föstudagur, 4. janúar 2013

Jólafrí 2012

Ég er kominn aftur til Reykjavíkur (Kópavogs nánar tiltekið) eftir tveggja vikna jólafrísdvöl á Egilsstöðum (í Fellabæ nánar tiltekið), sem útskýrir aðeins að hluta til áður óþekkta leti mína við skrif á þessa síðu.

Í jólafríinu tók ég upp á allskonar nýungum, sem hingað til hefði ég aldrei látið mér detta í hug að gera, eins og:

  • Að horfa á Mamma Mia, dansandi og syngjandi með.
  • Að dansa um í fáránlegri samsetningu fata með hárspennu í hárinu, án nokkurrar tónlistar.
  • Flýja undan risaeðlum, krókódílum og Mikka Ref sem ætluðu að kítla mig.
  • Láta inniskónna mína tala, eins og þeir væru kettir.
  • Syngja hástöfum allskonar lög, án undirspils og í kringum allskonar fólk, án þess að skammast mín fyrir afskaplega takmarkaða sönghæfileika.

Hver er ástæðan? Hér eru nokkrir möguleikar:

  1. Ég hef hafið eiturlyfjaneyslu og það gengur nokkuð vel.
  2. Ég missti vitið á því að vera bílveikur á leiðinni austur.
  3. Ég var að uppfylla áramótaheiti frá árinu áður.
  4. Ég er orðinn það ríkur að mér er sama um álit annarra og geri það sem ég vil, þegar ég vil.
  5. Ég var að leika við Valeríu Dögg, rúmlega 2ja ára bróðurdóttir mína.

Rétt svar: 5. Og smá 1.

0 athugasemdir:

Skrifa ummæli

ATH. Þegar athugasemd hefur verið rituð þarf stundum að staðfesta hana, eftir að smellt hefur verið á "Post Comment". Hafið það í huga.