föstudagur, 30. júlí 2010

Vextir kúlulána

Nýlega sá ég auglýsingu frá Kredia þar sem boðið er smálán til skamms tíma. Ég fletti þeim upp og þar komu eftirfarandi lánamöguleikar fram:

Lán 1
10.000 króna lán. 12.500 krónur greiddar til baka innan 15 daga.

Lán 2
20.000 króna lán. 24.750 krónur greiddar til baka innan 15 daga.

Lán 3
30.000 króna lán. 37.000 krónur greiddar til baka innan 15 daga.

Lán 4
40.000 króna lán. 49.250 krónur greiddar til baka innan 15 daga.

Í fyrstu hljómar þetta sem ágætis lausn. En þegar betur er að gáð má sjá að vextirnir eru vafasamir.

Þannig að ég útbjó smá Excel skjal sem reiknar út vextina á svona lánum. Í skjalinu [niðurhalið því hér] er hægt að skrá inn upphæðir og lengd láns til að fá út bæði ársvexti (sem er venjulegt form vaxta) og vexti á lánstímabilinu.

Þegar ég hafði slegið inn tölurnar að ofan (og gert ráð fyrir 15 daga löngu láni) fékk ég eftirfarandi niðurstöður:

Lán 1: 608,33% ársvextir.
Lán 2: 577,92% ársvextir.
Lán 3: 567,78% ársvextir.
Lán 4: 562,71% ársvextir.

Til samanburður má nefna að yfirdráttavextir Arion banka eru 13,85% á ári. Þú finnur ekki hærri lánavexti en yfirdráttavexti, þangað til núna.

[Náið í Excel skjalið hér. Lítið skjal án macro.]

Inception upplifun

Í gær átti ég afmæli eins og mér einum er lagið (+/- sjö milljarðar). Dagurinn var hnoðfullur af skemmtun. Hann innihélt meðal annars:
  1. Smekkfullan vinnudag af Excel vinnslu.
  2. Kaffiboð hjá pabba þar sem boðið var upp á pönnukökur og skemmtilegt spjall.
  3. Hörkufjöruga körfuboltaæfingu þar sem ég var niðurlægður ítrekað af mun betri leikmanni. Það var mér til happs að ég hef mikla nautn af því að láta niðurlægja mig.
  4. Bíóferð á Inception (Ísl.: Fjör á fjölbraut).
Nánar um atriði 3 4:

Myndin fjallar um hóp sem leggur í hættuför í huga erfingja risafyrirtækis í þeirri von að planta hugmynd í kollinn á honum. Myndin er blanda af James Bond, Matrix og Juno.

Hún er mjög vel gerð og skemmtileg. Mæli með henni.

Í kvöld var ég að hugsa um myndina og velta fyrir mér þeim möguleika að versla mér íbúð á næstunni. Ennfremur var ég að velta fyrir mér þeim möguleika að geta dreymt án þess að átta sig á því að vera sofandi. Þá rakst ég á þetta:

Þetta er keyrandi hús.
INCEPTION

þriðjudagur, 27. júlí 2010

Sumarfrí

Ég tók mér frí fyrir hádegi dag af því ég er of latur til að taka mér alvöru sumarfrí.

Klukkan 10 í morgun var svo hringt í mig úr vinnunni og ég beðinn um að skila smá skýrslu fyrir einhvern fund.

Eftirfarandi gerist þegar:

  1. Ég er vakinn.
  2. Ég er beðinn um að gera eitthvað.
  3. Minnið er mjög lélegt.
  4. Ég er með penna en ekkert til að skrifa á.
  5. Ég er bara með aðra hendina lausa (hin hélt á símanum).

Fyrir þá sem eru slæmir í líffræði þá er þetta hægra lærið á mér, rétt fyrir ofan hné.

mánudagur, 26. júlí 2010

Villtur

Í gærkvöldi náði ég að villast í Reykjavík í fyrsta sinn síðan ég þorði fyrst að keyra bíl hérna (5 ár síðan).

Klukkan 20:15 ákvað ég að kíkja í sund í Árbæjarlaug en hún lokar klukkan 21:00, sem þýðir að hleypt er í hana til klukkan 20:30. Ég þurfti því að hafa hraðar hendur.

