sunnudagur, 12. ágúst 2012

Instagram innreið

Ég hef hafið innreið mína á Instragram síðuna. Instagram er símavefsvæði sem heldur utan um myndir sem teknar eru í símum og sendar inn. Ekki ósvipað þeim 250 myndasíðum sem ég hef búið til og lokað í gegnum tíðina.

Hér eru fyrstu fimm myndirnar sem ég sendi inn í vikunni, í réttri röð:

1. Bústaður með pabba.



Skrapp með pabba um síðustu helgi í bústað við Laugarvatn til að vökva plöntur, sem voru að þorna upp í tryllingslegum hita síðustu vikna. Tók þessa mynd til að prófa myndavélina.

2. Valería Dögg frænka.



Í einni af fjölmörgum heimsóknum mínum til Björgvins bróðir, Svetlönu konu hans og Valeríu Daggar, dóttur þeirra í síðustu viku, tók ég þessa mynd þegar Valería sótti mig í stofuna, þar sem ég átti að koma í eldhúsið. Eitt fallegasta og skemmtilegasta barn allra tíma.

3. John Stockton, plasti klæddur.



Þessa fígúru fékk ég gefins fyrir nokkru síðan. Hún stendur á skrifborðinu mínu og starir á mig þegar ég skoða myndir af öðrum körfuboltamönnum. Fyrirgefðu, John Stockton.

4. Annar fallegur dagur að hefjast í Reykjavík.



Ég tók þessa sjálfsmynd einn morguninn, nývaknaður og nokkuð óhress með að þurfa í vinnuna.

5. Allsberar kóngulær í brjáluðum sleik. Rómantíkin verður ekki mikið meiri en þetta.



Rakst á þetta fallega par fyrir utan íbúðina mína, tók mynd, klappaði þeim og óskaði þeim góðs gengis.

Notendanafn mitt á Instagram er finnurtg, bætið mér við ef þið viljið fylgjast áfram með. Annars má líka fylgjast með hér.

0 athugasemdir:

Skrifa ummæli

ATH. Þegar athugasemd hefur verið rituð þarf stundum að staðfesta hana, eftir að smellt hefur verið á "Post Comment". Hafið það í huga.