fimmtudagur, 30. júní 2005

Finnur.tk mælir með...

* Nágrönnum, alltaf.
* Samtökunum 'Miðaldra kellingar gegn nöldri og slúðri' áður en þau verða lögð niður
* Að snúa upp á geirvörturnar. Er mjög gott ef litið er framhjá sársaukanum.
* Vinna 13 tíma á skattstofu einn daginn, fertugasta vinnudaginn í röð og skrifa svo heilsteypta bloggfærslu. Það er ómögulegt.
* Frey Eyjólfssyni útvarpsmanni.
* Núðlum.

Þetta er með betri bröndurum sem ég hef séð um ævina. Það segir reyndar meira um mig en þennan brandara nokkurntíman. Það segir jafnvel meira um mig en nokkuð annað að ég hló þar til ég hóstaði blóði. Þá hætti ég að hlæja. En nóg um mig. Lesið brandarann aftur og smellið á hann fyrir stærri útgáfu.

miðvikudagur, 29. júní 2005

Þá ætla ég að loka enn einum kaflanum í lífi mínu en síðustu vikum hef ég eytt í svartsýni og leiðindi. Nýji kaflinn mun bera hið virðulega heiti "Allt vitlaust á kaffihúsinu" en í honum mun ég vera jákvæður og líta björtum augum á allt, sama hversu ömurlegt það er.

Við skulum byrja á klippingunni sem ég fór í um daginn; besta klipping sem ég hef fengið í langan tíma, þrátt fyrir að ég líti út fyrir að vera eins og illa rökuð lesbísk hóra með hana.

Jákvæðni og bjartsýni, að hætti heimska fólksins, hér kem ég!

Á skattstofunni eru allir svo góðir að enginn vill taka síðasta kökubitann. Þess í stað er síðasti kökubitinn skorinn í hálft ca 20-30 sinnum og restinni hent.

Allavega, ég var búinn að leita í öllum skúffum og hillum hérna við skrifborðið mitt á skattstofunni í morgun þegar ég áttaði mig á því að ég var að leita að skjali í tölvunni. Já, ég svaf yfir mig í morgun og já, ég er og verð mjög utan við mig í dag.

þriðjudagur, 28. júní 2005

Það er allt að verða vitlaust hérna á skattstofunni. Síðustu dagarnir til að fara yfir framtölin eru að líða og fólk keppist við að kasta upp blóði hvort yfir annað af stressi. Ég skrifa því ekki meira í dag. Ekki vegna samviskusemi heldur vegna þess að ég finn illa lyklaborðið lengur fyrir blóði.
Ég svaf býsna glæsilega yfir mig í morgun um þrettán mínútur í fyrsta sinn í sumar. Því fagnaði ég með því að fara öfugt í peysuna og klæða mig í fyrsta krummafótinn frá því ég var 3ja ára, slík var þreytan. Ennfremur er ég ekki frá því að ég hafi dottað undir stýri þar sem ég man ekki eftir ferðinni í vinnuna.

mánudagur, 27. júní 2005

Hér eru nokkur merki þess að lyftingarnar og próteinátið er í raun að valda þyngdaraukningu eins og ráðgert var:

* Brjóstkassinn skoppar þegar gengið eru upp og niður stiga.
* Gallabuxurnar eru hættar að detta niður á neyðarlegum stöðum og í neyðarlegum stellingum.
* Dempari í bílnum brotnar undan.
* Stóllinn í vinnunni gefur sig amk fimm sinnum á dag.
* Fólk er hætt að segja 'guð hvað þú ert alltaf horaður'.
* Skugginn er orðinn 10 kg.
* Vigtin segir það.

Til að fagna hinum Alþjóðlega Bruðldegi fjárfesti ég í eftirfarandi í gær:

kr. 4.000 Bandýkylfa (sjá mynd)
kr. 3.000 Póker spilapeningar
kr. 899 DVD mynd, The Wedding Singer
kr. 200 Kók og prins
______________
kr. 8.099 Alls

Ég hef lagt mitt af mörkum til þessa dags og vona að sem flestir geri það sama.

Framundan eru hinsvegar pókerspilakvöld þar sem hver sá sem sigrar mig verður barinn með bandýkylfu, mögulega til dauða.

sunnudagur, 26. júní 2005

Þar sem ég hef unnið af mér allt sumarið hingað til og sé ekki betur en að restinni verði eytt við vinnu, þegar ég á að vera úti að kynnast nýju fólki, vil ég biðja nýja fólkið að koma til mín í staðinn. Ekki þó á skattstofuna heldur á MSN spjallforritið. MSNið mitt er finnurtg@hotmail.com. Því fleiri því betra og því færri því verra.

Allir velkomnir.
Hér er listi yfir fólk sem er tiltölulega nýlega búið að eignast barn eða er á leiðinni í það stórvirki:

Styrmir Freyr, bróðir.
Daníel Kjartan, vinur.
Björgvin Luther vinur.
Dassi, bróðir Björgvins.
Maggi Tóka, kunningi.
Bryngeir Daði, vinur.
Tvær í HR sem ég þekki en má ekki nafngreina.
Maggý Gauja, kunningi.
Karl Kennedy, nágranni og vinur.
Eyrún Huld, samnemandi úr ME.
Þórey, kunningi frá Eskifirði.

