fimmtudagur, 19. mars 2015

Bílafréttir

Leikur
Það er komið að hinum reglulega þætti síðunnar "Hvað í fjandanum datt undan bílnum mínum?", sem ég hef haldið úti á Instagram undanfarið.

Í þætti númer sjötíu er það þessi hlutur, sem í fljótu bragði virðist ekki hafa áhrif á gang bílsins:

Vísbending: Þetta minnkaði virði bílsins um 10% eða 127 krónur.

Sigurvegari fær forkaupsréttindi á þessum bíl, með eða án þessa aukabúnaðar, hvort sem honum líkar betur eða verr.

Svarið í þætti 69 var: Pústið í heild sinni.

Bensíntaka
Í kvöld tók ég bensín hjá Atlantsolíu án allrar afsláttar. Ég beið eins og ég gat eftir tilboðsdegi, þegar fyrirtækið auglýsir 10-15 króna aukaafslátt af lítranum, en tók bugaðist þegar bensínnálin vísaði nánast beint niður.

Þetta þýðir bara eitt: Á morgun verður 10-15 króna afsláttur á bensínlítranum hjá Atlantsolíu. Og ég verð gnístandi tönnum í vinnunni þegar ég sé auglýsinguna.

Vetrarhörkur
Ég braut enn eina rúðusköfuna í vikunni. Í kjölfarið hóf ég leit að nýrri og betri rúðusköfu. Hún skal vera sterkbyggð, endingargóð og má ekki kosta undir 500.000 krónur. Mér finnst sjálfsagt að eyða góðri upphæð í eitthvað sem við íslendingar eyðum þriðjungi ævi okkar í.

Ef einhver veit um slíka rúðusköfu, láttu mig vita með því að skafa upplýsingarnar á rúðuna á bílnum mínum í skjóli nætur.

0 athugasemdir:

Skrifa ummæli

ATH. Þegar athugasemd hefur verið rituð þarf stundum að staðfesta hana, eftir að smellt hefur verið á "Post Comment". Hafið það í huga.