mánudagur, 28. febrúar 2005

Þetta er fyrsta framhaldsfærsla þessarar síðu svo vitað sé til.

Lagið sem ég skrifaði á hendina á mér í fyrrakvöld er fundið. Svarið er semsagt Golden touch með Razorlight. Hér er lagið en aðeins í takmarkaðan tíma. Hér er svo textinn og ég mæli með því að þið kaupið diskinn með þeim hér.

Gefum laginu gott klapp.



Í gær, rétt áður en ég sofnaði, lá ég í svartamyrkri og horfði á sjónvarpið. Sá ég þar tónlistarmyndband sem ég varð svo hugfanginn af að ég greip penna einhversstaðar í myrkrinu og hripaði niður nafnið á sveitinni og lagið, algjörlega blint. Þegar ég svo vaknaði í morgun sá ég hendina (sjá mynd að ofan). Getur einhver sagt mér hvað stendur og hvar ég geti reddað mér þessu lagi? Í verðlaun er ánægjan sem fylgir því að geta lesið skrift mína auk aðdáun allra þeirra sem skilja hana ekki.

Falleg og vel með farin hendi annars.

sunnudagur, 27. febrúar 2005

Löngum hef ég velt því fyrir mér hvort ég sé ekki jafn vinstri sinnaður og ég vil meina og þá hvort ekki sé til próf á netinu sem sýni í eitt skipti fyrir öll hvar ég er staðsettur á pólíska kortinu. Viti menn, ég fann þetta próf, tók það og fékk þetta úr því:


Ég og Gandhi erum mjög svipaðir, fyrir utan hárgreiðsluna. Smellið á myndina fyrir stærra eintak.


Samkvæmt þessu get ég haldið áfram að vera vinstri sinnaður með góðri samvisku ásamt því að vera frekar frjálshyggjumaður en valdasboðsstefnuskratti. Fyrir nákvæma þá má sjá þessa mynd fyrir nákvæma stöðu mína á kortinu. Mér fannst bara flottara að bera mig saman við litlu nöfnin í bransanum hér að ofan.



Í skák við Óla Rú í dag kom þessi staða upp. Takið eftir svörtu biskupunum hans Óla. Talið er að hún komi upp í einni af sjö milljörðum skáka sem er býsna sjaldgæft. Skákin fór 1-0 fyrir mig, aldrei þessu vant.


Cheers is filmed before a live studio audience.


Stærsta hrós ársins fær Skjár 1 fyrir að ætla að sýna alla Staupasteinsþættina, einn á dag, næstu árin býst ég við. Þetta eru bestu gamanþættir allra tíma og löngu tímabært að láta þessa friends glápandi, snakkétandi, kókdrekkandi, tölvuleikjaspilandi, óþolandi hávöxnu og húmorslausu XL-kynslóð (ekki illa meint) kynnast alvöru gamanþáttum.

Ég vænti þess að skjár einn fái menningarverðlaun einhverskonar fyrir þetta frábæra útspil, ef ekki nóbelsverðlaunin.

laugardagur, 26. febrúar 2005




Á körfuboltaæfingu dagsins mætti Kjarri, einnig þekktur sem rapparinn KJ, í sjúku stuði eftir að hafa ekkert mætt eftir áramót. Hann leiddi lið sitt til sigurs hvað eftir annað og þegar mörgum þótti nóg komið sigraði lið hans enn einu sinni. Það var þá sem við hættum, býsna súrir.

föstudagur, 25. febrúar 2005



Constantine er ekki mikið fyrir að þrífa hjá sér veggina


Fyrir, á að giska viku síðan, sá ég myndina Constantine í fríðu föruneyti Óla og Helga bróður. Myndin fjallar um einhverskonar hetju, John Constantine, sem berst einhverskonar baráttu við einhverskonar djöfla eða engla. Á leiðinni kynnist hann einhverskonar gellu sem einhverra hluta vegna leitar til hans vegna einhverskonar sjálfsmorðs systur sinnar.

Í aðalhlutverkum eru Keanu Reeves og Rachel Weisz. Reeves skilar hlutverki sínu ágætlega miðað við að hann kann alls ekki að leika og Weisz er nokkuð góð.

Myndin er einhverskonar spennumynd, nokkuð góð en algjörlega óskiljanleg engu að síður.

Tvær stjörnur af fjórum.



Fyrr í dag fékk ég það á tilfinninguna að ég væri að breytast í Hulk, tók því mynd og sendi inn. Þegar ég sá þessa mynd svo hérna á netinu áttaði ég mig á því að þetta var vitleysa. Afsakið sjálfsmyndina.

