Venjið ykkur af því áður en ég frem morð.
Eftir gott spjall við Óla Rúnar, lærdómsfélaga og klukkfórnarlamb mitt, komumst við að því að besta nafn allra tíma á hryllingsmynd er "Scullrapers of death from hell". Okkur til hryllings uppgötvuðum við stuttu síðar að það er ekki til mynd sem heitir þetta.

Ég auglýsi því hérmeð eftir eftirfarandi:

* Handriti að mynd sem hæfir þessum titli.
* Aðalleikurum ca 5-6 manns.
* Ca 2.500 manns til að leika dautt fólk.
* Leikstjóra.
* Myndavél.
* Svona klippiborð sem fer fyrir myndavélina áður en sena byrjar.

Ég myndi bjóða mig fram í leikstjórahlutverkið ef ég horfði á hryllingsmyndir. Scullrapers of death from hell mun fara ótroðnar slóðir.

miðvikudagur, 21. september 2005

Kíkið á þetta og gerið.

Kíkið svo á þetta og hafið áhuga!
Ég hef verið klukkaður aftur, í þetta sinn af Salóme nokkurri. Ég veit ekki alveg hvort það megi klukka mig aftur en þar sem mér finnst fátt skemmtilegra en að tala um sjálfan mig (sjá þessa síðu t.d.) þá tek ég þessu klukki og kem með fimm persónuleg atriði í viðbót um mig.

Hér eru fyrstu fimm atriðin og lítillega um hvað klukk er.

1. Ég er með eitt versta tilfelli af athyglisbresti sem til er. Ég get aldrei einbeitt mér að neinu í lengur en 3-4 sekúndur í senn. Oftast er ég að gera ca 6-10 hluti í einu án þess að fatta það.

2. Skammtímaminni mitt er ekkert. Ég man sjaldnast lengur aftur í tímann en 10 sekúndur. Ég krota því mikið í hendina á mér og er með tölvuna fulla af stafrænum minnispunktum.

3. Ég er með 15 grá hár á hausnum. Mér til huggunar eru þetta sömu 15 gráu hár og voru á hausnum fyrir fjórum árum síðan.

4. Ég er vinstri. Grænn, nánar tiltekið.

5. Ég get ekki fitnað. Ég borða nánast bara óhollustufæði og er, samkvæmt samfélaginu, horaður. Mér finnst ég þó með einn fallegasta líkama evrópu.

Ég hlýt að mega klukka nokkra í viðbót fyrst ég þurfti að deila þessu með ykkur. Ég klukka því Óla Rú, Esther, Sigmar Bónda og Markús.
Loksins hef ég lokið við flýtiborða fyrir ykkur að nota. Þeir eru hér til hægri frá ykkur séð (vinstri frá mér, þar sem ég er inni í tölvunni ykkar) og einnig hér fyrir neðan. Notið þá sem oftast.

Teiknimyndasagan Arthúr eftir Jónas Reyni og Finn.tk Torfa
Fjórfarar vikunnar, uppfærðir ca vikulega.
Vonandi verður þessi síða risavaxin og sjúklega vinsæl.
Endilega hlekkið á þetta. Gerum smá samfélag á netinu.

þriðjudagur, 20. september 2005

Eftir að hafa sleppt að skrá bloggfærslu á laugardaginn síðasta og hafa orðið fyrir barðinu á paparazzi ljósmyndurum við matsölustað í kvöld (ekki spyrja) hef ég áttað mig á því að ef ég fell óvænt frá mun ég skilja sáralítið eftir fyrir ykkur, lesendur góðir, að gera.

Það má að sjálfsögðu ekki gerast og því hef ég gert þetta spjallborð fyrir ykkur sem getur lifað að eilífu, svo lengi sem ég greiði af því árlega.

