fimmtudagur, 27. janúar 2011

3ja tíma skrepp

Í dag reyndi ég að fá mér nýtt ökuskírteini þar sem mitt gamla innihélt ekki mynd af mér lengur og ég þarf það til að stofna bankareikning. Upphófst skriffinnskusena: [hlustið á Benny Hill þemalagið á meðan þið lesið]

1. Skrapp úr vinnunni.
2. Fékk vin til að taka af mér passamynd.
3. Setti passamyndina á USB lykil.
4. Fór á sýsluskrifstofuna í Kópavogi, þar sem afgreiðslumaður sagði mér að koma með útprentaða passamynd*. Hann lét mig fá bráðabirgðaskírteini fyrir bankann.
5. Fór í bankann, þar sem starfsmaður sagðist ekki geta tekið við bráðabirgðaskírteini.
6. Kom við í vinnunni, leitaði mér upplýsinga og vann smá.
7. Fór með USB lykilinn á ljósmyndastofu og lét prenta passamyndina út.
8. Fór á sýsluskrifstofuna og sótti um nýtt ökuskírteini. Það tekur tvær vikur að gera nýtt skírteini, sem er 13 dögum of mikið. Þannig að ég bað um nafnskírteini í staðinn, sem á að taka minni tíma. Það gerist á þjóðskrá.
9. Fór á þjóðskrá. Hún hafði verið færð úr stað. Svo ég gekk smá spöl að réttu húsi.
10. Þar var ég beðinn um tvær (útprentaðar) passamyndir, sem ég gleymdi í bílnum.
11. Sæki myndir og sný aftur en er þá beðinn um ökuskírteini. Bráðabirgðaskírteini gæti dugað, en ég gleymdi því líka í bílnum.

Þegar hingað er komið við sögu hafði ég verið við vinnu í tvo tíma og úti að "skreppa" í þrjá tíma, svo ég sagðist ætla að koma síðar þar sem ég vildi hvorki vera rekinn né hlæja** framan í afgreiðslukonuna, sem var þegar mjög pirruð.

En hafið ekki áhyggjur. Ég vann til klukkan 20 í kvöld til að bæta upp fyrir vinnutapið.

* Ég þurfti að taka mynd, setja á USB lykil, láta prenta hana út á "fínan pappír" og láta sýslumann fá, svo hann gæti skannað myndina inn og prentað svo út á ökuskírteinið. Snjallt ferli.

** Með "hlæja" á ég auðvitað við "gráta".

2 ummæli:

  1. Benny Hill lagið er virkilega skemmtilegur fítus í þessari færslu! En já, það er ekki hægt að "skreppa í smá" í skriffinnskuerindum á Íslandi, algjört helvíti.

    SvaraEyða
  2. Þakka þér! Og já, það er ótrúlega mikið vesen. En skemmtilegt samt. Af því bensínið er svo ódýrt.

    SvaraEyða

ATH. Þegar athugasemd hefur verið rituð þarf stundum að staðfesta hana, eftir að smellt hefur verið á "Post Comment". Hafið það í huga.