fimmtudagur, 24. febrúar 2011

Fréttir vikunnar

Þá er vikan nánast búin og kominn tími á að fara yfir fréttir hennar.

1. Peugeot fréttir
Peugeot hrúgaldið mitt hefur ekkert bilað það sem af er viku. Nánar um þennan yfirnáttúrulega viðburð í aukafréttatíma á öllum sjónvarps- og útvarpsstöðvum landsins í dag og næstu daga.

2. Nammikúrinn
Ég féll á nammikúrnum í vikunni þegar ég gleymdi að borða nammi eftir eina máltíð á þriðjudagsnótt. Þarmeð slitnar rúmlega fimm ára nammikúr og byrjar upp á nýtt. Ég vona að þetta hafi ekki keðjuverkandi áhrif: að ég byrji að borða hollt og hætti að líta út fyrir að vera uppvakningur.

3. Bíóferðir
Ég hef ekkert farið í bíó þessa vikuna, sem er þremur bíóferðum undir meðaltali. Reyndar hef ég ekkert farið í bíó í mánuðinum, sem er ótrúlegt. Ástæðan er sú að ég þarf að eyða peningunum í þarfari hluti, eins og vexti lána.

4. Samkvæmisljón
Í vikunni var ég óvænt hrókur alls fagnaðar í ræktinni þegar ég fór að ræða málin við dömurnar á hlaupabrettunum. Þær voru ólmar í að spyrja mig út í Excel og hvort þær mættu fá aðstoð næstkomandi helgi. Ég svaraði í formúlum við mikla kátínu og hrifningu viðstaddra. Ég var í þann mund að fara í sturtu með troðfullan síma af nýjum númerum þegar ég vaknaði.

2 ummæli:

  1. Þrátt fyrir vexti lána, verðum við að fara að kíkja í bíó! Einhvernvegin verðum við að minnsta kosti að fagna bilunarleysi Peugeotsins.

    SvaraEyða
  2. Það er laukrétt. Ég stefni á að taka mig á í bíómálum á næstunni.

    SvaraEyða

ATH. Þegar athugasemd hefur verið rituð þarf stundum að staðfesta hana, eftir að smellt hefur verið á "Post Comment". Hafið það í huga.