fimmtudagur, 30. september 2004

Skriffinnskan er að drepa samfélagið. Nýlega sótti ég um húsaleigubætur. Eftirfarandi þurfti ég að gera til að ná því:

* Fá kvittun í tvíriti fyrir skólagöngu minni á skrifstofu HR.
* Fá húsaleigusamning á löggildum pappír hjá BÍSN.
* Fara með húsaleigusamninginn og láta þinglýsa honum(tekur 2 daga) hjá sýslumanni.
* Fá íbúðavottorð og láta flytja aðsetur mitt á Hagstofunni.
* Fá afrit af skattaskýrslu minni hjá Ríkisskattstjóra.
* Fá afrit af launaseðlum hjá Fjársýslu Ríkisins.
* Sækja löggildan húsaleigusamninginn.
* Fylla út umsókn fyrir húsaleigubótunum fyrir 15. þess mánaðar sem ég vil fá borgað fyrir.
* Skila inn öllum ofangreindum skjölum hjá Félagsþjónustu Reykjavíkur.

Til gamans má bæta því við að ég er bíllaus í borginni. Ef ekki væri fyrir Óla Rú, einkabílstjóra, þá væri ég strætóreyndasti maður norðurlanda eða mesti göngugarpur landsins um leið og ég væri fallinn í öllu hérna í skólanum.
Í fyrra var hlegið mikið að mér þegar ég vissi illa(/alls ekki) hvernig stöðumælar virka. Meira var hlegið þegar ég sagðist vera frá Egilsstöðum og enn meira þegar ég sagði að engir stöðumælar væru þar. Reykvíkingarnir voru semsagt að hlæja að því að ég væri frá litlum og friðsælum bæ þar sem veðrið er án efa best á landinu auk þess af því ég kunni illa á tól hvers verk er að rukka fólk um að leggja bílnum sínum(!). Hversu illa þarf að vera komið fyrir samfélaginu þegar stöðumælar eru taldir eðlilegir? Ég mun aldrei borga fyrir að leggja bílnum mínum neinsstaðar, nema kannski um borð í ferju sem er reyndar ólíklegt þar sem í útlöndum er þetta brenglaða stölumælaviðhorf í hávegum haft.

Það var reyndar hlegið mest þegar ég sagði engin umferðarljós vera á Egilsstöðum. Ég kýs að tala ekki um umferðarljós að svo stöddu þar sem blóðþrýstingurinn hækkar grunsamlega mikið við að hugsa um þau.

miðvikudagur, 29. september 2004

Við nánari skoðun á núðluumbúðum kom í ljós að núðlur, mín helsta uppistaða, eru um 20% fita eða 20 grömm í hverjum pakka. Þetta segir mér að ég hef látið í mig um 15 kíló af fitu síðasta mánuðinn, bara í gegnum núðluneyslu.
Einnig segir þetta mér að ég hafi brennt um 15 kílóum af fitu á því að sitja, læra, horfa á sjónvarp og fara í sturtu.

Þrátt fyrir þetta fitumagn núðlanna mæli ég með þessari fæðu. Hún er hræódýr ef verslað er í bónus og margborgar sig þó svo að hver núðlumáltíð stytti líf þitt um rúmlega hálftíma, sem leiðir af sér að ég muni deyja eftir ca þrjú korter.


Anchorman / Ísl: Akkerismaður


Fyrir rúmri viku sá ég erótísku spennugamanmyndina Anchorman í bíó í fríðu föruneyti Óla og frú en myndin skartar Will Ferrell í aðalhlutverki. Hann skrifar einnig handritið og kemur engum á óvart þar sem söguþráðurinn er bjánalegur, á góðan hátt.
Myndin fjallar um fréttaþul á áttunda áratugi síðustu aldar sem er, eins og allir karlmenn, gegn uppgangi kvenna í karlmannsstarfsgreinum. Þegar kona kemur svo til starfa á fréttastofunni ákveða karlmenn stofnunarinnar (semsagt allir) að koma henni frá.
Það er eitthvað við Will Ferrell sem fær mig til að hlægja óþolandi mikið, jafnvel þó að handritið sé vonlaust eða söguþráðurinn oft gjörsamlega út í hött. Ég mæli því með því að fólk sjái þessa mynd, þrátt fyrir oft slæman leik, verra handrit og stundum friendshúmor (sem er lægsta plan húmors).
Tvær og hálf stjarna af fjórum.

þriðjudagur, 28. september 2004

Það er ekki laust við að vottur af þunglyndi hafi læðst í geðsjúka hausinn minn í kjölfar þess að ég skil ekkert í því tölfræðiverkefni sem ég á að vera að vinna þessa dagana. Ég kýs þó að líta á björtu hliðarnar, reyna að hafa gaman af þessari andlegu lægð og hugsa bara um börnin í afríku sem hafa ekkert tölfræðiverkefni til að þunglyndast yfir.
Heilræði dagsins eru eftirfarandi og í boði Eimskipa, styrktaraðila veftímaritsins:

Hlustið ekki á þetta lag.
Lesið ekki þennan texta.
Skrifið ekki í gestabókina.
Látið mig ekki vera.
Keyrið ekki varlega.

Svo er bara að sjá hvort öfug sálfræði virki á fólkið.

mánudagur, 27. september 2004

Í dag borðaði ég ekkert nammi og mér hefur aldrei.....zzzzzz.....
Sökum geðsjúkra anna get ég ekki skráð færslu í dag, heldur í fyrsta lagi í kvöld og örugglega á morgun.

Þá er ég ekki að tala um fullt af geðsjúkum stelpum sem heita Anna heldur er mikið að gera hjá mér í náminu, ótrúlegt nokk.

Þangað til næst; skemmtið ykkur við að skrifa í gestabókina ellegar haldið áfram að skoða síðuna í skjóli nafnleyndar eins og verstu dusilmenni.

