laugardagur, 30. janúar 2010

Orðið á götunni er að ég setji aldrei gular myndir á þessa síðu.


Þessi mynd ætti að eyða þeim andstyggilega orðrómi.
Í dag keppti Ísland í handbolta klukkan 1. Ég veit ekki hvernig leikurinn fór en veit hinsvegar að það var ekki nokkur maður í Kringlunni á meðan.

Ég nýtti mér það og lét starfsfólkið dansa í takt við skipanir mínar og beiðnir. Ég meira að segja gekk svo langt að fara í Bónus í fyrsta skipti í rúm tvö ár en það forðast ég af sömu ástæðum og ég forðast nautahlaupin á Spáni.

Svo ég þakka hér með Íslenska handboltalandsliðinu fyrir að hjálpa mér að versla í Bónus án þess að verða traðkaður niður af snarvitlausum, handboltadýrkandi húsmæðrum.

föstudagur, 29. janúar 2010

Í gærkvöldi setti ég inn myndir frá leik UMFÁ gegn KKF Þóri sem fram fór á laugardaginn síðasta. Leikurinn fór 56-46 fyrir UMFÁ. En nóg um það.

Það sem skiptir meira máli er að ég lærði eitthvað á því að sjá þessar myndir; það er kominn tími á klippingu:

Ég fór á American Style um daginn. Þar sat ég við mynd af Kurt Cobain, sem ég hef dáðst að frá því ég var ungabarn plús/mínus 13 ár.

Ég kannaðist við þessa mynd en vissi ekki hvaðan. Skömmu síðar fattaði ég það og vildi deila með umheiminum.

Í kvöld hef ég eytt klukkutíma í að leita að þessari mynd af Kurt Cobain á netinu, án árangurs. Svo ég nota bara ömurlegu myndina sem ég tók á GSM símann minn:

Kurt Cobain, nokkuð hress.


Old Guitarist eftir Picasso

Málverkið áttu foreldrar mínir þegar ég var lítill. Sem útskýrir kannski af hverju ég fer aldrei á hryllingsmyndir í bíó. Magnað málverk engu að síður.

Allavega, er að lesa ævisögu Kurt Cobain þessa mánuðina aðeins þremur árum eftir að ég fékk hana í jólagjöf og fæ reglulega flogaköst úr söknuði (eða einhverju sambærilegu) við lesturinn. Hér eru því tvö uppáhaldslögin mín með Nirvana:



fimmtudagur, 28. janúar 2010


Ég óska hérmeð Búnaðarbankanum/KB banka/Kaupþing/Arion banka til hamingju með að ná að senda mér VISA reikning loksins en þrjú ár eru liðin frá því breytti lögheimili mínu og tilkynnti þeim fyrst nýtt heimilisfang.

Síðan þá hef ég ítrekað breytinguna á lögheimilinu fimm sinnum, en allt kemur fyrir ekki. Þau senda mér VISA reikninginn enn í Fellabæ, þar sem ég bjó síðast fyrir níu árum (en var skráð lögheimili þar til fyrir þremur árum).

Viðbót: Þetta var víst bara venjulegur reikningur stílaður á Arion Banka. Ég bíð því enn eftir VISA reikningnum. Spennandi!
Á körfuboltaæfingunni í gærkvöldi náði ég oftar að láta slá mig í andlitið en að skjóta boltanum ofan í körfuna. Það fór 4-3. En ég skoraði amk fleiri körfur en ég fékk hné í lærið (3-2) eða olnboga í haus (3-1). Ég er nokkuð ánægður með þann árangur.

Ég stóð mig ágætlega í fráköstunum, tók fimm svoleiðis á stuttum tíma. Grátur minn vann þó fráköstin, 7-5.

miðvikudagur, 27. janúar 2010

Hér er listi yfir þær myndir sem eiga það sameiginlegt að vera í bíóhúsum höfuðborgarinnar og ég hef séð, ásamt stuttri gagnrýni minni um hverja og eina:

Avatar = Dances with wolves + The Smurfs
Flott, skemmtileg og [hvað sem er] mynd. Ein af fáum myndum sem ég væri til í að sjá aftur í bíó. 4 stjörnur af 4.