Allavega, hér er nokkur byrjunaratriði sem ég vil að komi fram:

* Það þarf ekki að skrá sig til að taka þátt í umræðunni.
* Ef þú vilt hinsvegar skrá þig, smelltu hér.
* Það er í lagi að skrifa undir dulnefni.
* Skítkast er hinsvegar bannað.
* Ykkur er velkomið að skrifa ykkar eigin bloggfærslur (copy paste þessvegna), búa til kannanir eða jafnvel reyna að skapa umræður með frumlegum umræðuefnum.
* Bætið spjallinu við í favorites hjá ykkur. Það mun koma sér vel.
* Vinsamlegast hlekkjið á það og fáið amk sem flesta austfirðinga til að taka þátt.
* Veffangið er www.rassgat.org/spjall Ekki erfitt að muna.
* Hér er spjallið. Njótið.
Í ferð minni í Bónus í dag hugðist ég spara mér fúlgu fjár með því að versla þar hádegismatinn. Í versluninni þurfti ég að bíða í 15 mínútur í biðröð vegna pennaskorts, einhver miðaldra kelling var ósátt við verð á kartöflum og aðeins örfáir starfsmenn gáfu sér tíma til að afgreiða á kassa.
Ég met tíma minn á 7.500 krónur á klukkustund og þegar tími minn fer til einskis kemst ég í vont skap. Góða skapið mitt met ég á 12.500 krónur stykkið. Hér er því kvittunin fyrir sparferðinni í bónus:

kr. 219 - Langloka.
kr. 107 - Rís.
Kr. 98 - Extra tyggjó.
kr. 1.875 - Tími minn.
kr. 12.500 - Góða skapið varð að vondu.
kr. 14.799 Alls

Frekar dýr hádegismatur í Bónus.

mánudagur, 19. september 2005

Í dag ætlaði ég að læra alveg helling en gerði þess í stað bara þetta:

Saddam Hussein í formi Che Guevara.Úff, ég hata sjálfan mig svo mikið.
Ég held áfram að prófa mig áfram í útliti þar sem mér finnst mig skorta sérkenni til að skara fram úr hvað útlit varðar. Um helgina prófaði ég enn eitt útlitið og er nú staddur svoleiðis í skólanum til að kanna viðbrögðin.

Hér er mynd af nýja útlitinu.

Þar sem enginn hefur haft svona skegg eða augnaráð í 60 ár er nánast öruggt að ég er búinn að skapa mér sérstöðu sem þýðir að sjálfsögðu tafarlausar vinsældir.

sunnudagur, 18. september 2005

Fyrir stuttu síðan gerði ég lista yfir þrjá svölustu menn heimsins, að mínu mati. Nýlega lentu svo tveir af þessum þremur mönnum í slagsmálum niðri í bæ, svo listinn er ónýtur.

Þá þýðir ekkert annað en að búa til nýjan lista. Hér er hann:

3. Johnny Depp. Friðarsinni, hlédrægur (þrátt fyrir að allar stelpur putti sig í rassgatið yfir honum) og einn besti leikari sögunnar.

2. Jack White úr White Stripes. Eftir að hafa séð þessa frétt, þessa mynd af honum og heyrt plötuna Get behind me satan með sveitinni hans; the white stripes skýst hann beint í annað sætið.

1. Nick Cave. Enn og alltaf sá svalasti.
Ástæðan fyrir bloggleysinu í gær var vegna þess að á föstudaginn hlustaði ég á diskinn Get behind me satan með White stripes en hann er glænýr af nálinni. Til að gera langa sögu stutta þá er hann svo góður að ég engdist um í raðfullnægingarblossum allt föstudagskvöldið. Á stundum voru þeir svo rosalegir að ég kastaði upp og fékk blóðnasir á víxl. Í gær var ég svo illa farinn og blóðlaus eftir föstudaginn að ég tók mér algjört frí frá netinu.

En nóg um mig. Diskurinn er frábær. Mæli sérstaklega með lögunum Red Rain, My doorbell, take take take, Forever for her og restinni. Fjórar stjörnur af fjórum.

föstudagur, 16. september 2005

Ég var að henda inn 16 myndum frá sumrinu 2004 (ath. fyrrasumar, ekki í ár). Gjörið svo vel að gefa myndum einkunnir og jafnvel skrifa ummæli við einhverjar myndir.

Hér eru myndirnar.

Kærar þakkir.
Nýlega breytti ég útlitinu mínu eilítið. Hér má sjá nýja mynd af smettinu á mér.

Og þá byrjar getraun dagsins: Hver er breytingin?

