þriðjudagur, 31. janúar 2012

Vísbendingalestur

Í morgun var ég fluttur um set innan 365. Ekki stöðulega séð heldur skrifborðslega séð. Nú er ég farinn aftur í það hús og á þá hæð sem ég var áður þó með örlitlum breytingum.

Hér má sjá staðsetningarnar í gegnum tíðina:


1 = Fyrsta staðsetning mín árið 2006.
5 = Nýjasta staðsetning mín frá og með deginum í dag.

Ég á það til að reyna að finna vísbendingar um skilaboð þegar ég sé svona ferli, svo ég dró línu milli staðsetninganna:


Þarna sést greinilega hvað er í gangi. Allar þessar breytingar eru bara að gefa eitt í skyn. Smelltu á "Lesa meira" til að sjá hvað undirmeðvitund yfirmanna minna er að reyna að segja mér.

mánudagur, 30. janúar 2012

Rafmagnsleysi

Á föstudaginn síðasta varð rafmagnslaust hjá 365, þar sem ég vinn við Excelvinnslur ýmiskonar. Ég reyndi að þykjast koma að góðu gagni með allskonar tillögum, eins og að kveikja bál í anddyrinu, veiða ketti til matar og fatagerðar og að fórna yngstu starfsmönnunum til rafmagnsguðanna við dræmar undirtektir.

Þegar rafmagnið komst aftur á, hálftíma síðar, áttaði ég mig á því að ég er algjörlega gagnlaus ef ég hef ekki rafmagn í kringum mig. Ekki ósvipað þessari teiknimynd.

fimmtudagur, 26. janúar 2012

Undirmeðvitundin og ég

Síðustu mánuði hefur bifreið mín, sem ég er landsþekktur fyrir að hata af öllu afli, staðið sig merkilega vel. Hún hefur ekkert bilað og það sem meira er, ekkert hefur dottið af honum.

Í vetur hefur bifreiðin svo staðið sig sérstaklega vel eftir að ég setti heilsársdekk undir. Bíllinn er að komast í gegnum ótrúlegustu skafla, jafnvel fleiri og stærri en stærðarinnar jeppar.

Svo ég fór að velta fyrir mér hvort ég hafði dæmt hann of snemma. Fimm ár af stanslausum bilunum er kannski bara byrjunarörðugleikar. Ég stóð endanlega á gati yfir góði gengi bílsins þegar hann komst einn fárra bíla inn í bílastæðið við heimili mitt í gærkvöldi.

Þá fór undirmeðvitundin af stað og kom með tilgátu í draumi mínum í nótt. Undirmeðvitundin kom með þá tillögu að ég hefði lent í slysi fyrir rúmu ári þegar ég velti bílnum og missti allt minni, raunveruleikaskyn og vit. Eftir það hafði ég keypt mér Toyota en séð sem Peugeot í geðveiki minni.

Góð tilgáta, undirmeðvitund. En nei, þetta er örugglega Peugeot sem ég er að keyra. Ég athugaði sérstaklega í morgun þegar ég vaknaði.

Mér finnst líklegra að þetta sé lognið á undan storminum. Stormurinn er þá líklega að bíllinn springi í tætlur á næstu dögum við minnsta tilefni. Spennandi.

mánudagur, 23. janúar 2012

Spurningar frá Google

Nýjasta útspil mitt á leið minni til heimsfrægðar er samstarf við Google leitarvélina. Google beinir fólki inn á þessa síðu ef það leitar að orði sem hér finnst og ég svara þeim eftir bestu getu.

Hér eru fyrsta settið af spurningum og svör mín:

1. Djöflaterta?
Svar: Já, djöflaterta. Góð kaka. Notaðu rjóma með.

2. Stykkishólmur?
Svar: Ég hef tvisvar farið þangað að keppa í körfubolta með Álftanesi. Ég held að við höfum unnið í bæði skiptin. Eða kannski bara annað skiptið. Eða hvorugt.