Þessi mynd lýsir þó fullkomlega hvernig mér líður í dag.

fimmtudagur, 24. febrúar 2005




Þarna gefur að líta nýjasta nýtt úr HR; hreyfiskynjaður þurrkuklútaskammtari. Þarna gefur einnig að líta...

...mestan óþarfa í öllum heiminum
...mesta peningabruðl allra tíma
...hámark letinnar
...tæki sem hefur tekist að gera einfalda aðgerð að mjög seinlegri, pirrandi og leiðinlegri aðgerð

Ef aur af mínu 99.000 króna skólagjaldi er notað til að setja þetta helvítis rugl upp þá...verð ég fyrir hugarangri.



Nú hefur rignt í 5 daga samfleytt. Ég mótmæli!

En í annað; næsta mánuðinn mun það vera ókeypis fyrir mig að senda inn myndaskilaboð þannig að búið ykkur undir mikla myndadaga. Tillögur að myndum eru velkomnar.

Meira af myndum hérna.

miðvikudagur, 23. febrúar 2005

Í kvöld mættum við fjórir á körfuboltaæfingu sem er grátleg aukning um 33% frá því síðast. Við gerðum þó gott úr og bættum þess í stað stigametið, sem seint verður slegið. Ég til dæmis skoraði hvorki fleiri né færri en tvær milljónir stiga eftir að við breyttum reglunum í 500.000 stig fyrir hverja körfu og skemmtum okkur því 500.000 sinnum betur en venjulega. Hörkuskemmtileg æfing þó að körfuboltahópurinn sé að þynnast út í nýpabba, vinnusjúklinga, heimsferðalanga og letingja.


Ameríkuliðið


Endur fyrir löngu sá ég myndina Team America: World Police og hef hingað til gleymt að skrá það niður á þessa forlátu síðu. Nú, tveimur vikum síðar er hún mér enn í minni en fer dalandi þannig að nú er tækifærið til að skrifa um hana.

Myndin er eftir Matt Stone og Trey Parker, þá sömu og gera South Park teiknimyndirnar og er því býsna öðruvísi. Til að byrja með er hún með strengjabrúður í aðalhlutverki. Hún fjallar á mjög kaldhæðinn hátt um heimsyfirvaldatakta Bandaríkjamanna og út úr því skapast mikið ævintýri þar sem hollywoodstjörnur eru teknar fyrir og rassskelltar fyrir pólitískar skoðanir.

Myndin er fyndin og á köflum út í hött sem er ekkert verra. Gríninu er skotið fast í allar áttir og engin eiginleg afstaða tekin í neinu málefni, sem er heldur ekkert verra, og þó. Það sem mér fannst hinsvegar verra var að hún skilur lítið eftir sig. Grínið er óminnisstætt.

Allavega, þrjár stjörnur af fjórum.

þriðjudagur, 22. febrúar 2005

Það lítur út fyrir að ég sé búinn með allt nennið mitt og því eru hér bara nokkrir hlekkir sem ég mæli sterklega með:

Erlingur Barbari sigraði nýlega í keppninni um nafn á ofurhetjuútgáfuna af mér (DK, lesið kommentin fyrir útskýringar) og fær því hlekk á sig í verðlaun hér. Það er það minnsta sem ég get gert. Hann eignaðist jafnfram nýlega barn sem er einstaklega fallegt, en samt líkt honum (glens). Sjáið mynd af barninu hér.

Guðni heitir einn magnaðasti kappi sem ég hef kynnst en eins áður hefur verið tíundað hér þá kynntist ég honum á Egilsstöðum í sumar. Þá hóf hann blogg, hætti því skömmu síðar en er nú kominn aftur og ritar í formi ljóða. Skoðið það hér.

Sniðug hugmynd hér hjá Skjá Einum. Hinsvegar slæm hugmynd að láta vita strax af þessum plönum þar sem ég er ekki ennþá búinn að sækja um og án mín er enginn þáttur, eins og allir vita.

Samkvæmt þessari frétt get ég loksins hætt að safna hári til að virðast með stærri haus.

Eitt tæknilegt í lokin. Þið sem eruð orðin þreytt á því hversu mikið minni Acrobat reader tekur við að hlaða PDF skjölin þá er hér að finna mun hraðvirkara forrit. Prófið það og þakkið mér fyrir með blómum og skjalli. Ekki þakka höfundum forritsins fyrir, þeir eru nú þegar nógu montnir.
Hér kemur hjálpsamlegt ráð fyrir þá lesendur sem kljást við það vandamál að vera oft að springa úr hlátri á óviðeigandi stöðum. Þetta umrædda ráð virkar svipað vel og að hugsa um George Bush þegar óviðeigandi er að vera kynferðislega æstur; hugsið um verðbréf. Það er ekkert fyndið við verðbréf. Passið ykkur þó að hugsa ekki of mikið um þessi bréf þar sem það er ekki að ástæðulausu að verðbréfamiðlarar eru leiðinlegasta fólk í heimi, að þeim ólöstuðum að sjálfsögðu.

