þriðjudagur, 13. febrúar 2007

Í síðustu 3 skipti sem ég hef borðað heimatilbúnu samlokuna mína við skrifborðið í hádegishlénu mínu, hef ég klárað hana í 7 bitum.

Þetta er furðulegt þar sem síðustu tvær vikurnar hef ég klárað samlokuna í 9 bitum að meðaltali. Bitum hefur því fækkað um rúmlega 20%.

Í kjölfarið fór ég að velta vöngum yfir ástæðunni. Nokkrir möguleikar eru fyrir hendi:

1. Munnurinn á mér er að stækka.
2. Samlokan er úr mýkra efni sem beyglast betur upp í mig sem veldur stærri bitum.
3. Samlokan er að minnka.
4. Ákafi minn er að aukast.
5. Ég hef talið vitlaust vegna heilabilunnar.

Hér hrek ég þessa möguleika:

1. Líffræðilega ómögulegt án skurðaðgerðar og ég hef ekki farið í skurðaðgerð.
2. Samlokan er þvert á móti harðari en áður þar sem ég nota sífellt eldra brauð.
3. Samlokan er ekki að minnka þar sem ég kaupi alltaf sömu tegund af brauði. Myllan sagði í símtali ekki vera að minnka samlokubrauðin.
4. Möguleiki. En hvað gæti valdið því?
5. Ég þekki engan í Reykjavík (skrítið) og því get ég ekki fengið óháð álit. Álit mitt er hinsvegar að ég er mjög heilbrigður eins og þessi færsla sýnir.

Ákefð er því ástæðan. En hver er orsök ákvefðarinnar?

Ég velti þessu fyrir mér í marga klukkutíma í síðastliðna nótt. Þegar ég svo mætti í vinnuna í dag rann upp fyrir mér ljós. Síðustu 3 skipti hef ég verið með Risahraun (besta vin minn) í eftirmat, en það hefur verið sannað margoft vísindalega að ég er vitlaus í Risahraun. Ástæða ákefðar er því fundinn.

Hér eru því niðurstöðurnar í stuttu máli; ég hef náð að sýna fram á að Risahraun hefur jákvæð áhrif á stærð munnbita á heimatilbúnar samlokur í hádegishléum hjá mér.

Verki mínu hér er lokið.

0 athugasemdir:

Skrifa ummæli

ATH. Þegar athugasemd hefur verið rituð þarf stundum að staðfesta hana, eftir að smellt hefur verið á "Post Comment". Hafið það í huga.