3. Styrmir 1975?
Svar: Styrmir bróðir minn er fæddur árið 1975. Þú heyrðir það ekki frá mér.

4. Smálán excel?
Svar: Hér reiknaði ég vexti smálána í Excel.

5. Ósparsamur?
Svar: Hvað ertu að gefa í skyn? Ég var kannski ósparsamur áður en nú er ég blessunarlega of latur til að eyða peningum.

6. Bruðlur?
Svar: Ef þú vilt. Þær fást örugglega í... hvaða verslun sem er. Meinarðu ekki bruður? Djöfull ertu heimsk(ur). Takk fyrir leiðréttinguna, Esther.

7. Bíó?
Svar: Ekki núna.

8. Karlmannsrassar?
Svar: Ég myndi ekki vita neitt um það! Hver sagði að ég ætti að vita eitthvað um það?? (sendu mér e-mail)

9. Sykurfíkn?
Svar: Sykurfíkn þýðir að vera sjúkur í sykur eða vörur troðfullar af sykri eins og kók, Risahraun, Cocoa Puffs og skúffuköku. Sykurfíkill er t.d. maður sem reynir að nefna nammi, t.d. Kók og Risahraun í hverri einustu bloggfærslu sem hann skrifar.

miðvikudagur, 18. janúar 2012

Tónlist og kvikmyndir síðasta árs

Hér er listi yfir þrjú bestu lög ársins 2011 að mínu mati:

3. Gusgus - Over af disknum Arabian Horse



Drulluflott lag sem sýnir að Gusgus eru í fullu fjöri, bókstaflega.

2. Sykur - Reykjavík af disknum Mesópótamía



Sykur verður bara betri með tímanum, þó þeir séu kornungir. Í þetta skiptið skarta þeir ótrúlega raddsterkri 20 ára söngkonu. Lagið er grípandi, svo ekki sé meira sagt.

1. Kavinsky - Nightcall úr myndinni Drive



Rosalegt lag og verður rosalegra við að sjá myndina Drive, sem fyrir einhverja tilviljun var líka í fyrsta sæti á lista mínum yfir kvikmyndir á árinu. Hér er listinn:

2. Source Code (Ísl.: Suðu Sigfús)
1. Drive (Ísl.: Keyri keyr)

Restina af myndum ársins sá ég ekki.

þriðjudagur, 17. janúar 2012

Barnið ég

Í morgun skaut þeirri hugmynd í hausinn á mér að fara að huga að barneignum þar sem ég nálgast eftirlaun óðfluga og hef ekkert skilið eftir mig.

Því næst fór ég á fætur, klæddi mig, setti alltof mikið tannkrem á tannburstann minn, missti helminginn óafvitandi á gólfið, steig í tannkremsklessuna og gekk um alla íbúð á meðan ég tannburstaði mig (til að vakna betur), dreifandi tannkremi um alla íbúð án þess að fatta það.

Þegar ég áttaði mig umfangi þessa stórslyss, frestaði ég barneignum um önnur 10 ár.

laugardagur, 14. janúar 2012

Bíórýni

Ég hef löngum talið mig vera kvikmyndaáhugamann, þeas ég horfi stundum á bíómyndir og hef gaman af. Örugglega mjög sjaldgæft áhugamál.

Í síðastliðinni viku sá ég þrjár kvikmyndir. Hér er listinn yfir þær og umsögn/gagnrýni mín:



Contagion (Ísl.: Smit)
Tilda Swinton leikur Gwyneth Paltrow sem leikur konu sem veikist og út brýst stórhættulegur faraldur þessarar bannvænu flensu.

Myndin sýnir raunhæfa framvindu mála ef svona faraldur brýst út og áhrif hennar um allan heim. Stórskemmtileg og vel gerð mynd. Þrjár og hálf stjarna af fjórum.



Spirited away (Ísl.: Andað í burtu eða eitthvað)
Eftir að hafa lesið ótrúlegustu dóma um þessa mynd ákvað ég að kíkja á hana, vitandi ekkert um hvað hún er.