mánudagur, 21. febrúar 2005

Fyrsta hetjudáð míns annars sjálf, ofurhetjunnar DK(löng saga), hefur verið framkvæmd. DK fórnaði sér fyrir málstaðinn og rakaði sig án raksápu í kvöld til að kanna möguleikann á því að karlmenn þessa lands gætu sparað umtalsvert magn af peningum með því að sleppa því að kaupa raksápu. Til að gera langa sögu stutta; kaupið ykkur raksápu áfram. Ekki veit ég hvað konur eru að grenja yfir því að eignast krakka. Þær hafa ekki prófað að raka sig í framan án raksápu.



Nú fer hver að vera síðastur í að næla sér í skammdegisþunglyndi. Til að auðvelda þeim sem eftir eiga þessa bráðskemmtilegu afþreyingu, sem þunglyndi er, þá er mjög dimmt yfir þessa dagana eins og myndin sýnir. Allir í stuð; allir í þunglyndi!

Færslan er í boði Lyfju, þar sem þunglyndislyfin fást.

sunnudagur, 20. febrúar 2005

Í gær opnaði ég hurð fyrir stúlku í HR sem hafði gleymt aðgangskortinu heima. Í dag rétti ég einhverjum 100 krónur sem hann hafði misst í gólfið og svo rétt í þessu ráðlagði ég þremur samnemendum mínum lausn á heimadæmi nokkru sem við erum að vinna fyrir morgundaginn.

Ég hef í framhaldi af þessum hetjudáðum ákveðið að hanna búning og gerast ofurhetja HR. Tillögur að búningi, grímu og upphafsstefi eru vel þegnar í ummælunum. Bannað er að segja nokkrum manni að ofurhetjan er ég.
Í dag eiga eða ættu eftifarandi aðilar afmæli:

Kurt Cobain
Cindy Crawford
Björgvin bróðir

Til hamingju til allra að ofan, þó sérstaklega Björgvins en þó sérstaklega Cindy.

Ennfremur er konudagur í dag. Gleðilegan konudag til þeirrar einnar sem óskaði mér til hamingju á bóndadaginn.

Eftir vandlega íhugað mál hef ég tekið þá ákvörðun að senda öllum stelpum sem lesa þessa síðu hamingjuóskir með konudaginn sem ætti að tryggja að ég fái einhverjar kveðjur næsta bóndadag. Svona er ég nú góður.



Eftir bíóferð kvöldsins, þar sem myndin Constantine varð fyrir valinu, var þessi mynd tekin. Á henni sést, samkvæmt myndinni Constantine, að við Helgi erum illir og í raun afsprengi skrattans ef marka má gljáa augnanna. Meira um myndina seinna.

laugardagur, 19. febrúar 2005

Þá er komið að nýjum lið á vefsíðunni en hann ber heitið "Hvar er Finnur.tk"? Á myndinni að neðan, sem stækkar í nýjum glugga ef þið smellið á hana, má sjá reiðinnar býsn af fólki. Eitt af þessu fólki er Finnur.tk, en hver, og það sem meira er, hvar? Bónusstig fæst ef stúlkan sem starir á undirritaðan er nafngreind með símanúmeri.





Í verðlaun er stafræn eiginhandaáritun frá undirrituðum.

föstudagur, 18. febrúar 2005




Þá er lokið 24ra blaðsíðna verkefni sem hefur fengið mig til að sitja núna, bara í dag, í 12 klukkutíma á mjög óþægilegum stól. Það liggur því beinast við að nefna það "Gauragangur í sveitinni" og hafa mynd af þessum myndarpiltum á forsíðunni.

Þetta er fyrsti dagurinn þar sem aðeins birtast gsmbloggfærslur hérna. Vegna bágrar fjárhagsstöðu mun það ekki gerast næst fyrr en amk mánuði eftir að ég útskrifast.



Jákvæð fylgni er á milli rúmmál skóladóts og þyngdar verkefnisins sem unnið er eins og sannast á þessari mynd. Unnið er að einu erfiðasta skilaverkefni í heimi fyrir Fjármál II og að sama skapi er hér um að ræða eitt mesta rúmmál skóladóts í heimi.

Þetta er ennfremur ástæðan fyrir bloggleysinu í dag.

fimmtudagur, 17. febrúar 2005

Í Bónus áðan tafði miðaldra kelling mig um 15 mínútur við kassann en það var einmitt tíminn sem hún eyddi í að nöldra í 13 ára afgreiðslustelpunni yfir því að borga 599 krónur fyrir túlipana sem hún hélt að ætti að kosta 399 krónur, þegar hún var með vörur sem kostuðu alls um 10.000 krónur. Hún mat semsagt orðspor sitt upp á 200 krónur. Svona eru miðaldra kellingar.

