mánudagur, 29. október 2012

Helgarævintýri

Hér eru smásögur helgarinnar.

Draumfarir
Veikindi mín í síðustu viku færðust yfir í draumaheimanna aðfararnótt föstudags þegar mig dreymdi að Sylvester Stallone væri að leigja með mér. Einn morguninn mætti hann ber að ofan til morgunverðarborðs, sem virtist ekki vera óvenjulegt, og tók eftir að ég hafði klárað jógúrtina hans. Ég lofaði að skjótast snöggvast í verslun og kaupa meira. Um leið og hann svaraði "Cool" fattaði ég að ég átti ekki krónu. Sem betur fer vaknaði ég þá með andlitið fullt af hori og eymd.

Hnerrmet
Á laugardagsmorgunn vaknaði ég nokkuð hress og hélt að veikindi mín væru loksins að hverfa. Ég settist upp og byrjaði að plana ræktarferðir, ferðalög og jafnvel allskonar ástarævintýri, í ljósi góðrar heilsu. Þá tók líkaminn við sér og lét mig hnerra átta sinnum í röð. Svo ég lagðist aftur í rekkju og svaf í sex tíma í viðbót.

Æðri máttarvöld
Í gærkvöldi, þegar ég ætlaði loksins að drulla mér í ræktina, var Peugeot bifreið mín rafmagnslaus. Vinur minn sagði að þetta væru sennilega æðri máttarvöld að láta mig vita að ég væri enn of veikur til að fara í ræktina, sem reyndist vera rétt.

Þetta gaf mér þá hugmynd að selja þennan fjandans bíl, þar sem enginn hefur orðið fyrir jafnmikilli afskiptasemi frá æðri máttarvöldum og ég, síðan ég keypti þennan bíl. Áhugasamir hafi samband við mig í finnurtg@gmail.com.

miðvikudagur, 24. október 2012

Hvað er að frétta, Finnur?

Marta María hunsaði mig þessa vikuna þegar hún tók einhvern Teit framyfir mig í liðnum "Hvað er að frétta, [nafn]?" liðnum á síðu sinni (sjá hér).

Ég læt ekki vaða svona yfir mig og svara spurningunum hérna, fullum hálsi!

Halló, hvað er að frétta?
Ég er veikur!

Hvar áttu heima?
Í Furugrund í Kópavogi.

Hvað ertu búinn að vera að gera í vikunni?
Fyrir utan að liggja veikur og vorkenna sjálfum mér? Ekkert.

Hvað ætlarðu að gera á morgun?
Ég hugsa að vinni eitthvað, með tárin í augunum, passi Valeríu Dökk frænku mína og leggist svo fyrir. Kannski ég vorkenni sjálfum mér ef ég er í stuði.

Eigum við að skila einhverju til vina og vandamanna?
Já þú mátt biðja Sibba um að hringja í mig við tækifæri. Takk.

ps.?
Ef ég gæti fengið virðisaukaskattinn af pappírnum sem notaður hefur verið í snýtingar síðustu daga endurgreiddan þá væri ég moldríkur maður.

fimmtudagur, 18. október 2012

Hlaðvörpin mín

Einhversstaðar í fyrndinni fannst mér einhver hrópa spurninguna "Á hvaða hlaðvörp (ens. podcasts) hlustarðu að staðaldri?". Þrátt fyrir að yfirgnæfandi líkur séu á því að þetta séu bara raddirnar í hausnum á mér, þá finnst mér rétt að svara opinberlega.

1. Comedy Bang Bang
Grínistinn Scott Aukerman tekur á móti gestum sem allir eiga það sameiginlegt að vera fyndnir eða tónlistarmenn. Yfirleitt bæði. Í nánast hverjum þætti mæta svo karakterar sem hafa fengið mig til að frussa úr hlátri í vinnunni.

Dæmi: IBrain smásagan eftir Brett Gelman. Sennilega eitthvað það fyndnasta sem ég hef heyrt.

2. Grandma's Virginity
Ryan Ridley, Justin Roiland og Jackie Buscarino tala öskrast á um það sem er að gerast í lífi þeirra hverju sinni. Stundum mæta nokkuð þekktir gestir í öskurviðtöl. Í lokin eru lesin e-mail frá hlustendum.

Justin Roiland er einn fyndnasti maður í heimi, eins og heyrist í þessum hljóðbúti, sem er svar hans við gagnrýni hlustanda sem heitir Kevin James.

3. Radiolab
Jad Abumrad og Robert Krulwich fjalla um áhugaverð mál á frumlegan hátt, segja sögur og taka viðtöl. Full mikið klippt efni á köflum og aðeins of mikill hressleiki en það sleppur. Margt af efninu er óendanlega áhugavert.

4. Freakonomics
Stephen Dubner tekur fyrir allskonar frávikshagfræði og skoðar í bak og fyrir. Mjög skemmtilegt en gefið út of sjaldan.