Að neðan má sjá kort af svaðilförinni:

Smellið á mynd fyrir óþarflega nákvæmt kort í nýjum glugga.
Hér er það sem þarf að vita:

  1. Gula línan er leiðin sem ég fór.
  2. Rauða línan er rétt leið.
  3. Hjá Álfabakka svínaði strætó fyrir mig. Ég var taugaspenntur fyrir (þar sem tíminn var knappur) svo ég  tók glórulausa beygju í Álfabakka.
  4. Ég var enn pollrólegur, haldandi að það væri ekkert mál að komast úr þessu hverfi. Það var reyndar hægt, skömmu síðar, en þá beygði ég í ranga átt og endaði einhversstaðar í buskanum.
  5. Klukkan 20:30 áttaði ég mig á stöðunni, staddur í miðju kirkjuhverfi og bölvandi mjög hátt.
  6. Ég keyrði því í 10-11 og fékk mér að borða.

Merkilegt nokk þá var þetta ekki versta sundferð sem ég hef farið í. Hún innihélt ca 13-14 tonn af börnum, öskur og eymd. Meira um það aldrei.

föstudagur, 23. júlí 2010

Minnisleysi

Ég hef löngum státað af einu versta minni allra tíma. Hér eru tvö dæmi:

1. Brandari

Eftirfarandi samtal átti sér nýlega stað í spjallforritinu MSN:

Finnur: What is brown and rhymes with Snoop?
Finnur: Dr. Dre
Jónas Reynir: hehe þessi er bestur
Finnur: hehehe já
Jónas Reynir: [brot úr gömlu samtali]
Jónas Reynir: What's brown and rhymes with snoop?
Jónas Reynir: Dr. Dre
Finnur: hahahaha
Jónas Reynir: hann var sérstaklega góður í ÁGÚST Í FYRRA!!!!!
Finnur: andskotinn
Finnur: sá þetta á [netinu] í dag og hló eins og vitleysingur, sjáandi þetta í fyrsta sinn
Jónas Reynir: hann er betri í 2. skiptið
Jónas Reynir: [brot úr gömlu samtali]
Finnur: beint á facebook með þetta helvíti
Jónas Reynir: kominn
Finnur: hehehehe
Finnur: hann er betri í 2. skiptið
Finnur:
Finnur: ég er með rosalega lélegt minni


2. Leit

Ég spurði Jónas Reyni hvort honum væri sama þó ég bloggaði um samtalið að ofan. Hann samþykkti og benti mér á að það væru til helling af svona dæmum um mig í samtalsloggum. Hann bauðst til að leita í þeim. Þetta varð niðurstaðan:

Jónas Reynir: Ég prófaði að leita að orðinu "manstu" í spjall loggunum.
Jónas Reynir: Ég virðist bara hafa notað þetta orð í samtölum okkar.
Jónas Reynir: Þú hefur sagt það einu sinni: [brot úr gömlu samtali]
Finnur: manstu heimilisfangið mitt?

Ég biðst velvirðingar ef ég hef skrifað þessa færslu áður.

þriðjudagur, 20. júlí 2010

Lyktarskyn lögreglumanna

Þetta er áhugaverð frétt, svo ekki sé meira sagt. Hún segir frá lögreglu sem er á gangi um Eyrarbakka og finnur kannabislykt. Hún eltir lyktina og rekur hana alla leið að íbúð, þar sem hún kallar á liðsauka og böstar kannabisframleiðslu.

Við fyrstu sýn virðist allt eðlilegt í henni. En ef vel er að gáð má sjá að hún er glórulaus. Nokkur atriði:

  1. Lögreglan er í eftirlitsferð. Hvenær sáuð þið lögreglu gangandi í eftirlitsferð síðast utan miðbæjarsvæðis?
  2. Þeir finna kannabislykt. Og elta lyktina? Að húsi? Að íbúð í húsi? Það er ótrúlega vel gert.
  3. Þeir eru svo logandi hræddir við þessa kannabislykt að þeir hringja í liðsauka? Af hverju? Héldu þeir að kannabisneytendurnir væru snarvitlausir?
  4. Í íbúðinni var verið að framleiða kannabis með þar til gerðum rafmagnsþungum gróðurhúsalömpum. Ég efast um að kannabisframleiðendur hafi verið að reykja á meðan framleiðslu stóð, þar sem mér skilst að efnið sé mjög letjandi.
Þetta finnst mér líklegra:
  1. Lögreglan skoðaði rafmagnsreikningana á Eyrarbakka og sá óvenju háan rafmagnsreikning í umræddri íbúð, sem er vísbending um ræktun einhverskonar.
  2. Lögreglan ákveður að banka upp á, með liðsauka.
  3. Í ljós kemur kannabisræktun. Handtökur.
  4. Lögreglan skáldar einhverja fáránlega sögu um að lögreglan sé með lyktarskyn á heimsmælikvarða á göngu um hverfið, þar sem ég geri ráð fyrir að ólöglegt sé að njósna um rafmagnsnotkun einstaklinga.
Ef þetta er rétt frétt legg ég til að lögreglan starti nussveit, sem gengur um íbúðarhverfi og nusi út í loftið í þeirri von að finna helling af kannabisbófum.

