laugardagur, 9. mars 2013

Orðrómar

Nýlega hef ég heyrt fjóra orðróma um mig sem eru allir kolrangir:

Orðrómur 1: Að ég sé svo þroskaður.
Hefur sennilega orðið til af því ég er frekar þögull og drekk mig ekki elgölvaðan um helgar. Raunveruleg ástæða er einföld: ég hef ekkert að segja og vildi að ég hefði líkama í drykkjuna.

Orðrómur 2: Að ég kann að fara með peninga.
Sennilega af því ég sést aldrei eyða peningum í neitt heimskulegt eins og áfengi og/eða gleðikonur. Ástæðan er í raun sú að ég á ekki krónu.

Orðrómur 3: Að ég er rökréttur í hugsun.
Mögulega af því ég kann á Excel og er einhleypur. Það er í raun engin fylgni milli þess að kunna á Excel og vera rökréttur í hugsun. Og ástæðan fyrir því að ég er einhleypur hefur ekkert með að það sé gagnlaust að stofna til sambands og er ekki áhættunnar virði, heldur vegna þess að ég hef ótrúlega gaman að heyra setninguna "Ætlar þú ekkert að fara að fá þér konu?" og reyna að komast upp með að svara henni með orðinu "nei" án orðalengingar.

Orðrómur 4: Að ég er samkynhneigður.
Sennilega af því ég er að nálgast fertugsaldurinn og er einhleypur. Og að ég geng í rasslausum leðurbuxum dags daglega. Hið rétta er að ég er ekki samkynhneigður. Ég get sannað það með hvaða smekklausa kvenmanni sem er.

Ef þú ert ekki enn sannfærður um að ég sé ekkert að ofantöldu þá er hér sönnun til að taka af allan vafa:

Þetta keypti ég mér um daginn:


Þetta er leikjastýri fyrir bílaleiki.

1: Þetta sýnir að ég er enn 13 ára gamall.
2: Ég kann ekkert með peninga að fara þar sem í þetta fóru síðustu aurar mínir.
3: Ég hef ekki enn opnað kassann eftir næstum viku. Rökrétt kaup, Finnur.
4: Myndi samkynhneigður maður kaupa sér svona karlmannlegt stýri, til að geta spólað af stað í tölvuleikjum og jafnvel í hringi? Ég held ekki.

1 ummæli:

ATH. Þegar athugasemd hefur verið rituð þarf stundum að staðfesta hana, eftir að smellt hefur verið á "Post Comment". Hafið það í huga.