föstudagur, 11. janúar 2008

Árið 2007 er að baki las ég einhversstaðar.

Þetta gerðist á árinu 2007 hjá mér:

Janúar
Gerðist óvart plebbi: stofnaði moggablogg.
Fór með bíl í viðgerð, hedpakkning fór.
Byrjaði að taka strætó.
Varð þunglyndur af peningaleysi.

Febrúar
Smakkaði mangó. Lífið breyttist.
Ævintýradagar í strætó. Sé marga skrítna karaktera.
Borga viðgerð á bílnum með því að selja sálina Landsbankanum.
Klára bjórflösku í fyrsta sinn síðan 2001.
Arthúr bollar til sölu.

Mars
Vann á skattstofu austurlands um helgar til að borga viðgerð á bíl.
Vann könnun fyrir Félag viðskipta- og hagfræðinga.
DV keypti Arthúr strípur.
Keypti mér nýja tölvu.
Björgvin og Jónas kepptu í úrslitum í fyndnasti maður Íslands.
Byrjaði að nota linsur daglega.
Hætti við að nota linsur daglega sökum klaufaskaps.

Apríl
Fluttur á milli borða í vinnunni.
Vann giskunarleik í vinnunni. Varð óvinsælasti starfsmaðurinn.
Bloggaði hættulega sjaldan.
Lokaði moggablogginu af ótta við plebba.

Maí
Ég valdi að vinna í Reykjavík frekar en flytjast austur.
Ég sá eftir því.

Júní
Sumarfrí á Egilsstöðum. Tonn af skemmtun.

Júlí
Varð einhleypur.
Keypti mér golfkylfu í fyrsta sinn.
Spilaði golf.
Gekk fjöll.
Átti afmæli. Ömurlegasti afmælisdagur allra tíma.
Fór í partý og drakk áfengi í fyrsta sinn í 2 ár.

Ágúst
Arthúr átti 2ja ára afmæli.
Styrmir bróðir kíkti í heimsókn með syni sína tvo; Kristján og Gabríel.
Flutti frá Grafarholti til pabba í Laugardalnum.
Fékk mér nýja körfuboltaskó, hágrátandi.

September
Flutti frá pabba til Hafnarfjarðar.
Byrjaði að æfa körfubolta með UMFÁ.
Bakkað á mig. Sem betur fer var ég staddur í bílnum mínum. Bíllinn skemmdist.
Bakkað á mig aftur. Bíllinn skemmdist ekki.
Skipaður Forstöðumaður Samskiptasviðs Meistaraflokks Körfuknattleiksdeildar Álftaness.
Keypti mér nýtt rúm, skrifborð og innbú. Fjárhagsleg lægð skók mig í kjölfarið.

Október
Málaði tvær myndir.
Bloggfærsla númer 3.000 rituð.
Keppnistímabil UMFÁ hefst með ferð til Vestmannaeyja. Ég æli í 3 klukkustundir án þess að stoppa í Herjólfi.
Kláraði að lesa bókina The Cell eftir Stephen King á aðeins 6 mánuðum.

Nóvember
Bíllinn bilaði. Hedpakkning fór aftur.
Lyftingaátak hafið.

Desember
Jólaglögg UMFÁ haldið. Víðir og pungur saman á mynd.
Jólafrí á Egilsstöðum. Mikill körfubolti spilaður.
2ja ára afmæli Arthúrs var haldið hátíðlegt í formi kökuáts.
Sturlað veður var á austurlandi.

Á heildina litið var árið 2007 nokkuð gott; ár breytinga þar sem ég flutti endanlega til Reykjavíkur. Ef ég væri spurður hvað væri eftirminnilegast á árinu myndi ég líklega segja mangóávöxturinn sem ég borðaði.

Valva Við rætur hugans:

Árið 2008 verður þó mun skemmtilegra. Á því mun eftirfarandi gerast:

Ég mun...
* verða áfengisdrukkinn.
* fara í bíó.
* verða áfengisdrukkinn og fara í bíó.
* þyngjast (líkamlega).
* léttast (andlega).
* fitna (huglægt).
* hugsa minna.
* gera fleiri mistök.

0 athugasemdir:

Skrifa ummæli

ATH. Þegar athugasemd hefur verið rituð þarf stundum að staðfesta hana, eftir að smellt hefur verið á "Post Comment". Hafið það í huga.