Og hvað geri ég á meðan allir eru að gera það gott? Ég eyði helgum mínum í að vinna, blogga og sofa. Grátlegt.

laugardagur, 25. júní 2005

Þessa dagana geng ég með lyklakippu á mér sem er ekki í frásögu færandi nema fyrir að á henni er fjallað um karakter minn útfrá afmælisdegi mínum; 28. júlí. Þar stendur orðrétt:

Fólk fætt á þessum degi hefur sterka og göfuga skapgerð. Það er fullt bjartsýni á lífið og tilveruna og lætur ekki aðra hafa áhrif á sig. Það er öfundað af öðrum vegna þessara eiginleika en jafnframt dáð og virt.

Við skulum aðeins kíkja nánar á þetta:

..sterka og göfuga skapgerð.“ Ég er mesta rola sem fyrirfinnst. Það er ekkert sterkt eða göfugt við mína skapgerð.

..fullt bjartsýni á lífið og tilveruna..“ Ég er svartsýnasti maðurinn á landinu á allt og alla.

..lætur ekki aðra hafa áhrif á sig.“ Ég lifi fyrir álit annarra. Ef fólki líkar illa við mig þá breytist ég.

..öfundað af öðrum vegna þessa eiginleika..“ Ég get lofað því að ekki nokkur maður öfundar mig af neinu.

..dáð og virt.“ Ég læt vaða yfir mig í flestu og geri allt fyrir fólk sem veldur því að fólk dáir mig hvorki né virðir.

Semsagt; ekki orð er rétt á þessari lyklakippu.
Þegar hingað er komið við sögu er þriðjungur sumarsins búinn og ég hef staðið við 5 af 6 atriðum áætluninnar sem ég setti mér í upphafi. Í áætluninni voru eftirfarandi atriði:

* Vinna alla daga, alltaf.
* Borða á hverjum degi.
* Lyfta annan hvern dag.
* Anda oft á dag.
* Sofa einu sinni á dag.
* Vera kúl, alltaf, allsstaðar.

Um að gera að setja sér lítil markmið til að verða síður fyrir vonbrigðum. 83% árangur er nokkuð gott. Þið megið geta hvaða atriði ég hef ekki staðið við.

föstudagur, 24. júní 2005

Samkvæmt áreiðanlegum heimildum er til lag með Jan Mayen sem heitir Nick Cave. Þetta frétti ég fyrir nokkrum tímum og þar sem ég er mjög mikill aðdáandi Nick Cave verð ég að láta umheiminn vita af þessu. Hér getið þið lesið umræddan texta um Nick Cave og hvergi á netinu getið þið heyrt lagið. Ef þið eigið það, látið mig vita.
Ég legg til að starfsheitinu 'læknir' verði breytt í 'athugari'. Hér eru röksemdir mínar fyrir þessari tillögu minni:

* Læknar lækna ekki alltaf. Reyndar lækna þeir eiginlega aldrei. Fólk verðu brjálað þegar það gerist.

* Athugarar athuga alltaf. Ef þeir lækna líka þá er það bara bónus fyrir manneskjuna sem vill láta athuga sig. Allir verða ánægðir.

* Athugaradeild Háskóla Íslands hljómar betur en Læknadeild Háskóla Íslands.

Ég tel að með núverandi kerfi, að læknar séu kallaðir læknar, séu vonir fólks um lækningu full miklar. Með nýja kerfinu, að læknar verði kallaðir athugarar, gerir fólk sér engar vonir um lækningu og verði því aldrei fyrir vonbrigðum.

© Veftímaritið Við Rætur Hugans

fimmtudagur, 23. júní 2005

Vegna spúlunar á skattstofunni utanverðri eru allir gluggar lokaðir núna. Í kjölfarið er hitinn inni slíkur að hörðustu sársaukafíklar myndu orga seiðandi frygðarstunum, ef þeim gæfist kostur á að vera hér innandyra. Ég hinsvegar er bara mjög þreyttur eða að deyja, auk þess sem ég er byrjaður að svitna blóði og ætla því að fara hálftíma snemma heim. Hálftímanum verður eytt í að skrifa þessa færslu.
Ég hef nú skrifað fjórar bloggfærslur í dag og strokað þær út af því ég tel þær ekki nógu góðar. Ég læt því þessa færslu bara nægja, sem segir ótrúlega margt um hversu slæmar hinar færslurnar voru.

miðvikudagur, 22. júní 2005

Í gær missteig bíllinn minn sig býsna illa á vinstra dekki aftanverðu. Hann er þá orðinn nákvæmlega eins og ég; gamall, haltrandi og litinn hornauga, en við viljum þó báðir vel.

Að öllu gamni slepptu þá brotnaði undan honum dempari og þarf ég að greiða fyrir það amk kr. 10.000. Það er nú samt lítið verð fyrir svona góða bloggfærsluhugmynd.

Með þessari færslu hef ég minnkað endursöluverð bílsins um helming eða rétt um 450 krónur.
Mér finnast eftirtalin atriði mjög furðuleg:

* Á tækniöld sem þessari þegar allir eiga myndavél, virðist framboð mynda af draugum, geimverum og öðrum ólíklegum hlutum ekkert aukast.

