miðvikudagur, 31. janúar 2007

Í dag ætlaði ég að skrifa um að fyrir ca viku vann ég mitt fyrsta pókermót á netinu. Keppendur voru 10 og ég vann 25 dollara sem voru þá kr. 1.750, en eru núna kr. 1.700 vegna lækkunar á dollaranum.

Allavega, í gær lenti ég í fjórða sæti á svipuðu móti, sem er verðlaunalaust sæti, sem markar þau tímamót að ég hef tapað þessum 25 dollurum aftur.

Því ætla ég ekki að blogga um þennan sigur minn á pókermótinu fyrir ca viku.

þriðjudagur, 30. janúar 2007

Í dag er ég þunglyndur. Þunglyndi er frábært, sérstaklega að því leyti að þá þarf maður enga afsökun fyrir því að vera grautfúll og/eða ömurlega leiðinlegur. Maður er bara þunglyndur. Ekkert við því að gera. Fólk sættir sig við leiðindin.

Ekki ósvipað leti, nema ef maður kallar það skólaleiða þá skilja mann allir, jafnvel vorkenna.

mánudagur, 29. janúar 2007

Ég er með reikningablæti (e.: fetish). Þessi mánaðarmót eru mín happamánaðarmót ef litið er til blætisins. Hér er sýnishorn:

Viðgerð á bíl: kr. 120.000.
Tryggingar á bíl: kr. 75.000.
Greiðsla á körfuboltasal (hvar ég spila): kr. 52.000.
Leiga: kr. 33.000.
Visa: Kr. Sprilljón (gróft áætlað).

Sem betur fer er ég líka með blæti fyrir skuldum, yfirdrætti og að eiga niðurlægjandi samtöl við lánadrottinn minn, Landsbankann, helst íklæddur leðurmúnderingu.

Næstu dagar eru uppáhaldsdagar mínir á árinu.
Ég spilaði bandý á laugardaginn þar sem körfuboltaæfing féll niður. Spilað var í tvo og hálfan tíma. Ég er með harðsperrur á öllum mögulegum stöðum í dag, þar á meðal á iljum beggja fóta, í lófunum og í vöðva í bakinu sem ég vissi ekki að væri til í mannskepnunni.

Ég mæli mjög með bandý fyrir alla. Mér hefur sjaldan liðið jafn vel andlega og um leið grátið úr líkamlegum sársauka. Ég myndi þurrka mér í framan ef ég væri ekki hræddur um að beinin í handleggjunum myndu molna.
Flottasta lag í heimi hér að neðan?



Hvað finnst þér?

sunnudagur, 28. janúar 2007

Ég var að enda við að henda inn lögum á þessa síðu.

Farið þangað og hlustið á þau. Hlýðið einu sinni fjandinn hafi það!

laugardagur, 27. janúar 2007

Half life er tölvuleikur. Framhaldið ef þeim leik kom leikurinn Half life 2. Mér finnst þetta fáránlegt og órökrétt nafn.

Half life = 0,5 life.
Half life 2 = 0,5 life * 2 = 1 life = life.

Framhaldsleikurinn hefði þá betur heitið life.

föstudagur, 26. janúar 2007

Kvikmyndagagnrýni III:

Babel
Ástæða vals: Björgvin bróðir spurði hvort ég væri til í að sjá hana með honum. Ég samþykkti án þess að vita neitt um hana.
Söguþráður: Barn skýtur bandaríska konu með riffli í Morokkó. Hefst þá atburðarás, einhverskonar. Myndin gagnrýnir hroka og vitleysuna í bandaríkjamönnum oft, m.a.
Leikarar: Myndin er vel leikin. Aðeins of vel leikin kannski.
Umgjörð: Myndin er vel gerð í alla staði.
Skemmtanagildi: Myndin er hrút djöfull ömurlega leiðinleg og langdregin. Dæmigert atriði er þegar kona fær sér að pissa á koppi og fer í sleik við manninn sinn rétt á eftir. Alltof löng mynd.
Annað: Ekkert gengur upp í þessari mynd, nema í blá lokin. Dæmigerð óskarsverðlauna listamanna artí fartí kjaftæðis mynd sem öllum finnst leiðinleg en enginn þorir að viðurkenna.
Stjörnur: Ein stjarna af fjórum.
Kvikmyndagagnrýni II:

Stranger than fiction
Ástæða vals: Ég hafði heyrt að aðalkarakterinn sé eins og ég að mörgu leyti. Einnig er söguþráðurinn fyndin hugmynd.
Söguþráður: Fjallar um skattstofufulltrúa sem hefur gaman af tölfræði. Einn daginn, í hans mjög daufa lífi, fer hann að heyra rödd sem lýsir lífi hans í smáatriðum.
Leikarar: Leikarar standa sig vel. Will Farrell stóð sig ágætlega, þó annar leikari hefði sennilega passað betur í hlutverkið. Myndin fær full mikinn grínstimpil á sig þegar hún var ekki svo fyndin.
Umgjörð: Ekkert sérstakt við uppsetningu myndarinnar.
Skemmtanagildi: Myndin er áhugaverð. Ekki mikið meira en það. Nokkur brosleg atriði. Endirinn væminn, á slæman hátt.
Annað: Aðalkarakterinn á það sameiginlegt með mér að vinna á skattstofu (ég vann áður á skattstofu) og hafa gaman af tölfræði ýmiskonar. Einnig er hann hrútleiðinlegur, eins og ég og fylgir reglum. Það er sennilega það fyndnasta við myndina.
Stjörnur: Tvær stjörnur af fjórum.
Kvikmyndagagnrýni I:

Apocalypto
Ástæða vals: Mel Gibson á það til að gera góðar myndir. Ég hafði bara heyrt góða dóma um þessa mynd og ákvað því að kíkja.
Söguþráður: Maya indjánar ráðast á Azteka indjána, myrða og taka til fanga. Myndin fjallar um einn fanganna, fjölskyldu hans og ævintýri í frumskógum Mexíkó.
Leikarar: Allir algjörlega óþekktir, nema Brad Pitt, sem leikur konung Maya þjóðarinnar.
Umgjörð: Gríðarlega flott mynd í alla staði. Furðulegt indjánatungumál talað sem eykur áhrif hennar. Fullt af indjánarössum út um allt, sem er galli.
Skemmtanagildi: Ég skemmti mér konunglega þrátt fyrir talsvert af morðum, viðbjóði og karlmannsrössum. Spennandi, flott og skemmtileg mynd. Mikil upplifun.
Annað: Ég verð að taka enn einu sinni fram að það koma mjög margir karlmannsrassar fram í þessari mynd. Samt er hún mjög góð.
Stjörnur: Þrjár og hálf stjarna af fjórum.

fimmtudagur, 25. janúar 2007

Í dag ætla ég að svara spurningunum með sömu rökum: "Af hverju ætti ég að hætta að drekka kók?" og "Hver vill lifa að eilífu? (og þá af hverju og hvernig?)".

Við byrjum á fyrri setningunni. Segjum sem svo að ég drekki eina hálfs lítra flösku af kók á dag, eða kók að andvirði kr. 150 á dag. Ef ég myndi hætta að drekka kók og leggja þess í stað þessar 150 krónur á dag (kr. 4.563 á mánuði að meðaltali) inn á sparnaðarreikning með ýmist 10%, 14,05 (hæstu sparnaðarreikningsvextirnir í dag) eða 20% sparnaðarreikningsvexti, má reikna út að útkoman getur orðið arðsöm.

Ef við gerum ráð fyrir engri verðbólgu og að vextir séu reiknaðir og greiddir inn á reikninginn einu sinni á ári þá sýnir taflan hér að neðan hversu mikið er hægt að spara á mismunandi löngum tíma, með misháum innlánsvöxtum:

Allir að FKN spara!

Til að svara fyrri spurningunni; Þú ættir að hætta að drekka kók svo þú getir oðrið milljónamæringur og jafnvel milljarðamæringur ef þú lifir lengi. Ég kýs þó að gera þetta ekki af því mér finnst kók svo gott.

Seinni spurningin; "Hver vill lifa að eilífu? (og þá af hverju?)", eins og Queen söng áður er auðsvarað. Sjáum fyrst graf yfir þróun innláns með 10% og 14,05% vexti:
Grafi grafi ha. HAHAHAHAHA

Hér má sjá að eftir ákveðið mörg ár þróast inneignin nánast lóðrétt upp. Því lengur sem þú lifir, því hraðar margfaldast féið.

Sá sem lifir að eilífu verður að horfa upp á alla þá sem viðkomandi þykir vænt um, deyja á einhverjum tímapunkti. Þeir sem meta peninga meira en ástvini (hægri sinnað fólk t.d.) mun þá væntanlega vilja lifa að eilífu.

Enginn getur lifað að eilífu, nema Hálendingar.

Svarið er því: Hálendingar sem kjósa hægri sinnaða flokka (Sjálfstæðis- og Rebúlikanaflokkinn, svo einhverjir séu nefndir) vilja lifa að eilífu, vegna ávöxtunarmöguleika sparireikninga og af því þeir geta það.

miðvikudagur, 24. janúar 2007

Ég las áhugaverða grein nýlega. Greinin fjallar um hversu marga guð drap samkvæmt orðum biblíunnar. Hún telur einnig hversu marga Satan drepur í sömu ævintýrabók. Til að gera langa sögu stutta:

* Guð drap amk 2.270.365 manns. (Ekki talið fólk sem hann drekkti í meintu syndaflóðinu eða fólkið sem hann drap í Sódómu og Gomóru (þar sem þar fundust hommar)).

* Satan drap 10. Með samþykki guðs, þar sem hann tapaði veðmáli.

Lesið greinina hér.
Frá stelpunni sem færði mér þessa hugmynd kemur ný og betri hugmynd; Boðskapur? Mæli mjög með teiknimyndastrípum Soffíu.

þriðjudagur, 23. janúar 2007

Mig hefur alltaf langað til að flytja þakkarræðu. Hér er ein fyrir möguleg sparnaðarverðlaun sem ég gæti hafa fengið fyrir gærdaginn.

Takk fyrir. Ég hefði þó aldrei getað sparað þessar krónur ef ekki væri fyrir eftirfarandi:

* Soffíu fyrir að spara mér nokkur þúsund krónur með því að klippa mig.
* Möggu, systir Soffíu fyrir að spara mér eldamennsku/skyndibitakaup með því að bjóða okkur í mat.
* Ollu, mömmu Soffíu fyrir að spara mér nammikaup með því að bjóða upp á konfekt.
* Skattgreiðendum fyrir að spara mér tugi þúsunda króna með því að niðurgreiða strætósamgöngur mínar.
* Vinum mínum sem báðu mig ekki um að gera eitthvað með þeim.
* Þeim sem ég gleymi að þakka, fyrir að taka því ekki illa að ég gleymi að þakka þeim.
Ég get ekki lengur haldið þessu inni; Jónas Sen, sem sér um Tíu Fingur á RÚV er alveg eins og Gordon Freeman, sem sér um geimverur og annað vesen í leiknum Half life!

Ef þið hafið tvo í viðbót sem eru líkir þeim þá getum við haldið fjórfarateiti. Hér eru Jónas og Gordon:

Gordon Freeman er karl í krapinu.
Gordon Freeman að munda...tja... ég vona að þetta sé byssa.