Harry Brown = Grumpy old men + Taken
Nokkuð góð mynd sem er laus við allt Hollywoodglingur, sem þarf ekki að vera jákvætt. 2 stjörnur af 4.

Sherlock Holmes = House M.D. + Fight club
Sherlock slæst ber að ofan á milli þess sem hann greinir allt í klessu. Hljómar skemmtilegt en eitthvað vantar uppá. 3 stjörnur af 4.

The Road = The book of Eli (giska ég á) + Kramer vs. Kramer
Virkilega vel gerð og áhugaverð mynd. Það þýðir samt ekki að hún sé skemmtileg. 2,5 stjörnur af 4.

þriðjudagur, 26. janúar 2010

Það er kominn tími til að segja frá mínum verstu kaupum hingað til.

Í gær keypti ég mér nýja peysu. Þegar ég kom heim klæddi ég mig í hana og ákvað að skila henni ekki. Þá fannst mér óhætt að klippa merkimiðann af, sem reyndist vera bundinn aftan í peysuna með hálfgerðu reipi.

Svo ég klippti á reipið og óvart talsvert stórt gat á peysuna í leiðinni.

Þessi klaufsku skæri eru versta fjárfesting mín higað til. Þau geta fylgt ókeypis með lítið notaðri peysu, sem fæst á 50% afslætti. ATH. Sendingakostnaður er kr. 12.000.

sunnudagur, 24. janúar 2010

Í byrjun síðasta árs var ég að leigja einn í Hafnarfirði. Þá byrjaði ég að nota þá minnistækni að segja minnispunkta upphátt. Eitt leiddi að öðru og eftir rúman mánuð einn var ég farinn að tala við sjálfan mig á fullu.

Þegar ég svo flutti þaðan yfir í Skipholtið með vini mínum, Óla, hætti ég að tala við sjálfan mig af ótta við að verða strítt af hrekkjusvínum. Smámsaman fór ég að sakna sjálfs míns.

Það urðu því gleðifundir í gærkvöldi þegar Óli var ekki heima og ég heyrði kunnuglega rödd hvísla "Hææíííí" á klósetinu fyrir framan spegilinn. Ég féll í faðm sjálfs míns og hef varla sleppt takinu síðan.

föstudagur, 22. janúar 2010

Í dag sá ég auglýsingu frá tónlist.is þar sem fólk var hvatt til að "fylla á ipodinn" á útsölunni hjá sér. Sérstaklega var tekið fram að verðið væri frá 55 krónur hvert lag.

Ég hugsaði að það væri gaman að kaupa tónlist fyrir 1.000 krónur eða svo og troðfylla mp3 spilarann. En áður en ég gerði það fór ég í Excel!

Til eru nokkrar gerðir af Ipod-um, allt frá 2gb í 160 gb.

Hvert lag í tölvunni minni er um 3,7 mb að stærð. Og hvert gb eru 1.000 mb.



Ég legg til að tónlist.is gefi öllum landsmönnum Ipod Classic, ef það gengur vel hjá þeim að sannfæra fólk um að fylla á Ipodinn sinn. Ef allir Íslendingar fylla á hann fær fyrirtækið rúma 760 milljarða í kassann.

Ég held ég versli mér bara tónlist fyrir ca þúsund krónur í þetta skipti.
Getraun dagsins:

Hvað er ég að gera á þessari mynd, sem var tekin í nótt:



Svarmöguleikar:
a) Að taka Dexter senu klukkan 1 í nótt.
b) Að villast.
c) Leggjandi teppi með körfuboltaliðinu í fjáröflun.
d) Að framkvæma vinnustaðahrekk á umsjónarmanni íþróttahúss.

Smellið á myndina fyrir stærra eintak í nýjum glugga.

fimmtudagur, 21. janúar 2010

Það neikvæða við gærdaginn:
Ég vaknaði klukkan 4 um nóttina við skelfingaröskur af efri hæðinni og náði ekki að sofna strax aftur. Það olli því að ég var mjög þreyttur framan af degi.

Það jákvæða við gærdaginn:
Ég lærði nýtt trikk í Excel sem hjálpar við þessa færslu.

