fimmtudagur, 27. september 2012

Einkennileg kauphegðun

Í stað þess að versla inn mat í Bónus síðasta laugardag, eins og ég geri alla laugardaga, ákvað ég að kaupa bara 12 litlar dósir af vanillu kók.

Ég veit ekki af hverju eða hvað ég hélt að ég myndi borða alla vikuna, en þegar fjórir dagar eru liðnir af vikunni hef ég bara drukkið tvær dósir sem er merki um ótrúlegan sjálfsaga. Samkvæmt mínum útreikningum er það viljastyrkur upp á hestöfl meðalstórs Hummer jeppa.

Allavega, í stað þess að versla inn mat fyrir 5.000 krónur í Bónus hef ég eytt um 10.000 krónum í stakar máltíðir um allan bæ í þessari viku. Ekki snjallasta hugmynd sem ég hef fengið. En samt. Bara tvær kókdósir á fjórum dögum. Kallið mig bara andlegan Superman.

þriðjudagur, 25. september 2012

Heimsókn að norðan

Kolla systir, Árni Már maður hennar og dóttir þeirra, Anna María komu við í Kópavogi áður en þau flugu út í buskann (til Glasgow nánar tiltekið). Ég mætti með ótrúlega ódýra símann minn og tók myndir:

Anna María, Kolla og Valería Dögg, dóttir Björgvins bróðir og Svetlönu.

Valería Dögg grandskoðar óléttubumbuna á Kollu.

Anna María og Valería Dögg ræða um hvaða áhrif það gæti haft á stjórnarsamstarfið að hækka hátekjuskattinn eða eitthvað. Ég var ekki að hlusta.
Árni Már, Björgvin og Svetlana elghress.

Kolla og Anna María borða melónu.
Þessi er reyndar tekin á afmælisdegi Valeríu Daggar, þann 19. september síðastliðinn. Hún vildi hjálpa mér að taka mynd. Á myndinni er hún með afmæliskórónuna sem hún fékk á leikskólanum og körfuboltann sem ég gaf henni.
Annars er allt fínt að frétta. Ekki hringja þó ég hafi ekki bloggað í nokkra daga.

fimmtudagur, 20. september 2012

2ja ára afmæli

Í dag átti Valería Dögg, bróðurdóttir mín 2ja ára afmæli. Hún nýtti tækifærið og stjórnaði foreldrum sínum eins og tuskudúkkum:


Ég gaf henni auðvitað litla körfu og körfubolta í afmælisgjöf, sem hún æfði sig á um kvöldið. Í næstu viku ætla ég að kenna henni að drippla körfubolta. Fyrsti leikur tímabilsins er svo í næsta mánuði.

föstudagur, 14. september 2012

Föstudagssjálfsvitalið

Í dag rakst ég á viðtal í blaðinu Lífið sem fylgir Fréttablaðinu á föstudögum. Þetta viðtal hefur aldrei verið tekið við mig, merkilegt nokk, svo ég tek það sjálfur og birti hér:

Ný markmið sett fyrir veturinn.
Á haustin er gott að endurskoða markmið sín þegar kemur að heilsu og hreyfingu. Sirrý Arnardóttir og Krstrún Ösp Barkardóttir sögðu Lífinu frá sínum markmiðum Finnur Torfi Gunnarsson sagði engum frá sínum markmiðum.


Hefurðu alltaf stundað reglulega hreyfingu?
Já. Þegar ég var krakkafífl spilaði ég fótbolta daglega. Þegar ég varð unglingur spilaði ég körfubolta eins og ég gat. Eftir að ég komst á fullorðinsaldur hef ég haldið áfram í körfubolta en einnig hafið skokk, leðuriðju og lyftingar.

Hvaða hreyfingu ætlar þú að stunda í vetur?
Körfubolta með Þristinum og Álftanesi, brennsla og lyftingar í ræktinni ásamt dass af útihlaupi ef veður leyfir. Smá séns að ég spili bandí líka. Og svo passa ég vonandi Valeríu Dögg, bróðurdóttir mína, sem oftast. Það er eins og crossfit.

