föstudagur, 31. júlí 2009

Ég hef lokið flutningum að mestu frá Hafnarfirði yfir í Skipholtið. Lífið í nýju íbúðinni byrjar ekki vel.

Um klukkan 23:30 var ég loksins búinn að flytja allt dótið í nýju íbúðina. Þá tók eftirfarandi atburðarás við:

1. Ég ætlaði að setja upp sjónvarpið og liggja yfir einhverju afslappandi, þar sem ég fann ekki fyrir fótunum á mér vegna þreytu.
- Samverkamaður í flutningum hafði tekið myndlykilinn og DVD spilarann ásamt öllum fjarstýringum í misgripum. Ég gat því bara horft á snjókomu.

2. Ætlaði að lesa bók í rúminu mínu inni í herbergi.
- Þar vantaði peru.

3. Ætlaði að skipta um peru inni í herbergi.
- Ljósakrónan brotnaði ofan á rúmið. Hún var úr gleri. Ryksugan fjarverandi.

4. Ætlaði leggjast í sófann í stofunni og lesa.
- Þá fór rafmagnið af allri blokkinni.

5. Ætlaði að fara að sofa í sófanum í stofunni.
- Þá byrjaði partí í blokkinni.

6. Þá ætlaði ég að liggja og stara upp í loftið í myrkrinu.
- Það tókst!

0 athugasemdir:

Skrifa ummæli

ATH. Þegar athugasemd hefur verið rituð þarf stundum að staðfesta hana, eftir að smellt hefur verið á "Post Comment". Hafið það í huga.