Lifið heil.

sunnudagur, 26. september 2004

Horfið á þetta og segið svo að það sé ekkert grunsamlegt við þennan atburð.
Í gær átti nýji gsm síminn minn, sem ég fékk sendan frá bróðir mínum í Svíþjóð, tveggja vikna afmæli í tollinum en sökum einskærrar smámunasemi neita tollverðir að láta mig fá hann. Ég fer ekki nánar út í kröfur þeirra en ég held ég geti sagt án þess að fá samviskubit að tollverðir eru fífl.
Allavega, til hamingju með afmælið nýji sími.
Fyrir næstum því 10.000 gestum kom hundraðþúsundasti gesturinn inn á síðuna. Það var enginn annar en Jón Bóndi sem sigraði í keppninni og fær því frá mér kók og prins næst þegar ég hitti hann, ef ég forðast hann ekki til að þurfa ekki að greiða það út. Til hamingju Jón og til hamingju ég með 100.000 gesti.
Hver er munurinn á því að keyra um villtustu grundir Afríku í kringum ljón og önnur villidýr og því að keyra niður Laugarveginn um miðnætti á laugardagskvöldi? Á báðum stöðum er stranglega bannað að styggja villidýrin á einhvern hátt og í báðum tilvikum er eða yrði ég stjarfur af hræðslu. Þannig að munurinn er helst sá að villidýrin á Laugarveginum eru full, hin ekki.

Samt rúntaði ég Laugarveginn í gær með Markúsi mikla meistara. Takk fyrir það Markús.

laugardagur, 25. september 2004

Í dag gaf ég uppdópuðum, blindfullum og hálffroðufellandi ræfli allt mitt lausafé eða um 275 krónur á leið minni í skólann eftir að hann tók í hendina á mér og bað mig vingjarnlega. Ég þarf því að lifa daginn af án þess að versla mér kók og prins í sjálfsölum háskólans, bara af því ég er svo góður..

..eða drulluhræddur um að hann myndi drepa mig.

föstudagur, 24. september 2004

Einn vanmetnasti bloggari samtímans er án efa Sigmar Bóndi. Hann er með mjög smekklega uppsetta síðu, hæfilegt magn af hlekkjum, skemmtilega litasamsetningu, talsvert af myndum og stórkostlegt innihald.
Smellið hér, lesið og skrifið eitthvað fallegt til hans, annað hvort í gestabókina (svarthvíta myndin til hægri) eða í ummælin fyrir neðan hverja færslu. Ef þið kjósið að gera það ekki kasta ég einu stykki af bölvun á ykkur eða einhverju sambærilegu.
Ég gekk, eins og alltaf, í skólann í morgun sem er ekki í frásögu færandi nema fyrir að það var úrhellisrigning, stórhættulega hvasst í veðri og ég í yfirhöfn sem ekki er hægt að renna upp. Einnig var ég nývaknaður og allt stefndi í að ég myndi verða of seinn í skólann, enda reiknaði ég ekki með þessu veðri. Þegar ég svo næstum fauk út í veður og vind á einum tímapunkti hugsaði ég að það gæti varla gengið verr að komast á milli staða en einmitt þarna. Þá varð mér litið á Kringlumýrarbrautina, sá þar kílómetralanga bílaröð sem náði umferðaljósanna á milli, mann hálfgrátandi í risastórajeppanum sínum sem komst ekkert áfram og ég skellti upp úr.
Það besta við Reykjavík er það að maður getur alltaf haft það verra, sama hversu illa manni líður.
Þegar ég vaknaði í morgun tók ég eftir því að ég átti sms í símanum mínum. Öll sms gleðja mig óhugnarlega mikið og því glaðvaknaði ég. Það runnu hinsvegar á mig tvær grímur þegar ég sá að þetta sms var frá mér sjálfum, sent ca korteri áður. Í því stóð, orðrétt:

"Bara ótrúcegt 8atme"

Ég vona bara að ég hafi ekki sent fleirum en sjálfum mér þessi dulkóðuðu skilaboð í nótt.

fimmtudagur, 23. september 2004

Það gerist daglega að bandaríkin og nasistastefna þeirra drullar á sig langt upp á bak. Þessi frétt lætur mig klóra mér í hausnum og velta því fyrir mér hversu heimskt fólk þarf að vera til að kjósa Bush aftur, en eins og staðan er núna þá stefnir allt í að Hitler samtímans muni ná endurkjöri.
Ég mæli með lestri á þessari síðu. Þessi færsla er sérstaklega fyndin. Þarna er á ferðinni fyndnasti maður ME og þótt víðar væri leitað. Hann ber nafnið Helgi og á sömu foreldra og ég. Skemmtileg tilviljun það.
Þá er próftaflan komin í hús. Hún er eftirfarandi:

22. nóvember: Alþjóðaviðskipti.
26. nóvember: Fjármálamarkaðir.
29. nóvember: Hagnýt tölfræði.
30. nóvember: Stjórnun 1.
4. desember: Gerð og greining ársreikninga.

Sjáið þið eitthvað skrítið við hana? Stjórnun prófið er daginn eftir Hagnýtri tölfræði! Ég legg til að próftöflugerðardeildin hætti að taka inn grunnskólanemendur í starfskynningu undir eins og leiðrétti þessi fáránlegu mistök.

Annars kominn í jólafrí 4. desember sem er auðvitað undurgott og jafnvel betra ef ég finn einhverja vinnu til að dunda mér í.

miðvikudagur, 22. september 2004

Var að sjá myndband með Usher kallinum. Þar syngur hann um einhverja druslu sem hann, að sögn elskar, en auðvitað dömpar. Lagið er glórulaust og fullkomlega ömurlega leiðinlegt, illa samið og til að toppa þennan viðbjóð tekur þessi Usher sig til og dansar eins og þúsund króna hóra sem heldur að hún sé Michael Jackson.