En súlurit segja meira en þúsund orð:

miðvikudagur, 20. janúar 2010

Á hæðinni fyrir ofan mig býr mikill áhugamaður um smíðar. Hann er einhleypur og barnlaus en á sér einn góðan vin. Hann á líka nokkra pirraða nágranna. Hann er að smíða örk.

Hvernig veit ég þetta? Vegna þess að frá því ég flutti inn í íbúðina fyrir neðan hann, fyrir næstum 6 mánuðum, hefur hann borað og neglt frá klukkan 9 á morgnanna til 22 á kvöldin. Þetta gerir hann óháð veðri, vikudegi eða öskra frá mér. Kannski smíðar hann þegar hann saknar fjölskyldu sinnar. Gæti verið.

Í morgun, klukkan 9, heyrði ég svo að hann er búinn að eignast vin þegar bæði var borað og neglt í einu. Einhverra hluta vegna var ég ánægður með það.

þriðjudagur, 19. janúar 2010

Rétt í þessu skrifaði ég eftirfarandi svarpóst í gmailinu mínu:

Sæll

Takk fyrir það. En pósturinn var tómur. Ertu með url eða viðhengi?

Takk aftur.

Kv.
Finnur


Þegar ég ýtti svo á "senda" komu eftirfarandi skilaboð:


Gmail, ef þú lest þetta; takk fyrir að þykja vænt um mig. Ég hlakka til þegar þú færð varir. Þá get ég endurgoldið ástina.

mánudagur, 18. janúar 2010

Undanfarin ár hef ég fengið ókeypis í bíó, þar sem ég vinn fyrir systurfyrirtæki bíóhúsanna, eða eitthvað.

Á árinu 2009 hætti ég að fá ókeypis en fæ þess í stað 25% afslátt. Ég ákvað að reikna út hagnað bíóhúsanna á þessari breytingu. Hér eru forsendurnar:

  • Áður fór ég tíu sinnum í bíó á mánuði. Eftir breytinguna fer ég í mesta lagi þrisvar sinnum á mánuði.

  • Þar sem ég fékk ókeypis þá eyddi ég um 550 krónum í nammi. Þegar ég þarf að kaupa miða eins og fífl sleppi ég namminu í annað hvert skipti.

  • Ég geri ráð fyrir 100% álagningu í sjoppunni. Það er hóflegt mat.


Niðurstaða:


Samkvæmt þessu græða bíóin 25 krónur á mánuði á því að láta mig borga miða, eða 300 krónur á ári. Og sennilega hálfa milljón sem annars færu í laun.

Þannig að ég sleppi að skrifa harðort bréf í Fréttablaðið yfir ósanngirni heimsins.

sunnudagur, 17. janúar 2010

Í kvöld fór ég í bíó á myndina Sherlock Holmes.

Löng saga stutt: Þættirnir House plús ofbeldi = Sherlock Holmes. Þar sem ég er aðdáandi þáttanna um House þá gef ég myndinni þrjár stjörnur af fjórum.

Ég læt bíóferðir hljóma auðveldar, sem þær eru alls ekki. Hér eru nokkrar reglur sem ég hef skrifaðar á miða og tek með mér:

  • Kauptu miðana á netinu og láttu senda þér þá sem MMS skilaboð í símann. Þannig þarftu ekki að bíða eins og fífl í röð í miðasölunni, ert hipp og kúl og sparar pappírinn. Stundum er líka netafsláttur af miðum.

  • Mættu í fötum í bíóið. Mjög mikilvægt!

  • Ef fjölmennt er í bíó er góð regla að fara strax í salinn og tryggja sér sæti. Ég skil oft yfirhöfn eftir í sætinu eða bið bíófélagann að sitja eftir. Ég býðst svo til að kaupa nammið (gegn vægu gjaldi).

  • Þegar gengið er í salinn, veldu lengstu leiðina að sætunum (t.d. ef hægri gangurinn er tvöfalt lengri en sá vinstri, farðu til hægri). Því lengra sem er að sætunum, því færri eru þar. Fólk er latt (og ógeðslegt). Fínt að vera í fámenni.

  • Fólk sest yfirleitt í miðju sætaraðarinnar. Ég sest því við endana til að vera í fámenni. Það er sérstaklega hentugt ef þú ætlar fyrst(ur) í sjoppuna í hlénu, en þá þarftu að vera snögg(ur) þegar hléið byrjar.