mánudagur, 19. júlí 2010

Vafasöm skokkleið

Í gær fór ég út að hlaupa aldrei þessu vant en það geri ég þegar ég er á mörkum þess að missa vitið úr hreyfingarleysi. Virkni mín hefur snarlega minnkað eftir að ég ákvað að taka mér pásu frá lyftingum og tognaði frekar illa frá körfuboltanum fyrir næstum mánuði síðan.

Allavega, ég skokka yfirleitt á kvöldin og á nóttunni í Kópavogi. Hér er síðasta skokkleiðin:

Er skemmtilegra en lítur út fyrir að vera úr lofti.
Lítur þetta kunnuglega út? Hér er smá hjálp:

Brjánn Byssa.
Lítur þessi færsla kunnuglega út? Hér er önnur svipuð færsla frá í febrúar.

Ef undirmeðvitund mín les þetta: Hættu að láta mig ganga í furðulegar útlínur séð úr nokkra kílómetra hæð! Fólk er farið að horfa undarlega á mig.

Ef samstarfsfólk mitt les þetta: Engar áhyggjur, það er erfitt að finna minna ofbeldisfullan einstakling en mig.

laugardagur, 17. júlí 2010

Draumfarir

Í nótt dreymdi mig handbolta. Hvað ætli það geti þýtt?

Draumaráðningar eru í mínum huga kjaftæði en aðalreglan þar er að eitthvað öfugsnúið við það sem þig dreymir muni gerast. T.d. ef þig dreymir gjaldþrot þá muntu verða ríkur og svo framvegis.

Eftir að hafa dreymt leiðinlegustu íþrótt allra tíma, handbolta, spilaði ég skemmtilegustu íþrótt allra tíma í dag, körfubolta. Svo draumaráðningarnar virkuðu í þetta skiptið fyrir einhverja stórkostlega heppni.

föstudagur, 16. júlí 2010

Hugtök í myndaformi

Hér eru nokkur hugtök sett fram í myndaformi. Allar myndirnar voru teknar í vikunni af engum öðrum en mér sjálfum!

1. Sparnaður
Alls um 2.500 króna nettó sparnaður!
Með því að eyða einu eða tveimur kvöldum vikunnar í að sitja einn heima í sófanum og smyrja sér samlokur á meðan horft er á Baldna Folann, má spara sér gríðarlegar fjárhæðir.

Ég spara meira að segja smá auka með því að kaupa mér saltlaust álegg því tárin sem falla í smjörið á meðan á þessu stendur innihalda ráðlagðan dagskammt af salti og vel það.

Aukaráð: Fínt er að láta gera sérstaka poka sem á stendur "500 króna sparnaður" til að minna sig á sparnaðinn sem verður til við þetta (sjá mynd að ofan). Pokarnir fást þrír saman í pakka og kosta litlar 7.000 krónur.

2. Þróun
Stökkbreyting!
Allar gerðir dýra hafa þróast í það sem þau eru núna fyrir tilstilli náttúruvals. Kex er þar engin undantekning, lærði ég í kvöld.

Á myndinni má sjá þróunarkenninguna að verki. Svo virðist sem stökkbreyting hafi átt sér stað í DNA-i kexins og fótur myndast. Það hefði verið spennandi að sjá hvernig kexinu hefði vegnað í náttúrunni með þennan nýja fót, en ég borðaði það og lauk því ævi þess. En af því það var svo girnilegt fengu önnur kex að lifa. Náttúruvalið að verki.