Allavega, ég fékk nóg undir lokin, reif úr henni hjartað, át það, skilaði samlokunni og keypti bara florida appelsínusafann.
Alla jafnan er áfengi tengt við bjórbelgi og ræfla. Hamborgarar eru að sama skapi tengdir við fitu og óheilbrigðan lífstíl og hvorugur liðurinn er tengdur við íþróttir en samt er Sportbarinn til og auglýsir þessa dagana hamborgaratilboð eins og brjálæðingur á útvarpsstöðinni xfm.

Skil þetta svosem vel. Fitukeppa- og aumingjabarinn hljómar ekki vel í auglýsingum.

miðvikudagur, 16. febrúar 2005

Í gær keypti ég mér Colgate Total Professional tannbursta. Ef einhverjum finnst eitthvað athugavert við nafnið á þessu tæki þá er sá hinn sami ekki einn um það. Þá á ég ekki við Total heldur Professional sem þýðir Atvinnumaður. Tannburstun er ekki eitthvað sem maður leggur fyrir sig, hvað þá nær atvinnumennsku í. En hvað um það, ég ætla að prófa. Ef einhver vill fylgjast með mér tannbursta mig, pantið tíma í síma 867 0533. Með hverjum 10 sem bætast í hópinn fæst 10% afsláttur á mann. 100 manns og ég gef tannburstunarsýninguna.
Samningar hafa náðst við Og Vodafone svo nú loksins getið þið sent mér sms á ný af netinu í gegnum veftímaritið en þar sem ég fór til Vodafone varð Siminn.is hlekkurinn ónýtur.Smellið hér og sendið mér sms. Það er skipun!

þriðjudagur, 15. febrúar 2005




Hér gefur að líta fallegasta körfuboltalið allra tíma. Frá efri röð til vinstri: Skoppi, Óli Rú, Guðjón Bra og Davíð Lo. Neðri röð frá hægri: Árni Kri. Bakvið myndavélasímann: Finnur.tk.

Semsagt körfuboltaæfing í gær þar sem ég náði þeim feikilega merkilega árangri að tapa ekki leik. Til að fagna því skellti ég helmingi meira geli í hárið á mér eftir sturtu og fór í uppáhalds nærbuxurnar mínar.

mánudagur, 14. febrúar 2005

Í tuttugasta og sjötta sinn í röð er ég einn á valentínusardeginum en hann er í dag. Sem betur fer komu blómasölumenn þeim degi ekki á hérna fyrir nema um fjórum til fimm árum síðan þannig að ég hef ekki misst af miklu en þó einhverju greinilega fyrst fólk öskrar þetta sitt á hvað. Ég kýs þó að líta á björtu hliðarnar:

Ég þarf ekki að deila...
...litla rúminu mínu
...litlu sænginni minni
...litla herberginu mínu
...litlu peningunum mínum
...litla frítímanum mínum
...litlu vörunum mínum
...litla ísskápsplássinu mínu
...litlu núðlunum mínum

Þannig að ég veit ekki hvað ég er kvarta. Lífið er ljúft og deilist niður á fáa.


Karl Malone; besti kraftframherji allra tíma.


Besti kraftframherji allra tíma og helmingur 'Stockton-to-Malone' gengisins tilkynnti í gær að hann væri hættur að spila körfubolta. Ég er að sjálfsögðu að tala um Karl "The Mailman" Malone sem var orðinn 41s árs gamall og enn í fullkomnu líkamlegu ástandi. Andlega var hann þó alveg búinn.

Hér eru nokkrir hlekkir um þennan meistara sem gaf Utah Jazz 18 ár af ævi sinni.

Fréttamannafundurinn þar sem þetta var tilkynnt.
Myndir frá ferlinum.
Frétt ESPN um málið.
Aðdáendur kveðja Malone.

Einnig mæli ég með því að fólk kaupi DV á morgun og lesi risagrein um Malone eftir Baldur Beck.

sunnudagur, 13. febrúar 2005

Próf hjá mér á þriðjudaginn í mannauðsstjórnun. Námsefnið er svo leiðinlegt að annað augað var að detta úr mér. Svo hjálpar ekki að ég er í raun sneggri að skrifa en ég er að lesa, slík er tregðan sem hrjáir mig.

