þriðjudagur, 6. september 2011

Hversdagslegar smásögur IV

Hér eru tvær smásögur úr gærdegi lífs míns:

1. Eldamennska
Í gærkvöldi átti ég tvær brauðsneiðar, tvö egg og ost og ákvað því að steikja mér eggjasamloku*. Ég var frekar ragur við það en hugsaði svo „Hvað er það versta sem gæti gerst?“ Ég er alltaf til í að auka visku mína og svara þeim spurningum sem ég er spurður.

Ég brenndi bæði brauðin um leið og eggið var algjörlega hrátt. Osturinn flæktist í pönnunni og öll íbúðin lyktar af skaðbrunnu brauði og osti. Ennfremur lykta ég, 12 tímum síðar eins og stromphreinsir. Ég átti ekkert annað að borða.

Það var það versta sem gat gerst.

*Eggjasamloka = Gat skorið í miðju brauðs og sett á pönnu. Egg sett í gatið. Þegar steikt að fullu, bæta osti ofan á og annari hæð af brauði og eggi. Öllu snúið við, steikt og snætt.


2. Draumfarir
Í nótt dreymdi mig að ég hefði, einhverra hluta vegna verið skikkaður til að fara til sálfræðings. Sálfræðingurinn reyndist vera gullfalleg kona og viðtalið fullt af hlátri, skemmtun og mögulegu daðri. Að tímanum loknum brosti hún fallega til mín, sagðist vilja hitta mig sem fyrst aftur og bókaði mig á fimm daga fresti út árið.

Ég var í fyrstu ánægður, haldandi að hún væri óð í mig en fattaði svo að ég var snargeðveikur. Í draumnum!

Og svo dreymdi mig Trékyllisvík það sem eftir lifði nætur, morguns og dags, eins og venjulega.

0 athugasemdir:

Skrifa ummæli

ATH. Þegar athugasemd hefur verið rituð þarf stundum að staðfesta hana, eftir að smellt hefur verið á "Post Comment". Hafið það í huga.