fimmtudagur, 18. febrúar 2010

Fólk hringir nánast stanslaust í mig og spyr hvernig körfuboltinn gangi en ég spila í 2. deild með UMFÁ.

Stutt saga löng; UMFÁ situr í fyrsta sæti B riðils með 18 stig eftir 11 leiki (9 unna og 2 tapaða). Næstu lið eru með 12 stig (6 unna og 5 tapaða) og aðeins 4 leikir eftir af tímabilinu.

Ef þið áttuð við "hvernig stendur þú þig?" þá er svarið ekki svo einfalt: Ég er að spila rúmar 19 mínútur í leik og skora 4 stig að meðaltali, ásamt því að taka um 4,1 frákast. Ekki svo góður árangur þó ég hitti úr 70% skota utan af velli.

Í byrjun tímabils setti ég mér það markmið að vera með 30 stig að meðaltali í leik. Það er ekki of seint. Hér er planið:

  1. Til að ná 30 stigum að meðaltali í lok tímabils þarf ég að ná að skora 450 stig samtals. Ég er búinn að skora 44 stig í 11 leikjum og á því aðeins eftir að skora 406 stig.

    Í síðustu fjórum leikjum þarf ég þá að skora 101,5 stig að meðaltali. Ég þyrfti því að skjóta talsvert meira en ég geri núna. En ég breyti mér ekki fyrir neinn! Sem færir mig að næsta skrefi:

  2. Ég er að skora um 22 stig á hverjar 100 mínútur spilaðar. Til að ná að skora 101,5 stig í leik þyrfti hver leikur að lengjast úr 40 mínútum í 461 mínútu og ég að spila allan tímann.

    Ég á mögulega inni greiða hjá KKÍ. Ég sé ekkert því til fyrirstöðu að fjölga leikhlutum úr fjórum í 46.

Með þessari breytingu væri ég ekki aðeins að skora 30 stig í leik heldur væri ég einnig með 31 frákast að meðaltali og 4,7 varin skot. Þá gæti ég loksins hætt þessu rugli í 2. deildinni og farið í NBA.

0 athugasemdir:

Skrifa ummæli

ATH. Þegar athugasemd hefur verið rituð þarf stundum að staðfesta hana, eftir að smellt hefur verið á "Post Comment". Hafið það í huga.