miðvikudagur, 3. september 2003

...Framhald...

Ég fór í Landsbankann í Austurveri í dag til að redda fjármálunum, kvarta yfir VISA og gera mig að fífli að því er virðist. Þegar röðin kom að mér bað ég afgreiðsludömuna vinsamlegast um að láta mig fá eyðublað frá VISA þar sem ég færi fram á að ákveðnar færslur á síðasta greiðslutímabili yrðu leiðréttar og hún spurði "Ha? Hvaða kort?". Ég varð svo agndofa við þetta svar hjá henni að ég stóð stjarfur í nokkrar sekúndur og endurtók beiðni mína, í það skiptið helmingi hærra en áður og, að ég hélt, mun skýrara. Svarið "Ætlaru að skila hvaða korti?" kom til baka frá afgreiðsludömunni sem horfði á mig eins og ég væri utan af landi. Ég endurtók fyrirspurn mína í þriðja sinn aðeins hærra, skýrar og löturhægt en allt kom fyrir ekki því konan starði nú á mig og bað stuttu seinna um kennitölu. Þá ákvað ég að hætta við þessa fyrirspurn og bað hana þess í stað vinsamlegast um að benda mér á einhvern sem gæti stofnað einkabanka, sem hún gerði. Ég gekk því fimlega en eldrauður í framan frá afgreiðsluborði í átt að annari þraut sem endaði nokkuð vel miðað við mig.

Nú bið ég um hreinskilið álit ykkar; tala ég virkilega svona rosalega óskýrt?

0 athugasemdir:

Skrifa ummæli

ATH. Þegar athugasemd hefur verið rituð þarf stundum að staðfesta hana, eftir að smellt hefur verið á "Post Comment". Hafið það í huga.