Smelltu á 'Sjá meira' fyrir þriðju myndina en það er hreyfimynd! Spennandi!

miðvikudagur, 14. júlí 2010

π

Tölustafamynd getur aðeins þýtt eitt: spennandi bloggfærsla.
Pí er ummál hrings deilt með þvermáli hans og hefur endalausa aukastafi. Aukastafirnir virðast vera algjörlega handahófskenndir.

Ég prófaði samt að taka fyrstu 1.120 aukastafina, setja upp í línurit og taka 100 tölustafa hreyft meðaltal:

Ef ekki væri fyrir Excel hefði ég tekið nokkrar vikur í að teikna þetta.
Að því loknu taldi ég hvaða tölustafir koma oftast fyrir í aukastöfunum:

Virðist vera smá speglun við fimm, ef núll er undanskilið.
Niðurstaða: Engin. Ég sé ekkert merkilegt í þessari agnarsmáu rannsókn og lærði ekkert annað en að aukastafirnir virðast áfram algjörlega handahófskenndir í uppröðun.

 Ég náði þó að svala Excel blætinu mínu og er afslappaðri fyrir vikið.

mánudagur, 12. júlí 2010

Sáðlát plantna

Troðfullur runni af sáði fífils.
Þessi mynd er ekki sú skýrasta þar sem ég varð frekar taugaspenntur í kringum þessa fallegu framsetningu ástarinnar.

Svo virðist sem blóm (fífill líklega) hafi fundið ástina og fullkomnað sambandið í þessum runna. Vel gert!

Ég get ekki annað en samglaðst fíflinum og hefði ekki hikað við að gefa honum high-five ef hann hefði ekki verið búinn að láta sig hverfa úr runnanum þegar mig bar að garði.

Excelskjal: Leitarvél

Hér er fyrsta dæmið um Excel skjal sem ég hef unnið [niðurhalið hér 6 mb]. Ástæðan fyrir því að það er svona stórt er að það er vistað í Excel 2003 sniði. Þið afsakið litasamsetninguna, hún er öðruvísi í Excel 2007.

Þetta skjal gerði ég fyrir IJBL gervi NBA deild og það virkar sem leitarvél fyrir alla leikmenn deildarinnar. Þið þurfið ekki að skilja hvað tölurnar tákna.

Nokkur atriði varðandi skjalið:
  • Hægt er að velja stöðu leikmanna í C2 í drop-down-menu.
  • Hægt er að velja sérstakt lið í D2 í drop-down-menu.
  • Aldur er valinn í E2. Leitað er að jafnaldra eða yngri. Dæmi: 25 skilar 25 ára og yngri. Sama gildir um sellur AG2-AL2.
  • Sellur G2-AC2 leita að jafnt og eða meira. Dæmi: drb 50 skilar 50 í drb eða meira.
  • Hægt er að leita að einum eða fleiri atriðum. Ef ekkert er slegið birtist listi yfir alla leikmenn.
  • Uppröðunin á leikmönnunum er eftir styrkleika eftir fyrirfram ákveðinni formúlu.
  • Leitarvélin sækir gögn í Grunnskjal sem er falið og auðvelt er að uppfæra með keyrsluskjali úr deildinni.
  • Skjalið er læst svo ekki sé hægt að eyða út mikilvægum sellum. Aðeins er hægt að slá inn leitarstrengi í rétta reiti.
Þetta tók mig allt í allt um tvo tíma að gera, með uppfærslum og lagfæringum.

[Þessi færsla er skráð til að bæta við þjónustuhluta síðunnar]

Vöntunarlisti

Hér er listi yfir það sem mig vantar í líf mitt svo það verði fullkomið:

Reiðhjól
Fjalla- eða götuhjól. Helst ekki BMX hjól.

Ryksugu
Ég á reyndar eina ryksugu sem stenst ekki kröfur mínar. Eina krafan er að hún virki.

Bækurnar 'Stúlkan sem lék sér að eldinum' og 'Loftkastalinn sem hrundi'
Er að klára 'Karlmenn sem hata konur' og líkar vel, ef ekki betur.

Gjallarhorn
Svo að fólk sem gefur ekki stefnuljós í hringtorgum heyri betur í mér þegar ég öskra á það. Það væri synd ef allt þetta hatur færi til spillis.