Usher, ef þú lest þetta; ég hata þig.
Þá er komið að tölfræðiþætti veftímaritsins.

Þessi færsla er númer 1.984 frá upphafi. Í þeim 1.983 sem áður komu höfðu 131.961 orð verið rituð og settir 3.243 hlekkir í færslurnar. Það gefur mér að ég hef:

* ..bloggað 19 sinnum að meðaltali á viku..
* ..bloggað 2,7 sinnum að meðaltali á dag..
* ..drepið sjö með blogginu mínu, sært 1.242 manns og þriggja er enn saknað..
* ..skrifað að meðaltali 66,55 orð í hverri færslu..
* ..skrifað um 40,69 orð í kringum hvern hlekk..
* ..sett um 1,64 hlekki í hverja færslu..

..í þau næstum tvö ár sem ég hef verið með þessa helvítis síðu.

Geri aðrir betur og það strax, svo ég geti hætt þessari vitleysu.

þriðjudagur, 21. september 2004

Mér var að detta í hug heimsins besta viðskiptahugmynd. Í ljósi þess að mikið heilsuátak skekur heimsbyggðina hef ákveðið að framleiða heilsusúkkulaði. Það bragðast alveg eins og venjulegt suðusúkkulaði, inniheldur nákvæmlega það sama og suðusúkkulaði en inniheldur aðeins um hálfa kalóríu stykkið. Ársframleiðslan er ennfremur tilbúin en núna vantar aðeins umbúðir og gott slagorð fyrir þetta heilsusúkkulaðistykki sem mun bera nafnið "Neighbours".

Hér er mynd af ársframleiðslunni, rétt rúmum 500.000 stykkjum, í raunstærð án umbúða.

Ég mun svo selja öll stykkin á 99 krónur og þannig hagnast um 49,5 milljónir á næstunni. Öll mín vandræði eru úr sögunni.
Heiðdís Sóllilja var að koma aftur úr sumarfríinu með glænýja bloggsíðu, blindfull og full af sögum úr sumarfríinu. Með þessari breytingu sinni stefnir hún á að ná markaðsráðandi stöðu í bloggheimum en við vitum betur.

Það verður heiður að mylja hana mélinu smærra, blogglega séð, rétt eins og ég gerði við Bylgju Borgþórs sælla minninga en hún hætti nýlega allri bloggun.

Stefna mín er tekin á að rúlla þessum bloggara upp, eins og áður segir, og ná þannig einokun í bloggmálum Íslendinga.
Snjallt hjá Hagkaup að hafa bandaríska daga aðra hverja viku þegar bandaríkin hafa aldrei verið hötuð meira af landsmönnum. Ég allavega hætti við að versla þar þegar ég sá varla vörurnar fyrir bandarískum fánum í gær.

Þarna eru greinilega markaðssérfræðingar á ferð.

mánudagur, 20. september 2004

Í Háskóla Reykjavíkur eru þrjár brautir sem eru þess virði að taka eftir. Þær eru lögfræðideild, viðskiptafræðideild og tölvunarfræðideild. Þessar brautir eru ótrúlega ólíkar, ekki bara hvað nám varðar heldur einnig hávaða, þeas frá vinahópum í hverri deild. Margur hefur hlegið í opið geðið á mér þegar ég segi frá þessum gífurlega mun en ekki lengur. Ég hef nú, með aðstoð sænskra vísindamanna, sannað mál mitt svo ekki verður um villst. Tölvunarfræðideildin er langháværust og lögfræðingarnir lágværastir en þetta snýst við um helgar en þá er Tölvunarfræðideildin sofandi á meðan lögfræðingar drekka frá sér menntun vikunnar. Viðskiptafræðingar eru svo þarna einhversstaðar mitt á milli. Fyrir neðan eru öll gögnin sem notast var við til að fá þessa dramatísku niðurstöðu:





Mælt í hávaðastuðli Finns.tk (hæst 10, lægst 0).
©the swedish scientist association


Jólaleikur veftímaritsins er hafinn!


Í hagnýtri tölfræði, áfanga sem ég tek á þessari önn, er fólk að býsnast yfir því að finna ekki hrópmerkt takkann (!) á Casio fx-9750G plus vasareikninum sínum en hann margfaldar töluna sem sett er fyrir framan hrópmerkinguna með sjálfri sér og öllum þeim tölum sem eru lægri en hún. Dæmi: 5! = 5*4*3*2*1 = 120.

Allavega, eftir að hafa vafrað um í vasareikninum í dágóða stund í dag fann ég þessa skipun grafna djúpt í iðrum minnisins. Nú vil ég gjarnan miðla þessum upplýsingum til samnemenda minna en um leið ekki koma upp um mig sem vasareikniskoðandi nörd. Hérmeð hefst því jólaleikur veftímaritsins en hann er tvískiptur. Annarsvegar að hanna búning fyrir mig (og senda inn þrjár nákvæmlega eins flíkur) og hinsvegar að finna flott nafn á mitt annað sjálf sem mun svífa um ganga HR, hjálpandi fólki við að finna hrópmerkingu á Casio fx-9750G plus vasareikninum sínum og stelpum að fara af msn með því einu að heilsa þeim.

Í verðlaun er ekkert að þessu sinni. Allir að taka þátt! Það er til einskis að vinna.

sunnudagur, 19. september 2004



Um það leiti sem Polly kom meðfram.


Á föstudagskvöldið sá ég myndina Along came Polly eða Meðfram kom Polly eins og það yfirfærist.
Myndin fjallar um ótrúlegan töffara sem verður hrifinn af stelpu sem er áhættufíkill eftir að hafa verið svikinn af eiginkonu sinni í brúðarferðinni, enda um bölvaða druslu að ræða.
Í aðalhlutverkum eru Ben Stiller og Jennifer Aniston. Þau eru bæði þekkt fyrir að vera með nákvæmlega sömu taktana í öllum sínum myndum. Í Stillers tilfelli er það í lagi þar sem hann er skondinn en það verður dulítið þreytandi til lengdar með Aniston.