* Draugar virðast geta sagt heilu setningarnar við "miðla" um það sem mun gerast eða það sem á að gera en geta hinsvegar aldrei sagt nöfn nógu skýrt. Skrítið.

* Engar sannanir eru til fyrir neinum guði. Ein skáldsaga er notuð sem aðal sönnunargagnið fyrir vesturlandaguðinn. Samt trúa nánast allir á þetta. Hvort er líklegra að einhver risa andi hafi búið til heiminn og vaki yfir öllu eða að þetta sé allt heilaþvottur og skáldskapur?

* Lýðræði. Fólk er fífl. Eigum við að láta fífl ráða?

Ekki að ég sé að gagnrýna. Fólk má trúa því sem það vill auðvitað. Spá mín er að það muni kvikna í nokkrum af reiði í kjölfar þessarar færslu.
Niðurstöður könnunarinnar eru komnar í hús. Ég spurði hvort lesendur væru með blogg og niðurstöðurnar eru sláandi. Ekki vegna þess hversu fáir tóku hana eða vegna tölulegrar niðurstöðu heldur vegna nafnlausra ummælanna sem féllu í þessari könnun og má sjá hér.

Það kemur í ljós að einhver þarna úti elskar mig og vill sofa hjá mér. Allar líkur eru á því að um sama aðilann er að ræða, þar sem erfitt er að finna svona smekklausa manneskju. Hefst þá útreikningur:

Alls tóku 19 strákar könnunina og 9 stelpur. Ég geri ráð fyrir að 3 af strákunum séu ýmist bræður mínir eða pabbi og ein stelpa sé annað hvort systir mín eða einhver sambærilegur. Þá eru eftir 16 strákar og 8 stelpur. Samkvæmt nýjustu rannsóknum er um 10% allra samkynhneigðir. Það tekur út ca 1 stk stelpu og 14 stk stráka. Eftir standa 8 stelpur og 2 strákar.

Niðurstöður: 80% líkur eru á því að stelpa þarna úti beri heitar tilfinningar til mín. 20% líkur eru hinsvegar á því að ég vilji ekkert vita um þessa ást.

þriðjudagur, 21. júní 2005

Hugmynd mín um að stofna Einhleypingafélagið Böðvar hér fyrir austan í sumar kolféll um sjálfa sig þegar ég uppgötvaði að ég er eini einhleypingurinn sem ég þekki um þessar mundir. Reyndar er ég nánast sá eini sem ég þekki hérna fyrir austan núna, að því er virðist.

Hugmyndin snérist um að einhleypingar kæmu saman 4-5 sinnum í viku og föndruðu eitthvað fallegt fyrir mæður sínar. Ykkar missir.
Í dag þarf ég bara að vinna til 19:00 og þá á ég bara eftir lyftingar og sund til ca 22:00 sem þýðir að ég hef tvo tíma útaf fyrir mig. Aldrei óraði mig fyrir því að ég ætti eftir að fagna svona tölfræði en tveir tímar eru lengi að líða og því hef ég gert vandaða áætlun um eyðslu á þeim:

22:00 - 22:15: Rifja upp þessa áætlun
22:15 - 22:30: Bjarga lífi einhvers, einhvernveginn
22:30 - 22:45: Gera heiminn betri, einhvernveginn
22:45 - 23:00: Þrífa bílinn
23:15 - 23:30: Hugsa um peningamálin, án þess að æla blóði af stressi
23:30 - 23:45: Standa við fjöldann allan af gefnum loforðum
23:45 - 00:00: Hlusta á Kim Larsen

Eftir vandlega hugsað mál hef ég breytt áætluninni örlítið. Hún lítur svona út núna:

22:00 - 00:00: Sjónvarpsáhorf

mánudagur, 20. júní 2005

Aldrei hefur bíllinn minn verið jafn hreinn og þetta sumarið. Ástæðan er ekki duglegheit mín við þrifnað heldur stanslaus rigning hér á Egilsstöðum í sumar (og auðvitað leti mín hingað til við að þrífa bílinn).

Með þessu er ég að skjóta föstum skotum á veðurguðina en þeir geta drullast til helvítis, ef annað hvort er til. Takk annars fyrir bílþrifin.
Í morgun heyrði ég sjálfan mig segja eftirfarandi þegar kunningi minn spurði mig um framtalsgerð:

"Ef um rekstur er að ræða er rökrétt að skila af sér RSK 4.05 og í framhaldi af því RSK 4.10, nema ef um rekstur með veltu yfir kr. 500.000 er að ræða, þá skilar þú inn RSK 4.11. Ef þetta er, eins og þú segir, vegna sjómennsku þá skilar þú bara inn RSK 3.13 og málið ætti að vera dautt. Svo þarftu auðvitað að skila inn RSK 3.02 því annars getur söluhagnaður verið áætlaður á þig."

Og kunningi minn sagði "ha?"

Ég hata sjálfan mig. Ég held ég kýli sjálfan mig í magann.

sunnudagur, 19. júní 2005

Hér er tæmandi listi yfir alla í heiminum sem eiga afmæli í dag:

Soffía Sveinsdóttir 2x ára
Grettir 27 ára
Mannréttindi kvenna 90 ára, sem fara vonandi að deyja.