Reimar
Það virðist vera erfiðara að verða sér úti um reimar í körfuboltaskó í Reykjavík en dverghórur. Ekki að ég viti neitt um það.

Peninga
Til að borga fyrir það sem mig vantar.

föstudagur, 9. júlí 2010

Fjórfarar mínus tveir

Fyrir löngu síðan sá ég einhverja mynd með einhverjum leikara sem minnti mig á einhvern annan leikara. Ég hét því að láta heiminn vita af þessari uppgötvun minni, en auðvitað gleymdi ég öllu sem tengdist þessu.

Í gær rifjaðist svo upp fyrir mér hverjir umræddir leikarar voru:

Man ekki hvor er hvenær.
Leikararnir eru Jack Nicholson og Timothy Olyphant. Ég man ekki hver myndin var.

Fleira var það ekki. Ef þið vilduð vera svo væn að koma ykkur af síðunni minni. Ég þarf að taka til á henni.

fimmtudagur, 8. júlí 2010

Óáhugaverðar smásögur

Hér eru tvær óáhugaverðar smásögur úr lífi mínu. Pínusögur, ef þið viljið:

Sund
Fyrir nokkrum dögum ákvað ég í vinnunni að fara í sund síðar um kvöldið. Eftir vinnu skaust ég heim til að ná í sunddót og fá mér að borða. Ég kveikti á sjónvarpinu.

Í fréttunum var verið að fjalla um nýjasta útspil Besta Flokksins: Að gefa börnum frítt í sund í sumar. Ég missti matarlistina umsvifalaust og allt álit á Besta Flokknum. Að gefa börnum ókeypis í sund er álíka gáfulegt og að hafa býflugnabú í rúminu hjá sér.

Til að útskýra þetta nánar er hér mynd:

Börn geta eyðilagt ótrúlegustu skemmtanir.
Myndin sýnir glögglega að með auknu hlutfalli barna í sundlaugum borgarinnar snarminnka þægindi gestanna og heift eykst, amk í mínu tilfelli. Með heiftinni kemur vöðvabólga og almenn vanlíðan.

Mín tillaga: gefið öllum fullorðnum ókeypis í sund og rukkið börn fjórfalt gjald, þar sem þau borga nánast engan skatt og eru öllum til ama.

Veikindi
Í gær var ég veikur. Ég vaknaði klukkan 8:30 eftir sjö tíma svefn. Mér leið skelfilega svo ég hringdi inn veikur.

Ég reyni að borða morgunmat án árangurs og settist "örstutt" í sófann með teppi vafið um mig áður en ég ætlaði að vinna mikilvægar skýrslur að heiman.

Klukkan 16:00 vaknaði ég svo aftur eftir sjö tíma svefn. Nokkuð frískur líkamlega. Andlega líðan var verri. Aðallega vegna þess að ég gat ekki vorkennt sjálfur mér lengur.

Topp 10 yfir lötustu daga mína um ævina.
Allavega, þessi árangur nær á topp 10 listann minn yfir flesta tíma sofinna á sólarhring, 8. sæti nánar tiltekið.

miðvikudagur, 7. júlí 2010

Hljótt óp með Hnífinum

Lagið Silent Shout með Sænsku sveitinni The Knife og myndbandið við það er bæði í senn eitt það flottasta sem ég hef séð/heyrt og óhugnarlegasta:

mánudagur, 5. júlí 2010

Bíólægðin mikla júlí 2010

Bíóhús borgarinnar eru í sögulegri lægð. Hér er listi yfir þær myndir sem eru í sýningu núna:

A Nightmare on Elm Street
1. Hryllingsmynd. Versta gerð kvikmynda.
2. Fær 13% á Rotten Tomatoes (RT).

Get Him to the Greek
1. Sá hana fyrir tveimur vikum = Búin að vera lengi í sýningu.
2. Fær annars fína dóma (73% á RT).

Grown Ups
1. Fræ 10% á Rotten Tomatoes.
2. Mér dettur ekki til hugar að sjá hana.

Húgó 3
1. Barnamynd.
2. Þriðja myndin í röðinni. Hinar tvær voru hundleiðinlegar.

Killers
1. Epískt meistaraverk. Fær 12% á RT.
2. Ashton Kutcher.

Prince of Persia: The Sands of Time
1. Sá hana fyrir þremur vikum = Búin að vera of lengi í sýningu.
2. Fín mynd svosem. En óeftirminnileg. 37% á RT.