  • Fólk sest yfirleitt fyrir miðju salar. Passið að fara ekki of hátt, því þar eru ótillitsömu töffararnir yfirleitt. Ekki heldur of neðarlega. Þar er yfirleitt fólkið sem mætti of seint. Og það er ótillitsamt.

  • Gott er að setjast fyrir neðan miðjugang, ef miðjugang er að finna í salnum, svo enginn sitji fyrir aftan þig.

  • Þegar enginn er í næstu röð fyrir framan og fótaplássið er fáránlega lítið (fæturnir á þér ekki afbrigðilega langir!), er gott að leggja fæturnar á sætin fyrir framan, án þess þó að skíta þau út. Bannað er að stynja "ahhhh" þegar það er gert.

  • Ekki taka svefntöflu óvart í stað verkjatöflu áður en farið er í bíó með vini þínum sem þú hefur ekki hitt lengi. Hrotur eru ekki jafn vinsælar og ætla mætti.

  • Þegar gengið er út í fjölmenni, ekki tala við bíófélagann um að það hafi vantað kynlífssenu í myndina þegar hún er um feðga að draga fram lífið í miðjum heimsendi.
Ég gleymdi þessum miða einu sinni. Þið hafið líklega lesið um það á cnn.com.

laugardagur, 16. janúar 2010

Ég hef alltaf sagt að ég var ógeðslegt barn en enginn hefur trúað mér. Fólk segir að öll börn séu falleg á sinn hátt. Ó jæja?

Hér er mynd máli mínu til stuðnings:

Svo ljótt barn var ég að foreldrar mínir reyndu sitt besta að gera mig fallegri með málningu og hárlengingu. Allt kom fyrir ekki.

Fyrir utan að ég gekk í hvítum sokkum við rauðan samfesting. Ég lærði fyrir meira en tveimur árum að sú samsetning gengur ekki upp.

P.S. Hér er um spaug að ræða. Foreldrar mínir gerðu ekkert neitt þessu líkt. Helgi bróðir breytti þessari gömlu mynd af mér. Ég var samt ógeðfelt barn.

miðvikudagur, 13. janúar 2010

Það er komið að fréttaannálnum fyrir árið 2009. Hér má sjá myndir tengdri færslunni.

Þegar 2009 hófst var ég að vinna hjá 365, bjó í Hafnarfirði með meðleigjanda, ók um á Peugeot og var dökkhærður.

Hefst þá upptalningin.

Janúar
* Kom úr jólafríi frá Egilsstöðum (sjá mynd 1).
* Týndi húfunni minni. Björgunarsveitir hættu að leita eftir 14 daga.
* Veiktist (sjá mynd 2).
* Keypti nýja húfu.

Febrúar
* Fékk m.a. átta kassa af Risahrauni í skiptum fyrir auglýsingu á Arthúr (sjá mynd 3).
* Meðleigjandi flutti út. Ég bjó þá einn í 100 fm íbúð.
* Veiktist (sjá mynd 2).
* Kolla systir og Árni Már eignuðust sitt fyrsta barn (Sjá mynd 4).

Mars
* Kláraði að borga lánið af bílnum mínum. Nú borga ég bara lánin af viðgerðunum.
* Setti upp nýja útgáfu af rassgat.org.
* Fór í bíó með Björgvini bróðir og Svetlönu konu hans. Við vorum ein í salnum (sjá mynd 5).
* Keypti mér 220 cm langa sæng. Nú sofa tærnar á mér líka undir sænginni. Svefnbyltingin hefst.

Apríl
* Systurdóttir mín skírð Anna María á Akureyri (sjá mynd 6). 2ja nátta partí á Akureyri. Keyrði svo heim (sjá video 1).
* Keppti á firmamóti Hauka með nokkrum vöskum sveinum. Við urðum í 2. sæti (sjá mynd 7).
* Lokahóf UMFÁ var haldið. Eitthvað það stórkostlegasta sem gerst hefur í Reykjavík.

