þriðjudagur, 9. febrúar 2010

Fyrir fimm dögum fékk ég 10.000 króna endurgreiðslu á tryggingum frá Sjóvá í formi ávísunnar. Ég hef talsverða andstyggð á fólki, svo ég fór á netið til að leysa hana út í stað þess að hlaupa öskrandi úr hamingju í næsta banka.

Við innlausn hennar á heimasíðu Sjóvá smellti ég á vitlausan takka og pantaði óvart símtal frá þjónustufulltrúa. Það var ekki hægt að taka pöntunina til baka, sama hvað ég klóraði í skjáinn, svo ég sat og beið eftir símtalinu.

Í dag hringdi svo þjónustufulltrúinn og bauð mér, áður en ég náði að segja frá mistökunum og skella á, að lækka tryggingarnar um rúmar 8.000 krónur. Ég faðmaði hann í orðum, þakkaði fyrir og skellti á.

Boðskapur sögunnar er að stundum borgar sig að vera óframfærinn og mannhatandi klaufi.

0 athugasemdir:

Skrifa ummæli

ATH. Þegar athugasemd hefur verið rituð þarf stundum að staðfesta hana, eftir að smellt hefur verið á "Post Comment". Hafið það í huga.