fimmtudagur, 31. maí 2007

Ekki veit ég hvað ég hef verið að væla síðustu daga. Í dag fékk ég nýja músarmottu frá 365 að gjöf. Ekki nóg með það heldur fékk ég líka nýjan, hnausþungan penna merktan 365 og stressbolta að kreista til að forðast blóðstorknun. Kemur sér mjög vel þar sem síðasti bolti er orðinn á stærð við baun (Græna baun. Ekki rauða).

Lífið er svo sannarlega ljúft.

miðvikudagur, 30. maí 2007

Hver er andstæðan við mannvonska?

Ég allavega varð vitni að því orði í kvöld þegar ég keyrði heim úr bíóferð og mætti bíl sem blikkaði mig á fullu. Þegar ég hægði ekki á mér þá blikkaði hann af enn meiri ákafa. Þá hægði ég á mér.

Og viti menn, á bakvið malarhaug leyndist lögreglubíll að reyna að veiða fólk á of miklum hraða. Ég slapp, þökk sé mannvininum (eða flogaveika bílstjóranum) [ég var kannski, mögulega, ef til vill, á örlítið ólöglegum hraða. Og kannski ekki.]

Andstæðan við mannvonsku er lögguuppreisn. Takk lögguuppreisnarsinni!

þriðjudagur, 29. maí 2007

Mér bauðst nýlega vinna á Egilsstöðum, þar sem:

* Alltaf er sólskin
* Ég get lyft og synt í frábærri og stresslausri aðstöðu
* Allt er í göngufæri
* Fjölskyldan er
* Kærastan er
* Ég get æft körfubolta með félagi
* Ég get slegið gras og fengið borgað fyrir það (með annarri vinnu)
* Lífið er ljúft!

Hinn kosturinn var að búa í Reykjavík þar sem:

* Ég bý einn
* Ég þekki engan
* Sólskin er álíka sjaldgæf og rigning á austurlandi
* Hver einasta aðgerð felur í sér stress (dæmi: búðarferð)
* Ég vinn inni, alla daga, alltaf
* Ég sakna austurlandsins

Ég valdi á sínum tíma seinni kostinn. Ég er ekki alveg viss af hverju. Mig grunar þó að ég hafi verið að reyna að bæta heimsmetið í slæmri ákvörðunartöku. Ég allavega hata sjálfan mig og skyndiákvörðunartökugetu mína. Svo sakna ég líka austurlandsins, meðal annars.

sunnudagur, 27. maí 2007

Í dag náði ég þeim merka áfanga að tala ekki við eina einustu manneskju í persónu. Ef fer fram sem horfir mun ég finnast í lok sumars (verð einn í sumar í Reykjavík), alskeggjaður, illa lyktandi og talandi mitt eigið tungumál.

Ef þið sjáið skrítið orðalag á þessum síðulingi, ekki örvænta. Þetta er allt hluti af spádómnum.

föstudagur, 25. maí 2007

Þar sem ég á að heita viðskiptafræðingur er orðin talsverð pressa á mér að finna viðskiptatækifæri. Ég er ítrekað spurður af fólki: „Ertu ekki alltaf að viðskiptast?“.

Því svara ég venjulega neitandi en ekki lengur. Ég ætla að finna viðskiptatækifæri og það strax!

Nýlega var mér sagt að í nöglum fólks sé uppsafnað vítamín. Þessa áratugina ríður yfir landið gríðarleg heilsubylgja.

Hér er tækifæri.

Á Íslandi búa 307.672 manns. Að meðaltali er hver með 3,99 útlimi (gróf áætlun) og hver útlimur með 5 fingur/tær. Hver nögl vex 0,01 cm á dag (skv. wikipedia). Alls vaxa neglur Íslendinga því um 122.761 cm á dag.

Ef ég gæti, með auglýsingaherferð upp á kr. 10,5 milljónir, sannfært alla landsmenn til að senda mér neglurnar sínar þegar þær eru klipptar, get ég gert eftirfarandi:

Framleitt naglasnakk!
Skilað gríðarlegum hagnaði á ári.
Orðið ríkur.

Í hverjum pakka væru 200 cm af nöglum. Þannig gæti ég framleitt 614 pakka á dag.

Ég myndi selja hvern pakka á kr. 700. Allir pakkar myndu seljast upp, að sjálfsögðu. Kostnaðurinn við þessa framleiðslu væri kr. 350 á hvern pakka.

Þetta myndi gefa mér hagnað upp á kr. 214.900 á dag.

Sala naglasnakksins færi fram 360 daga ársins, sem gera rúmar 77 milljónir í hagnað á ári. Eftir afborganir af startkostnaði (skipt niður á 10 ár), er nettó hagnaður rúmar kr. 76 milljónir!