Robin Hood
1. 44% á RT.
2. Bara sýnd í Háskólabíó og bara sýnd klukkan 21, enda búin að vera lengi í sýningu.

Sex and the City 2
1. Sirka það síðasta sem ég myndi fara á í bíó, á eftir heimildamynd um fiskikvótakerfið.
2. 16% á RT.

Snabba Cash
1. Erfitt að sjá mynd á sænsku eftir að hafa séð Karlmenn sem hata konur.
2. Bara sýnd kl 18, þegar flestir (ég) eru að vinna

StreetDance 3D
1. Dansmynd.
2. Fær 87% á RT! [Hef þurrkað RT úr minni tölvunnar]

The A-Team
1. Ein heimskulegasta og mest pirrandi mynd sem ég hef séð.
2. Fær 49% á RT.

The Losers
1. Bara sýnd í Álfabakka, versta bíóhúsi norðurlanda. Stíg ekki fæti þangað inn.
2. Fær 47% á RT.

The Twilight Saga: Eclipse
1. Vampírur. Hættar að sjúga blóð og farnar að sjúga getnaðarlimi.

Toy Story 3 3D
1. 3D sýning. Ég hata þær.
2. Fín mynd reyndar, ef maður nennir að burðast með 3D gleraugun (99% á RT).

Ekki nóg með þetta hræðilega úrval heldur munu aðeins þrjár myndir bætast við næstu tvær vikurnar. En þær eru:

Shrek 72
1. Nóg komið.
2. 3D mynd. Nóg sagt.

Boðberi
1. Íslensk drama mynd. Amk ein nektarsena og eitt syfjaspell.

Knight and day
1. Endurgerð myndar Ashton Kutcher, Killers frá árinu 2010.

Það lítur út fyrir að ég þurfi að finna mér eitthvað annað að gera í júlí en fara í bíó og nöldra yfir myndum.

sunnudagur, 4. júlí 2010

Þjónusta


Ég hef bætt við þjónustusíðu, þar sem ég lofa sjálfan mig í bak og fyrir í þeirri von að fyrirtæki hafi samband með verkefni sem ég get dundað mér við að vinna á kvöldin og nóttunni, utan dagvinnunnar.

Undanfarið hef ég haft skjálfandi þörf til að vinna eitthvað í Excel eftir vinnu en ekki dottið neitt í hug. Þetta vonandi fyllir þá þörf og gefur mér smá aukapening.

Endilega kíkið á síðuna og bendið fyrirtækjum/stofnunum eða bara vinum/kunningjum, sem eiga í vandræðum með Excel vinnslu (eða annað), á hana [sjá hér].

Takk.

laugardagur, 3. júlí 2010

Takk

Ég fór í 10-11 í nótt, eins og oft áður. Þar átti sér stað þakklátasta samtal allra tíma:

Ég: Góða kvöldið.
A[fgreiðslumaður]: Góða kvöldið.
[Afgreiðslumaður skannar vörur inn]
A: Eitthvað fleira?
Ég: Nei, takk.
A: Poka?
Ég: Já, takk.
A: Það verða 666 krónur.
[Ég rétti kort]
A: Takk.
[Ég kvitta og rétti honum snepil]
A: Takk. Kvittun?
Ég: Nei, takk.
A: Takk fyrir.
[Ég raða í poka og tek hann]
Ég: Takk fyrir mig.
A: Takk sömuleiðis. Eigðu gott kvöld.
Ég: Takk!

Þessi atburðarás tók um 30 sekúndur. Á þeim tíma þökkuðum við níu sinnum fyrir okkur. Það gera 1.080 tökk á klukkutíma, sem er líklega heimsmet í þakklæti.

Þrívíddarhelvíti

Í gær fór ég í bíó á myndina Toy Story 3. Mér til hryllings áttaði ég mig á því þegar þangað var komið að um 3D sýningu var að ræða.