Allavega, nokkuð fyndin mynd, tvífari minn að sumu leiti sem aðalkarakter og rassinn á Jennifer Aniston í einni senu flengdur í nærmynd. Er hægt að biðja um meira? Já, ca 2 stjörnur í viðbót.

Tvær stjörnur af fjórum.
Þá er komið að kennslustund í mannasiðum fyrir Reykvíkinga númer tvö; Hvernig á að biðjast afsökunar.

Einn er sá siður sem mannasiðað fólk hefur tamið sér frá því að við fluttum úr trjánum yfir í torfkofana er að biðjast afsökunar eða fyrirgefningar ef við gerum öðrum eitthvað, hversu smátt sem það er. Með setningunni "fyrirgefðu" eða "afsakaðu" sem beint er að viðkomandi fórnarlambi er gerandi að biðjast velvirðingar á þeirri aðgerð sem átti sér nýlega stað og þannig óbeint að segjast sjá eftir því enda um slys að ræða yfirleitt. Tökum sannsögulegt dæmi:

Einstaklega fallegur maður að austan situr með fartölvuna sína í kennslustund og fylgist ákaft með ásamt því að fylgjast með glærunum á tölvuskjánum sínum. Reykvísk stelpa fyrir framan hann teygir vel úr sér og rekur sig í tölvuna svo hún hálf lokast. Hún lítur til baka, fnussar og snýr sér aftur að leggja kapal í sinni tölvu. Þarna var skaðinn ekki mikill fyrir einstaklega fallega manninn að austan en til að vita að gerandinn sé ekki úrþvætti og dópisti hefði verið betra fyrir hann að fá afsökunarbeiðni á borð við "æ fyrirgefðu" eða jafnvel bara "sorrí". Engin kom þó afsökunarbeiðnin. Lagaði því einstaklega fallegi maðurinn að austan tölvuna og hélt áfram að hlusta á kennarann, með tárin í augunum.

Þá verður ekki fleira í þættinum að sinni. Veriði sæl.

laugardagur, 18. september 2004



Aðdráttarafl myndarinnar


Fyrir rúmri viku síðan fór ég í bíó á myndina Garfield the movie. Myndin fjallar um einstaklega illgjarnan kött sem hrekur einhvern hund (á að vera Oddi) af heimilinu og fer svo að leita sjálfur að honum. Í aðalhlutverkum eru Breckin Meyer og Jennifer Love Hewitt og leika þau ágætlega.
Hér eru þó nokkur atriði sem fóru mjög í taugarnar á mér við þessa mynd:

* Grettir er ekkert líkur teiknimyndagretti, hvorki í útliti né hegðan.
* Jon er alls ekki óvinsæll hjá kellingunum eins og er í teiknimyndunum.
* Grettir skiptist á að vera algjör viðbjóður og að vera viðbjóðslega væminn.
* Hundurinn sem á að vera Oddi er ekkert líkur honum. Það sést t.d. ekkert í tunguna á honum.
* Grettir dansar(?!?!?)
* Söguþráðurinn er hannaður fyrir 2-5 ára krakka. Ekki fullorðna, eins og teiknimyndasögurnar.
* Mér stökk varla bros á vör.

Mæli með henni fyrir smákrakka. Fullorðnir: Haldið ykkur fjarri. Hálf stjarna af fjórum.

föstudagur, 17. september 2004

Hér kemur spurning til þeirra sem ætla að fara á "tónleika" með Scooter eða hvað sem þessi dýrategund heitir: Eruði að grínast?



Ég hló upphátt að þessari teiknimynd í dag þegar ég var í einni af ca 12.000 pásum mínum frá náminu. Wulffmorgenthaler eru sennilega fyndnustu teiknimyndir nútímans. Þeir mættu þó breyta nafninu svo hægt væri að muna netfangið á síðuna þeirra.
Í gær fékk ég úr mínu fyrsta verkefni á haustönn, Hagnýtri tölfræði, en ég birti einmitt forsíðuna á þessari netsíðu nýlega. Einkunnin var 10 og gríðarlegur hamingjustraumur fór í gegnum líkamann við fréttirnar þangað til ég mundi eftir þessu verkefni. Þarna var á ferðinni leikskólastærðfræði sem allir eiga að geta skilið. Það kom líka í ljós að um þriðjungur bekksins fékk hæstu einkunn og að meðaleinkunnin var 9. Nú líður mér bara ömurlega yfir þessari einkunn.

Þá er bara að gera betur næst.

fimmtudagur, 16. september 2004

Í dag var ég að fá viskuskírteini en það er sönnun þess að ég sé í nemendafélagi þessa skóla sem ég gef mig út fyrir að stunda nám við. Þetta kort er aðeins eitt af gríðarlega mörgum sem ég geng með á mér daglega. Hér er listinn:

* Debetkort fyrir neyslu.
* Visakort sem varaáætlun ef neyslukortið bregst. Engin áhætta tekin.
* Aðgangskort að skólanum. Allt verður vitlaust ef ég gleymi því.
* Strætókort. Einkabílstjóri minn neitar að hleypa mér inn nema ég sé með þetta.
* Subwaykort. Ef mér dettur í hug að fá mér grænmetissubway.
* Videokort. Virkar sem afsláttarkort af spólum sem ég tek.

Oftar en ekki er ég svo með símakort í vasanum ef ég verð innistæðulaus og án efa einhver fleiri sem koma og fara.