Ath. enginn skattur er með í dæminu.

Hér eru útreikningarnir:

fimmtudagur, 24. maí 2007

Ég var að fá afhent bensínafsláttarkort frá Olís. Á því stendur að gegn framvísun miðans fái ég 5 króna afslátt á lítrann í eitt skipti. Mjög rausnarlegt af þeim.

Ég dreg þá ályktun að þessi afsláttur sé veittur í þjónustu, en ekki sjálfsafgreiðslu þar sem sjálfsali getur ekki tekið við svona pappír.

Samkvæmt heimasíðu Olís rukkar fyrirtækið að meðaltali kr. 121 á hvern lítra í sjálfsafgreiðslu. Í þjónustu rukkar fyrirtækið kr. 127,9 á lítrann. Munurinn er kr. 6,9 á lítrann. Ég væri því að greiða kr. 1,9 meira en ég geri venjulega ef ég nota þetta afsláttarkort.

Bíllinn sem ég hef til afnota, en Sjóvá á, [tæknilega séð á Sjóvá ca 60% í honum þar sem ég borga af honum] tekur 50 lítra. Ef ég myndi fylla bílinn myndi ég vera að greiða um kr. 95 aukalega á hvern fylltan tank.

Þennan afsláttarmiða er aðeins hægt að nota á einni ákveðinni Olísstöð. Hún er ca 2 km úr leið fyrir mig (4 km ef leiðin til baka er talin með). Bíllinn minn eyðir ca 9 lítrum á hundraðið innanbæjar sem segir mér að hann er að eyða 0,36 lítrum á þessari aukaleið (og til baka). Ef bensínið er á kr. 122,9 (með afsláttarkortinu), kostar þetta mig 44,2 krónu aukalega.

Ég ek að meðaltali á ca 40 km hraða, með bið á ljósum og þess háttar innifalið. Ég er því 6 mínútur á leiðinni þangað og til baka. Ég tek 5 mínútur í að láta dæla á bílinn og að greiða fyrir. Alls 11 mínútur. Ég met tíma minn á ca kr. 1.500/klst, þar sem ég er örlátur. Þetta kostar mig því kr. 275 í frítíma.

Alls kostar það mig því kr. 139 aukalega í beinhörðum peningum að nýta mér þetta afsláttarkort. Ef ég tek frítíma minn með gera þetta kr. 414.

Takk Olís!

miðvikudagur, 23. maí 2007

Ný stjórn bara komin. Til að drepa fólk ekki úr leiðindum ætla ég ekki að tala meira um hana.

Það var ekkert.

þriðjudagur, 22. maí 2007

Í fyrradag fór Soffía til Mexíkó og verður hún þar í tvær vikur. Eftir þessar tvær vikur fer hún austur að vinna og verður þar í sumar.

Ég bý því einn þessa dagana og veit ekkert hvað á að gera við tímann. Ég var að spá í að hnoða hann og baka eitthvað úr honum en það er víst ekki hægt.

Svo datt mér það snjallræði í hug í gær að taka til. Það tókst mér ekki, vegna þess að ég sótti nýjustu seríu Derren Brown atferlissérfræðings, sem ber heitið Trick or Treat og horfði á hana alla. Mæli með henni.

Í dag er planið að ganga Esjuna og jafnvel skreppa í bíó á eftir. Ef það gengur jafnvel og í gær að fylgja plönum eftir, þá mun ég í mesta lagi skreppa í sturtu eftir vinnu áður en ég sofna.

sunnudagur, 20. maí 2007

Ég sá myndina Zodiac á fimmtudaginn í sérstakri forsýningu fyrir kóngafólk og tölfræðinörda landsins. Hér er dómurinn:

Um myndina: Leikstýrð af David Fincher, sem leikstýrði Seven og Fight club. Fjallar um fjöldamorðinga sem drepur handahófskennt og gortar sig af því opinberlega undir nafninu Zodiac (Ísl.: Grallarinn).

Leikarar: Jake Gyllenhaal, Mark Ruffalo og Robert Downey Junior svo einhverjir séu nefndir. Alls leika um 75% af íbúum Hollywood í myndinni. Allir standa sig mjög vel.

Skemmtun: Ekki mjög há. En leikstjórinn fangar stemninguna vel og tíðarandann. Hann fangaði þó ekki alveg athygli mína.

Lengd: Myndin er næstum 6 tímar að lengd. Hér um bil 3 tímar, nánar tiltekið. Alltof löng mynd.

Annað: Í myndinni er spilað lag með Donovan sem ég varð næstum ástfanginn af. Lagið heitir Hurdy Gurdy Man og er hægt að hlusta á það hér [Texti hér].