Ef einhver kann ráð við þessu, vinsamlegast látið mig vita í athugasemdum.
Það runnu á mig tvær grímur nýlega þegar ég uppgötvaði snilldarlagið Verst af öllu með Ríó Tríói. Textinn er nefnilega sérstaklega saminn um mig og mína aðstöðu þennan veturinn. Hvernig gat rithöfundurinn vitað um aðstöðu mína? Hér er fyrsta erindið:

Verst af öllu er í heimi
einn að búa í Reykjavík.
Kúldrast uppi á kvistherbergi
í kulda og hugsa um pólitík.
Vanta félagsskap og finnast
fólkið líta niður á þig.
Elda sjálfur, vita veslings
vömbin er að gefa sig.
Troðfullt allt af tómum flöskum.
Táfýlan að drepa þig.

Frekar óhugnarlegt. Hér er restin af textanum. Samkvæmt honum á ég eftir að byrja að drekka meira.

Mæli með því að fólk niðurhlaði þessu meistaraverki eða kaupi það og syngi með, rétt eins og ég á fjörugum en einmannalegum laugardagskvöldum.
Hér eru nokkur góð nöfn á hljómsveitir sem ætla sér á Íslenska sveitaballamarkaðinn, alveg ókeypis í boði Veftímaritsins; Við rætur hugans:

* Basket
* Paint
* Hand
* Foot

Ástæðan er einföld; auglýsingarnar myndu hljóma eitthvað á þessa leið: "_____ball í kvöld í Valaskjálf".

Þetta myndi valda svo mikilli ringulreið að allt myndi sennilega springa í loft upp. Þá gæti setið hérna við tölvuna og hlegið.

laugardagur, 12. febrúar 2005

Þegar ég var lítill sór ég þess eið að aldrei nokkurntíman gera neitt af eftirfarandi:

* Safna skeggi
* Drekka vín / verða fullur
* Reykja

Allt annað kom til greina. Ég hef þó nú strax, 5 árum síðar, brotið tvö af þessum loforðum þar sem ég hef safnað skeggi og drukkið vín og nóg af því. Ég mun þó aldrei nokkurntíman, undir neinum kringumstæðum reykja enda er þar um viðbjóðslegan og afar óaðlaðandi ávana að ræða.

Ennfremur hélt ég, um svipað leiti, að þotur væru vélar til að búa til ský þegar var of heiðskýrt. En það er allt önnur saga sem ég fer ekki nánar í hér af ótta við að verða fyrir stríðni.

föstudagur, 11. febrúar 2005

Ég var búinn að steingleyma að setja hlekk hérna á hljómsveitina Dodge Van Halen en hún inniheldur amk Óttar, bróðir Markúsar og Soffa, bróðir Einar Hróbjarts. Það hefur verið gert. Gjörið svo vel að hlekkja til baka, Dodge Van Halen.
Ég hef komist að því, eftir ítrekaðar rannsóknir á efninu, að ekkert pirrar mig jafn mikið og þegar matarleifar festast í tönnunum á mér og ég næ ekki að losa þær með tungunni. Að sama skapi færir ekkert mér meiri hamingju og þegar ég næ að losa mjög kirfilega fastar matarleifar.

Þannig að ef ég lamast fyrir neðan háls þarf það ekki endilega að skerða möguleika minn á fullkominni hamingju.
Í gær var furðudagur í kringlunni. Þar sá ég m.a.:

* Tvo austurlandabúa í fullum skrúða. Hef bara séð svoleiðis í sjónvarpinu hingað til.
* Á að giska 18-19 ára stelpu sem var lágmark 190 cm á hæð og samt gella.
* Sveitalúða með býsna mikla og glæsilega afró hárgreiðslu í rollugráa hárlitnum.
* Tvo liðsmenn hljómsveitarinnar Hjálmar.
* Kynningarmanneskju í bónus sem starði á mig eins og ég væri skrítnari en ég er.
* Spegilmynd mína.

Auk þess sem enga venjulega húfu er að finna í allri Kringlunni undir 2.500 krónum. Mjög súrrealísk kringluferð.

fimmtudagur, 10. febrúar 2005

Það virðist sem einhverskonar neðanjarðarhúfutíska sé að ryðja sér til rúms í mínu nafni. Hér er sönnunin.

Ég er, eins og gefur að skilja, mjög ósáttur þar sem finnur.tk er skrásett vörumerki og eini fræðilegi möguleiki minn til að ég komist yfir einhverjar fjárfúlgur í ljósi þess að ég bý ekki yfir neinum arðvænlegum hæfileikum.
Loksins hefur ælugrænu 'mjólk-er-góð' húfunni minni verið stolið úr HR en ég hef lagt hana á hillu fyrir ofan úlpuna mína alla þessa önn eftir að hafa gengið í skólann alla morgna, undantekningalaust í ofsafrosti, í þeirri von að hún yrði tekin ófrjálsri hendi svo ég neyðist til að eyða peningum í aðra, smekklegri húfu.