Eftir um það bil korter áttaði ég mig á því að ég hafði gert stórkostleg mistök. Myndin er kjaftæði. Ekki bara kjaftæði heldur þannig kjaftæði að hvað sem er getur gerst hvenær sem er, eins og Lísa í andskotans Undralandi. Ömurlegri gerast ævintýrin ekki.

Myndin er þó vel gert. Og örugglega skemmtileg fyrir fólk sem fílar svona rugl.

Ein stjarna af fjórum.


Tinker Tailor Soldier Spy (Ísl.: Allskonar starfsgreinar)
Þessi pólitíski þriller fjallar, held ég, um njósnasveit í Bretlandi í kalda stríðinu sem fær fregnir af því að einhver innan sveitarinnar starfi fyrir Rússa. Upphefst mikið spjall þeirra á milli.

Þetta er fyrsta myndin sem ég vissi næstum minna um eftir að ég sá hana en áður. Hún er vel gerð og mjög vel leikin en ögn of flókin fyrir minn smekk. Ég þarf líklega að sjá hana aftur. Og mögulega aftur.

Ég gef henni þó tvær og hálfa stjörnu, svo ég hljómi ekki eins og hálfviti.

miðvikudagur, 11. janúar 2012

Heilsársdekk

Í morgun gafst ég upp fyrir vetrinum og skipti út spegilsléttum, fjögurra ára sumardekkjum fyrir heilsársdekk. Þetta breytir nokkrum hlutum:

* Ég get hætt að spóla allt sem ég fer.

* Ég get hætt að öskra úr skelfingu allt sem ég fer og farið að einbeita mér að því að öskra á aðra bílstjóra sem spóla allt sem þeir fara.

* Íbúar Stór-Reykjavíkursvæðisins þurfa nú væntanlega að bíða í nokkra klukkutíma þar til snjórinn hverfur og kemur ekki aftur á meðan ég er á nothæfum heilsársdekkjum. Ég reyndi að fá styrk frá bæjarfélögunum fyrir þessum dekkjaskiptum en allt kom fyrir ekki, þrátt fyrir að ég hafi sýnt fram á að ég er háttvirtur viðskiptafræðingur með þar til gerðu plaggi sem ég hef á mér hvert sem ég fer.

mánudagur, 9. janúar 2012

Dæmigerð verslunarferð á laugardegi

Á laugardaginn skrapp ég í Kringluna og átti leið framhjá Hagkaup þegar þeirri hugsun skaut í kollinn á mér að kaupa svaladrykk til að vera eins og allt afslappaða fólkið. Hver veit, kannski gat ég blandað geði við fólk í biðröðinni og skemmt mér vel. Tilhugsunin var eggjandi og ég var ánægður með þessa framandi hugmynd mína.

Þegar í biðröð var komið áttaði ég mig á að ég hafði gert mikil mistök:
  1. Biðröðin virtist ekkert ganga. Þegar loksins var komið að mér fraus talvan og tók nokkrar mínútur að endurræsa hana, áður en hún fraus aftur og svo framvegis.
  2. Næst á eftir mér var miðaldra kelling sem hálf öskraði auðvitað á afgreiðslumanninn fyrir þessa tölvubilun á meðan hún og dóttir hennar átu vínberin sem þau ætluðu að kaupa (og átti eftir að vigta) sem fyllti mig fyrirlitningu í þeirra garð.
  3. Fyrir aftan mæðgurnar var ofdekrað 2ja ára barn sem ákvað að setjast á gólfið og öskra eins hátt og það gat af því það fékk ekki nammi. Skömmu síðar tók annað barn upp þessa taktík á meðan foreldrar þeirra horfðu stoltir á.
  4. Það sem að ofan er talið lét mig gnísta tönnum svo fast að ég fór að svitna. Og ég hætti ekki að svitna fyrr en ég tók svaladrykkinn og setti aftur í kælinn, orðinn nánast rennvotur í framan. Þetta vökvatap orsakaði að ég hefði þurft svaladrykk.
Eftir á að hyggja þá held ég að þetta hafi verið ein versta hugmynd mín til þessa. Að versla í Hagkaup í Kringlunni á háannatíma á laugardegi toppar hér um bil Peugeot kaupin mín árið 2004, ósælla minninga.