Maí
* Baldur Beck talar við mig í miðri lýsingu á NBA úrslitakeppninni á Stöð 2 Sport. Ég roðna einn heima í sófanum.
* Jarðskjálfti í nágrenni Reykjavíkur. Maður í Hafnarfirði hleypur nakinn um götur bæjarins í kjölfarið, frávita af skelfingu.

Júní
* Michael Jackson dó. Ég, yfirbugaður af sorg, ákvað að halda áfram með líf mitt.
* Ég reyni mitt besta að klára sumarfrí mitt frá árinu áður, án árangurs. Góður hluti þess fellur niður.

Júlí
* Peugeot bifreið mín bilar.
* Hætti að fá ókeypis í bíó fyrir tilstilli vinnunnar, sem þýddi ca 30% launalækkun.
* Kolla systir, Árni Már og dóttir þeirra Anna María kíkja í heimsókn. Tók ca 27.000 myndir af Önnu.
* Útbjó Excel skjal í vinnunni sem innihélt 2.304 gröf.
* Flutti úr Hafnarfirði í Skipholtið, þar sem ég leigi með Óla og syni hans (sjá mynd 10).

Ágúst
* Eignast 75% fleiri systkini og 100% fleiri bræður.
* Pabbi og Laufey gifta sig á Akureyri (sjá mynd 9). Mjög gott partí.
* Veiktist (sjá mynd 2).
* Veiktist. Aftur (sjá mynd 2).

September
* Fór í bíó með Danna. Man ekki á hvaða mynd (sjá mynd 11).
* Körfuboltatímabilið hefst (sjá mynd 12).

Október
* Dorrit forsetafrú fær bréf frá UMFÁ, þar sem henni er boðið á heimaleiki tímabilsins [sjá hér].
* Rándýrið Peugeot bilar (sjá mynd 13).

Nóvember
* Styrmir bróðir kíkir til landsins í fimm daga (sjá mynd 14). Óvænt partí haldið honum til heiðurs.
* Tveggja daga ferð farin til Akureyrar með Styrmi til að hitta fjölskylduna.
* UMFÁ spilar gegn Snæfelli í Subwaybikarnum, þar sem allir leikmenn eru með yfirvaraskegg. Leikurinn tapaðist 120-49 (eftir framlengingu).
* Partítímabil seinni hluta nóvember (sjá mynd 15).

Desember
* Lenti í basli með að komast til Egilsstaða í jólafrí.
* Tók því rólega á Egilsstöðum yfir jól og áramót (sjá mynd 16).

Staðan eftir árið:
Vinn hjá 365.
Bý í Skipholti með meðleigjanda.
Ek um á Peugeot.
Er dökkhærður með gráar strípur (náttúrulegar).
Hér er árið 2009 í nokkrum myndum og einu videoi. Hér má lesa nánar um árið.

Mynd 1: Dautt tré og glitský. Tekið í jólafríinu 2008 sem var til 3. janúar.


Mynd 2: Ég að vorkenna sjálfum mér, fárveikur.


Mynd 3: Átta kassar af risahrauni. Góður hálftími í febrúar.


Mynd 4: Kolla systir með nýfædda dóttur sína í febrúar.


Mynd 5: Bíóferð í mars, þar sem ég, Björgvin og Svetlana vorum ein í salnum.


Mynd 6: Skírn Önnu Maríu, dóttur Kollu og Árna, í apríl. Pabbi og Valmundur hressir.


Mynd 7: Gutti og Sibbi kepptu með mér á firmamóti Hauka í apríl, ásamt nokkrum öðrum.



Video 1: Ég að keyra heim frá Akureyri í apríl.


Mynd 8: Kolla og Anna María í heimsókn í Reykjavík í júlí.


Mynd 9: Laufey, pabbi og svaramaðurinn Guðjón Magg í giftingaveislu þeirra hjóna í ágúst.


Mynd 10: Jón Ingi og Óli Rúnar nokkuð hressir í ágúst.


Mynd 11: Daníel hugsar hvort hann eigi að fá sér popp í bíóinu í september.


Mynd 12: Körfuboltatímabilið hófst í september. Gutti mjög æstur.


Mynd 13: Ein stærsta ógn peningaheilsu minnar, rándýrið Peugeot 206 bifreið mín í október.