Jónas Sen að munda... tja... ég vona að þetta séu röntgenaugu.

mánudagur, 22. janúar 2007

Í morgun skipti ég Bónuspoka fyrir Nóatúnspoka áður en ég lagði af stað í vinnuna svo samstarfsfólk mitt myndi ekki álíta mig ódýran. Ég hugsaði: "Gott og vel. Ég er fátækur, jafnvel stórskuldugur, en það er óþarfi að fólk viti það!" Ég er semsagt orðinn snobbaður. Ömurleg tilfinning.

Núna, staddur í vinnunni, sé ég eftir þessari ákvörðun minni. Ekki bara vegna nagandi samviskubits yfir snobbinu mínu heldur líka og aðallega vegna þess að Nóatúnspokarnir eru talsvert þrengri um brjóstið en Bónuspokarnir.
Ég á við gríðarmörg vandamál að stríða. Sum eru þó stærri en önnur. Hér er listi yfir þau helstu sem ég glími við þessa dagana:

* Samgöngumál: Bíllinn minn er bilaður, eins og áður hefur komið fram. Ég kemst illa á milli staða.
* Samskiptamál: MSN, sem ég nota til að halda sambandi við fólk, virkar ekki lengur hjá mér. Enginn getur skrifað neitt til mín.
* Heilsumál: Líkami minn er smámsaman að deyja. Hnéin eru farin að gefa sig. Nokkur hár orðin grá. Ég sé sífellt verr.
* Peningamál: Í kjölfar bilunnar bíls hverfa þær fáu krónur sem ég átti (og ætlaði að nota til að kaupa mér kók og risa hraun).
* Geðheilsa: Hausinn er í fullkomnu lagi, því miður. Að minnsta kosti nógu góðu lagi til að verða þunglyndur yfir vandamálum mínum.

Ég hugga mig þó við að það eru bara 5 dagar í næstu helgi.

sunnudagur, 21. janúar 2007

Í dag fórum við Soffía í ræktina með strætó. Eftir ræktina gengum við í Húsgagnahallarhúsið á Höfða og versluðum í Krónunni. Eftir verslunarleiðangurinn biðum við eftir að Magga, systir Soffíu, kæmi til að sækja okkur í matarboð.

Við semsagt stóðum í Húsgagnahallarhúsinu með tvær fullar íþróttatöskur og tvo fulla poka af mjólk og cheerios. Af því það var og er tryllingslega kalt í Reykjavík þessa dagana, vikurnar og mánuðina, klæddum við okkur upp eins og ungabörn; í hnausþykkar úlpur, með trefla, húfur og í hönskum.

Í fyrsta sinn upplifði ég hvernig er að vera útigangsmaður. Fólk starði á okkur, leit svo á pokana og gekk aðeins hraðar frá okkur. Mjög þægileg lífsreynsla. Ef bíllinn kemst ekki í lag bráðum lem ég bifvélavirkjann til dauða með handleggjunum á honum.

En það er jákvæð hlið á þessu eins og öllu öðru; við náðum að betla 450 krónur.

laugardagur, 20. janúar 2007

Ég hef opnað blogg á Morgunblaðsvefinum. Hér má sjá það. Á nýja blogginu verða sennilega allar myndirnar mínar vistaðar í framtíðinni.

Til að byrja með verð ég með bæði bloggin í gangi í einu. Svo, ef moggabloggið gengur vel, þá skipti ég yfir á það algjörlega. Ég mun þó tilkynna það sérstaklega.

Ég á enn eftir að bæta við hlekkjum á nýja bloggið. Hér eru reglurnar varðandi hlekki á það:

* Þeir sem hlekkja á þessa síðu nú þegar eða munu hlekkja á moggabloggið fá hlekk til baka.
* Þeir sem biðja um hlekk í athugasemdum fá hlekk.
* Þeir sem fórna hálfum lítra af kóki og Risahrauni til jólasveinsins fá hlekk. Ég hef milligöngu í fórnuninni.

Endilega gefið álit ykkar á nýja blogginu í athugasemdum, skoðanakönnuninni á nýju síðunni eða með því að skrifa um það á ykkar bloggi, jafnvel senda inn grein í Fréttablaðið/Blaðið/Moggann.

föstudagur, 19. janúar 2007

Fyrsta skref í sparnaðaraðgerðum, í kjölfar bilunar á bílnum mínum sem mun kosta mig 290.000 milljón prósent af peningaeign minni; er að selja hluti.

Eftirfarandi hlutir er aðeins brot af því sem á að seljast:

* Tvær risastórar gítarneglur. Læt hvora um sig fara á kr. 250. Mjög líklega góðar gítarneglur. Hef ekki náð að prófa þær þar sem ég á eftir að klippa þær af fótunum á mér.

* 200 krónur í smámynt. Fer á kr. 1.500. Helst í smámynt.

* Nýra. Las um það nýlega á internetinu að maður þarf bara eitt til að lifa. Það getur verið keypt á kr. 9.990.

Allt á að seljast!

Áhugasamir hafi samband í athugasemdum.
Blogger.com er snjöll síða. Í dag fékk þau skilaboð frá henni að síðan mín væri komin undir smásjánna vegna þess að hún ber einkenni Spam síðu, þeas síðu sem notuð er til að dreifa endalausu rituðu rusli í þeim tilgangi að selja drasl.

Því meira sem ég hugsa út í það, því nær meira sammála verð ég blogger.com, sérstaklega í ljósi síðustu færslu þegar ég bauð ruslbíl minn til sölu hérna.
Bifreið mín til 11 mánaða hefur bilað í þriðja skiptið. Þá á ég ekki við smábilun því engin bilun í Peugeot bifreiðum er smábilun.

Fyrst datt pústið undan, viku eftir að ég keypti ruslið í febrúar 2006. Fjórum mánuðum síðar hrundi eitthvað í vélinni. Og í gær, 7 mánuðum síðar kom í ljós að olía hafði lekið inn á vatnið sem þýðir að einhver hedpakkning sé farin. Kostnaðurinn viðgerðarinnar mun hljóða upp á 1/8 úr milljón. Ég á kr. 900 inn á reikningi.

