fimmtudagur, 11. september 2003

Nýlega var mér boðið að brjóta blað í sögu Háskóla Reykjavíkur með því stofna og sjá um fyrsta skákklúbb skólans eftir að ég sendi fyrirspurn til stjórn Visku varðandi skákklúbba bæjarins. Í fyrstu hló ég nett og sagði við sjálfan mig "því ekki það" en fór svo að spá meira í þetta. Þessu fylgja auðvitað miklar kvaðir eins og skákæfingar sem eru mjög tímafrekar, fyrirsætustörf (fyrir markaðssetningu klúbbsins) og endalaus fjárútlát (fyrir sjónvarpsauglýsingarnar). Einnig myndi fylgja þessu talsverð ábyrgð og þarmeð væri ímynd mín mjög brothætt; eitt feilspor á skákborðinu eða dags daglega myndi verða dýrkeypt og karakter minn myndi laskast. Þessu myndi einnig fylgja talsverðar vinsældir á meðal kvenfólks og má ég ekki við því. Ég myndi ekki geta farið út að skemmta mér án þess að kvenfólk væri að reyna við mig eða skora á mig í skák. Fátt er meira vandræðalegt.

Það þýðir ekki bara að líta á svörtu hliðar málsins. Skákklúbbur HR myndi til dæmis fara á ferilskrá mína þegar ég sæki um stöðu aðalritara heilsugæslunnar á Egilsstöðum eða sameinuðu þjóðanna. Hann gæti orðið lyftistöng fyrir þetta veftímarit þar sem "Veftímaritið 'Við rætur hugans'" væri styrktaraðili skákæfinga. Gerð yrði líklega bíómynd síðar meir um skákklúbbinn þar sem ég myndi fá höfundarréttarlaun og svo framvegis.

Það þýðir ekki að rasa um ráð fram þegar mál af þessari stærðargráðu ratar á borð mitt heldur hugsa sig vel um og taka rétta ákvörðun. Möguleikarnir eru endalausir, framtíðin björt og ljóst að allt er að breytast.

Eða hvað finnst ykkur?

0 athugasemdir:

Skrifa ummæli

ATH. Þegar athugasemd hefur verið rituð þarf stundum að staðfesta hana, eftir að smellt hefur verið á "Post Comment". Hafið það í huga.