Síðast en ekki síst: Kristján Freyr frændi!

Kíkið á nýjar og gamlar myndir af Kristjáni á gsmblogginu, honum til heiðurs. Til hamingju með 2ja ára afmælið, frændi.

Til hamingju líka þið hin.
Á skattstofunni vinn ég í stól sem hefur sjálfstæðan vilja. Þegar ég býst síst við því, lækkar hann sig niður í gólf. Þetta gerist ca fimm sinnum á dag og get ég ekkert gert til að koma í veg fyrir þetta, nóg hef ég reynt. Það er skemmst frá því að segja að ég hef fengið nóg.

Ég bið því lesendur þessa veftímarits vinsamlegast um að ganga ekki undir utanverða glugga skattstofunnar næstu daga þar sem viðkomandi á það á hættu að fá stól í hausinn, ásamt talsverðu magni af glerbrotum, ef ég dríf í gegnum tvöfalt glerið.

laugardagur, 18. júní 2005

Hér er spurning sem hefur lengi brunnið á vörum mínum. Hjálpið mér að sofa rólega í nótt:

Smellið hér til að svara.
Kolla systir stækkar ört við sig. Fyrir nokkrum dögum opnaði hún bloggsíðu aftur, eins og allir muna og nú er hún byrjuð með myndasíðu sem dótturfyrirtæki bloggsins. Ef fer fram sem horfir verður Baugur eins og smástelpa við hlið netveldis Kollu.

Allavega, kíkið á myndasíðuna hennar hér.

föstudagur, 17. júní 2005



Passion of the Christ. Þessi leikur þar.


Í gærkvöldi sá ég hryllingsmyndina Passion of the Christ en hún er byggð á skáldsögu eftir Halldór Laxness, Biblíunni. Hún fjallar um síðasta sólarhring 33ja ára töframanns sem hét Jesús og var uppi á árunum 0 til 33. Það er skemmst frá því að segja að honum var slátrað af sturluðum gyðingum, að ég held.

Í aðalhlutverkinu er tvífari John Stockton; James Caviezel í hlutverki Jesúss og aðrir í minni hlutverkum. Monica Bellucci leikur jú þarna einhverja Magdalenu sem ég skil aldrei hvað er að þvælast í sögunni, en fögur er hún og það er allt sem skiptir máli.

Um er að ræða viðbjóðslegustu mynd sem ég hef um ævi mína séð, ofbeldið er allsráðandi og augun á þessum Jesús klárlega lituð ljósgulbrún með hjálp tækninnar. Ég mæli með þessari mynd fyrir aðdáendur splatter mynda, annars ekki. Endirinn kom þó talsvert á óvart og bíð ég spenntur eftir framhaldinu.

Tvær og hálf stjörnu af fjórum.

fimmtudagur, 16. júní 2005

Mér hefur verið skipað að taka frí frá vinnu á morgun, þjóðhátíðardag Íslendinga þar sem skattstofan greiðir engum aumingjum stórhátíðarkaup. Í kjölfarið finn ég hvernig kvíðinn fyrir morgundeginum byggist upp og örvæntingin grípur mig. Óttinn við aðgerðaleysi er allsráðandi.

Ef þið sjáið nakinn mann á morgun, útataðan í hnetusmjöri, ráfandi um í klofstígvélum, leitandi að tölum til að slá inn í vegarkanti nálægt Egilsstöðum, vinsamlegast látið mig fá gerviskattframtal og skutlið mér heim.

Ég hef annars hafið samningaviðræður um að fá að vinna á venjulegu dagvinnukaupi á morgun. Vonum það besta.



Ég er loksins fluttur inn í Miðgarð 4, ekki nema tveimur vikum eftir að ég gat flutt inn. Þar mun ég leigja með Esther Ösp, vinkonu, bloggara, pistlahöfundi, kennara, íslenskunema, fjölmiðlafræðinema, hótelverkamanni, húmorista og síðast en ekki síst; stelpu.
Í gærkvöldi braut ég odd af oflæti mínu og spilaði bandý með fallegu kvenfólki og fimum karlmönnum í íþróttahúsi Hallormsstaða. Hófst spilið klukkan ca 20:30 og áður en vissum af höfðum við spilað í tvo tíma. Með því skemmtilegasta sem ég hef gert síðan ég kom austur, fyrir utan að vinna auðvitað.

Þetta er í fyrsta skipti sem ég spila íþróttir síðan ég tognaði illilega fyrir næstum fimm vikum síðan og ber að fagna því á viðeigandi hátt; skjóta af sjálfvirkum riffli uppi í loftið og öskra eitthvað óskiljanlegt.

miðvikudagur, 15. júní 2005

Bloggin poppa upp eins og sveppir. Nýjustu bloggin eru:

* Kolla systir er byrjuð að blogga aftur. Smellið hér til að lesa hugsanir hennar.
* Helgi bróðir sendir myndir inn á vefinn í gegnum símann sinn við mikinn fögnuð viðstaddra. Smellið hér til að sjá það sem Helgi sér.
* Gutti, aftur. Bloggskrif hans eru aðdáunarverð fyrir þær sakir að hann segir allt sem allir karlmenn hugsa en þora ekki að segja. Kíkið á síðuna hans hérna.
Í gærmorgun hélt ég að það væri sunnudagsmorgun, um miðjan dag spurði ég hvort austurglugginn væri ekki kominn í hús en hann kemur út á fimmtudögum og í lok vinnudags bauð ég öllum góða helgi. Til að taka af allan vafa þá var miðvikudagur í gær, sagði mér einhver.

