þriðjudagur, 24. ágúst 2010

Ranghugmyndir háskólaáranna

Þegar ég var í Háskóla Reykjavíkur að læra Viðskiptafræði lét ég mig dreyma um að vera búinn í námi og lifa góða lífinu. Eftirfarandi draumar voru í aðalhlutverki:

1. Fundir
Ég hlakkaði til að láta til mín taka í atvinnulífinu með allskonar fundasetu og ráðstefnum ýmiskonar.

2. Peningar
Að námi loknu ætlaði ég aldrei aftur að borða núðlur og svelta mig heilu dagana vegna peningaleysis en LÍN rétt skaffar lán fyrir leigu og klósetpappír. Ég ætlaði að lifa lífinu, kaupa mér bíl, íbúð og kellingar.

3. Sumarfrí
Um leið og prófin kláruðust á vorin var farið að vinna og unnið framyfir fyrsta skóladag. Ég upplifði því aldrei almennilegt sumarfrí þegar ég var í námi. Ég gat ekki beðið eftir að fá heilar fimm vikur af sumarfríi sem ég gat ráðstafað eins og ég vildi.

Nú eru rúm fjögur ár síðan ég útskrifaðist sem viðskiptafræðingur. Ég fékk strax góða vinnu og hef haldið henni, ótrúlegt nokk.

Hér er sannleikurinn um þessi draumaatriði:

1. Fundir
Ekkert er jafn andstyggilegt og jafn mikil tímaeyðsla og fundir. Ég forðast þá eins og klamidíu. Þeirra í stað reyni ég að koma sem mestu í verk og notast við e-mail samskipti sé eitthvað óljóst.

2. Peningar
Þegar námi er lokið tekur við að greiða niður skuldir námsins. Það, ásamt snarhækkuðu verðlagi, veldur því að ég borða enn núðlur í hvert mál og svelti mig þess á milli. Ég á þó fyrir leigu og klósetpappír. Ég mæli með því að fólk vinni með skóla.

3. Sumarfrí
Hvað hef ég, einhleypur, barnlaus og peningalitli maðurinn við sumarfrí að gera? Ekkert. Þess utan er nóg að gera í vinnunni svo erfitt getur verið að taka lengri frí. Ég tek kannski hálfan dag í frí annað slagið til að ná upp svefni. Það er feikinóg.

2 ummæli:

  1. Eins og talað úr mínu hjarta!

    SvaraEyða
  2. Það gleður mig, einhverra hluta vegna, að aðrir séu líka í tilvistarkreppu.

    SvaraEyða

ATH. Þegar athugasemd hefur verið rituð þarf stundum að staðfesta hana, eftir að smellt hefur verið á "Post Comment". Hafið það í huga.