Nokkrar vísbendingar:

1. Þetta er ekki ný bóla á nefinu. Hún hefur verið þarna í fjöldann allan af mánuðum.
2. Ég er ekki með augabrúnaígræðslur. Augabrúnirnar hafa alltaf verið svona massívar.
3. Gleraugun eru ekki ný. Þau fékk ég fyrir rúmum fjórum mánuðum og tugþúsundum krónum síðan.
4. Mér er ekki nýfarið að vaxa skegg. Það byrjaði fyrir amk tveimur mánuðum síðan.
5. Breytingin felur ekki í sér neitt líkamlegt.
6. Breytingin er helvítis húfan!

Giskið nú!
Í gær varð ég fyrir skrítinni lífsreynslu. Ekki aðeins var mér rústað í stuttum rökræðum heldur var mér rústað á mjög metrosexual hátt. Hér er samtalið, sem entist, til allra hamingju ekki lengi.

*Óli er að taka þvott úr vél og hengja upp. Hann henti einni íþróttatreyju upp svo hún fór öll í rugl á snúrunni*

Ég: Þetta verður býsna krumpað á morgun ef þú ætlar að hafa þetta svona.
Óli: Þetta er pólíester. Þetta getur ekki krumpast! RÚST!

Það er skemmst frá því að segja að ég stórefaðist um kynhneigð Óla í nokkrar mínútur, áður en við grétum úr hlátri þrátt fyrir að mér hafi verið rústað.

fimmtudagur, 15. september 2005

Í morgun, á mánaðarlegum markaðsmálafundi veftímaritsins, var ákveðið að allt kvenfólk sem er dökkhært með gleraugu og á kærasta sem heitir Guðjón, sem einnig skal vera dökkhærður, mun fá hlekk á þessari síðu hér eftir. Harpa Hrönn heitir stúlka sem uppfyllir þessi skilyrði. Hún fær því hlekk bæði hér og hægra megin í tenglum.
Ég held að þrír þrjóskustu menn í heimi heiti Price Waterhouse og Coopers. Fyrirtæki þessara þriggja sameinaðist einhverntíman í fortíðinni og svona var sameiningarfundurinn í aðalatriðum:

Waterhouse: Nú vantar okkur nafn á nýja fyrirtækið. Einhverjar tillögur?
Price: Hvað með PriceCoopers?
Waterhouse: Nei! ég ætla að hafa mitt nafn í þessu!
Coopers: Hvað þá með WaterhouseCoopers?
Price: NEI! mitt nafn er ekki þarna!
Coopers: Þá verðum við bara að hafa þetta PriceWaterhouseCoopers.
Price: Samþykkt.
Waterhouse: ok.

Svona varð þá bjánalegasta fyrirtækjanafn samtímans til; PriceWaterhouseCoopers.

miðvikudagur, 14. september 2005

Það lítur út fyrir að ég hafi verið klukkaður af MajuE. Klukk er internetfár sem tröllríður bloggheimum þessa klukkutímana og felur í sér að viðkomandi fórnarlamb klukks á að skrifa fimm handahófskennd persónuleg atriði (sem hinn sótsvarti almúgi vissi ekki fyrir væntanlega) og klukka svo nokkur stykki bloggara til viðbótar. Þar sem þetta blogg mitt er mestmegnis lygar og kjaftæði dags daglega þá tek ég þessu klukki. Hér atriðin fimm:

1. Ég hef búið á fimm stöðum um ævina. Eskifirði, Hallormsstað, Trékyllisvík, Fellabæ/Egilsstöðum og Reykjavík. Trékyllisvík er í uppáhaldi og verður alltaf.

2. Ég er háður mat, lofti, ákveðnum manneskjum, internetinu, tölfræði og reglum. Ef mér eru ekki settar reglur ráfa ég stjórnlaus út í náttúruna, vitandi ekkert.

3. Ég tek lýsi daglega og finnst ég vera betri maður fyrir vikið. Betri en þeir villimenn sem taka það ekki að minnsta kosti.

4. Ég hef ekkert sérstaklega gaman af því að blogga en mér líður þó illa ef ég blogga ekki tvisvar á dag. Rétt eins og heróínfíklum líður ekkert svo vel ef þeir fá ekki dópskammtinn sinn eða stelpur sem sjá ekki The OC og fá móðursýkiskast í kjölfarið.