Einnig kynnti ég mig sem Benedikt XIV og mætti í skærbleiku ballettpilsi í vinnuna.

þriðjudagur, 14. júní 2005

Hér eru nokkur svör við spurningum sem brenna á vörum ungra barna í dag varðandi fullorðinsárin:

* Foreldrar ykkar eru ekki alvitrir.
* Fullorðnir eru mjög oft heimskari en þið.
* Þið munuð skulda mjög mikinn pening á fullorðinsárum.
* Þið eigið eftir að kynnast undraheimum athyglisbrests.
* Suma daga mun ykkur ekki langa fram úr rúminu, ótrúlegt nokk.
* Svefn verður skemmtilegasta afþreyingin.
* Teiknimyndir laga ekkert á fullorðinsárum.
* Það verður bannað að gráta.
* Þið komist að því að þeim mun minna sem þið hugsið, því hamingjusamari verðið þið.
* Þið munuð hugsa of mikið.
* Allt sem þið reynið mun mistakast í fyrsta, og oft eina skiptið.
* Þið munuð sennilega kynnast veikindum og kvillum sem mun angra ykkur vel og lengi.
* Minnsta ákvörðun verður að vandamáli.
* Allar líkur eru á því að þið verðið þunglynd einhverntíman á lífsleiðinni.
* Þið munið aldrei hræra heila skál af súkkulaðikremi og borða.
* Það er ekki gaman að vera fullorðinn og að ráða sér sjálfur.

Ef áætlun mín gengur eftir mun ég halda fyrirlestra í grunnskólum á næstu önn um þetta efni. Ég hefði orðið þakklátur ef einhver fullorðinn hefði skrifað svona fyrir mig þegar ég var ungur og fullur af væntingum.

Ef ekki þá vona ég bara að einhver krakkinn hafi farið að gráta við lesturinn. Enn eitt skrefið tekið í átt að því að verða illur.
Gaman að segja frá því að síðan ég kom austur til Egilsstaða hef ég ekki farið nema einu sinni aleinn í sturtu.

Þegar ég hugsa betur út í það þá er kannski ekki svo gaman að segja frá því þar sem hvern einasta dag hef ég sturtað mig í íþróttahúsi Egilsstaða með gestum og gangandi.
Fyrirgefið langar færslur undanfarið. Ekki lengur þó.

Fyndið.

Gott.

Grátlegt.

mánudagur, 13. júní 2005




Í gær, eftir vinnu, kíkti ég í heimsókn til pabba á Borgarfjörð Eystri með Björgvini bróðir. Eins og alltaf, þegar þangað er komið, er slegið til veislu og allir skemmta sér vel. Ég tók nokkrar myndir í ferðinni og birti á gsmblogginu. Ég á reyndar eftir að skrifa texta við hverja mynd þannig að þið skuluð kíkja núna á myndirnar og aftur á morgun þegar texti er kominn undir hverja mynd. Svo aftur seinna þann daginn til að sjá svörin við kommentunum sem þið hafið skrifað undir hverja mynd.

Einnig opnaði ég aðra síðu undir frasa sem mér þykir mikið til koma. Það er sértilboð í gangi á þeirri síðu: smellið hér til að komast á hana en þetta er í eina skipti sem tengill á hana birtist hér.
Bubbi er maður mikilla mótsagna. Dags daglega talar hann eins og illa máli farinn nýbúi, segjandi eitthvað heimskulegt og allar myndlíkingar hans t.d. í idoldómarasætinu eru gjörsamlega út í hött. Þegar hann hinsvegar syngur þá kemur hann öllu vel til skila og allt gengur upp eins og nýjustu plötur hans sanna. Ég er ekki frá því að ég hafi meira að segja heyrt hann segja "ég vil" í einu laginu, en það getur hann ekki án þess að hafa undirspil, greinilega.

Allavega, það sem ég ætlaði mér að segja varðandi nýju diska Bubba sem fjalla um skilnað hans við kellinguna var; úff, greyið kallinn. Hann á alla mína samúð.

sunnudagur, 12. júní 2005

Loksins datt mér í hug góð hugmynd að bloggfærslu. Hugmyndin snýst um að skrifa um að hafa dottið í hug góð hugmynd að bloggfærslu, því næst fjalla lauslega um þessa færslu og hvernig hún skuli útfærð, teygja lopann og að lokum skrifa um hvernig til hafi tekist. Aldrei áður hefur jafn innihaldslaus færsla verið skráð, ef undantalin eru öll blogg stelpna undir 16 ára aldri, jafnvel eldri.

