þriðjudagur, 26. júní 2012

Bíóferðir síðustu viku

Eftirfarandi myndir sá ég nýlega.

1. Bernie (Ísl.: Hafinn yfir grun)
Ég heyrði af þessari mynd tveimur mínútum áður en ég fór á hana í Bíó Paradís. Við vorum átta samtals í stærsta salnum, sem er strax ávísun á góða bíóferð.

Myndin er byggt á sönnum atburðum og fjallar um afar hjálpsaman, miðaldra mann sem gerist leikfang eldri, ríkrar tussu sem fer illa með hann. Myndin er bæði leikin og í viðtalsstíl, þar sem fólk sem þekkti raunverulega aðila kemur fram.

Jack Black er stórkostlegur í myndinni og sýnir að hann er drullugóður leikari, þó myndin sjálf sé ekki svo skemmtileg.

Ein og hálf stjarna af fjórum.

2. Prometheus (Ísl.: Gulli Byggir)
Ég heyrði af þessari mynd tveimur árum áður en ég fór á hana í Smárabíó (í 2D, af því 3D er það heimskulegasta sem ég hef heyrt um).

Myndin fjallar um vísindamenn sem finna skilaboð í hellum víðsvegar um heiminn. Skilaboðin gefa til kynna að líf sé að finna á ákveðnum stað í geimnum. Svo þau keyra af stað. Upphefst hellings ævintýri.

Myndin er vel gerð og lítur vel út en handritið ekki upp á marga fiska. Fín spennumynd og ágætis skemmtun.

Tvær og hálf stjarna af fjórum.

3. The girl with the dragon tattoo (Ísl.: Barnaby ræður gátuna)
Ég horfði loksins á endurgerðina af sænsku myndinni, sem ég hélt að væri erfitt að toppa.

Myndin fjallar um pönkarastelpu sem hjálpar blaðamanni að leysa morðgátu í sveitum Svíþjóðar.

Söguþræðinum er breytt örlítið hér og þar í þessari mynd, sem gerir hana ekki endilega verri. Myndin er svöl, leikurinn góður og sagan skemmtileg. Ef einhverjum tekst að toppa upphaflegu myndina þá er það leikstjórinn David Fincher.

Mæli mjög með þessari.

Þrjár og hálf stjarna af fjórum.

Næst ætla ég að fara á myndina Sér grefur gröf á miðvikudagskvöldið, sem ég man ekki hvað heitir á frummálinu. Öllum er velkomið að koma með.

0 athugasemdir:

Skrifa ummæli

ATH. Þegar athugasemd hefur verið rituð þarf stundum að staðfesta hana, eftir að smellt hefur verið á "Post Comment". Hafið það í huga.