Af þessu tilefni býð ég öllum upp á drykk!

miðvikudagur, 9. febrúar 2005

Ég er orðinn svo stressaður fyrir heljarinnar próf í mannauðsstjórnun á þriðjudaginn næsta að mig verkjar í tennurnar og er skjálfhentur. Ekki nóg með það heldur er ég líka kominn með varaþurrk af stressi ásamt hælsæri og bakverk. Ég er einnig talsvert þyrstur, var svangur fyrr í dag og langar í nammi af stressi. Þegar ég held svo að stressið geti ekki haft meiri áhrif þá fæ ég hóstakast af stressi og er nú að berjast við kvefpest.

Það er ótrúlegt hvað maður getur verið stressaður. Ég vona bara að þetta skemmi ekki fyrir próftöku minni.



Getraun dagsins: Hvaða hús er þetta og af hverju er það merkilegt? Vísbending: það er númer 18, ég bjó þarna síðasta vetur og nafnið á götunni er á myndinni.

Í verðlaun eru gömlu skórnir mínir sem ég ætlaði að henda þangað til ég uppgötvaði að ég get stóraukið aðsókn á síðuna mína með því að gefa þá í verðlaun.
Í gær eyddi ég öllum deginum að finna eina tölu í einu dæmi fyrir Fjármál II, sem svo kom í ljós, eftir að ég fann hana með sjúkum útreikningum, að skipti engu máli fyrir úrlausnina.

Í gærkvöldi neitaði hurð að álmu í HR að opnast en þar geymdi ég úlpuna mína og því var ég úlpulaus í nótt og morgun.

Í morgun náði ég svo þeim glæsilega árangri að stilla klukkuna á símanum mínum í staðinn fyrir vekjarann sem olli því að ég svaf yfir mig og vissi ekkert hvað klukkan var þegar ég loksins mætti í skólann. Mjög súrrealísk upplifun.

Þið afsakið mig því þessa dagana. Ég er svolítið utan við mig.

þriðjudagur, 8. febrúar 2005

Eftir rúmlega 15 mánaða markaðssetningu á finnur.tk nafninu varð ég var við áhrifamátt auglýsingastarfseminnar þegar stúlka gekk inn á matsölustað, nýlega, þar sem ég og Bergvin sátum að sumbli og sagðist hafa heyrt að Bergvin og Björgvin téká sætu inni.

15 mánuðir og það eina sem fólk man er að ég er bróðir Björgvins og "téká". Ekki einu sinni punkturinn á milli.
Ég hef bætt við spjallborði á gsmbloggið þar sem þið getið komið með hugmyndir að myndum sem ég gæti þá tekið og birt. Kíkið á það hér og skráið eitthvað.



Á gsmbloggið mitt eru nú komnar þrjár myndir af Kristjáni Frey frænda mínum en hann er fallegasta barn allra tíma og jafnframt sonur Styrmis bróður. Meira hér.

mánudagur, 7. febrúar 2005

Í dag er runninn upp frestunardagurinn þar sem öllu er slegið á frest, sama hversu mikilvægt það er. Eftirfarandi verkefnum og aðgerðum hefur verið frestað í dag og dagurinn er ekki hálfnaður:

* Fótferðatíma undirritaðs frestað ítrekað um 5 mínútur í senn.
* Verkefnaskilum fyrir fjármál fyrirtækja II frestað um viku af kennara námskeiðsins.
* Markaðsfræðiniðurstöðu fundar hóps míns frestað til miðvikudags í ljósi ágreinings.
* Að stofna skákklúbb í HR af undirrituðum frestað, fimmhundruðasta og tólfta daginn í röð.
* Öllum klósettferðum frestað eins og líkaminn leyfir.
* Að skrifa eitthvað fyndið og jafnvel óskiljanlegt hér frestað um eina línu.
* Að halda hinn Alþjóðlega Dag Ákeðinna Einstaklinga frestað um óákveðinn tíma.
* Bolluáti slegið á frest þangað til nægt fjármagn fæst til að versla eitt stykki.
* Innsetning á nýjum myndum af Kristjáni Frey frænda frestað um einn dag eða til morguns.
Ef þreyta væri typpi þá væri ég með stærsta typpi í heimi núna.

sunnudagur, 6. febrúar 2005

Hér er listinn yfir mín uppáhaldslög síðustu ár (tel ekki Nick Cave með til að brydda upp á fjölbreytni):

2002: Get off - Dandy Warhols. Fjörugt lag sem svífur ótrúlega vel.

2003: Aerodynamic / Veridis Quo - Daft punk. Af disknum discovery sem er meistaraverk.

2004: I miss you - Blink 182. Það er engu lagi líkt hvað þetta er svalt lag og skemmtilegt.