Þetta er þó ekkert miðað þau leyninúmer sem ég þarf að muna dags daglega en þau eru eftirfarandi:

Lykilorð að...
* ...skólavefinum.
* ...skólapóstinum.
* ...blogginu.
* ...landsbankaheimabankanum.
* ...búnaðarbankaeinkabankanum.
* ...gmail póstinum.
* ...simnet póstinum.
* ...að visakortinu (pin númerið).
* ...að debetkortinu (pin númerið).
* ...að fullt af spjallborðum á netinu.

Þessi listi er svo langt frá því að vera tæmandi að það er grátlegt.

Svo er ég að velta því fyrir mér hvað valdi því að ég geti ómögulega munað nöfn á fólki sem ég hef nýlega kynnst. Samfélagið er á hraðri leið til helvítis og ég ríð þangað á visakortinu minu.
Ég hef þróað með mér ofurhæfileika. Ég get, ólíkt öllum öðrum, látið kvenfólk hverfa af MSN spjallforritinu með því einu að smella á það og heilsa því. Ótrúlegt? Þetta er samt staðreynd. Árangur kvöldsins: Þrjár. Engin þeirra þakkaði fyrir sig.

miðvikudagur, 15. september 2004

Sveinn Elmar skrifaði nýlega í gestabókina, biðjandi um hlekk og hlekk skal hann fá! Svona er þetta auðvelt. Þið skrifið og biðjið um hlekk og ég set hann hérna ásamt svona færslu.

Sveinn var annars í Egilsstaðaskóla og Menntaskólanum á Egilsstöðum á sama tíma og ég. Hann er núna eitthvað tengdur rafmagni, á kellingu og jafnvel barn ef ég man rétt. Hann er ennfremur sonur Magnúsar Mústass og bróðir Kristjáns Orra en hann er einmitt geðsjúkur.
Það er ekki oft sem ég dett í lukkupottinn en núna er ég að verða fyrir gríðarlegu magni af heppni. Klukkan er orðin alltof margt og ég ætti að vera löngu farinn að sofa. Ef myndin Matrix væri í sjónvarpinu núna gæti ég ómögulega sofnað fyrr en hún væri búin, en ég er einmitt svo heppinn að hún er ekki á dagskrá í kvöld heldur var á dagskrá á laugardaginn síðasta á rúv. Ég get því farið að sofa núna með góðri samvisku en ekki eftir næstum tvo tíma. Ég er hættur að kvarta yfir óheppni.
Til sölu

Hjá undirrituðum er nú til sölu full og óopnuð 1,5 lítra léttmjólk. Fernan selst ódýrt þar sem hún rann út í gær og ég get ómögulega drukkið útrunna mjólk. Þið áhættufíklar, hér er ykkar tækifæri.

Á sama stað fæst botnfylli af jarðarberjadrykkjarjógúrti sem ég náði ekki að klára í síðustu viku og penni af gerðinni Pentel Handwriter (rauður) sem skrifar ekki lengur.

Svona færslur gerast þegar maður er sjúklega peningalaus og bjartsýnn.

þriðjudagur, 14. september 2004

Þá hef ég bætt við þremur hlekkjum í vini og kunningja. Þessir vinir og kunningjar eru:

Gústi
Ingunn
og Stebbi

(Færið músina yfir hlekkina til að lesa um þau) um leið og ég gef þeim bloggurum sem hafa verið latir tveggja sólarhringa frest til að blogga ellegar missa hlekkinn á sig. Engin miskunn.

Ennfremur vil ég benda þeim sem vilja hlekk á sig endilega að láta mig vita í ummælum, tölvupósti eða gestabók.
Í tölfræðidæmatíma í morgun áttaði ég mig á því að dæmatímakennslukonur eru nánast undantekningalaust heitar gellur. Í kjölfarið fór ég að velta því fyrir mér hverjar líkurnar á þessu væru og hvort þetta væri tilviljun, þeas hvort þetta sé viljandi gert til þess að halda karlkyns nemendum við efnið en við erum einmitt þekktir fyrir að þjást af athyglisbresti. Í þessari færslu ætla ég að komast til botns í þessu máli.

Fyrst skal taka saman líkur:
* 50% líkur eru á að dæmatímakennarinn sé kvenkyn.
* 90% allra dæmatímakennslukvenna við HR eru fyrrverandi eða núverandi HRingar.
* 90% allra kvenkyns HRinga eru heitar.
* 95% allra kvenkyns HRinga eru gellur.
* Aðeins 50% utanaðkomandi dæmatímakennslukonur eru heitar og gellur.

Þannig fáum við:

= 0,5((0,1*0,5) + (0,9*0,95*0,9)) = 0,40975

Það eru því 40,975% líkur á því að um heita gellu sé að ræða sem kennara þegar ég geng inn í dæmatíma. 81,95% líkur eru hinsvegar á því að kennarinn sé heit gella ef hann er kona.
Ennfremur má leiða líkur að því að þetta svínvirki hjá skólayfirvöldum þar sem tölfræðidæmakennslukonan er heit gella og ég virðist hafa náð að reikna þessar líkur enda fylgist blýsperrtur með í dæmatímum.

mánudagur, 13. september 2004

Í gær var mér bent á að aðalkarlkarakterinn í myndinni Along came polly væri alveg eins og ég. Þó ekki líkamlega. Ég kom ofan af fjöllum þar sem ég hef ekki séð myndina, veit ekkert um hana og hef lítinn tíma aflögu til að sjá hana á næstunni.
Ég tek því áhættu og bendi fólki sem ekki þekkir mig persónulega að sjá þessa mynd.

Þetta er þá í annað sinn sem ég tek áhættu síðasta sólarhringinn en í gærkvöldi ákvað ég að raka mig ekki, hættandi á að mér yrði varpað úr skólanum fyrir að vera ekki nógu flottur á því.

