þriðjudagur, 29. nóvember 2011

Svefnvenjur mínar

Ef svo vill til að einhver googli „Svefnvenjur Finns Torfa Gunnarssonar frá miðjum júlí til lok nóvember 2011“ þá vil ég að þessi síða finnist. Maður veit aldrei.

Hér er nákvæm tölfræði varðandi svefnvenjur mínar frá miðjum júlí, haldið saman af símanum mínum.Hér má sjá vikulegt hreyft meðaltal yfir fjölda tíma sem ég sef á nóttunni, á daginn og samtals á sólarhring. Já, ég sef hátt í tvo tíma yfir daginn sumar vikurnar. Og hvað með það?

En í hvaða mánuði sef ég mest? Súlurit!Þarna sést að ég svaf mest í júlí, sem gæti verið vegna þess að úrtakið í júlí innihélt þrjá sunnudaga en tvo af öðrum dögum. Annars er þetta býsna jafnt. Ég er að sofa um átta tíma á sólarhring, eins og eðlilegt fólk á að gera. Sem gerir þetta frekar einkennilegt.

Hvenær í vikunni sef ég mest? Ha?Ég held að allir geti verið sammála um að þetta sé áhugaverðasta myndin. Hér sést að ég sef lang mest á sunnudögum eða um 9,7 tíma. Minnst sef ég á mánudögum eða um 6,6 tíma. Svefninn eykst svo jafnt og þétt út vikuna, þar til kemur að svefnsprengju helgarinnar.

Líkurnar á því að ég sé sofandi eftir vinnu á föstudegi eru yfirgnæfandi, þar sem ég legg mig að meðaltali í 1,4 tíma á föstudögum, eins og yfirmaður.

Ég veit ekki með ykkur en mér líður betur eftir þetta Excelgrafagreiningarklám.

0 athugasemdir:

Skrifa ummæli

ATH. Þegar athugasemd hefur verið rituð þarf stundum að staðfesta hana, eftir að smellt hefur verið á "Post Comment". Hafið það í huga.