Ég hef ákveðið að selja bílinn eftir viðgerð. Mæli mjög með þessum bílum. Áhugasamir; fáið ykkur betri smekk á bílum og skammist ykkar.

Ég lít á björtu hliðarnar:

* Þarf ekki að burðast um með peningana mína lengur.
* Þeir sem ekki skulda eru aumingjar. Samkvæmt því er ég mesta hreystimenni alheimsins.
* Nú þarf ég ekki lengur að finna bílastæði hjá 365 en bílastæðamál hafa haldið fyrir mér vöku næturnar fyrir vinnu, slík eru þrengslin.
* Þetta gæti svosem verið verra. Mér hefur amk ekki verið nauðgað af villtri ótemju.

Gaman að segja frá því að fyrir rúmri viku var ég einmitt að furða mig á því að bíllinn hafði ekki bilað í rúmlega hálft ár.

Boðskapur dagsins: Peugeot er rusl og aldrei skrifa bloggfærslu pirraður.

fimmtudagur, 18. janúar 2007

Enn einn fimmtudaginn er ég sniðgenginn í að svara kvikmyndaspurningunum "Kvikmyndanjörðurinn" í Fréttablaðinu. Ég gríp því til örþrifaráða og svara þessu bara hér á síðunni minni, nema hér eru myndirnar með hlekkjum. Semsagt miklu betra hér:

Hvaða mynd sástu síðast í bíó?
Stranger than fiction í gærkvöldi.

Hvaða mynd sástu síðast á myndbandi?
2001: Space Odyssey fyrir 2 vikum.

Hvaða kvkmynd hefur haft mest áhrif á þig?
Fyrir mér eru kvikmyndir afþreying en ekki áhrifavaldar. Ef ég yrði að velja þá myndi ég velja The Producers. Aldrei hef ég orðið jafn reiður yfir því hvað mynd var ófyndin og ömurleg á allan hátt.
Einnig Seven en hún er meistaraverk.

Hefur þú grátið í bíó?
Ekki viljandi, nei.

Uppáhalds íslenska persónan:
Tóti í Íslenski Draumurinn.

Mesta kvikmyndastjarna allra tíma:
Johnny Depp.

Mesta hetja hvíta tjaldsins:
Leonard Shelby úr Memento og John Doe úr Seven.

Mesti skúrkurinn:
Versti (þeas mest vondur): Owen Davian úr Mission Impossible 3.
Versti (þeas misheppnaður en samt góður): Le Chiffre úr Casino Royale.

Hver er versta kvikmynd sem þú hefur séð?
Verð að velja The Producers endurgerðin. Versta og leiðinlegasta mynd sem ég hef um ævina séð. Ömurleg mynd að öllu leyti. Eina myndin sem ég hef gengið út af í bíói.

Ef þú fengir að velja þér kvikmynd til að leika í, hvernig væri söguþráðurinn, hver væri leikstjóri og hver myndi leika á móti þér?
Sennilega raunhæf vísindaskáldsaga um framtíðina. Hálfgerð heimildamynd um raunhæfa framvindu mála ef eitthvað myndi henda, eins og ef ofureldgos myndi fara af stað eða lofsteinn myndi rústa öllu. Eða bara ef geimverur myndu hafa samband (s.b. Contact). Leikstjórinn væri David Fincher. Mótleikarar væru allir í Nágrönnum.

miðvikudagur, 17. janúar 2007

Veðurlausir Egilsstaðir!

Samkvæmt myndinni hér að ofan, sem náðist af æsifréttamanni veftímaritsins í morgun, var ekkert veður á Egilsstöðum í morgun. Vísindamenn telja þetta mistök af hálfu Mbl.is en Helgi Gunnarsson, sjoppuafgreiðslutæknir og bróðir minn á Egilsstöðum, hefur aðra sögu að segja:

„Ég vissi að ekki var allt með felldu þegar ég kom úr skólanum, ég tók eftir því að það var ekkert veður úti. Ég trúi því að þetta sé eitt af þeim augnablikum sem maður upplifir einu sinni á ævinni svo ég tók ekkert illa í þetta, vona samt að veðrið fari að koma, maður er ekki samur án þess.“

Þetta er Finnur.tk sem talar fyrir Við rætur hugans, í veðrinu í Reykjavík.

þriðjudagur, 16. janúar 2007

Fólk sem fær eldingu í hausinn er býsna óheppið.

Fólk sem er nauðgað af villtum ótemjum, óvart, er jafnvel meira óheppið.

En ekkert í öllum þessum heimi er eins óheppið og ég var í póker í gærkvöldi, spilandi á netinu. Hér eru forsendur óheppni minnar:

* Ef ég fékk góð spil á hendi og veðjaði þá komu vonlaus spil í borð...
* Ef ég fékk vonlaus spil á hendi og henti þeim komu frábær spil í borð...
* Ef ég fékk góð spil á hendi og henti þeim komu frábær spil í borð...
* Ef ég fékk vonlaus spil á hendi og veðjaði þá komu vonlaus spil í borð...

...í hvert einasta skipti. Ég hef aldrei upplifað aðra eins óheppni.

Reyndar er ein manneskja sem hefur upplifað meiri óheppni en ég og það var Soffía en hún varð vitni að þessu og mér.
Nýlega fékk ég þá uppástungu í formi tölvupósts frá nafna mínum sem býr í Svíþjóð um að halda partí fyrir menn sem heita Finnur. Þetta yrði gert svo hægt væri að drekka eins mikið áfengi og líffræðilega er mögulegt og samt munað nöfn allra. Snjöll hugmynd, þangað til rýnt er í tölfræðina.

