fimmtudagur, 15. desember 2011

Gúrkufréttir

Í fréttum er þetta helst:

1. Ég viðist bara komast um 350 kílómetra á einum tanki á bílnum mínum þessar vikurnar. Áður komst ég um 450 kílómetra á sama magni. Þetta ýtir undir þá kenningu mína að ég sé líklega að spóla um 100 kílómetra á milli áfyllinga. Sem gerir mig töff, jafnvel þó kenningin sé ekki byggð á neinum rökum. Sem gerir mig meira töff, að því er virðist.

2. Ég passa rúmlega ársgamla frænku mína, Valeríu Dögg, eins oft og ég mögulega get. Eitt það algengasta sem hún segir er "Ba ba" sem ég hélt að þýddi "pabbi" og "banani" en henni finnst fátt betra að borða en bananar.

Mér brá því skiljanlega þegar ég sá nýlega þátt um enska boltann og að í liði Newcastle sé leikmaður sem ber heitið Ba. Ekki aðeins er hún þá að ákalla fótboltamann heldur tvisvar í senn.

3. Á þaki bíls míns hefur nú verið snjóskafl síðustu þrjár vikurnar, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir mínar til að losa mig við hann (með því að keyra á miklum hraða). Samkvæmt hugdettu minni eru þrjár vikur nægur tími fyrir snjóskafl að vera kallaður jökull. Ég nefni því jökulinn Kópavogsjökul. Það verður gaman að slá í gegn með hann á bílnum í sumar.

4. Í dag á kvefið í andlitinu á mér tveggja vikna afmæli. Þegar kvef nær tveggja vikna afmæli hættir það að vera kvef og breytist í karaktereinkenni. Þið skuluð því ekki móðgast ef ég hnerra framan í ykkur, ég er bara eins og ég er.

0 athugasemdir:

Skrifa ummæli

ATH. Þegar athugasemd hefur verið rituð þarf stundum að staðfesta hana, eftir að smellt hefur verið á "Post Comment". Hafið það í huga.