Ég vona að þessi nýuppgötvaða áhættusýki mín muni ekki ganga af mér dauðum.

sunnudagur, 12. september 2004

Þá er helginni að ljúka og lærdómurinn sem átti að eiga sér stað gerðist aldrei. Ég ætla því að biðja um nokkra greiða, svo ég komi einhverju í verk. Ég á það inni hjá ykkur:

* Bloggarar mega hætta að blogga.
* MSNverjar endilega farið af msn.
* Mbl.is starfsmenn, drullisti í verkfall.
* Sjónvarpsstöðvar landsins, vinsamlegast slökkvið á sendum.
* Bíóhús, snáfiði!

Svona mætti lengi telja. Ég held þið náið þessu. Takk.
Í gærkvöldi gerðist ég kennari í fyrsta sinn þegar ég kenndi fjármál fyrirtækja í rúma fjóra tíma með, að mér fannst, góðum árangri.
Í dag fékk ég svo tölvupóst frá tímariti austfirðinga, Austurglugganum, þar sem ég var beðinn um að gefa álit mitt á vefsíðum sveitarfélaga austurlands, sem ég og gerði auðvitað.
Í kvöld er ég svo að spá í að fara í bíó.

Ótrúlegir hlutir að gerast! To be continued...
Loksins loksins er komið að fjórförum vikunnar. Þessir fjórir eiga það allir sameiginlegt, fyrir utan að vera nákvæmlega eins í útliti, að hafa verið séðir af mér í Kringlunni síðustu vikuna og að vera mjög fyndnir.



Ingi Valur, Hallormsstaðabúi.




Elden Henson, Hollywoodbúi (sjáið hann í Butterfly Effect).




Pétur Örn, Reykjavíkurbúi.




Jesús Kristur, Neverlandbúi.

laugardagur, 11. september 2004

11. september er alltaf svolítið sorglegur því þennan dag fyrir ári síðan lést Anna Lindt, utanríkisráðherra Svía, eftir að hafa verið stungin af brjáluðum manni.

En í annað; það vantar aðeins um 9.000 manns í gest númer 100.000 á síðuna. Ef fer fram sem horfir mun það gerast 25. september næstkomandi um klukkan 16:00 að staðartíma. Hvar verður þú þá?
Fylgist með teljaranum alveg neðst á síðunni. Gestur númer 100.000, með sönnun og hefur ekki svindlað, fær kók og prins í verðlaun.
Síðustu vikuna, að þessari færslu undanskildri, hafa verið skrifuð 60 ummæli á þessa síðu sem gera um 4,3 á hverja færslu. Að vísu hef ég ritað um helminginn af þeim ummælum en það breytir því ekki að fólk er ótrúlega virkt í að skrifa á þessa síðu.
Enn eina ferðina þakka ég því kærlega fyrir viðbrögðin, bæði í ummælum og í gestabókinni. Ef þið skrifuðuð ekki myndi ég ekki skrifa.

föstudagur, 10. september 2004

Þá hef ég lokið við fyrsta verkefni vetursins. Það ber nafnið Á hálum ís og er tíu blaðsíður af andlega fróandi tölfræðiupplýsingum. Hér er forsíðan.
Fyrir liðlega 6 mánuðum sendi ég hatursfullt bréf til Selecta og kvartaði yfir seðlaskiptinum sem er niðri í mötuneyti HR og ég hafði nýlega verið búinn að reyna að nota í liðlega 20 mínútum í próflestri án árangurs og viti menn, í dag var settur nýr peningaskiptir í mötuneytið.
Vanmetið aldrei kraft nöldursins.
Í dag verslaði ég glúkosbúst súkkulaði, hvað sem það þýðir, sem ég svo át skömmu síðar. Það leið ekki á löngu þar til ég var farinn að minna Óla á eitthvað sem hann bað mig um að minna sig á í gær. Þetta er í fyrsta sinn sem ég minni nokkurn mann á eitthvað en hingað til hef ég verið álitinn með versta minni alheimsins. Spurning hvort ég sé búinn að finna lausn allra minna minnisvandamála í einu súkkulaðistykki.

fimmtudagur, 9. september 2004

Síðustu daga hef ég barist hatrammri baráttu við auglýsingaforrit sem réðust inn í tölvuna og sögðu hana sína. Ég sendi eftirfarandi forrit á innrásaherina:

* Adaware
* Spyware blaster
* Search & Destroy
* Hijackthis!
* Trend Micro vírusvörn

Einnig reyndi ég fjöldan allan af öðrum forritum sem virkuðu ekki og eyddust sjálfkrafa út. Síðasta tilraun mín var að öskra eins hátt og ég gat en undir lokin gafst ég upp og skipaði ég öllum mikilvægu skjölunum að forða sér í björgunarbáta á meðan ég formattaði tölvuna enn eina ferðina.

Í kjölfarið keypti ég forrit í fyrsta sinn um ævina; windows XP er mitt fyrir aðeins 2.000 krónur og ég fær í flestan sjó.
Í gærnótt dreymdi mig að Susan Kennedy hefði sagst hlusta á Sigurrós í einum nágrannaþættinum og að ég hefði bloggað um það einhverju síðar.

Mig dreymdi semsagt fyrir þessu bloggi. Yfirnáttúrulega ótrúlegt.

miðvikudagur, 8. september 2004

Ef þið getið lesið þetta þýðir það að þessi auma afsökun fyrir ókeypis aðstöðu til að blogga sem virkar sé komin í lag aftur, ótrúlegt nokk. Það þýðir líka að ég er á lífi eftir að hafa snappað nokkrum sinnum yfir þessum versta degi mínum það sem af er ári. Hef sjaldan verið í jafnvondu skapi.
Nöldurhorn Veftímaritsins:

* Ætli það sé tilviljun að 11-11 verslanirnar séu með 111,1% álagningu á vörunum sínum? Einhver ástæða hlýtur allavega að vera fyrir nafninu þar sem opið er ýmist allan sólarhringinn eða frá 9-23.