Mynd 14: Styrmir kíkti til landsins í nóvember. Óvænt uppákoma var haldin honum til heiðurs þar sem margir vina hans mættu, þar á meðal Ísar og Baldur.


Mynd 15: Partítímabil í nóvember. Tekin tvö partí á einni viku. Svenni og Magni voru meðal þeirra sem þurftu að vera á mynd með mér.


Mynd 16: Jólafrí í desember. Helgi fer út að labba með mér í fannfergi.
Hér eru nokkrar smásögur/smáfrásagnir úr ævintýraheimi mínum. Að þessu sinni gerast þær allar í verslunum:

Verstu kaupin
Ég hef gert topplista yfir mín verslu kaup um ævina:

3. Samloka
Keypti mér einhverskonar samloku á Hooters í Minnesota árið 2002. Ekki aðeins var þetta það bragðversta sem ég hef látið upp í mig (that's what she said) heldur var kostnaðurinn alltof hár; ca 5 dollarar fyrir samlokuna og 75 dollarar í tips fyrir vinalegu dömurnar sem afgreiddu.

2. Mach3 rakvél
Keypti Mach3, "uppfærðu" Gillette rakvélina, fyrir einhverju síðan. Skar mig sjö sinnum að meðaltali í framan næstu þrjú skiptin sem ég rakaði mig. Henti henni. Fékk blóðgjöf. Jafnaði mig.

1. Peugeot 206
Myndi hlæja ef ég gréti ekki alltaf þegar ég hugsa um hann. Hefur bilað 18 sinnum á 4 árum.

Töffarar
Í verslun í dag gengu tveir elgmassaðir drengir framhjá gamalli konu sem talaði í síma.

Gamla konan (í síma): "Viltu ekki fá það...í bláu?"
Elgmassi1 (við vin sinn): "Ha? Já ég vil fá það! Harhar!"
Elgmassi2: "Harhar"
*Elgmassi1 gefur elgmassa2 high five*
*Ég gleypi munnfylli af gubbi*


Mach3
Ég verslaði mér fjögur rakvélablöð af gerðinni Mach3 í dag á rétt tæplega 19.000 krónur, ef ég man rétt. Þegar ég kom heim fattaði ég að rakvélin mín heitir ekki Mach3 né heldur tekur við þannig rakvélablöðum.

Mach3 rakvélablöðin eru því til sölu með 50% afslætti! Áhugasamir hendi í mig peningum.

mánudagur, 11. janúar 2010

Nýlega var mér gefið það ráð að mála yfir bólu sem hafði tekið bólfestu í andlitinu á mér með andlitsfarða eða einhverju sambærilegu. Mér fannst hugmyndin ömurleg en ákvað samt að prófa. Og viti menn; hugmyndin svínvirkaði. Bólan hvarf eins og dögg fyrir sólu.

Mér er sama þó fólki finnist það skrítið eða hommalegt, ég mun nota farða hér eftir til að hylja bólur.

Hér er mynd frá fyrstu tilrauninni:


Takk Helgi fyrir aðstoðina og fyrir að taka myndina.

laugardagur, 9. janúar 2010

Á körfuboltaæfingu morgunsins áttu leikmenn að skiptast á að skjóta vítaskot þar til hver og einn hitti sjö skotum í röð.

Ég náði því í fyrstu tilraun en prófaði að halda áfram að skjóta. Ég náði að hitta 28 vítaskotum í röð, sem er líklega hápunktur körfuboltaferils míns.

Svo spiluðum við og þar gat ég ekkert, eins og venjulega.

Hér hefst opinbert bréf til KKÍ:


Til þess er málið varðar.

Ég legg til eftirfarandi breytingar á reglum körfuboltans, amk þegar ég spila. Ekki þegar ég horfi á hann:

* Bannað að drippla boltanum.
* Bannað að skjóta nema frá vítalínunni.
* Bannað að trufla skot andstæðinganna.
* Bannað að segja eitthvað niðrandi um þann sem er að skjóta. Orð særa.

Ég treysti mér ekki í að gefa upp ástæðuna fyrir breytingunum. En ástæðan er góð. Ég lofa.