Niðurstaða: Myndin er vel leikin og leikstýrð og efnið er áhugavert framan af en þynnist út með tímanum. Síðasti klukkutíminn er frekar daufur. Mæli með myndinni fyrir fólk sem hefur gott setuúthald og nægan tíma á sínum höndum.

3 stjörnur af 4. Ekki besta mynd Fincher.

fimmtudagur, 17. maí 2007

Ég hef bætt við fjórförum á fjórfarasíðuna. Að þessu sinni eru fjórfararnir frekar óvenjulegir. Þeim kynntist ég í bók sem ég keypti nýlega og ber heitið Pocket World Atlas.

Kíkið á þá hér, en ekki hér og alls ekki hér.

miðvikudagur, 16. maí 2007

Nýlega var mér bent á að það væri eitthvað vesen með athugasemdakerfið á síðunni, að fólk geti ekki alltaf skrifað athugasemdir. Þessi færsla er skrifuð með það í huga að kanna þetta nánar.

Vinsamlegast smellið hér og takið þátt í könnun. Takk fyrir. Ég laga vandamálið, ef það er til staðar.

þriðjudagur, 15. maí 2007

Hvernig stendur á því að allar númerplötur hvítra Subaru Station bíla byrja á bókstöfunum MS? Ekki nóg með það heldur eru þeir allir eins ryðgaðir og enda númeraplötuna á 138. Þetta getur ekki verið tilviljun.

mánudagur, 14. maí 2007

Ég svaf í um 4 tíma í nótt vegna NBA úrslitakeppninnar. Í nótt unnu Jazz (mitt lið) Warriors (einhvers annars lið) sannfærandi á útivelli. Allavega, ég er með þreyttari mönnum í dag. Svo þreyttur að ég held ekki jafnvægi, sem er frekar skrítið þar sem ég sit.

Allavega, hérmeð tilkynnist að ég mun eyða sumrinu í Reykjavík að mestu, vinnandi hjá 365. Þetta verður fyrsta sumarið sem ég eyði ekki á Egilsstöðum síðan ég bjó í Trékyllisvík árið 1989.

Umorðað: Það verður ekkert sumar hjá mér í sumar.

sunnudagur, 13. maí 2007

Risessa nokkur, 8 metra há strengjabrúða, arkaði um miðbæ Reykjavíkur síðustu daga og reyndi að stöðva pabba sinn sem hafði lagt allt í rúst (efnahagur Reykjavíkur er í molum eftir það ævintýri). Sjá frétt m.a. hér.

Þessi Risessa er gríðarlega vinsæl, sérstaklega á meðal ungra karlmanna. Heimspekingar og sálfræðingar víðsvegar um heiminn telja að ástæðan fyrir vinsældum á meðal ungra karla sé sú að Risessa þessi fangi ágætlega þá stemningu sem myndaðist við æskuárin þegar þeir hafa leikið sér með stríðsleikföng. Það, eða vegna þess að Risessan er ekki í neinum nærbuxum. Ekki að það skipti neinu máli. Þetta er list.

föstudagur, 11. maí 2007

Í gær fann ég linsu í auganu á mér. Hana fann ég ca 4 tímum eftir að ég taldi mig hafa glatað henni í sturtuklefanum eftir körfuboltaæfingu kvöldsins. Linsutapið fannst mér frekar grunsamlegt þar sem ég var með mjög slæman verk í auganu sem linsan átti að vera í. Ástæðan var sennilega sú að hún snerti á mér heilann.

Þetta opnar mér ýmsa möguleika. Aldrei áður hefur mér dottið í hug að leita í auganu á mér að einhverju sem ég týni.

Ég týndi mikilvægri kvittun um daginn. Ég virðist ekki finna hana, ennþá, í auganu. Svo tapaði ég sakleysi mínu fyrir nokkrum klukkutímum. Hver veit, kannski er það í auganu.

fimmtudagur, 10. maí 2007

Utah Jazz vann síðastliðna nótt annan leikinn gegn Golden State og eru nú yfir 2-0. Leikurinn var einn sá mest spennandi sem ég hef um ævina séð. Ég vil ekki valda ykkur andlegum niðurgangi með meira íþróttatengdu, fyrir utan eftirfarandi setningum og mynd:

Andrei Kirilenko er besti varnarmaður NBA deildarinnar og ég vil eignast börn með honum. Ég vona að Soffía taki vel í hugmyndina. Ég hef ekki hugað að barneignum síðan John Stockton var og hét. Hér er mynd af rússneska goðinu Kirilenko:

Desktopmyndin mín.
Til gamans má geta þess að þessi mynd blasir við mér þá daga sem ég kveiki tölvunni minni, á desktoppinu.