Hér er ca svar mitt:

Samkvæmt Hagstofu Íslands eru 271 sem heita Finnur sem fyrra nafn og 50 sem bera það í seinna nafninu*(1). Alls koma því 321 manns til greina.

Ég geri ráð fyrir eftirfarandi:

1. Á Íslandi búa 304.334 manns, þar af 154.287 karlar. 321 af þeim heita Finnur að einhverju leyti eða 0,21% (1)(2).
2. 26,1% eru yngri en 18 ára og er því ekki boðið (2).
3. 14,88% eru eldri en 60 ára og er því ekki boðið (2).
Eftir standa 92.799 karlmenn.
4. 59,18% af restinni búa á höfuðborgarsvæðinu og geta því mætt (2).
5. 29,2% af þeirri rest eiga börn og geta því afar líklega ekki mætt (2).

Eftir standa 38.882 barnlausir karlmenn á aldrinum 18-60 ára. Af þeim heita 0,21% Finnur að einhverju leyti eða 81 manns.

Það er mín reynsla að ef ég býð í teiti mæti um 10% af þeim sem boðið er þar sem ég er frekar leiðinlegur maður í persónu. 8 munu því mæta.

Ennfremur er það mín reynsla að helmingur allra eiga kærustur sem vilja hitta kærasta sína á djamminu eða heima, sem fyrst. Kærustur eru bannaðar (nema þær heiti Finnur) og því munu 4 fara snemma heim úr partíinu. Eftir standa 4.

Áfengi myndi verða við hönd.

Alltaf er einn sem drekkur of mikið og drepst snemma. Eftir standa 3.

Einn yrði að vera á bíl til að keyra hina niður í bæ, þar sem þetta yrði haldið á Broadway. Hann er því súkkulaði og telst ekki með. Eftir standa tveir.

Finnur Ingólfsson er leiðinlegur með víni. Honum yrði fleygt út.

Eftir stendur einn, dauðadrukkinn að skemmta sér vel, munandi öll nöfn viðstaddra.

Öllum Finnum sem lesa síðuna er boðið!

Heimildaskrá:
1. www.hagstofan.is/?PageID=21&nafn=Finnur
2. www.hagstofa.is

mánudagur, 15. janúar 2007

Ég viðurkenni þrennt hérmeð:

1. Ég hef ótrúlega gaman af tölfræði. Þetta vissuð þið sennilega ekki.
2. Ég hef rosalega gaman af því að setja upptalningaratriði í lista, eins og þennan.
3. Ég er með svakalega lélegt minni og man sjaldnast hvað ég hef sagt áður og hvað ekki.

Allavega, síðan ég lokaði blogginu í febrúar 2006 (fyrir ca 11 mánuðum síðan) og opnaði aftur nokkrum vikum síðan án athugasemda, hefur aðsóknin á þessa síðu hrunið, sem er skiljanlegt.

Í nóvember 2006 blés ég í markaðsherferðarlúðrana af tilefni af því að ég ætla að ná aðsókninni aftur.

Það fyrsta sem ég gerði var að setja athugasemdirnar aftur inn. Það virkaði ekki. Lesendur eru ragir við að skrifa athugasemdir þar sem þeir álíta mig fólkshatara, með réttu.

Næsta vopn mitt var að byrja að blogga mun oftar en áður, eins og í gamla daga. Það virðist ekki virka, eða virka amk seinlega þar sem aðsóknin fer mjög hægt upp.

Þriðja vopnið væri að skrifa athugasemdir á blogg annarra til að fá lesendur þeirrar síðu til að koma oftar. Það kemur ekki til greina þar sem ég, sem ætlast til þess að fólk lesi mína síðu, les ekki síður annarra.

Fjórða vopnið væri að reyna að fá hlekk á b2.is. Það kemur ekki til greina þar sem það er ódýr og leiðinleg leið sem dregur að 12 ára krakka sem þykjast vita allt.

Fimmta vopnið væri að kaupa heilsíðuauglýsingu í Fréttablaðinu en ég á ekki sprilljón, þannig að það verður að bíða.

Þá eru vopnin upptalin og ég verð að bíða og sjá hvort dugnaður við blogg ásamt athugasemdum sé nóg eður ei. Annars stefnir allt í bæði andlegt og líkamlegt gjaldþrot.

Hér fyrir neðan má sjá rannsóknargögn mín; gröf fyrir aðsóknartölur á síðuna frá í apríl 2006. Smellið á myndina fyrir stærra eintak.

Aðsóknin á þessa síðu síðan apríl 2005.
Ég rakst á þessa mynd í föstudagsblaði Fréttablaðsins fyrir helgi:
Þorsteinn Guðmundsson?

Fyrir ykkur sem þekkja Þorstein Guðmundsson leikara; er ég farinn að sjá Þorstein Guðmundsson í öllu eða er þetta mjög líkt honum?

Fyrir ykkur sem þekkja Þorstein Guðmundsson leikara ekki neitt; njótið litadýrðarinnar í teikningunni.

sunnudagur, 14. janúar 2007

Helgin er búin að þjóta framhjá án þess að ég hef haft tíma til að borða, anda eða, þar sem verst er, blogga.

Nú fer hún að þetta að verða búið og 5 daga afslöppunarvinnuvika að byrja.

föstudagur, 12. janúar 2007

Í nótt dreymdi mig að Derren Brown, snillingur, væri mættur í raunveruleikaþáttinn Nágranna þar sem hann var að dáleiða fólk og gera allt vitlaust.

Ömurlegt að dreyma svona því ég sakna Derren Brown svo fast þegar ég vakna.
Munurinn á Repúblikanaforseta Bandaríkjanna (George Bush) og Demókrataforseta Bandaríkjanna (Bill Clinton) eru hneykslismálin:

* Aðalhneykslismál George Bush yngri eru fjöldamorðin í Írak þar sem hann hefur stuðlað að drápi á mörg hundruð þúsund manns fyrir olíu. Til að getað staðið í þessari nauðgun á heilli þjóð þurfti hann að ljúga til um gjöreyðingarvopn sem ekki voru til staðar, að sjálfum sér og að heimska fólki heimsins.