Kv.
Finnur
Ég hef bætt við myndum úr jólafríinu á Facebook. Hér, nánar tiltekið.

föstudagur, 8. janúar 2010

Mig grunar að ég leigi íbúð með bilaðasta salerni landsins. Hér er listi yfir það sem hefur bilað frá því ég flutti inn í byrjun ágúst 2009 (fyrir 5 mánuðum):

* Sturtuhausinn sprakk af í einhverri sturtuferðinni. Nýr sturtuhaus var keyptur.
* Sturtan lak svo veggurinn í anddyrinu bóglnaði út. Það var lagað.
* Snagi er að hruni kominn. Ekki er stefnt á viðgerð.
* Salernistankurinn hleður sig illa. Ekki hægt að gera við. Nýtt salerni á leiðinni.
* Vaskurinn tæmist illa. Viðgerð á næstunni.
* Gólfflísarnar er rosalega forljótar. Reyni að líta ekki á þær.
* Spegillinn sýnir ósmekklegan mann þegar ég lít í hann. Skipti um spegil á næstunni.
* Pera sprakk í gærkvöldi. Ég stefni á gera við hana í kvöld.

Veggirnir hafa amk ekki bilað. Það er eitthvað.

fimmtudagur, 7. janúar 2010

Nýlega hófust netheimar á loft þegar nokkrir gamalkunnir bloggarar tóku upp á því að byrja aftur að skrifa. Hér eru nokkrir þeirra:

Esther Ösp
Var aldrei almennilega hætt en farin að láta námið í of mikinn forgang. Vel máli farin og hnyttin.

Kiddi Trommtromm
Hress kappi sem trommar í þriðju hverri hljómsveit á landinu með annarri hendi og bloggar með hinni.

NBA Bloggið
Þessi síða hætti aldrei. Byrjaði samt nýlega. Ég hef mælt með henni áður en hún er bara svo góð að ég verð að mæla með henni aftur. Ótrúlega góð síða fyrir NBA áhugamenn (og konur, ef þær eru til)

Þóra Elísabet
Stuttar, hnitmiðaðar og skondnar bloggfærslur.
Fyrir tveimur árum kynntist ég tónlistarmanninn Sebastien Tellier. Fór meira að segja á tónleika með honum. Hann varð því fatt ársins 2008 hjá mér.

Tónlistarfatt ársins 2009 var hinsvegar rafpoppsveitin La Roux. Dæmi:

La Roux - Quicksand



Í öðru sæti var raftónlistarmaðurinn Vitalic. Dæmi:

Vitalic - Vooo



Uppáhaldsmyndbandið mitt á árinu 2009 var með Sebastien Tellier. Við lagið Kilometer, nánar tiltekið (sem er eitt af mínum uppáhaldslögum).


Myndbandið fjallar um gullfallegan og sjarmerandi mann sem býður nokkrum hefðardömum í partí með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Mjög sannfærandi myndband. Tellier bregst aldrei bogalistin.

miðvikudagur, 6. janúar 2010

Það er komið að því. Áramótaheiti mín fyrir árið 2010 (í stafrófsröð)!

Eldast meira
Bæði ætla ég að elda meira heima og eldast um amk 3,18% á árinu.

Flytja minna
Í fyrra flutti ég einu sinni. Árið 2010 ætla ég að reyna að flytja núll sinnum, sem væri þá 100% fækkun flutninga milli ára.

Kynnast fleira fólki
Árangurinn mælist í Facebook vinum. Núna á ég 293 vini, sem er frekar slappur árangur. Ég stefni á 322 vini fyrir lok árs. Það er um 10% aukning. Með fyrirvara um stórkostlegar náttúruhamfarir. [Facebooksíðan mín]

Minni innivera
Ég vinn inni. Spila körfubolta inni. Fer í ræktina inni. Fer út að hlaupa inni. Nóg komið! Á árinu ætla ég að gera meira úti. Helst allt.

Sofa meira
Ég sef um 6 tíma á virkum nóttum. Það er um 50% af því sem ég þarf. Ég hyggst auka svefninn um 33% á milli ára. Ég vona að yfirmaðurinn taki vel í að ég mæti ekki fyrr en á hádegi í vinnuna.