5. Ég byrjaði að drekka rúmlega tvítugur og drekk mjög sjaldan, hef aldrei tekið sígarettusmók á ævi minni, hef aldrei séð dóp, hvað þá tekið það inn og fer í sturtu daglega. Stundum 2-3 á dag. Samt er ég einn viðbjóðslegasti náungi sem ég þekki.

Ahh.. mér líður betur eftir þetta. Ég vona að ykkur líði verr.

Ég klukka hérmeð Soffíu, Gutta, Þóru Elísabet, Gísla Sig og Maggý. Ég býst ekki við neinum viðbrögðum við þessu klukki mínu.
Nú skal ég kenna ykkur eitt. Farið hingað, smellið á fyrstu myndina og gefið henni stjörnu (sjá fyrir neðan myndina); 5 stjörnur fyrir mjög góða mynd sem þér líkar, fjórar stjörnur fyrir góða mynd og svo framvegis. Engin stjarna þýðir hræðilega léleg mynd.
Síðan veljið þið næstu mynd og gefið henni stjörnu(r) og svo koll af kolli þangað til allar myndirnar eru búnar.

Þetta er nýjasta æðið í Hollywood eftir að það kom í ljós að Hitler gaf aldrei nokkurntíman stjörnur neinsstaðar og enginn vill vera eins og Hitler.

Allavega, á endanum kemur svo í ljós hvað ykkur finnst flottasta myndin og þá verður gaman lifa.

þriðjudagur, 13. september 2005

Ég sat í mötuneyti HR í dag og hlustaði á tvær stórkostlega málhaltar stúlkur ræða fyrrverandi kærasta og hversu ömurlegir þeir eru/voru. Hér er smá bútur úr samtali þeirra:

stúlka1: Og ég bara 'hvað er aððér!' og hann bara 'þú veist alveg' og ég bara 'láttu mig bara vera kríp!' skiluru.
stúlka2: oj ógesla eitthvað.
stúlka1: eimmit. Ég fattaði hann ekkert skiluru.
stúlka2: og hvað svo?
stúlka1: hann bara 'oh, djöull ertu ömuleg' og ég bara 'oh! þenk jú!' fattaru.
stúlka2: aha.
stúlka1: og hann bara 'ég vil bara fá sjónvarpið' eitthvað og ég bara 'nei vinur! ég á'ða núna' skiluru og hann bara 'oj, þú ert ömuleg' og ég bara 'eh, neihei. þú ert herra ömurlegur!' skiluru.

Á þessum tímapunkti stóð ég upp, gekk að borðinu þeirra og ældi yfir þær. Sumir nemendur virðast algjörlega sleppa grunnskóla og menntaskóla áður en þeir drífa sig í háskólanám.
Niðurstöður minnar einkakönnunar varðandi lélegastu þjónustu í alheiminum (hjá fyrirtækjum) eru komnar á borð til mín. Fyrirtækið Síminn fær þessi verðlaun fyrir eftirfarandi:

* Vonlaus þjónusta í verslunum Símans. Það tók mig fjórar tilraunir að fá að tala við þjónustufulltrúa í verslun Símans í Kringlunni (beið í 20 mínútur í hvert skipti áður en ég gafst upp).

* Vonlaust gjaldfrjálst þjónustunúmer. Var látinn bíða í 15 mínútur eftir að heyra í þjónustufulltrúa.

* Heimasíða Símans er einnig tilgerðarleg, ljót og ruglingsleg.

Tillaga undirritaðs að betri árangri Símans: Ráðið fleira starfsfólk og lækkið milljarðar hagnaðinn um nokkrar milljónir á ári. Hættið að níðast á viðskiptavinum ykkar. Þangað til skora ég á alla að skipta yfir í Vodafone.

Í verðlaun er þessi vinsamlega ábending frá mér og lítillega notuð bláberjasultukrukka sem mig langar ekki í lengur.

mánudagur, 12. september 2005

Keyra í skólann, vera heillandi, vinna tölfræðiverkefni, fara í ræktina, líta vel út, borða fullt af mat, vera bráðhress og rifna úr námsáhuga.

Þetta gerði ég ekki í dag. Þess í stað gerði ég þetta.
Nýr dagur.
Nýjir fjórfarar.
Nýr Arthúr.
Nýlegar gsm myndir.
Ný bloggfærsla.
Nýstárleg aðferð í bloggskrifum.

sunnudagur, 11. september 2005

Bára nokkur er byrjuð að blogga. Þá hafa allir íslendingar bloggað einhverntíman á lífsleiðinni fyrir utan fingralausa manninn, sem ég sé oft bregða fyrir á Hlemmi, og aldraða frænku mína sem veit ekki að tölvur eða internetið sé til.