Semsagt morð og peningagræðgi einkenna George Bush.

* Aðalhneykslismál Bill Clinton var að hann hélt framhjá konu sinni með lærlingi í Hvíta Húsinu. Til að geta staðið í þessu holdlega samræði utan hjónabands þurfti Bill Clinton að ljúga að konu sinni og síðar að einhverjum lögfræðingi.

Semsagt ást og kynlíf einkenna Bill Clinton.
Lalla Ljón WRAAAARRR!

Lalla Ljón grátbað mig um að drepa ekki á sér fyrir nóttina, af því honum er svo kalt en ég varð samt að gera það. Bensínið er of dýrt fyrir samúð. Það sagði ég honum amk.

Ég er nokkuð feginn með hversu dökk myndin er. Þá veit enginn hversu fáránlega óhreinn Lalli Ljón er, nema fólk myndi lesa þessa setningu sem ég vona að það geri ekki.

fimmtudagur, 11. janúar 2007

Ég blóta rosalega mikið í umferðinni, sérstaklega þegar ég ek einn. Ég blóta yfir ruddaskap anarra bílstjóra og alltof mörgum bílum á götum borgarinnar. Allavega:

Í dag tók ég bensín. Hér er tölfræðin:

Geggjuð tölfræði!

Til að byrja með: Bíllinn er að eyða fullmiklu þessa dagana eða um 11,54 lítrum á hverja 100 km. Venjulega eyðir hann um 8 lítrum á hundraðið.

Hver dagur er að kosta mig kr. 470 í bensín. Til samanburðar má nefna að það kort sem gildir lengst hjá Strætó kostar kr. 11.500 fyrir 3 mánuði eða tæplega kr. 126 á dag. Það kostar mig því kr. 344 á dag bara í bensínkostnað að vera á bil. Þá er ekki talinn viðgerðar- og afskriftarkostnaður sem fylgir bílaeign.

Það er semsagt rándýrt að eiga bíl. Ég mæli því með að fólk fái sér strætókort. Ekki bara til að spara, heldur líka til að fækka bílum á vegunum svo ég blóti minna. Það er ekki gott fyrir blóðþrýstinginn, er mér sagt. Takk.

miðvikudagur, 10. janúar 2007

Í gærkvöldi notaði ég (frekar en eyddi) fjóra tíma í að teikna Arthúr í þriðja sinn. Kíkið á hann hér og líkið hann!

Þá hef ég samið bók, teiknað myndastrípur, gengið með gleraugu, samið ljóð og smakkað kaffi.

Gæti ég verið meiri listamaður?
Um daginn gagnrýndi ég helgina. Nú gagnrýni ég myndirnar sem ég hef séð síðustu daga:

Hvenær: Miðvikudagskvöldið 3. janúar klukkan 20:00.
Hvar: Laugarásbíó.
Með hverjum: Frændunum Gylfa og Guðna.
Mynd: Pick of destiny.
Söguþráður: Tveir hæfileikaríkir, en glataðir, tónlistarmenn reyna að finna Gítarnögl örlaganna til að vinna smá söngkeppni til að borga leiguna.
Leikur: Jack Black og [Tenecious D - Jack Black = X] leika aðalhlutverk. Báðir leika ágætlega, þó það sé algjört aukahlutverk.
Skemmtanagildi myndar: Mjög skemmtileg mynd enda Jack Black, að sögn, einn skemmtilegasti maður í heimi.
Annað: Myndin er mjög fyndin. Í henni koma fullt af frægum aðilum í gestahlutverk eins og Dave Grohl sem leikur djöfulinn.
Einkunn: 3 stjörnur af fjórum.

Hvenær: Sunnudagsmorgunn 7. janúar klukkan 02:00.
Hvar: Heima hjá mér.
Með hverjum: Einn með Tralla táslu sem ég spjallaði talsvert mikið við yfir myndinni.
Mynd: 2001: A Space Odyssey.
Söguþráður: Dularfull súla finnst á tunglina í fjarlægri framtíð (árið 1998 eða 1999). 18 mánuðum síðar er farið í ferð til Júpiter. Fjör á leiðinni.
Leikur: Varla neinn leikur. Fínn, býst ég við.
Skemmtanagildi myndar: Í algjöru lágmarki enda um hámenningarmynd að ræða.
Annað: Söguþráðurinn er áhugaverður. Myndin er hinsvegar langsótt, langdregin og löng. Ég gleymdi að setja á mig hámenningarpípuhattinn áður en ég horfði á myndina og því hálf leiddist mér. Endirinn er svo fullkomlega glórulaus að ég varð reiður. Meiddi Tralla táslu í rifrildi við hana í kjölfarið.
Einkunn: Ein og hálf stjarna af fjórum.

Hvenær: Sunndagskvöldið 7. janúar klukkan 20:00.
Hvar: Háskólabíó, stóri salur.
Með hverjum: Björgvini bróðir.
Mynd: Children of men.
Söguþráður: Árið er 2027. Ekkert barn hefur fæðst á jörðinni í 18 ár. Söguhetja myndarinnar ákveður að samþykkja að aðstoða gamla kærustu við að koma útlendingi inn í landið, eða út úr því. Man ekki alveg. Upphefst hörkufjör.
Leikur: Leikurinn er fínn.
Skemmtanagildi myndar: Myndin er gríðarlega vel gerð og flott, sem veldur því að það verður gaman að horfa á. Lítið er um sprell.
Annað: Skemmtileg framtíðarsýn fyrir þá sem spila Counter strike. Leiðinleg framtíðarsýn fyrir alla aðra. Skemmtileg og flott mynd engu að síður.
Einkunn: Þrjár stjörnur af fjórum.

