miðvikudagur, 30. apríl 2003

Sjálfsvitund mín er öll að koma til. Nýlega uppgötvaði ég mér til skelfingar að ég er ekki kúl, í kvöld áttaði ég mig svo á því að ég er hálf ósýnilegur, eitthvað sem ég hef alltaf viljað nema kannski á annan hátt.
Ég ber ekki af í neinu, hvorki útliti né afrekum. Ég geng í dökkum fötum, fer örsjaldan á djammið og vinn á skattstofunni við skrifborð og þarf því ekki að afgreiða neinn. Ég keyri venjulegan bíl sem kallar ekki á athygli, versla í hraðbúðinni og aldrei fyrir klukkan 11 á kvöldin, leigi í kjallara sem fáir vita að búið er í og skokka/stunda líkamsrækt á fáförnum slóðum eða á þeim tíma þegar sem fæstir eru á ferli. Það eina sem gefur vísbendingu um að ég sé á lífi er þessi síða mín sem ég reyni að uppfæra sem oftast, en samt ekki því hver sem er gæti verið að skrifa þetta með mínu lykilorði. Í raun hef ég sáralitla þörf fyrir mannleg samskipti, sem betur fer. Ef ég legg saman þennan ofurhæfileika minn að vera ósýnilegur og þá staðreynd að ég er ekkert kúl þá fæ ég út að ég er minnst spennandi maður á landinu og þótt víðar væri leitað. Ekki amalegt það fyrir smástrák frá Trékyllisvík.

0 athugasemdir:

Skrifa ummæli

ATH. Þegar athugasemd hefur verið rituð þarf stundum að staðfesta hana, eftir að smellt hefur verið á "Post Comment". Hafið það í huga.