Hrós dagsins fer til Háskólans í Reykjavík en þar stunda ég nám. Skólagjöldin eru reyndar há en það er auðvelt að réttlæta það:
Til að byrja með er lærdómsaðstaðan til fyrirmyndar. Að hafa mötuneytið á sama stað og aðal lærdómsaðstaðan er meistaraleg uppsetning. Ennfremur eru stólarnir fallegir en óþægilegir, enda er það útlitið sem skiptir öllu máli.
Nettenging er amk annan hvern dag í skólanum, enda ekki hægt að ætlast til þess að það sé hvern dag þar sem kerfið ræður ekki við endalausa notendur.
Sem færir okkur næsta atriði; nemendur eru gríðarmargir og þeim alltaf að fjölga. Aðstaðan reyndar minnkar en það er sanngjarnt gjald fyrir að fá að kynnast miklu magni af nýju fólki. Ef fer fram sem horfir verður HR orðinn stærsti skóli alheimsins innan 10-15 ára.
Sem aftur færir okkur í næsta atriði; bílastæði HR er lítið og nett sem fær mann til að spara sér milljónir króna í bensín þar sem maður neyðist til að ganga í skólann í stað þess að leita endalaust að lausu stæði.
Vinnuálagið er talsvert hátt. Sem dæmi má taka að ég á að halda tvo fyrirlestra á fimmtudaginn, fyrir hvorn ég þarf að vinna ótakmarkaða heimildavinnu (netlaus annan hvern dag), auk þess sem ráðstefna er haldin á föstudaginn en fyrir hana þarf að vinna dag og nótt. Þetta allt ýtir undir taugaveiklun, kvíða- og stressköst og fleiri grá hár; eitthvað sem ég myndi hvort eð er þjást af síðar meir. Um að gera að ljúka því af strax.
Ég vil því þakka HR fyrir góða daga. Besti skóli landsins.
Nöldur dagsins fæ hinsvar ég sjálfur fyrir að blóta stanslaust í fjóra tíma í dag en það er önnur saga.
0 athugasemdir:
Skrifa ummæli
ATH. Þegar athugasemd hefur verið rituð þarf stundum að staðfesta hana, eftir að smellt hefur verið á "Post Comment". Hafið það í huga.