Nokkur atriði varðandi 3D sýningar:

  1. Bíóhúsin hafa snarhækkað verðið á bíómiðanum úr 1.000 krónum í 1.350 krónur.
  2. Þú þarft að kaupa þrívíddargleraugun sér á 150 krónur. Þá er verðið komið upp í 1.500 krónur.
  3. Ég geng yfirleitt með linsur af því mér finnst óþægilegt að ganga með gleraugu. Venjuleg gleraugu eru þó hátíð miðað við þrívíddargleraugu en þau eru allt í senn stór, þung og óþægileg.
  4. Ef þú mætir með gleraugu í bíó á þrívíddarsýningu geturðu ekki séð hana í þrívídd, nema þú viljir sjá hana í þrívídd og móðu.
  5. Þeir sem elska 3D myndir eru að meðaltali 15 ára líkamlega. Ef eldri en 15 ára líkamlega þá 15 ára andlega. Og 15 ára einstaklingar eru háværir og óþolandi í bíósölum.
  6. Ég fer í bíó til að skemmta mér yfir góðum söguþræði, góðum leik eða áhrifaríkri sögu. Þrívídd kemur málinu ekkert við og bætir engu við! Þrívíddarmyndir eru álíka heimskulegar og að setja súkkulaði í blikkandi umbúðir.
  7. Þrívíddarmyndir eru ekki textaðar. Ekki að það breyti miklu. En samt.

Samantekt: Þrívíddarsýningar kosta 50% meira en venjulegar sýningar og þú verður að hlunkast um með óþægileg gleraugu til að sjá hana í fullum sal af háværum krökkum. Gangirðu með gleraugu þá neyðistu til að sjá myndina, sem er ótextuð, í móðu.

Ég vona að þrívíddarmyndir deyji sóðalegum og kvalarfullum dauðdaga, sem fyrst. Ég mun aldrei aftur fara á þannig sýningu.

Annars var það sem ég sá af Toy Story 3 mjög gott.

fimmtudagur, 1. júlí 2010

Hvar hafa bloggfærslur lífs míns lit sínum glatað?

Þegar þetta er ritað hef ég skrifað 3.849 færslur þá 2.828 daga sem ég hef verið með þessa síðu. Það gera 1,36 færslur á dag. Það endurspeglar þó ekki núverandi virkni.

Hér er graf yfir hveru margar færslur ég hef skrifað á mánuði, ásamt 12 mánaða hreyfðu meðaltali:
Smella má á þetta graf fyrir útprentanlegt eintak í nýjum glugga.
Helstu atburðir:
September 2003: Flutti til Reykjavíkur til að stunda nám.
Júlí 2005: Eignaðist kærustu. Færslurnar fóru í kjölfarið fram af bjargi.
Maí 2006: Útskrifaðist úr háskólanum. Allt á uppleið.
Júní 2007: Hætti með kærustu. Hafði gríðarlega góð áhrif á bloggið.
Janúar 2008: Blogg fer úr tísku. Fólk fer að stunda Facebook meira.
Mars 2010: Breytti útlitinu á blogginu. Virðist ekki hafa haft nein áhrif á virkni mína.

Síðan í ágúst 2007 hefur færslum fækkað jafnt og þétt. Nú er svo komið að ég næ varla 20 færslum á mánuði, sem er frekar dapurt.

Hér eru færslur á mánuði hvert ár:
2006 var versta bloggárið, fyrir utan 2009 og 2010, auðvitað.
Þarna sést best að ég er ekki að standa mig nógu vel. Þetta ár er það versta hingað til hvað færslufjölda varðar.

Hér er svo meðalfærslufjöldi á mánuði:
Er að spá í að fá mér þetta graf sem húðflúr yfir bakið á mér.
Tímabilið apríl-júní eru áberandi verstu bloggmánuðirnir. Mögulega vegna veður.
Júlí er með virkari mánuðum. Alveg örugglega vegna þess að þá á ég afmæli. Það gefur fátt mér meiri ánægju en að tala um sjálfan mig og afmælið mitt.
Janúar er líka mjög virkur mánuður. Þá ætla ég mér alltaf að taka mig á í skrifum. Það endist ekki lengi, þar sem febrúar eru mjög slakur.

Niðurstaða: Bloggið er að deyja. Aðsóknin hefur minnkað og það sem verra er; færslum fækkar jafnt og þétt. Hér þarf byltingu! Þegar nánast allir bloggarar sem ég þekki eru hættir eða í "pásu" finnst mér rétt að einhver haldi áfram.

Ég þarf bara að hysja upp um mig buxurnar og skrifa oftar. Jafnvel bæta við myndabloggi og sameina þessu. Sjáum til hvað gerist.