föstudagur, 25. maí 2012

Leiðir til að lífga upp á daginn

Margir kvarta undan grámyglulegum hversdagsleikanum. Ekki ég. Ég brydda upp á fjölbreyttum viðburðum til að lífga upp á dagana. Hér eru nokkur dæmi sem þú getur gert, alveg eins og ég hef gert undanfarið:

1. Svitalyktaeyðir
Kláraðu svitalyktaeyðibrúsa eftir að hafa sprautað bara undir annan handakrikan áður en þú ferð í vinnuna. Mjög skemmtilegt verkefni að reyna að snúa annarri hlið líkamans aldrei að samstarfsfólki þínu, né heldur lyfta annarri hendinni.

2. Peugeot
Fáðu þér Peugeot. Hver dagur er ævintýri. Þú veist aldrei hvenær hann springur í tætlur.

3. Exótísk snökk
Um daginn keypti ég mér snakkpoka með salt- og edikbragði. Eftir eina flögu sveið mig svo í munninn, hálsinn og magann að ég henti restinni. Annan eins viðbjóð hef ég ekki smakkað. Eftir á að hyggja er edik ekki svo gott bragðefni. En ég er feginn að hafa lifað þetta ævintýri. Frábær saga í partíum, sérstaklega ef þú vilt byrja samtal við sætustu stelpuna í herberginu.

4. Sjónleysi
Mættu í körfubolta með félögunum án þess að taka með þér linsur. Að sjá ekkert í körfubolta er heilmikið ævintýri, sérstaklega þar sem allir körfuboltahæfileikar hverfa með sjóninni. Þá er gaman að reyna að fylgjast með meðspilurunum skjálfa úr reiði í þinn garð.

5. Kvikmyndir
Horfðu á kvikmyndir. Það er fínt.

0 athugasemdir:

Skrifa ummæli

ATH. Þegar athugasemd hefur verið rituð þarf stundum að staðfesta hana, eftir að smellt hefur verið á "Post Comment". Hafið það í huga.