fimmtudagur, 6. júní 2013

Sjálfsáttanir

Í dag lærði ég þrjár mjög mikilvægar staðreyndir um sjálfan mig. Staðreyndir sem munu sennilega gjörbreyta öllu, fyrir alla. Eða engu fyrir alla. Eða öllu fyrir enga. Amk ekki engu fyrir enga.

1. „Rólegur“
Þegar mér er sagt að vera rólegur eða að róa mig verð ég brjálaður í skapinu, sérstaklega ef ég er rólegur fyrir. Þetta kom upp í dag, þegar ég spurði afskaplega eðlilegrar spurningar og fékk til baka „róaðu þig“. Ég var í vondu skapi það sem eftir lifði dags.

2. Hnetubragð
Ég elska hnetur. Ekki bara áferðina og hollustuna heldur einkum og sér í lagi bragðið. En þegar matur er með hnetubragði finnst mér ekkert ógeðslegra. Þetta lærði ég í dag þegar ég fékk mér frómas sem reyndist vera með hnetubragði. Þvílíkur viðbjóður.

3. Uppáhaldsmatur
Ef marka má innihaldslýsingar þess sem mér finnst best að borða, má draga þá ályktun að uppáhaldsmatur minn sé, að meðaltali, rotvarnarefni.

Ef einhver veit hvar ég get fengið rotvarnarefni í kílóavís og (helst á sama stað) matreiðslubók fyrir rotvarnarefnisrétti (helst í örbylgjuofni), þá vinsamlegast látið mig vita með því að öskra á mig ef þið sjáið mig á gangi.

0 athugasemdir:

Skrifa ummæli

ATH. Þegar athugasemd hefur verið rituð þarf stundum að staðfesta hana, eftir að smellt hefur verið á "Post Comment". Hafið það í huga.