Þessari færslu er þá lokið með góðum árangri. Niðurstaðan er meðallöng færsla sem fjallar alls ekki um neitt. Og þú ert enn að lesa.

laugardagur, 11. júní 2005




Þessum penna stakk ég á kaf í lófann á mér í dag þegar það misheppnaðist, vægast sagt, illa að stinga honum í lokið sem ég hélt á. Slíkt var aflið sem ég beitti við verknaðinn að fossblæddi úr og ég skrækti upp yfir mig af skelfingu. Sem betur fer var aðeins einn samstarfsmaður viðstaddur og því fær enginn að frétta þetta, nema mér auðvitað detti í hug að blogga um þetta en svo vitlaus er ég ekki sem betur fer.

Farið svo á gsmbloggið. Þar er að finna slatta af nýjum myndum, þar af enga nektarmynd ennþá.
Þá er tekið við heilmikið þyngdarævintýri. Svona verður átið næstu vikur og mánuði:

07:30 Morgunmatur: Kreatín.
12:00 Hádegismatur: Nákvæmlega það sem ég vil og nóg af því.
17:00 Kaffi: Nákvæmlega það sem ég vil og nóg af því.
19:00 Kreatín fyrir hreyfingu
20:30 Próteinið Matrix Gainer eftir hreyfingu.
22:00 Nákvæmlega það sem ég vil og helst próteinskammtur með.
00:00 Hrein svínafita í æð yfir nóttina.

Þetta er vægast sagt óspennandi færsla en ég verð að koma þessu frá mér, annars rifna ég úr prótein- og kreatínorku.

föstudagur, 10. júní 2005

Sökum kláða í auga ákvað ég í minni snargeðveiku og stjórnlausu hvatvísi að versla mér ofnæmislyfið Lóritín, áður en ég klóra mig til blóðs. Þar sem ég er mikill andófsmaður og andstæðingur lyfja þá ákvað ég að lesa mig til um aukaverkanirnar.

Hér er það sem ég fæ:
* Kláði í auga minnkar eða hverfur
* Ég virðist vera meira harðkjarna náungi, takandi dóp sem þetta.

Hér er það sem gerist líklega fyrir mig í staðinn:
* Ég fæ munnþurrk.
* Ég fæ hausverk.
* Mig mun líklega svima.
* Kannski fæ ég hraðan hjartslátt.
* Mér verður sennilega óglatt.
* Ég fæ ef til vill útbrot.
* Ég verð dapur eða daprari.
* Ég mun skulda VISA 645 krónum meira en ella.
* Tíðirnar mínar truflast, ef bara ég væri kvenmaður.

Sanngjörn skipti.
Athyglisbrestur er oft skemmtilegur en getur þó orðið leiðigjarn eins og eftirfarandi dæmi sannar.

Ég hringdi í lækni í dag vegna fótameiðsla minna sem virðast ekki ætla að hverfa, þrátt fyrir að þrjár vikur séu liðnar frá atburðinum. Eftir nokkrar spurningar frá læknamanninum talaði hann í nokkrar mínútur. Ég datt gjörsamlega út á meðan og sagði svo bara "jú jú" þegar hann spurði hvort ég skildi ekki hvað hann ætti við, nokkrum mínútum síðar, þakkaði fyrir og kvaddi, ekki hafandi hugmynd um hvað hafði átt sér stað.

Það er svona að hafa sódavatn, með loftbólum sem fara í æsispennandi kapphlaup upp á yfirborðið, á borðinu sínu á meðan talað er í símann.
Loksins get ég sagst vera orðinn fullorðinn þar sem ég smellti á þennan hlekk, af öllum, á visir.is. Samkvæmt þjóðsögunum verða allir þeir sem lesa frétt með fyrirsögninni "vísitala neysluverðs hækkar" af áhuga, orðnir fullorðnir og um leið ótrúlega leiðinlegir.

fimmtudagur, 9. júní 2005

Heimsmet var slegið í kvöld. Eftir vinnu, á leið heim til mömmu, var ég stoppaður af lögreglunni og ég sektaður um kr. 10.000 fyrir að vera kominn á Lagarfljótsbrúnna á 71 km hraða. Til gamans má geta þess að á nesinu er 70 km hámarkshraði og ég gleymdi mér um nokkra metra. Á brúnni er hámarkshraðinn 50 km. Ekki nóg með það heldur var lögregluþjónninn enginn annar en Kristleifur, körfuboltaþjálfari Hattar, sem ég hef æft með í nokkur ár. Kannski er þetta refsing fyrir að hafa ekki enn mætt á körfuboltaæfingu vegna fótmeiðsla minna. Þetta er að sjálfsögðu heimsmet í grátlega bjánalegum sektum.

Þetta er ekki allt, því í dag var einnig birt bloggfærsla eftir mig í austurglugganum. Auðvitað var versta mögulega bloggfærslan valin; þessi fyrir neðan þar sem ég hálfpartinn drulla yfir austfirðinga.

Ég viðurkenni þó auðvitað að það er ekki við neinn að sakast nema sjálfan mig og mun ég að sjálfsögðu greiða skuldina brosandi og taka við hrákum austfirðinga skellihlæjandi.
Ég fer brátt að ljúka átjánda vinnudegi mínum í röð án pásu, þar af eru allir nema tveir með amk 3-4 tíma í yfirvinnu. Þá eru ekki nema 22 dagar þar til ég fæ helgarfrí en það er áætlað 3. júlí næstkomandi. Ég hef komist að því að þeim mun lengur sem ég vinn án þess að taka frídag, þeim mun minna hef ég áhugavert að segja.

