mánudagur, 2. júlí 2012

Letidagurinn mikli 2012

Gærdagurinn var nýttur undir latasta dag ársins þegar ég svaf í níu tíma áður en ég fékk mér morgunmat og lagði mig svo aftur í þrjá tíma. Ennfremur sat ég og gerði ekkert allan daginn, sleppti ræktinni og frestaði málun á svölum um nokkra daga.

Merkilegast er þó að ég reyndi, í leti minni, að horfa á þrjár bíómyndir, án árangurs. Hér eru þær og ástæður þess að ég hætti að horfa:

1. Defendor (Ísl.: Varnarmaðor)
Svört gamanmynd um andlega fatlaðan mann sem er hálf misheppnuð ofurhetja.

Ég komst í gegnum 20 mínútur áður en ég gafst upp. Söguþráðinn hef ég séð mörg þúsund sinnum (+/- 998) áður og húmorinn fannst mér í besta falli ömurlegur.

2. Sherlock Holmes II (Ísl.: Sprelligosinn Sherlock sprelligosast í gegnum sprelligosaráðgátu með sprelligosaaðstoðarmanni sínum)
Robert Downey Jr. leikur sprelligosann og slagsmálahundinn Sherlock Holmes sem leysir gátur eins og að drekka (færslan er í boði) jarðarberjasvala.

Þegar korter var liðið af myndinni og búið að troða yfir 250.000 ömurlegum sprelligosabröndurum í hverja glufu handritsins sló ég hnefa í borð og sagði stopp. Aldrei aftur.

3. Take Shelter (Ísl.: Taktu skjól)
Myndin fjallar um mann sem lifir góðu lífi í suðurríkjum BNA (giska ég á) þegar honum fer að dreyma fyrir um válegum atburðum.

Myndin byrjaði vel og virkaði áhugaverð, þangað til andstyggilegt og óvænt bregðuatriði hófst. Ég þoli ekki bregðumyndir og neita að horfa á hryllismyndir, svo ég stoppaði myndina, kófsveittur, skjálfandi og mögulega grátandi.

Samtals horfði ég á 50 mínútur af bíómyndum í gærkvöldi, sem nægir fyrir hálfri stjörnu af fjórum.

0 athugasemdir:

Skrifa ummæli

ATH. Þegar athugasemd hefur verið rituð þarf stundum að staðfesta hana, eftir að smellt hefur verið á "Post Comment". Hafið það í huga.