Ertu búin[n] að setja þér einhver ný markmið?
Já, að meiðast ekki og að verða ekki feitur.

Borðar þú reglulega yfir daginn?
Já:
Fyrsta máltíð kl 12:30
Næsta máltíð kl 15:30
Létt snarl klukkan 18:30
Kvöldmatur klukkan 23:30
Nammiát frameftir nóttu.

Ætlarðu að tileinka þér eitthvað nýtt í eldamennskunni á næstunni?
Helst ekki.

Hvaða vítamín tekur þú daglega?
Ekkert utan matar (og nammis).

fimmtudagur, 13. september 2012

Samstillt skref (ens. Dubstep) lög

Hér eru nokkur lög sem ég hlusta reglulega á í vinnunni á meðan ég verka tölur í Excel.

Ég virðist ekki geta fengið leið á þeim, svo mér finnst rétt að deila þeim. Aðallega fyrir mig að finna þegar ég verð orðinn gamall og búinn að týna allri tónlistinni minni.

Lögin falla undir tónlistarstefnuna Dubstep.

Skream - Rutten

Mt Eden - Sierra Leone

Skream - Exothermic Reaction

miðvikudagur, 12. september 2012

Ævintýri dagsins

Í ræktinni í kvöld mættu nokkrir galvaskir lögreglumenn til að tækla andlega veikan mann sem ráfaði um lyftingasalinn, haldandi ræðu yfir mannskapnum (að mér heyrðist og sýndist, ég var gleraugnalaus). Það verður væntanlega eitthvað um þetta í fréttamiðlum á morgun.

Nú kunnið þið eflaust að velta fyrir ykkur hvernig í ósköpunum ég muni ná að láta þessa bloggfærslu snúast um mig. Það er einfalt.

Fyrir nokkrum vikum voru birtar tölur í fréttum úr könnun sem ég verkaði fyrir 365. Og í kvöld varð ég vitni að einhverju sem kemst líklega í fréttirnar á morgun, eins og áður segir. Það má því með sanni segja að ég sé Forrest Gump Íslands, alltaf allsstaðar þar sem eitthvað merkilegt gerist.

sunnudagur, 9. september 2012

Netleysi

Á föstudagskvöldið datt internetið út hjá mér vegna bilunar hjá Vodafone eða einhvers.

Það munaði litlu að ég náði að gera eitthvað af viti það kvöldið en ég endaði á að spila tölvuleikinn Dirt 2, sem snýst um kappakstur á kraftmiklum bílnum, þar til ég sofnaði. Ótrúlegt nokk þá er enginn Peugeot í leiknum. Sennilega af því þeir myndu liðast í sundur í kröppum beygjum (eða við hvað sem er).

Í gær brást ég öðruvísi við netleysinu. Ég fór út að borða, í körfubolta, örsnögga heimsókn til bróður míns og í bíó með vini. Að því loknu horfði ég á bíómynd heima á meðan ég troð eins miklu nammi upp í mig og líkamlega var mögulegt. Góður dagur.

Í morgun var internetið komið aftur á. Ég ætlaði að reyna að láta sem ég vissi ekki af því og snúast út um allt. Það gekk ekki betur en þetta.

fimmtudagur, 6. september 2012

Instagram mynd #2


Í gærkvöldi var ég ekki viss hvort mig langaði í kvöldmat eða morgunmat, svo ég "eldaði" mér þetta og borðaði ca mitt á milli morgun- og hádegisverðar, klukkan tvö að nóttu.

þriðjudagur, 4. september 2012

Instagram mynd


Ég rúllaði Helga bróðir upp í grettukeppni nýlega. Ég hafði ekki hugmynd um að það væri keppni í gangi.

Þetta er tilraunafærsla. Hún fer beint inn í gegnum Instagram. Ef vel tekst til þá hef ég tengt saman myndavélina í símanum og bloggið. Afsakið tilraunasemina. Og myndina.