Einnig er það tíðara en ella að ég vakni á sérkennilegum stöðum, það blæði úr augum mínum og stundum hefur það gengið svo langt að ég hætti að skrifa í miðjum setn

miðvikudagur, 8. júní 2005




Þarna stendur orðrétt: "Osturinn - Hér í dag á morgun".

Mjög fyndin breyting sem einhverjir hryðjuverkamenn hafa gert á póstbíl á Egilsstöðum, mögulega frá Al-quaeda.
Sumarfríið mitt hófst og endaði í morgun þegar ég ákvað að mæta í vinnuna klukkan 9 í stað klukkan 8 eins og ég geri venjulega. Ástæðan var tímaþröng í gærkvöldi, sem ég fer ekki nánar út í að svo stöddu.

Sumarfríinu ætlaði ég að verja í ferðalög, útiveru, lestur meðalgóðra bóka og að hlúa að sjálfum mér en svaf yfir mig þess í stað. Það kemur sumar eftir þetta sumar.

þriðjudagur, 7. júní 2005

Hér eru nokkrar skemmtilega framleiddar, algjörlega óáhugaverðar staðreyndir um mig:

* Ég geng með gleraugu sem eru þrefalt dýrari en bíllinn minn.
* Í dag keypti ég mér MP3 spilara sem kostaði jafnmikið og bílinn minn en er samt um 2.700 sinnum léttari og mun einfaldari smíði.
* Ef við værum það sem við étum þá borða ég mikið af vænisjúkum geðsjúklingum þessa dagana. Einnig smá sultu.
* Eftir 51 dag á ég afmæli. Þá kemst ég á dauðaaldurinn 27.
* Ég hef lést um 3 kg síðan ég kom austur fyrir tveimur vikum síðan.
* Á síðustu tveimur vikum hef ég unnið um 60 yfirvinnustundir, plús ca 10 tíma í að þrífa skattstofuna og tveir tímar í að slá skattstofugarðinn.
* Í síðustu 12 máltíðum hef ég borðað pulsu með öllu.
* Ég laug þessu síðasta. Ég borða ekki hráan lauk.
* Ég hef farið í sund hvern einasta dag síðan ég kom austur í sumar.
Mér finnst alltaf jafn fyndið þegar tilkynnt er að bensín muni hækka í verði næstu daga um t.d. eina krónu lítrinn. Það er auðvitað ekki fyndið að olíubirgðir heimsins fara þverrandi sem veldur þessari hækkun heldur viðbrögð fólksins. Þá á ég auðvitað ekki heldur við reiðina heldur þá staðreynd að allir vitleysingarnir flykkjast á bensínstöðvarnar til að fylla á bílinn áður en hækkunin skellur á.

Segjum sem svo að manneskja aki um á 60 lítra bíl og að 10 lítrar séu eftir þegar þessar hræðilegu fréttir berast henni. Þessi rökhugsandi manneskja drífur sig á næstu bensínstöð og fyllir á bílinn fyrir meira en 5.000 krónur til að spara hve mikið? 60 lítrar - 10 lítrar sem eftir voru á bílnum = 50 lítrar sinnum 1 króna í hækkun = 50 krónur. Stórkostlegur sparnaður!

Hér eru betri hugmyndir:

* Leggið bílnum og gangið eða hjólið.
* Akið minna.
* Carpool eins og það kallast á ensku.
* Kaupið sparneytna bíla og seljið jeppana.
* Gerist öryrkjar. Þannig þurfið þið aldrei að fara neitt.
* Bruggið ykkar eigið bensín.

mánudagur, 6. júní 2005

Talandi um skrifstofubrandara og jafnvel húmor; þessi myndasaga smellpassar við mig og félagslífslausa sumarið mitt, nema kötturinn er litli vinur minn sem býr í hausnum á mér.

Ef ég vissi ekki betur myndi ég halda því fram að allir brandarar um misheppnaða karaktera væru samdir um mig eða með mig í huga.
Ég var rétt í þessu að sjá villumeldinguna "PC LOAD LETTER" á prentaranum hérna á skattstofunni. Þetta fullkomnar þá hugmynd að ég sé í raun Peter Gibbons úr myndinni Office Space og að í framtíðinni muni ég fljúga aftur í tímann til ársins 1999, semja handrit að bíómyndinni Office Space og selja Mike Judge það.
Eiki frændi er kominn með nýja síðu. Kíkið á hana hér. Hún er einfaldari í sniðum en sú gamla en því mun betur rituð.

sunnudagur, 5. júní 2005

Í gærkvöldi spilaði ég merkilegt spil, Sequence að nafni, með Soffíu og Hlyni Gauta. Ég ætla ekki að gera ykkur það til geðs að birta mynd frá því hérna heldur getið þið bara drullast á gsmbloggið og séð Soffíu og Hlyn í sjúku stuði.