Þetta minnkar virði míns blogg um 1/197.778 (fjöldi bloggara núna) eða 0,0005056%. Takk kærlega Bára!
Í dag er hinn alþjóðlegi úrgangsdagur þegar allir eiga að skarta því sem alla jafna er hent í ruslið. Hér eru því nokkrar hugmyndir af bloggfærslum sem eiga heima í ruslinu, aðallega vegna þess að ég nennti ekki að skrifa neitt um það:

* Ég notaði flautuna á bílnum mínum í fyrsta sinn í fyrradag þegar jeppi lagði ekki af stað á grænu. Ég er smámsaman að verða illur Reykvíkingur.

* Ég er byrjaður í World Class. Ég stefni á að verða amk 150 kg af vöðvum.

* Bíllinn minn er bilaður. Bremsuborðarnir kláruðust og ég má ekki keyra hann þangað til ég læt setja ný stykki í hann.

* Nýjir fjórfarar koma á netið daglega við lítil viðbrögð sótsvarts almúgans.

* Geðveikin, sem hrjáði mig í byrjun sumars, er algjörlega gengin til baka. Ég er orðinn heilbrigður aftur og fullkomlega hundleiðinlegur.

laugardagur, 10. september 2005



Nám er ekki bara dans á rósum. Nám krefst líka skipulagi og útsjónarsemi, eins og ég hef klárlega beitt við uppsetningu á skóladótinu mínu á þessari mynd.
Í dag er einhver tölvunarfræðinemi í HR alsæll og það er allt mér að þakka. Ég skyldi nefnilega star wars límmiðatæki eftir á borði í mötuneyti HR í gærkvöldi eftir að hafa fundið það í einhverjum kelloggs pakkanum.

Þá er góðverki vikunnar lokið og ég get verið skíthæll í nokkra daga með góðri samvisku.

föstudagur, 9. september 2005

Hlustið nú vel lesendur góðir. Hér kemur tilkynning frá höfuðstöðvunum:

Vefjöfurinn Rassgat.org, sem færir ykkur Veftímaritið; Við rætur hugans, Fjórfara vikunnar og GSM bloggið ásamt því að styrkja uppihald Finns.tk auðjöfurs, hefur ákveðið, í samstarfi við verktakafyrirtækið Fjandinn.com, sem er móðurfélag Jonna og Hjalla ásamt því að sjá um rekstur Arthúr Teiknimyndastrípur inc., að fjölga teiknimyndastrípunni Arthúr um eina á viku, úr tveimur í þrjár í framhaldi af góðri rekstrarafkomu fyrirtækjanna annan ársfjórðungs ársins.

Strípunum mun því fjölga úr 8-9 stykki á mánuði í 13 stykki og munu birtast héreftir á mánudögum, miðvikudögum og föstudögum.

Ennfremur hefur undirritaður ákveðið að hætta að ganga í nærbuxum á þriðjudögum, en það er önnur saga.

fimmtudagur, 8. september 2005

Ég gleymdi því næstum, hér er DV fréttin nísku skepnurnar ykkar.


Eins og áður hefur komið fram fylgir skemmtanagildi þessa bloggs einfaldri formúlu sem kristallast í myndinni hér að ofan. Því fleiri sem kíkja á síðuna á dag, því taugaspenntari verð ég sem veldur því að bloggið verður leiðinlegra. Á myndinni að ofan sjáið þið hvar þessi dagbók er stödd núna; um 200 gestir á dag þýðir hundleiðinlegt blogg. Ég vona ykkar og naglanna minna vegna að gestafjöldinn verði ekki meiri.
Þessi brandari lét mig frussa öllu sem ég hafði upp í mér yfir tölvuna og næsta nágrenni. Sem betur fer var ég ekki með neitt upp í mér nema ca 1/10 úr lítra af munnvatni.

miðvikudagur, 7. september 2005

Eitt af því skemmtilegasta sem ég geri er að gagnrýna. Ég er því himinlifandi núna því ég ætla að gagnrýna tvær myndir og eina plötu. Ég vara ykkur þó við; ég er óvenju jákvæður í dag:

(Ba)Sin city
Ný bíómynd sem er öll tekin upp í litlu stúdíói og unnin í tölvu. Í myndinni eru nokkrar sögur sagðar, nokkrir píndir, nokkrir drepnir og aldrei hlegið. Ein besta mynd síðustu ára að mínu mati. Stórkostleg upplifun. Fjórar stjörnur af fjórum.