5. NBA Ísland
Baldur Beck tekur gesti í viðtal um körfuboltadeildir (aðallega þá Íslensku og Bandarísku). Eina Íslenska hlaðvarpið sem ég hlusta á. Mjög vel að því staðið og dúndrar í áhugamálspunginn á mér. Mæli sterklega með þessu!

sunnudagur, 14. október 2012

Hugljómun

Ég hef átt Peugeot 206 bifreið mína núna í sex ár. Á þeim tíma hefur hún bilað óteljandi oft og kostað mig óteljandari meiri peninga.

Ég hef oft hugsað hvort ég hefði kannski átt að sjá þetta fyrir, þegar ég keypti bílinn. Í dag sá ég það sem ég hefði átt að sjá á kaupdeginum:

Þetta er mynd af Peugeot 206 með nákvæmlega eins innréttingu og minn.

Aldrei, undir nokkrum kringumstæðum, kaupa bíl sem byggir allt mælaborðið í kringum neyðarhnappinn, sem fær sérstakt heiðurssæti á vel aðgengilegum stað í miðjunni.

Minn neyðarhnappur er eins, nema hann er með djúp för eftir lófana á mér.

fimmtudagur, 11. október 2012

Skegggraf

Í dag er vika síðan ég rakaði á mér andlitið síðast (skeggið nánar tiltekið (ekki augabrúnirnar)).

Þá lít ég á grafið mitt og sé að ég er kominn yfir mörkin að vera ruglað saman við róna og að mér líður hræðilega með útlit mitt.

Það verður spennandi að vita hvort ég komist út úr rónamörkunum áður en ég raka mig eða hvort ég gangi alla leið og safni alskeggi í fyrsta sinn. Til þess þarf ég að safna í amk mánuð og geng blint í sjóinn með útlitslega líðan mína þar sem grafið sýnir aðeins fyrstu 14 daga eftir rakstur. Tilraunir hafa ekki verið framkvæmdar með lengra tímabil, ennþá.

sunnudagur, 7. október 2012

Kvikmyndarýni

Hér er listi yfir þær myndir sem eru í bíóhúsum höfuðborgarsvæðisins og ég hef séð, ásamt þriggja orða umsögn um þær.

1. Looper (Ísl.: Lykkjari)
Gerð: Vísindaskáldsögu/spennumynd.
Um: Náungi er leigumorðingi fyrir framtíðarglæpamenn.
Umsögn: Besta mynd ársins?
Stjörnur: 3,5 / 4.

2. Lawless (Ísl.: Laglaus)
Gerð: Köntrí/spennu/dramamynd.
Um: Þrír bræður selja áfengi á bannárunum í Bandaríkjunum.
Umsögn: Blóð útum allt.
Stjörnur: 2 / 4.

3. The Campaign (Ísl.: Sprelligosar sprellast)
Gerð: Gaman/ádeilumynd.
Um: Tveir skrautlegir náungar keppast um sæti á alþingi Bandaríkjanna.
Umsögn: Nokkuð fyndin, en...
Stjörnur: 2 / 4.

4. The Bourne Legacy (Ísl.: Arfleiðin hans Bjarna)
Gerð: Vísindaskáldsögu/spennumynd.
Um: Vondir kallar reyna að drepa líkamlega yfirburðamann, sem þeir gerðu. Fjórða Bourne myndin.
Umsögn: Fyrri myndir + væmni.
Stjörnur: 3 / 4.

5. The Expendables 2 (Ísl.: Hinir missanlegu 2)
Gerð: Gaman/spennumynd.
Um: Ofurhetjusveit með byssur ráðast inn í lönd og drepa.
Umsögn: Súrrealískt ofbeldi + grín.
Stjörnur: 1,5 / 4.

6. The Watch (Ísl.: Úrið)
Gerð: Vísindaskáldsögu/gamanmynd.
Um: Miðaldra maður stofnar nágrannavörsluklúbb og lendir í skrautlegum ævintýrum.
Umsögn: Vince Vaugn = bíómyndarústari.
Stjörnur: 1 / 4.

þriðjudagur, 2. október 2012

Fuglasöngur

Í nótt lá ég andvaka heima, aldrei þessu vant, þegar ég heyrði tíst í fugli fyrir utan gluggann hjá mér. Hann raulaði stutt lag reglulega og virtist vera að brotna saman úr einmannaleika.

Í framhaldinu fór ég að hugsa um hversu stórkostlegt það er að geta hlustað á gullfallegan smáfuglasöng, eins og þennan, nánast hvenær sem er, en gefa sér aldrei tíma til þess. Nú hafði ég tíma og ég ætlaði að njóta þess.

Þá áttaði ég mig á því að þetta var ekki fuglasöngur heldur blýstur úr nefinu á mér. Ég sofnaði tveimum tímum síðar.