sunnudagur, 8. janúar 2012

Hin árlega bókarýni


Þar sem ég var bæði veikur og tölvulaus í jólafríinu bryddaði ég upp á þeirri nýung að lesa bók. Bókin sem varð fyrir valinu heitir Dávaldurinn eða Hypnotisören (ísl.: Hin fjögur fræknu og dávaldurinn) eins og hún heitir á frummálinu (sænsku). Hún er eftir parið Lars Kepler. Ekki spyrja.

Bókin fjallar um dávald sem er fenginn til að dáleiða fórnarlamb fjöldamorðingja sem myrt hefur fjölskyldu hans en náði ekki að klára ætlunarverk sitt. Þegar því er lokið upphefst hörkufjörug atburðarás og ég veit ekki hvað og hvað.

Bókin er troðfull af sóðalegu ofbeldi, snarbiluðum geðsjúklingum, góðhjörtuðum geðsjúklingum, morðum, sifjaspelli, framhjáhaldi, smá meira af sóðalegu ofbeldi, einelti og ca öllu öðru sem þér getur dottið í hug, nema kannski dansi og söng.

Kostir bókarinnar er spennan sem haldið er við frá fyrstu blaðsíðu þar til bókinni er lokið. Ókostir er aðallega ótrúverðugur söguþráður og óendanleg grimmd eða óþolandi persónugallar í öllum sem koma við sögu.

Það tók mig 11 daga að klára bókina sem þýðir að venjuleg manneskja ætti að ná því á 2-3 dögum. Ágætis afþreying yfir jólin.

Tvær og hálfa stjörnu af fjórum.

Þessi færsla er líka bókaannáll minn fyrir árið 2011. Hér er listi yfir bestu bækurnar sem ég las á árinu:

1. Dávaldurinn.

fimmtudagur, 5. janúar 2012

Myndir úr jólafríi

Ég hef bætt við myndum frá jólafríinu á facebook síðuna mína. Hér eru nokkur sýnishorn:

Valería Dögg, Anna María og Árni Már í sprellstuði.

Ég horfandi á Teletubbies, fárveikur. Valería Dögg fékk að horfa líka.

Fögur eru fellin svo að mér hefir þau aldrei jafnfögur sýnst, bleikir akrar en slegin tún, og mun eg ríða heim aftur og fara hvergi.

Ég að grafa upp bílhræið mitt að jólafríi loknu.

Restina af myndunum má sjá hér.

þriðjudagur, 3. janúar 2012

2011 árið í hnotskurn

Ég hef snúið aftur í Kópavoginn eftir góða tólf daga á Egilsstöðum. Þeim eyddi ég í að snýta mér, hósta og skjálfa úr flensu, eins og áður hefur verið nefnt. Ennfremur spilaði ég við systkini mín og maka þeirra og lék mér við börn þeirra.

Ég hætti mér svo í nokkra göngutúra undir lok flensunnar og náði að lesa eina bók. Myndir verða birtar síðar.

En þessi færsla fjallar um árið 2011. Svokallaður annáll, ef þú vilt. Hér er það helsta sem gerðist á nýliðnu ári:

  • Í byrjun árs 2011 var ég einhleypur, búsettur í Kópavogi, keyrandi um á Peugeot 206, vinnandi fyrir 365 og peningalaus að mestu.
  • Í lok september eignaðist Styrmir bróðir sitt þriðja barn.
  • Um miðjan nóvember keypti ég mér hvítan hlýrabol af því ég var í flippstuði.
  • Í lok árs 2011 var ég einhleypur, búsettur í Kópavogi, keyrandi um á Peugeot 206, vinnandi fyrir 365 og peningalaus að mestu.

Sennilega leiðinlegasta ár sem ég hef upplifað. Hingað til.