mánudagur, 15. júlí 2013

Góður sunnudagur

Eftir að hafa horft á þetta myndbrot rétt eftir að ég vaknaði í gær, stökk ég á fætur og hélt því fram að dagurinn yrði góður.

Ég stökk af stað í innkaupaferð. Fyrsta stopp var Kostur, sem sérhæfir sig í amerískum vörum, þar sem ég ætlaði að kaupa mér mjólk en endaði á að kaupa mér eitt og hálft kíló af súkkulaði.

Ég lét ekki óheppilega byrjun hafa áhrif á áætlun mína heldur fór næst í Sports Direct íþróttavöruverslunina og keypti mér íþróttatreyju. Við kassann sagðist ég hafa góða tilfinningu fyrir þessum viðskiptum og afþakkaði því kvittunina.

Aldrei hef ég haft jafn rangt fyrir mér, því við að ganga út fór þjófavarnarkerfið af stað. Þar sem ég hafði ekki kvittunina var ég vinsamlegast beðinn um að fylgja öryggisverði að afgreiðslunni, þar sem afgreiðslustúlkan baðst afsökunnar á að hafa gleymt að fjarlægja þjófavörnina. Ég hló og sagði ekkert mál, um leið og ég þurrkaði svitastrauminn af enninu.

Þegar út í bíl var komið brotnaði ég svo saman og fór heim að borða súkkulaði. Óvenju góður sunnudagur.

0 athugasemdir:

Skrifa ummæli

ATH. Þegar athugasemd hefur verið rituð þarf stundum að staðfesta hana, eftir að smellt hefur verið á "Post Comment". Hafið það í huga.