* Nýja útlitið á mbl.is er ömurlegt. Af hverju þarf fólk alltaf að vera breytandi einhverju sem er í fínu lagi fyrir? Breytingar eru ömurlegar og fólk er fífl!

* Vill einhver fara að tala í gemsa upp við bringuna á þessum manni? Þvílíkur hræðsluáróður. Þvílík fasistastjórn.

* Aðstaðan í Háskóla Reykjavíkur er orðin að brandara. Þessa önnina eru allir mínir tímar í stofu 101, sem tekur 100 manns. Alls eru 90 manns í bekknum og því gríðarlega þröngt í herberginu og loftlaust. Ekki er hægt að fara út nema allir í sömu röð standi upp fyrir manni og að mæta of seint er ekki valmöguleiki. Hitinn í herberginu nær oftar en ekki 50 gráðum þar sem einn lítill gluggi er á því.
Ef maður ætlar að fá sér að borða er það gríðarlega erfitt þar sem alltof margir nemendur eru í skólanum og yfirleitt full í mötuneytinu. Þá gæti manni dottið í hug að læra aðeins en það er hægara sagt en gert. Allar stofur sem rúma fleiri en 5 eru notaðar í kennslu fyrir utan þriðju hæð þar sem núna eru þrjár stofur til að læra í, sem tölvufræðinördarnir eru búnir að yfirtaka með sínum brjálæðislega hávaða.
En þetta er allt í lagi því skólagjöldin hækkuðu aðeins um 9.000 krónur á önn í haust, gerandi þau að 99.000 krónum á hvora önn eða alls 198.000 krónur á ári bara fyrir að fá að notast við þessa stórkostlegu aðstöðu. Glæpamennirnir leynast víða.

þriðjudagur, 7. september 2004

Til gamans, þar sem ég er að flýta mér og hef ekki tíma til að hugsa um eitthvað áhugavert til að skrifa, ætla ég að sýna hvernig morgunáætlanir síðustu viku hafa farið gjörsamlega úr böndunum.

Alla morgna hef ég ætlað að...

* ...vakna eldsnemma.
* ...teygja vel úr mér og horfa á morgunsjónvarpið.
* ...velja vandlega föt fyrir daginn.
* ...tannbursta mig vel og lengi.
* ...segja "Finnur, þú ert draumur!" tíu sinnum í spegilinn.
* ...borða hollan og góðan morgunmat sem endist mér fram á hádegi.
* ...rölta sallarólegur (eða valhoppa) á hlemm og taka strætó í skólann.
* ...gleyma engu.

Það sem ég hef hinsvegar gert alla morgna síðastliðna viku er að...

* ...sofa yfir mig.
* ...stökkva í það næsta sem ég sé.
* ...borða tannkremið sem skolast niður í tannburstun í morgunmat.
* ...hlaupa öskrandi í skólann í þeirri von að ég missi ekki af neinu.
* ...gleymi alltaf einhverju heima; skólabók(inni), peningum, aðgangskorti eða öðru.
Í morgun gekk ég 25 mínútna leið í skólann í beljandi rigningu eftir að hafa bætt met mitt í að sofa oft í röð yfir mig eða alls 5 sinnum. Í öll skiptin missti ég af strætó. Ég missi þó aldrei af tímum af því ég geng hratt og örugglega. Slík var bleytan að fólk starði á mig þegar ég mætti loksins í skólann gegnvotur, sumir meira að segja báru pípuhattana að vitum sér við að sjá mig. Ég þurfti að fara úr ysta bolnum þar sem hann var gegnsósa, vinda á mér hárið og skónna mína.

Meira um þessa göngu mína í kvöldfréttum stöðvar tvö og BBC.

mánudagur, 6. september 2004

Þá er komið að nýjum lið á veftímaritinu við rætur hugans. Sá liður felur í sér að kenna Reykvíkingum að haga sér í siðuðu samfélagi.

1. Kennslustund: að þakka fyrir sig.
Nokkrar óskráðar reglur eru í samskiptum siðaðs fólks og ein þeirra er að þakka fyrir sig. Þegar fólk gerir eitthvað fyrir þig er fátt eðlilegra en að þakka fyrir sig, jafnvel þó um sé að ræða afgreiðslumanneskju sem fær greitt fyrir. Þökkunin þarf ekki að vera innihaldsmikil eða löng, oftast nægir að segja bara "takk" þó að "þakka þér fyrir" og ýmislegt í þeim dúr dugi líka.
Tökum (sannsögulegt) dæmi:
Ungur piltur að nafni Finnur.tk opnar fyrir þig útidyrnar að skóla þar sem þú ert læst(ur) úti. Við þessar aðstæður væri tilvalið að henda einu "takk"i til þessa glæsilega pilts en ekki strunsa inn og láta sem hann hafi ekki komið þér til bjargar, eins og í raun gerðist.

Annað dæmi, í þetta sinn sýnidæmi:
Afgreiðsludama réttir þér afgang eftir að þú hefur verslað í Hagkaup með orðunum "gjörðu svo vel". Hvað á að gera?

Rétt svar: Þarna væri gott að segja "Takk fyrir" og jafnvel brosa örlítið. En eitt skref í einu. Prófið að þakka fyrir ykkur fyrst. Með tímanum getið þið kannski þjálfað með ykkur bros eða eitthvað sambærilegt.


Ég vona að þetta komi að góðum notum og hver veit, kannski að Reykjavík verðið siðuð einn daginn.
Í fyrradag lét lífið snilldartónlistarmaður sem bar nafnið Pétur Kristjánsson og allir landsmenn sem hafa eitthvað vit á tónlist í losti enda maðurinn aðeins 52ja ára gamall og hálfgerður klettur í Íslenskri tónlist.

Ég sá hann einmitt síðast á Akureyri um verslunarmannahelgina fyrir rúmum mánuði síðan þegar ég skoðaði diskaúrvalið hans.