Spara meira
Sótsvartur almúginn er blankur í dag, skilst mér. Ég vil ekki falla í þann viðbjóðslega hóp. Ég hef því ákveðið að koma í veg fyrir það með því að eignast pening á árinu, jafnvel marga.

Vinna minna
Ég vinn of mikið. Ég hyggst vinna minna. Hljómar einfalt. Ætti að verða auðvelt.

Þéra fólk
Ætla að þéra fólk meira á árinu. Stefni á að auka þéranirnar um 15%.

Þyngjast meira
Helst af vöðvum. Ekki fitu. Eða beinum. Stefni á 15 kg þyngingu.

Þetta var auðveldara en ég hélt.

þriðjudagur, 5. janúar 2010

Ég er að velta fyrir mér að gera smávægilega breytingu á síðunni.

Breytinguna má sjá hér. Ekki mikil breyting svosem. En vonandi vinnunnar virði.
Eins og áður hefur komið fram gekk erfiðlega að fara austur í jólafrí í kringum 21. des síðastliðinn. Bíll sem ég ætlaði að ferja tók upp á því að opna húddið á miðri Hellisheiði, í brjáluðu roki og á miklum hraða.

Þegar það versta var afstaðið og ég beið í bílnum eftir að verða sóttur tók ég mynd:


Í kjölfarið fór ég að hugsa; hvar hef ég séð þetta áður?

Þegar ég fór skyndilega í nostalgíuflogakast uppgötvaði ég að svarið var komið. Ég upplifði þetta oft á dag í æsku minni þegar ég spilaði uppáhaldsleikinn minn, Test Drive 1:


Við þetta fattaði ég smá galla í Test Drive; baksýnisspegillinn á að detta af þegar rúðan verður fyrir höggi. Og bílstjórinn á að öskra eins og smástelpa.

Ég hef skrifað framleiðendum leiksins harðort bréf.

mánudagur, 4. janúar 2010

Ég tilnefni þennan mann sem leikmann (ens.: player) Íslands.

Og nei, ég hef ekki lesið fréttina. Ég þarf þess ekki. Fyrirsögnin segir allt sem ég þarf að vita.

sunnudagur, 3. janúar 2010

Ég er kominn aftur "heim" til Reykjavíkur með hjálp Flugfélags Íslands.

Bíllinn minn, sem beið mín á flugvellinum ískaldur eins og hugur minn til hans, tók upp á því, eftir aðeins 10 mínútna akstur, að biðja mig vinsamlegast um að stöðva "bifreiðina" þar sem eitthvað amaði að vélinni, að sögn.

Þá hefur bíllinn bilað 18 sinnum síðan ég keypti hann árið 2005. En bara einu sinni á þessu ári, sem verður að teljast gott.

laugardagur, 2. janúar 2010


Sá stórbrotni atburður átti sér stað í gær að ég kláraði bók sem ég hef verið að lesa síðustu tvo mánuði. Bókin er Deception Point eftir Dan Brown. Þetta er fyrsta bókin sem ég klára á árinu.

Bókin er um konu sem er sérfræðingur í öryggismálum Bandaríkjanna eða eitthvað. Hún er kölluð til af forseta Bandaríkjanna og send á norðurpólinn. Upphefjast exótísk ævintýri.

Þetta er fjórða bókin eftir Dan Brown sem ég hef lokið. Hér er listinn, besta bókin efst og sú versta neðst:

1. The Da Vinci Code (Ísl.: Kóði Kjarvals)
Æsispennandi bók með skemmtilegum samsæriskenningum. 3,5 stjörnur af 4.

2. Deception Point (Ísl.: NASA fer á kostum)
Grunsamlega spennandi bók. 3 stjörnur af 4.

3. Angels & Demons (Ísl.: Englar og sjálfstæðismenn)
Ekki ósvipuð The Da Vinci Code, nema verri. 3 stjörnur af 4.

4. Digital Fortress (Ísl.: Stafrænt Virki)
Fín bók, bara pínu vitlaus. 2 stjörnur af 4.

Ef einhver á nýjustu bók Dan Brown, The Lost Symbol (Ísl.: Hringur Tankados.) og vill lána mér hana þá er hinn sami beðinn um að senda mér hana á e-mailið finnurtg@gmail.com.