Hvenær: Þriðjudagskvöldið 9. janúar klukkan 01:00.
Hvar: Heima hjá mér.
Með hverjum: Björgvini bróðir.
Mynd: The Night listener.
Söguþráður: Útvarpsmaður talar við dreng í síma sem hefur verið misnotaður frá unga aldri af foreldrum sínum. Hann vill hitta hann.
Leikur: Robin Williams leikur aðalhlutverkið. Mjög góður leikari. Aðrir leikarar standa sig vel, að mínu mati.
Skemmtanagildi myndar: Mjög lágt. Róleg mynd sem byggist á daufum samtölum. Ekkert fyndið, spennandi eða óvænt gerist og hún er fyrirsjáanleg, svo ekki sé meira sagt. Leiðinleg mynd.
Annað: Myndin er, sem betur fer, aðeins 81 mínúta.
Einkunn: Hálf stjarna af fjórum.

þriðjudagur, 9. janúar 2007

Þar sem ég hef ekki nefnt blóð í færslu í örugglega sólarhring kemur hér meira:

Ég skar mig við rakstur í fyrradag. Núna, um 38 klukkustundum síðar blæðir enn úr skurðinum.

Hér eru svo FAQ eða ASS (Algengar Spurningar og Svör) um þetta mál:

* Ertu að grínast?
Svar: Nei. Hér er alvara (asnalegt orð) á ferð!

* Varstu að raka á þér bringuna og skarst óvart í ósæðina?
Svar: Næstum því. Ég var að raka á mér andlitið og skar mig á hálsinum.

* Hvernig rakvél áttu?
Svar: Gillette über 3000.

* Til hvers að raka sig?
Svar: Til að fá ekki skegg.

* Til hvers rakar þú þig þegar þú lítur út fyrir að vera lesbísk hóra án skeggs?
Svar: Haltu kjafti! (Góð spurning annars)

mánudagur, 8. janúar 2007

Í þetta sinn ætla ég að vera með helgargagnrýni.

Föstudagur:
Pókerspil með Guggi, Kalla, Magga, Gutta og Einari. Tapaði kr. 1.500. 3 stjörnur af 4.
NBA áhorf með Gylfa, Bergvini og Guðna. Geggjað stuð. 3,5 stjörnur af 4.

Laugardagur:
Lá veikur allan daginn. Grautfúlt. 0/4 stjörnur.
Leigði mér spóluna 2001: Space Oddyssey. Alltof löng mynd. 1 stjarna af fjórum.

Sunnudagur:
Lá veikur allan daginn. Draugfúlt. 0/4 stjörnur.
Fór í bíó með Björgvini bróðir á myndina Children of men. Fín mynd. Fínn félagsskapur. 3 stjörnur af fjórum.

Helgin í heild sinni:
Átti sína spretti en alltof daufir kaflar inn á milli. 2,5 stjörnur af fjórum.

sunnudagur, 7. janúar 2007

Kannast einhver við þá tilfinningu að vera með fullkomnunaráráttu að því leiti að geta t.d. ekki skilið síðasta kexið eftir í kexpakkanum heldur verða að klára hann?

Ekki? Allt í lagi. Ég orða þetta öðruvísi.

Kannast einhver við þá tilfinningu að vera svo gráðugur að geta ekki skilið síðasta kexið eftir í kexpakkanum heldur verða að klára hann?

Allavega, ég er með magapínu. Mæli ekki með fullkomnunaráráttu.
Hér eru tvö samtöl úr þættinum Venni Páer (skrifað eftir minni):

Venni er hrifinn af stelpu og vill bjóða henni út.
Venni: "Heyrðu þú varst að tala um hittast eitthvað."
Stelpa: "Ég? Hvenær?"
Venni: "Bara í kvöld. Ég sæki þig."

Venni er einkaþjálfari náunga sem er að reyna að lyfta lóðum án árangurs.
Venni: "Segðu bara ég get þetta."
Náungi: "Ég get þetta."
Venni: "Nei, þú ert ekki að hlusta á mig. Ég get þetta."
Náungi: "Ég get þetta."
Venni: "Nei. Ég get þetta!"
Náungi: "Þú getur þetta."
Venni: "Miklu betra."

Ég mæli sterklega með þessum þáttum á Skjá einum. Einhversstaðar í fjarska heyrist mér einhver segja "Lágmenningarfífl" um mig. Aðeins eitt svar við því: Þú ert lágmennningarfífl fyrir að lesa þetta blogg mitt. Tekinn!

Annars flokka ég ekkert í lá- og hámenningu, nema þetta blogg mitt.

laugardagur, 6. janúar 2007

Ég komst mjög nálægt því að mála vegg í herberginu rautt í nótt þegar ég hnerraði (hnerr númer 25.833 síðan á miðvikudaginn) svo fast að ég fékk blóðnasir. Ef ég hefði ekki rétt náð að grípa fyrir andlitið þegar ég hnerraði í 25.834 sinn hefði veggurinn orðið rauður að mestu.

Það hljómar kannski vel að fá blóðnasir um miðja nótt þegar maður er við dauðans dyr vegna kvefs, en það er ekkert gaman. Eiginlega næstum leiðinlegt.

föstudagur, 5. janúar 2007

Við greiningu á hegðan minni á vinnustaðnum mínum (365) hef ég komist að stórkostlegum niðurstöðum sem munu gjörbreyta klæðaburði mínum og öðrum lífsmótandi ákvörðunum. Hér eru nokkur atriði um hegðan mína hérna:

* Ég spái ekkert í útlit mitt og er því óeftirtektarverður.
* Ég klæðist dökkum fötum.
* Ég segi aldrei neitt að fyrra bragði.
* Ég fer alltaf í mötuneytið þegar ég er fullviss um að enginn sé þar nema afgreiðslufólk.
* Ég læðist um.
* Það veit enginn hver ég er eða hvaðan ég kem.
* Ég get næstum drepið fólk með einu handtaki.