Það verður spennandi að heyra hvaða lög muni heilla mig á þessu ári. Hingað til eru þau núll samtals.

Ef þið smellið á lagatitilinn heyrið þið lagið. Verði ykkur að góðu.

laugardagur, 5. febrúar 2005

Í framhaldi af því að hafa rekist á Barða í Bang Gang í 11-11 verslun í fyrradag, þar sem hann starði í augun á mér svo ég hrökklaðist undan, hef ég ákveðið að birta lista yfir þrjá svölustu kappa sem ég þekki til. Reyndar, þegar ég hugsa um það, þá finnst mér engir nema þessir menn svalir.

3. Barði í Bang Gang, tónlistar og útvarpsmaður. Rífandi húmoristi en þegir þegar hann hefur ekkert að segja. Klæðist bara svörtu og fer það honum einstaklega vel.

2. Guðmundur Steingrímsson, heimspekingur, pistlahöfunur á fréttablaðinu, þáttastjórnandi á skjá einum og rithöfundur. Rífandi húmoristi og er með puttana á púlsinum. Hefur allar réttar pólitískar skoðanir. Klæðist bara svörtu og fer það honum einstaklega vel.

1. Nick Cave, tónlistarmaður og rithöfundur. Sjúkur laga og textahöfundur, hæfilega þunglyndur og stórkostlega ófríður. Klæðist aðallega svörtu og fer það honum einstaklega vel.



Kristján Orri tók hraustlega til matar síns í kvöld eftir körfuboltaæfingu en þar spiluðum við saman í liði gegn öxulveldi hins góða og töpuðum eftir hörkubaráttu. Þá er ekkert annað að gera en að kaupa sér hamborgara.

föstudagur, 4. febrúar 2005

Síðustu tvo daga hafa tvær færslur á bloggsíðum internetsins verið tileinkaðar mér. Fyrst var það Þóra Elísabet með þessari mynd og í dag skrifaði Guggur þessa færslu bara fyrir mig. Það verður spennandi að sjá hver tileinkar mér næst færslu á morgun.

Ef fer fram sem horfir verða komnar 330 færslur tileinkaðar mér víðsvegar um internetið áður en árið er liðið. Þetta verður, ef tölfræðispá mín gengur eftir, mjög spennandi ár fyrir mig en hundleiðinlegt fyrir alla aðra.
Í gær hlakkaði heldur betur í mér þegar ég greiddi upp síðustu visaafborgunina af þessari forkunnarfögru tölvu því ég leit svo á að ég ætti hana loksins. Það er þó alrangt því Landsbankinn á Egilsstöðum á hana þar sem ég er með allt saman á yfirdrætti. Í maí mun svo LÍN eignast þessa tölvu þegar ég fæ námslánin greidd, vonandi. Ég mun því ekki eignast þessa bölvuðu tölvu fyrr en í fyrsta lagi 2008 eða 2009 þegar ég byrja að greiða af námslánunum. Þá verður hún að sjálfsögðu orðin úrelt og allir bendandi og hlæjandi að mér fyrir að vera með tölvu frá 2003.

Sömu sögu er að segja um samlokuna sem ég var að kaupa mér á visakortið.

fimmtudagur, 3. febrúar 2005




Í dag kom austurglugginn út sem eitt og sér er býsna merkilegt en það er þó merkilegra fyrir aðrar sakir. Aftan á þessu stórskemmtilega, austfirska blaði er nefnilega mynd af björtustu von Íslands. Svo er líka mynd af mér þarna einhversstaðar. Ég kaus að fara ekki nær blaðinu með myndavélina þar sem innihald þess, sem ég skrifaði, kann að valda taugatitringi á meðal kvenna.

Þessi færsla var í boði dótturfélags Veftímaritsins; Gsmbloggsins.
Ég hef verið að íhuga að skipta um hlátur á netinu og þar sem ég tolli alltaf í tískunni vil ég vita hvað er að virka best fyrir ykkur. Vinsamlegast svarið þessari könnun eftir bestu getu. Þið getið merkt við fleira en eitt svar. Ef þetta vefst fyrir ykkur, skrifið ummæli í ummæladálkinn.




Það eina sem komst nálægt því að vera áhugavert í Flugmanninum


Fyrir rúmri viku fór ég í háskólabíó með Garðari og Bergvini. Tilgangurinn var að skemmta sér yfir bíómynd með popp og kók við hönd. Ferðin var 67% vel heppnuð, þeas við fengum okkur popp og kók.
Bíómyndin sem varð fyrir valinu heitir the aviator. Þar leikur Leonardo Dicaprio einhvern glataðasta viðskiptamann allra tíma, Howard Hughes, sem reynt er að upphefja en án árangurs. Til að tryggja óskarinn fyrir Dicaprio var smá geðsýki bætt við karakterinn og myndin þar af leiðandi orðin fullkomlega ömurleg. Allavega, þessi mynd fjallar um slæmar viðskiptaákvarðanir, gervilega geðsýki Hughes og flugvélahönnun. Hún er algjörlega fullkomlega óáhugaverð á allan hátt og þar að auki þrír tímar. Ömurleg mynd fyrir artí fartí viðbjóði sem hafa gaman af því að sjá myndir bara af því þær eru vel leiknar.

