laugardagur, 14. janúar 2012

Bíórýni

Ég hef löngum talið mig vera kvikmyndaáhugamann, þeas ég horfi stundum á bíómyndir og hef gaman af. Örugglega mjög sjaldgæft áhugamál.

Í síðastliðinni viku sá ég þrjár kvikmyndir. Hér er listinn yfir þær og umsögn/gagnrýni mín:



Contagion (Ísl.: Smit)
Tilda Swinton leikur Gwyneth Paltrow sem leikur konu sem veikist og út brýst stórhættulegur faraldur þessarar bannvænu flensu.

Myndin sýnir raunhæfa framvindu mála ef svona faraldur brýst út og áhrif hennar um allan heim. Stórskemmtileg og vel gerð mynd. Þrjár og hálf stjarna af fjórum.



Spirited away (Ísl.: Andað í burtu eða eitthvað)
Eftir að hafa lesið ótrúlegustu dóma um þessa mynd ákvað ég að kíkja á hana, vitandi ekkert um hvað hún er.

Eftir um það bil korter áttaði ég mig á því að ég hafði gert stórkostleg mistök. Myndin er kjaftæði. Ekki bara kjaftæði heldur þannig kjaftæði að hvað sem er getur gerst hvenær sem er, eins og Lísa í andskotans Undralandi. Ömurlegri gerast ævintýrin ekki.

Myndin er þó vel gert. Og örugglega skemmtileg fyrir fólk sem fílar svona rugl.

Ein stjarna af fjórum.


Tinker Tailor Soldier Spy (Ísl.: Allskonar starfsgreinar)
Þessi pólitíski þriller fjallar, held ég, um njósnasveit í Bretlandi í kalda stríðinu sem fær fregnir af því að einhver innan sveitarinnar starfi fyrir Rússa. Upphefst mikið spjall þeirra á milli.

Þetta er fyrsta myndin sem ég vissi næstum minna um eftir að ég sá hana en áður. Hún er vel gerð og mjög vel leikin en ögn of flókin fyrir minn smekk. Ég þarf líklega að sjá hana aftur. Og mögulega aftur.

Ég gef henni þó tvær og hálfa stjörnu, svo ég hljómi ekki eins og hálfviti.

0 athugasemdir:

Skrifa ummæli

ATH. Þegar athugasemd hefur verið rituð þarf stundum að staðfesta hana, eftir að smellt hefur verið á "Post Comment". Hafið það í huga.