Hvern er ég að gabba? Hún blasir við mér hvern einasta dag, alltaf. Á mynd. Í veskinu mínu.

miðvikudagur, 9. maí 2007



Hrós gærdagsins fær Ari Matthíasson fyrir að svara spurningu dagsins í Fréttablaði gærdagsins með sprelli. Sprellið felur í sér grín með minnihlutahóp og minnimáttarkenndarhóp, sem gæti valdið því að fólk í þessum hópum verði brjálað. Hann fórnar þar með geðheilsu sinni fyrir gott grín. Skál fyrir þér, Ari.

Þetta er hrós gærdagsins af því ég gleymdi að henda þessu inn þá.

þriðjudagur, 8. maí 2007

Þetta pólitíska próf tók ég á vef Bifrestinga einhverra. Stórsniðugt. Hér er niðurstaða mín:

Stuðningur við Sjálfstæðisflokk: 0%
Stuðningur við Framsóknarflokk: 30%
Stuðningur við Samfylkinguna: 37.5%
Stuðningur við Vinstri-Græna: 62.5%
Stuðningur við Frjálslynda flokkinn: 20%
Stuðningur við Íslandshreyfinguna: 40%

Þetta er mín umsögn um þetta: ó boj!

Allavega, endilega allir (lesendur) taki prófið [hérna] og birtið niðurstöður í athugasemdum eða ég bið guð um að drepa ykkur, með mannafórnum.

sunnudagur, 6. maí 2007

Í nótt gerði ég eitthvað sem ég hef aldrei gert áður. Ég dansaði [áfengis]edrú heima hjá mér klukkan rúmlega 4 um morgun af svo mikilli innlifun að ekki einu sinni dauðadrukknar mellur, haldandi að þær séu "the shit", komast með tærnar þar sem ég hef hælana. Ég dansaði þó algjörlega hljóðlaust, þar sem ég vildi ekki vekja Soffíu.

Ástæðan er annarsvegar sú að ég borðaði um 40 kíló af nammi í kvöld og hinsvegar að liðið mitt, Utah Jazz, vann 7. leikinn gegn Houston Rockets í nótt, en ég horfði á hann á netinu, öskrandi mig hásan í huganum. Þvílík alsæla! Jazz komast því í næstu umferð og mæta Golden State Warriors.

Ég varð að skrifa þetta niður svo ég geti séð á morgun hvort mig var að dreyma eða ekki. Góða nótt.

fimmtudagur, 3. maí 2007

Ég rakaði mig í gærkvöldi með úreltu rakvélablaði. Ég bið Reykjavík afsökunnar á rauða sjónum í dag. Ég bið líka andlitið á mér afsökunnar fyrir misþyrminguna.

Ef ég lifi þetta af þá ætla ég að kaupa mér nýja rakvél fyrir næsta rakstur, þar sem þetta er henni að kenna en ekki klaufaskapnum í mér.

miðvikudagur, 2. maí 2007

Það er lítið að frétta þessa dagana. Hér er svona það helsta:

1. Rússar réðust inn í veldi mitt og hertóku nokkrar borgir. Ég tók upp herhvaðningu, við litla hrifningu, en náði þó að hrekja þá til baka og gott betur. Þá urðu aðrar þjóðir ósáttar og lýstu yfir stríði. Ég er í stökustu vandræðum.

2. Ég hef verið að spila Civilization IV tölvuleikinn svo mikið undanfarið að ég veit varla hvað er raunverulegt og hvað ekki.

3. Ég flaug upp á Kárahnjúka í nótt og synti í lóninu, áður en ég fékk mér hraðbát og fór í kapp við einhvern. Fín afþreying.

4. Mig dreymdi að ég væri skrifandi þessa færslu rétt í þessu í vinnunni. Þvílík martröð.

þriðjudagur, 1. maí 2007

Mig hefur alltaf langað til að eiga svalt gælunafn eins og "Ljónið" ef ég væri skapstór (og/eða rauðhærður) eða "Marglyttan" ef ég væri sérstaklega liðugur (og/eða glær).

Ég hef þó komist að því að þetta gerist ekki á sjálfu sér. Ég hef því ákveðið að breyta nafninu mínu í Jón og byrja að reykja. Ofan á þetta mun ég svo breyta um útlit mjög oft. Ef ég get vanið mig á þann ósóma að reykja Camel, þá er mér ekkert til fyrirstöðu að verða kallaður "Kamel-jón" eða "Kamelljónið".

Ég gef fólki þannig möguleika á tveimur gælunöfnum sem eru mjög svipuð en hljóma eins. Spennandi, heilsulausir og illa lyktandi tímar framundan!