Batman Begins
Myndin fjallar um hremmingar Bruce Wayne milljónamæringsins frá því hann missir foreldra sína, ferðast um heiminn sem glæpamaður og þangað til hann kemur aftur sem hinn eitilharði Leðurblökumaður. Hljómar skelfilega en er alveg merkilega góð mynd. Besta Batmanmyndin hingað til. Þrjár og hálf stjarna af fjórum.

Demon Days
Nýjasta plata Gorillaz, sem er hugarfóstur Damon Albarn, sem hefur eflaust sofið hjá helming íslenskra kvenna. Allavega, hvert einasta lag er gott á þessari plötu, flest meira að segja frábær og nokkur meistaraverk. Mæli sérstaklega með Dare, Kids with guns, O green world og restinni. Fjórar stjörnur af fjórum.

Alls 11,5 stjörnur af 12. Ég er alsæll. Ég mæli sterklega með öllu ofantöldu fyrir góða líðan.
Ég er fáránlegur að svo mörgu leyti en þó sérstaklega einu sem hrjáir mig hvern einasta dag í skólanum; athyglisbrestur minn veldur því að ég reyni alltaf að gera fullt af aðgerðum í einu þegar ég hef aðeins hæfileika í að gera eina aðgerð í einu.

Núna er ég t.d. að gera verkefni í tölfræði, er að lesa DV, er með bækling frá Dell hjá mér opinn, er að blogga, spila tónlist, anda, skoða fréttir á netinu og spjalla við fólk hér í skólanum ásamt því að sitja kyrr. Það er skemmst frá því að segja að mér er ekki að takast að gera neitt af þessu með góðum hætti.

þriðjudagur, 6. september 2005

Mér voru að berast stórar fréttir til eyrna og augna. Ég vil ekki segja of mikið um málið, þar sem ég er hlédrægur og málið viðkvæmt en það lítur út fyrir að Arthúr teiknimyndasagan sé orðin fræg. Á morgun birtist viðtal við okkur Jónas Reyni í DV um Arthúr með myndum af okkur og einni strípu af Arthúr. Í framhaldi af því er ekki ólíklegt að gerður verður við okkur kvikmyndasamningur og við jafnvel beðnir um að sitja fyrir naktir víðsvegar, í sitt hvoru lagi að sjálfsögðu.

En aðalatriðið er þó að týna sér ekki í vonum og væntingum. Allavega, kíkið á DV á morgun.

mánudagur, 5. september 2005

Eins og áður segir er ég að fá kvef, sem er einmitt næstóþægilegasta tilfinning sem til er á eftir því að leita að fótunum á sér eftir að hafa lent í kröftugri sprengju.

Ég læt þetta þó ekki á mig fá og mæti samt í skólann. Hugsið ykkur hörkuna í mér.
Ég hef ekki efni á leigunni þennan mánuðinn eða skólabókum, fæturnir á mér eru illa haldnir og þurfa á uppskurði að halda, ég er farinn að stirðna upp af hreyfingarleysi, hárið á mér er eins og steinull í dag og ég er að fá kvef í fyrsta sinn í fjöldann allan af mánuðum. Samt get ég ekki hætt að brosa. Stórmerkilegt fyrirbæri þessi geðheilsa.
Leti mín hefur náð nýjum hæðum. Í gær henti ég nærfötum og íþróttafötum í þvottavél í kjallara nemendagarðanna. Stuttu síðar ætlaði ég að sækja þvottinn og hengja upp nema hvað, hann var horfinn. Ég leitaði hátt og lágt. Föt að verðmæti kr. 20.000, gróflega áætlað, horfin. Og ég brosti, því þá þurfti ég ekki að hengja þetta helvíti upp. Ég fékk mér því bara kók og súkkulaði og þóttist vera alveg brjálaður.