Allavega, við spiluðum fjórum sinnum þar sem ég vann tvisvar og Soffía tvisvar. Af tillitssemi við Hlyn nefni ég ekki hversu mörg spil hann vann.
Í gær lét ég verða af því að kaupa mér prótein fyrir um 17.000 krónur með hverju ég ætla að lyfta til að bæta á mig. Ef það þyngir mig hinsvegar ekki þá kaupi ég mér belti og kveð baráttunni við kílóaskortinn í bili.

laugardagur, 4. júní 2005

Í ljósi aukinna vinsælda minna hef ég ákveðið að minnka þær aftur með eftirfarandi færslu og fá þannig aukinn vinnufrið:

Það eru nokkur atriði sem aðskilja Egilsstaðabúa frá restinni af landinu og hér eru þau:

* Það stoppar enginn bíl sinn við gangbraut þegar einhver þarf að ganga yfir.
* Það býður enginn starfsmaður í verslunum fram aðstoð sína við viðskiptavini, nema í gömlu versluninni Skógum, sama hversu sauðslegur viðskiptavinurinn er á svipinn.
* Það notar enginn flautuna á bílnum nema hann sé að heilsa einhverjum gangandi eða í næsta bíl.
* Egilsstaðabúar bregðast mjög illa við svona bloggfærslum.

Síðasta atriðið er notað sem forvörn við of slæmum viðbrögðum Egilsstaðabúa sem þetta lesa. Ef þeir bregðast illa við þýðir það auðvitað að listinn er réttur.

föstudagur, 3. júní 2005

Aðsóknin í gsmbloggið mitt er í lágmarki. Hvernig bregðast viðskiptajöfrar, eins og ég, við svona aðstæðum? Jú, við athugum rót vandans. Byrjum á þessu:

Svarið einni spurningu fyrir mig hér.

Aukaspurning sem þið svarið í athugasemdirnar; Hvað mætti betur fara með gsmbloggið? Af hverju í helvítinu skoðið þið það ekki meira?



Með myndinni hér að ofan sannast það sem ég hef sagt í mörg ár; ég yrði besti heróínneytandi í heimi ef það væri ekki ólöglegt, mannskemmandi og ef ég hefði efni á því. Svo er ég ekki alltof hrifinn af því að stinga nálum í hendurnar á mér.

fimmtudagur, 2. júní 2005

Það er vægast sagt nóg að gera hjá mér þessa dagana. Hér kemur tæmandi áætlun yfir hinn dæmigerða dag hjá mér:

08:00 Mæti í vinnu á skattstofunni.
19:00 Vinnan búin.
19:10 Létt máltíð.
19:30 Sund/lyftingar.
21:00 Vinna við að þrífa skattstofuna.
22:00 Oftar en ekki göngutúr.
22:45 Heim að slappa af / klára ýmsa smáhluti.
01:00 Sofa.

Þetta á við um alla daga nema helgarnar. Þá vinn ég til ca 21:00 á kvöldin þar sem íþróttahúsinu er lokað klukkan 17:00.

Ef ég hefði ekki svona mikið að gera væri ég löngu búinn að missa vitið og jafnvel meira en það. Ég veit allavega að ég missi skeggið í kvöld, sem ég hef nú safnað í næstum viku. Ástæðan er hvorki snyrtimennska né tillitssemi við aðra heldur ótti við að vera rekinn ef ég læt ekki verða af þessari aðgerð fljótlega þar sem ég líkist meira fjöldamorðingja með hverjum deginum.
Í dag er hinn árlegi 'Skrifaðu-í-gestabókina-eða-ég-kýli-þig-í-andlitið' dagurinn þar sem allir skrifa í gestabækur allra, en þó sérstaklega mína, til að forðast andlitshögg. Skiptir þá engu hvort viðkomandi hafi áður ritað í viðkomandi gestabók, það er dagurinn í dag sem skiptir máli.

Nýlega upphófust umræður um að breyta þessum degi í 'Skrifaðu-í-gestabókina-eða-ég-rota-þig' til að auka áhrifin í ljósi leti fólks við að skrifa og dugnað í að láta kýla sig í andlitið en sökum skriffinnsku komst sú tillaga ekki í gegn í tæka tíð.

Gestabókin er hér.

miðvikudagur, 1. júní 2005

Í dag fékk ég mína síðustu einkunn úr HR en það var fyrir stefnumótunarverkefni. Fékk ég 8 í einkunn sem gerir mig svolítið hryggan þar sem ég hef þá bara fengið 8 í einkunn á þessari önn, utan einnar sjöu. Meðaleinkunnin er 7,8 sem er örlítið fyrir ofan heildarmeðaltalið.

Mér reiknast það til að ef ég ætla mér að komast úr þessu BS námi HR með ágætis einkunn (ágætis einkunn = meðaleinkunnin 9,1 eða hærra) verði ég að ná 11,8 eða hærra í meðaleinkunn á síðustu tveimur önnum mínum. Ef ég næ því hlýt ég að komast inn á forsetalistann.
Ég var rétt í þessu að uppgötva að allir starfsmenn skattstofunnar nota gleraugu fyrir utan einn. 90% starfsmanna skattstofunnar eru því með gleraugu, sem verður að teljast frábær árangur.

Ef allir á Íslandi væru eins og við skattstofufólkið væru rúmlega 264 þúsund manns með gleraugu hérlendis og allar gleraugnaverslanir að gera það gott.