Það er ákveðin týpa af fólki sem hagar sér eins; Ninjur!

Ég er því titlaður "Ninja Rannsóknardeildar 365" hér eftir. Ég myndi breyta nafninu mínu í hið mjög rökrétta og fallega nafn Ninja ef ég væri kvenmaður.

fimmtudagur, 4. janúar 2007

Einhverra hluta vegna hefur Þorkell nokkur Guðmundsson aldrei fengið hlekk hjá mér á bloggið sitt. Ástæðan er hulin ráðgáta þar sem ég hef gaman af skrifum hans.

Bloggið má sjá hér og í hlekkjum til hægri.

Endilega látið vita ef þið viljið fá hlekki á síðurnar ykkar í athugasemdum.
Fyrir ykkur sem eruð mikið fyrir rökleysu og trú (talsverð fylgni þar á milli):

Guð er dauður. Sönnunin:

Guð er ást (samkvæmt einhverjum trúarkappa).
Ástin er blind (hún spyr ekki um aldur og allt það).
Ray Charles er blindur (staðreynd).
Ray Charles er dauður (staðreynd).

Ef:
Ást = Blinda
Ray Charles = Blinda
Þá:
Ást = Ray Charles.

Ef:
Ást = Ray Charles
Guð = Ást
Þá:
Guð = Ray Charles

Að lokum...

Ef:
Guð = Ray Charles
Ray Charles = Dauður
Þá:
Guð = Dauður
Völvuspá eru merkileg fyrirbæri. Glórulaust kjaftæði nánar tiltekið og ég vona að fólk lesi þær meira sem glórulaust grín en alvöru.

Um jólin kom út Völvuspá Vikunnar og ég las ruglið á gamlársdag. Áhugaverðasti spádómurinn er eftirfarandi (kvót eftir minni):

"Ég sé ekki að þeir þori að taka Saddam Hussein af lífi á næsta ári, réttarhöldin munu ganga fram eftir árinu [2007]."

Mjög áhugavert. Sérstaklega þar sem Saddam Hussein var myrtur 30. desember 2006, áður en árið 2007 byrjaði. Glæsilegur árangur! Eða mjög gott grín.

miðvikudagur, 3. janúar 2007

Nýlega ákvað ég, í heróínvímu, að raka á mig nýtt skegg. Skeggið tókst ágætlega (sjá hér) en þar sem ég er ofsahræddur við breytingar þá rakaði ég það strax aftur af og gott betur (sjá hér).

Þarmeð líkur þeim kafla í lífi mínu sem ég kýs að kalla (og mun heita í ævisögu minni) "Skeggtilraunatímabilið".
Eftir 9 daga jólafrí hef ég gerst verri maður. Ég hef orðið óþolandi vanur því að vinna ekkert, sofa til hádegis og gera bara það sem ég vil gera, þegar ég vil gera það.

Svo hef ég líka merkilega gaman af því að kvelja kettlinga núna.

þriðjudagur, 2. janúar 2007

Árið 2006 var geggjað fyrir margar sakir. Á því gerðist ég viðskiptafræðingur, gaf út mína fyrstu bók, ferðaðist til Ítalíu og Svíþjóð í fyrsta sinn, hóf störf hjá 365 og gerðist ljóðskáld.

Hér er fullkomlega tæmandi listi yfir það sem gerðist árið 2006 hjá mér:

Janúar
Fékk síðustu önnina mína í HR ókeypis vegna góðs námsárangurs.
Ók um 5.000 km, fram og til baka yfir landið.
Lalli Lancer, fyrrum bifreið mín dó en var lífguð við af Markúsi.
Keypti gönguskó í fyrsta sinn.
Arthur á ensku byrjar.
Hætti að blogga.

Febrúar
Byrjaði aftur að blogga án athugasemda við færslurnar.
Arthúr seldur í Sirkustímarit DV.

Mars
Bolasala Arthúrs hefst.
Fékk 2ja vikna flensu.
Grein um Arthúr birtist í Morgunblaðinu.
Keypti nýjan bíl (Bjarni Fel (Peugeot 206)).
Keypti nýtt púst undir nýjan bíl.

Apríl
Gekk út af minni fyrstu bíómynd (the producers er versta mynd allra tíma).
Gerðist ljóðskáld.
Vann í BS ritgerð.

Maí
Kláraði HR með stæl (lægsta meðaleinkunn mín í HR).
Heimsótti Styrmi bróðir og fjölskyldu hans í Svíþjóð.
Fór til Ítalíu með Soffíu og brann inn að beini.

Júní
Byrjaði að vinna á Skattstofu Austurlands, enn einu sinni.
Flutti inn til Soffíu, eða foreldra hennar.
Mætti ekki í útskriftina mína.
Spilaði körfubolta, lyfti lóðum og vann.

Júlí
Grein um Arthúr birtist í Fréttablaðinu.
Átti einn besta afmælisdag allra tíma.
Peugeotinn bilaði.
Peugeotinn komst í lag.

Ágúst
Hætti á skattstofunni og flutti suður.

September
Atvinnulaus og illa lyktandi í 3 vikur.
Uppgötvaði Sojakjöt.
Hóf störf hjá 365.

Október
Trúði ekki að það væri kominn október strax.

Nóvember
Arthúrbók kemur út.
Setti athugasemdir aftur inn á bloggið.

Desember
Fór austur í jólafrí.
Skemmti mér vel.
X + Y = Z/S

X = Ég
Y = Flugvél
Z = Reykjavík
S = Soffía

Ég er semsagt kominn aftur til Reykjavíkur án Soffíu, í vinnuna. Óstuð er þemi dagsins.