Síðar um kvöldið komust fötin í leitirnar, mér til mikillar gremju.

sunnudagur, 4. september 2005

Þið, lesendur góðir, eruð eins og mýflugur. Þið munið ekki nokkurn skapaðan hlut. Skoðið fjórfara vikunnar fortíðarinnar daglega eða ég geri eitthvað virkilega andstyggilegt!

Ég tók eftir að aðsóknin í fjórfarasíðuna er komin niður í ekkert strax á fjórða degi. Þetta gengur ekki.
Ef ég bít einu sinni enn í kinnina á mér (ATH. ekki rasskinnina) þá sker ég munninn á mér stærri svo ég geti tuggið þetta fjandans tyggjó án þess að stórslasa mig. Allt fyrir tyggjódýrkun mína.

laugardagur, 3. september 2005

Í dag skráði ég mig í klúbbinn Fischerman's Friend en það er skákklúbbur Háskólans í Reykjavík. Þarmeð líkur 5 ára skákklúbbleysi mínu en það gap hef ég fyllt aðallega með dópneyslu og sjónvarpsglápi.

Nú verður hinsvegar breyting á. Héreftir mun ég vatnsgreiða hár mitt til hliðanna, setja upp slaufuna og gyrða peysu niður í flauelsbuxurnar, sem ég á eftir að versla.
Í næsta herbergi við mig heyrast sífellt þungir dynkir eftir kvöldmatarleytið og með þeim hávær öskur og læti. Ég hef hingað til forðast að láta sjá mig á göngunum um leið og parið sem býr þar af ótta við vandræðalegar augnagotur þar sem ég taldi klárlega um dýrsleg mök vera að ræða.

Mikið óskaplega var ég feginn að sjá að stelpan var með glóðarauga og margsprungna vör þegar ég mætti henni óvart á göngum vistarinnar í morgun. Ég heilsaði henni því hátt og snjallt, alls ekki vandræðalegur.

föstudagur, 2. september 2005

Ég var að komast að því að stelpan, sem ég hélt að væri með alvarlegt tilfelli af gulu, er bara að nota útrunnið brúnkukrem. Mér líður eiginlega eins og hálfvita í dag fyrir að hafa bent á hana og hlegið mjög hátt í gær þegar hún er ekkert veik í alvörunni, fyrir utan að geta ekki séð mun á appelsínugulum lit og brúnum.

fimmtudagur, 1. september 2005

Ég hef löngum haldið því fram að vinir pari sig saman eftir útliti. Þess vegna eru yfirleitt allar sætu stelpurnar saman og allt ljóta fólkið útaf fyrir sig. Ég komst þó að galla í þessari kenningu minni nýlega og set því hérmeð fram nýja kenningu sem mun valda straumhvörfum í vináttumálum. Fyrst í formúluformi:

M = ((600 - S^0,5)/100)^2 * ((21-H)^0,25))

M = mismunur á fríðasta vini hópsins og þeim ófríðasta, mældur í fegurðarstuðli Finns frá 0 - 100. Ef yfir 100 þá M = 100.
S = Stærð bæjarfélags eða bæja á svæði (T.d. Egilsstaðir og Fellabær saman).
H = Stærð vinahóps. Á skalanum 2-20.

ATH. Þessi formúla á aðeins við um vinahópi á Íslandi.

Svo í töluðu máli:

"Því fámennari staður sem vinahópurinn kemur frá og því fámennari sem vinahópurinn er, því meiri mismunur er á fallegasta og ófríðasta einstaklingi hópsins."

Tökum dæmi. Brjánn á 12 vini og býr í bæjarfélagi sem inniheldur nákvæmlega 20.000 manns. Hann fær því, með því að nota vinaformúlu Finns.tk:

M = (600 - (20.000)^0,5)/100)^2 * ((21-12)^0,25))
M = 21,0294 * 1,7321 = 36,424

Munurinn á fríðasta einstaklingi vinahóps Brjáns og þeim ófríðasta eru því 36,424 fegurðarstig.

Þar hafið þið það. Vonandi getið þið notað þetta til að gera heiminn betri en ekki í sprengjur.
Í dag er allt nýtt.

Nýr Arthúr.
Nýjir fjórfarar.
Ný derhúfa á leið til landsins á hausinn á mér.
Nýr MSN.
Ný tískulína.