mánudagur, 19. maí 2003

Mér finnst alltaf jafn skondið að sjá skák í bíómyndum. Ef staðan er ekki gjörsamlega út í hött, t.d. peð upp í borði eða báðir biskuparnir af sama lit á samlita reitum, þá er skákinni alveg að ljúka og ekki með því að annar gefur eða með jafntefli heldur í hvert einasta skipti með máti. Mátið kemur iðulega á óvart og taparinn er alltaf agndofa. Óvænt mát eru mjög sjaldgæf meðal fólks sem kann mannganginn. Venjulega er mátið yfirvofandi eða staðan það vonlaus fyrir annan að hann gefur hana. Gott dæmi um þetta er atriði úr einhverri bíómynd sem er það ómerkileg að ég nennti ekki að muna nafnið á. Í þeirri mynd skákar hvítur upp í borði með drottningu en þá kemur ótrúlegasti gagnleikur sem sögur fara af; svartur leikur hrók og mátar andstæðinginn án þess að virða skák drottningarinnar. Það ætti ekki að vera erfitt að fá eina manneskju til að leiðbeina leikstjóranum við gerð skáksena í bíómyndum. Það kunna þetta nánast allir.

Ég rakst svo á merkilegt taflsett sem var til sölu í BT um jólin síðustu. Ég skoðaði umbúðirnar vandlega og tók þá eftir stöðunni sem var á borðinu. Kóngarnir voru hlið við hlið, 2 peð voru upp í borði og allir 4 biskuparnir á samlita reitum. Það hefði sennilega verið of mikið vandamál fyrir fíflið sem gerði þetta að raða bara í upphafstöðuna því hann hefur örugglega ekki kunnað það.

Ég verð að róa mig niður eftir að hafa rifjað allt þetta upp. Sigur Rós er sett á fóninn.

0 athugasemdir:

Skrifa ummæli

ATH. Þegar athugasemd hefur verið rituð þarf stundum að staðfesta hana, eftir að smellt hefur verið á "Post Comment". Hafið það í huga.