0 stjarna af fjórum.

miðvikudagur, 2. febrúar 2005

Ég hef uppfært hlekkjalistann og bið ykkur vinsamlegast um að láta mig vita héreftir ef þið breytið urlinu að heimasíðum ykkar, nú eða ef þið byrjið að blogga.

Ennfremur gef ég ykkur þeim, sem ekkert hafa bloggað í mánuð, 48 klukkustunda frest til að skrá færslu ellegar verða að öðrum kosti eytt af hlekkjalistanum þar sem aðeins virkustu bloggarar fá að sitja hér í hlekkjalistanum.

Ég bið ykkur hin sem eruð með hlekk frá mér og hafið ekki launað greiðann hingað til, vinsamlegast að gera það núna eða næstu fimm daga. Sé þessu ekki framfylgt mun ég ekki einungis eyða hlekknum á viðkomandi heldur einnig gera innrás á hann, yfirtaka síðuna og allar auðlindir sem henni fylgja.

Þessi færsla markar tímamót því aldrei nokkurntíman áður, hvergi nokkursstaðar, hefur hernaðarstefnu verið beitt í bloggmálum.
Í dag er hinn alþjóðlegi hlekkjadagur og veftímaritið vill ekki vera ómerkara en aðrar síður þannig að hér eru hlekkir dagsins:

Ásta Kristín fær hlekk fyrir að hlekkja á mig margfalt. Mjög skemmtilegt blogg þarna á ferðinni hjá fyndinni stelpu sem er vel málum farin.

Þessi síða sýnir ykkur hvernig það er að búa inni í tölvunni ykkar þegar þið skoðið þessa siðu.

Helgi bróðir kemur hér með mjög athyglisverða kenningu varðandi jarðskjálftan sem var á austurlandi í vikunni.

Þessi ræma fékk mig til að brosa út í annað og langa til að skoða þessar ræmur allar.

Gsmbloggið mitt heldur áfram að ganga. Mæli með því að þið setjið það í uppáhaldssíðurnar ykkar þar sem ég hyggst bæta við nýrri mynd daglega.

Guggur er að gera stórgóða hluti í Miami og það er mjög gaman að lesa um bandaríska háskólamenningu á síðunni hans.

Fleira var það ekki að sinni. Veriði sæl.

þriðjudagur, 1. febrúar 2005

Þá er komið að hinu sívinsæla vísindahorni veftímaritsins.

Oft hefur verið talað um að fólk sem kemst í herbergi fullt af hlutum sem það elskar að það sé eins og barn í nammibúð eða kid in a candystore eins og það kallast á frummálinu.

Nýlega fór ég í konfektbúðina í kringlunni og þar var ég heldur betur kátur enda lifi ég nánast á nammi. Allavega, ég fór að hugsa um þessa samlíkingu og fékk þessa formúlu út:

X + Y = F + Y

Þar sem:
X = Barn
Y = Nammibúð
F = Finnur.tk
+ = í

Í ljósi þess að Y er hið sama báðum megin við samasemmerkið má skrifa þetta svona líka:

X = F

Tvær ályktanir koma hér út en aðeins önnur er gild. Annars vegar "barn er Finnur.tk" sem stenst engan veginn og hinsvegar "Finnur.tk er barn" sem hlýtur að vera rétt útkoma.

Auðvitað varð ég brjálaður eftir þessa útreikninga og stappaði niður fætinum.
Í gærkvöldi náði ég, alveg óvart, að missa niður um mig aðhnepptum gallabuxur, vídd 34, sem ég geng alla jafna í. Þá sté ég á vikt og hef ekki mælst jafnléttur í tvö ár þannig að hafið er átak í að þyngja mig enn eina ferðina. Ég hef því keypt mér blandara, skyr.is, ís og eitthvað próteinríkt sull til að troða í mig með núðlunum ásamt því að draga úr heróínneyslunni. Þegar ég er svo kominn í, að ég vona, eðlilega þyngd mun ég hefja lyftingar en þá verð ég líka kominn í sólina á Egilsstöðum í vinnu á skattstofunni.

Þangað til þá, afsakið hvað ég er mjór. Eftir það hinsvegar þá skulið passa ykkur á jötninum.