* Þessari færslu hefur verið eytt að mestu vegna mikillar vitleysu.

sunnudagur, 5. september 2004

Meira um tónlist. Nýja lagið með Alanis Morrisette er með þeim betri í dag. Það heitir Eight Easy Steps (Í: Átta auðveld skref) og er að finna hérna. Þaðan farið þið í Music veljið plötuna So Called Chaos og veljið high í Eight easy steps.

Gerist ekki auðveldara.

Ég ætla annars að taka mér frí frá bloggi það sem eftir lifir dags. Sunnudagur er frídagur guðs. Af hverju ætti ég að sætta mig við minna?

laugardagur, 4. september 2004

Nick Cave bregst ekki bogalistin frekar en fyrri daginn með nýju lagi sem hann var að gefa út fyrir skömmu síðan. Í dag sá ég svo myndbandið og áttaði mig á því að þetta lag er meistaraverk. Ég held að ég myndi gráta hátt og snjallt ef Nick Cave myndi láta lífið á næstunni.

Smellið á myndina fyrir háu upplausnina af myndbandinu (erlent niðurhal).



Það mun aldrei koma annar neitt í líkingu við Nick Cave.

´
Hér er svo hlekkur fyrir þá sem vilja aðeins sjá lágu upplausnina.

Mæli rosalega með háu upplausninni. Það er þess virði.
Ég er að reikna fyrsta skilaverkefnið fyrir tölfræði og hlustið nú krakkar og lærið; þegar vel gengur að reikna er tölfræði betri en kynlíf enda kynlíf stórlega ofmetið og tölfræði yfir höfuð mjög vanmetin iðja. Þið lásuð það hér fyrst.

Þessi niðurstaða tengist því ekkert að ég stóð við hliðina á Bjarna Fel í bakaríi í fjölda mínútna í morgun.

föstudagur, 3. september 2004

Það lítur út fyrir að ég hafi orðið fyrir bölvun vekjaraklukkugerðarmannsins þar sem ég hef ekki svo mikið sem rumskað fyrstu tvo morgnana við þrjár vekjaraklukkur hvorn morguninn. Það eða ég hafi bara slökkt á öllum þremur vekjurunum í bæði skiptin í svefni. Hvort sem það er þá hef ég klárlega orðið fyrir bölvun vekjaraklukkugerðarmannsins þegar ég sagði einn slíkan ekki alvöru úrsmið á gangi um miðbæinn um daginn.
Ekki bjóst ég við því að ég myndi lifa þann dag að íslenskir kvenmenn myndu taka íslenska karlmenn framyfir hörundsdökka menn/stráka frá Ítalíu og Portúgal en þetta lærði ég í sumar þegar austfirskt kvenfólk fúlsaði við hverjum Kárahnjúkaverkamanninum á fætur öðrum. Kárahnjúkavirkjun var ekki svo vitlaus hugmynd þrátt fyrir allt saman þar sem fyrir þetta tímabil voru allir kvenmenn landsins að putta sig í rassgatið yfir þessum kynstofni.

fimmtudagur, 2. september 2004

Þá hef ég flutt inn á stúdentagarðana í Skipholti. Eins og svo oft áður hef ég ákveðið að setja upp kosti og galla hérna og ákveða svo hvort hugmyndum um að flytja inn sé þess virði.

Kostir:
Ég leigi einn.
Þægilegt rúm.

Gallar:
Kalt og heitt á krananum er víxlað.
Ekkert ókeypis internet.
Vantar meira skápapláss.
Vantar allt í eldhúsið (sjá pottafærsluna fyrir neðan).
Hávaðasamt um helgar giska ég á.
Skjár 1 næst ekki.
Langt að labba í skólann (miðað við áður).
Langt í næstu strætóstöð (miðað við áður).

Niðurstaða:
Ég leigi einn! Kostirnir yfirgnæfa gallana í mínum augum og því var þetta ein besta ákvörðun sem ég hef nokkurntíman tekið fyrir utan að byrja að spila körfubolta fyrir rúmum 12 árum síðan og auðvitað að byrja að blogga.


Alveg eins og minn pottur, nema minn er með plastskafti og var miklu dýrari.

Í dag varð undirritaður stoltur eigandi potts í fyrsta sinn. Potturinn hýsir einn og hálfan lítra og mun verða notaður til að sjóða núðlur. Hann er framleiddur í Svíþjóð og kostaði litlar 2.439 krónur.
Af því hann var svo ódýr ákvað ég bara að sleppa af mér beislinu og keypti disk, hníf, gaffal og einhverja töng sem ég veit ekki alveg hvernig virkar.

miðvikudagur, 1. september 2004

Í dag leiddist mér svolítið á tímabili og tók því að raða saman öllum myndunum sem birst hafa á myndasíðunni hingað til. Undirmeðvitund mín tók völdin á tímabili og útkoman eru tvær myndir hér að neðan, talsverð þynnka, aumur rass og fimmhundruð kall í hendinni.
Af myndaútkomunni má draga þá rökréttu ályktun að ekki sé laust við að ég sé haldinn einhverskonar þráhyggju, eða þráhyggjum.

Smellið á myndirnar fyrir mun stærra eintak og nákvæmara. Myndin skýrist líka talsvert ef þið pírið augun.



Hélt ég væri að raða þeim í tilviljanakennda röð.




Þið kunnið að spyrja ykkur af hverju ég sé að birta þetta hérna.
Það lítur út fyrir að ég hafi farið með vitleysu á blogginu í gær. Síminn er í fínu lagi þar sem ég fékk hleðslutæki lánað hjá Þórunni Grétu og á stúdentagörðunum er, að sögn ósýnilegs kommentara, þráðlaust internetsamband. Ég biðst því velvirðingar á þessu fótskoti mínu og vonast með þessari færslu að öðlast traust ykkar á ný um leið og ég bið ykkur um að fara ekki með þetta lengra.